Hoppa yfir valmynd

Nr. 528/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 29. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 528/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18110002

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 31. október 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. október 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 10. júní 2017 og synjaði Útlendingastofnun honum um efnismeðferð umsóknar sinnar með ákvörðun dags. 25. september 2017 með vísan til dvalarleyfis kæranda á Ítalíu. Kærunefnd útlendingamála staðfesti framangreinda ákvörðun með úrskurði sínum dags. 9. janúar 2018. Þann 12. júní 2018 barst kærunefnd endurupptökubeiðni kæranda og féllst kærunefndin á endurupptöku á máli hans með úrskurði sínum dags. 21. júní 2018 og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 11. september 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 9. október 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 31. október 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 16. nóvember 2018 ásamt fylgigögnum. Þá sendi kærunefnd beiðnir til kæranda um frekar gögn og skýringar á þeim þann 21. og 27. nóvember 2018 sem bárust þann 23. og 27. s.m.

III.        Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu þar sem honum stafi ógn af tilteknum einstaklingi. Þá geti kærandi ekki leitað ásjár lögreglu eða yfirvalda í heimaríki.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er meðferð máls hans hjá íslenskum stjórnvöldum rakin. Kærandi kveðst vera fæddur og uppalinn í þorpinu Esan sem sé í Edo fylki í Nígeríu en hafi fyrir flótta sinn búið í borginni Benín í sama fylki. Kærandi heldur því fram í greinargerð að ástæða flótta hans sé samband hans við efnaðan mann í heimaríki sem kærandi hafi veitt kynlífsþjónustu gegn greiðslu. Þegar kærandi hafi reynt að slíta sambandinu hafi maðurinn reiðst og hótað kæranda og börnum hans fjórum. Þegar málið hafi komist upp hafi eiginkona kæranda yfirgefið fjölskylduna. Kærandi hafi þá komið börnum sínum í skjól hjá ættingjum sínum og flúið land. Kærandi og maðurinn sem hann hafi veitt kynlífsþjónustu hafi reynt að halda sambandi sínu leyndu en eitt sinn þegar kærandi hafi farið til messu hafi prestur tekið hann á tal og tjáð honum að gjörðir hans séu í andstöðu við vilja Guðs. Kærandi hafi látið eins og hann hafi ekki vitað hvað presturinn ætti við en presturinn hafi tjáð honum að hann vissi af sambandinu. Í kjölfarið hafi kærandi viðurkennt sambandið fyrir eiginkonu sinni og farið til mannsins sem hann kveður heita […] og tjáð honum að hann gæti ekki haldið sambandinu áfram né þegið gjafir frá honum. Þá hafi menn á vegum […] barið kæranda og brotið í honum tönn auk þess að hóta honum lífláti. Einn þessara manna beri sama nafn og kærandi og hafi sagst vilja aðstoða hann af þeim sökum. Nafni kæranda hafi varað hann við og sagt honum að hollast væri að kærandi myndi flýja. Kærandi hafi átt bróður í norðurhluta landsins, n.t.t. Plato fylki, og hafi hann flúið til hans. Í byrjun árs 2010 hafi bróðir kæranda verið myrtur í átökum á milli kristinna og múslima og hafi kærandi þá þurft að flýja. Þá greindi kærandi frá því að einstaklingar í hans nærumhverfi hafi talið kæranda vera samkynhneigðan vegna sambands hans við […] og að þær upplýsingar hafi dreifst víða. Kærandi kveðst ekki vera samkynhneigður heldur hafi hann eingöngu verið í framangreindu sambandi af fjárhagslegum ástæðum. Kærandi kvaðst ekki geta leitað til lögreglu þar sem hann eigi hættu á fangelsisvist viðurkenni hann að hafa átt í samkynhneigðu sambandi þar sem slíkt sé refsivert í Nígeríu. Þá geti efnað fólk greitt lögreglu fyrir að myrða einstaklinga fyrir sig og óttist kærandi að […] muni láta taka sig af lífi verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis. Kærandi hafi farið aftur til heimaþorps síns í nokkra daga árið 2016 til að hitta börnin sín en kveðst ekki hafa verið öruggur á meðan. Þar af leiðandi geti kærandi ekki flutt aftur til heimaríkis.

Kærandi fjallar í greinargerð sinni almennt um aðstæður í Nígeríu, m.a. um spillingu innan stjórnkerfisins og bága stöðu samkynhneigðra. Kærandi vísar til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt staða flóttamanns skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til þess að í 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga komi fram að ekki skipti máli við mat á 1. mgr. 37. gr. hvort umsækjandi hafi þau einkenni eða skoðanir sem vísað er til ef sá sem sé valdur af ofsóknunum telji svo vera. Kærandi sé ekki samkynhneigður en einstaklingar í heimaríki hans telji svo vera þar sem hann hafi átt í sambandi af fjárhagslegum toga við annan karlmann. Kærandi vísar m.a. til athugasemda með frumvarpi að útlendingalögum og handbók um réttarstöðu flóttamanna máli sínu til stuðnings. Þá geti kærandi jafnframt ekki leitað ásjár yfirvalda í heimaríki þar sem hann hafi gerst brotlegur við nígerísk lög, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Að mati kæranda beri að veita honum alþjóðlega vernd á grundvelli heildstæðs mats á málinu. Þá ber kærandi því fyrir sig að endursending hans til heimaríkis yrði brot gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement sem lögfest sé í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Þá myndi slík ákvörðun jafnframt brjóta gegn 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 3. gr. pyndingarsamningsins og 33. gr. flóttamannasamningsins.

Kærandi krefst þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á land með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi fjallar í greinargerð um inntak ákvæðisins með vísan til lögskýringargagna máli sínu til stuðnings. Þá vísar kærandi sérstaklega til ákvæða tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2004/83/EB um viðbótarvernd og þau viðmið sem hafa skuli til hliðsjónar við mat á þörf einstaklings á alþjóðlegri vernd. Kæranda stafi ógn af efnuðum og valdamiklum einstaklingi sem hann hafi átt í kynferðislegu sambandi við og hafi látið beita kæranda ofbeldi í kjölfar þess að kærandi hafi viljað slíta sambandinu. Þá séu samkynhneigðir einstaklingar minnihlutahópur í heimaríki kæranda sem öfgafullir vígamenn geri markvisst að skotmörkum sínum. Í ljósi framangreinds sé ljóst að kærandi uppfylli öll skilyrði þess að hljóta viðbótarvernd þar sem hann sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis ef útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að útlendingalögum máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi hafi kærandi sætt ofbeldi af hálfu manna sem starfi fyrir manninn sem hann óttist og eigi hann á hættu frekara ofbeldi leiti hann til lögreglu og greini henni frá ástæðum árásanna. Í öðru lagi séu félagslegar aðstæður kæranda mjög erfiðar þar sem hann hafi átt í kynferðislegu sambandi við annan karlmann en slíkum samböndum fylgi útskúfun frá nígerísku samfélagi. Í þriðja lagi sé ljóst að lögregla muni ekki veita kæranda vernd gegn því ofbeldi sem hann eigi á hættu að verða fyrir. Nauðsynlegt sé því að heildarmat fari fram á aðstæðum kæranda.

V.         Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað ítölsku kennivottorði og nígerísku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé nígerískur ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Nígeríu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

·         Nigeria 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);

·         EASO COI Meeting Report. Nigeria. Practical Cooperation Meeting. 12-13 June 2017. Rome (European Asylum Support Office, 1. ágúst 2017);

·         EASO Country of Origin Information. Nigeria. Country Focus (European Asylum Support Office, 1. júní 2017);

  • Vefsíða Interpol (www.interpol.int/Member-countries/Africa/Nigeria, sótt þann 21. nóvember 2018);
  • Nigeria: Documents issued by police during criminal investigations or in response to a complaint, including police reports; procedures for an individual to obtain a copy of a police report within the country as well as from abroad; appearance of police reports, including whether there are uniform characteristics or variance across the country (2015-November 2017) (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 6. nóvember 2017);

·         Freedom in the World 2018 – Nigeria (Freedom House, 28. maí 2018);

·         Nigeria 2017/2018 (Amnesty International, 22. febrúar 2018);

·         World Report 2018 – Nigeria (Human Rights Watch, 18. janúar 2018);

·         Country Information and Guidance Nigeria: Background information, including actors of protection and internal relocation (U.K. Home Office, 17. ágúst 2016).

Nígería er sambandslýðveldi með rúmlega 182 milljónir íbúa. Nígería var nýlenda Bretlands fram að sjálfstæði þess árið 1960 og sama ár gerðist Nígería aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1993. Þá fullgilti ríkið mannréttindasáttmála Afríku árið 1983 og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1991. Ríkið fullgilti sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2004, samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2001 og valfrjálsa viðbótarbókun við þann samning árið 2009.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Alþjóðalögreglunnar er löggæsla ríkisins aðallega í höndum ríkislögreglu Nígeríu sem samanstandi af rúmlega 350.000 lögregluþjónum. Ríkislögreglan annist löggæslustörf í öllum 36 fylkjum Nígeríu og höfuðborginni Abuja. Hlutverk ríkislögreglunnar sé að vernda einstaklinga og eignir, koma í veg fyrir afbrot, upplýsa og rannsaka glæpi auk þess að sækja afbrotamenn til saka. Samkvæmt skýrslu evrópsku flóttamannastofnunarinnar frá 2017 séu nokkrar sérhæfðar deildir innan ríkislögreglunnar sem annist sértæk brot. Ríkislögreglan hafi verið gagnrýnd fyrir spillingu og mannréttindabrot af ýmsum rannsakendum og samtökum. Dæmi séu um að lögregluþjónar hafi gerst uppvísir af því að kúga fé af almennum borgurum og sleppa sakborningum gegn mútugreiðslum. Þá hafi mannréttindasamtök greint frá því að u.þ.b. 100.000 lögregluþjónar hafi veitt efnamiklum einstaklingum persónulega þjónustu. Samkvæmt tilkynningu lögreglustjóra ríkisins hafi verið tekið fyrir að lögregluþjónar starfi sem öryggisverðir einstaklinga þar sem hlutverk lögreglumanna sé ekki að tryggja öryggi tiltekinna einstaklinga. Í ríkinu séu til staðar formlegar kvörtunarleiðir vegna misferlis lögreglu í starfi eða spillingar en þó tíðkist í miklum mæli að leysa slík mál á óformlegan hátt. Þá skorti skilvirkar leiðir til að eiga við, rannsaka og refsa vegna ofbeldis eða spillingar öryggissveita. Mútuþægni sé víðfeðmur vandi í ríkinu og samkvæmt skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2017 hafi stofnanir sem annist kvörtunarmál í ríkinu greint frá uppsögnum lægra settra lögreglumanna vegna kvartana almennings um fjárkúganir af hálfu starfsmannanna. Þá kemur fram í skýrslu breska innanríkiráðuneytisins frá 2017 að þrátt fyrir veikleika í stjórnkerfinu standi þeim sem óttist einstaklinga sem starfi ekki fyrir ríkið almennt til boða skilvirk vernd.

Samkvæmt nígerískum lögum eru kynferðisathafnir milli samkynja einstaklinga refsiverðar. Slík brot varði fangelsisrefsingu samkvæmt nígerískum hegningarlögum og dauðarefsingu samkvæmt sjaría lögum sem hafi gildi í sumum ríkjum landsins. Í skýrslu Freedom House útgefinni árið 2018 kemur fram að stjórnvöld og samfélagið mismuni hinsegin einstaklingum. Árið 2014 hafi verið sett lög sem banni samkynja hjónabönd en tilkoma þeirra hafi aukið heimildir stjórnvalda til að bregðast við athöfnum hinsegin einstaklinga, til að mynda hafi starfsemi hinsegin samtaka og hinsegin athafnir einnig verið bannaðar auk þess sem refsivert sé fyrir samkynja pör að vera opinská með eðli sambands síns á almannafæri. Fjöldi einstaklinga hafi verið handteknir á grundvelli laganna árið 2017 þ. á m. gestir í samkynja brúðkaupi og þátttakendur í ráðstefnu um alnæmi. Þá kemur fram í skýrslu evrópsku flóttamannastofnunar um samráðsfund um málefni Nígeríu að framkvæmdastjóri jafnréttissamtaka í Nígeríu hafi greint frá því að enginn hafi enn verið ákærður á grundvelli laganna frá 2014 en hins vegar hafi lögin verið notuð til grundvallar handtökum og hafi hinsegin einstaklingar verið ákærðir fyrir brot á hegningarlögum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir ástæður flótta síns á því að hann eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum af hálfu manns sem heiti […]. Kærandi hafi veitt manninum kynlífsþjónustu í heimaríki gegn greiðslu en hafi viljað hætta því eftir að upp hafi komist um fyrirkomulagið. Maðurinn telji kæranda hafa smánað sig og hafi hann falið mönnum að veitast að kæranda. Ráðist hafi verið á kæranda með þeim afleiðingum að tönn hafi brotnað í honum. Kærandi kveðst ekki geta leitað til lögreglu í heimaríki þar sem maðurinn sé efnaður og valdamikill jafnframt sem samkynja kynferðisathafnir séu refsiverðar. Þá ber kærandi því fyrir sig að hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu samfélagsins vegna ætlaðrar kynhneigðar hans.

Kærandi lagði fram afrit af bréfi sem hann kveður vera frá systur sinni í heimaríki við meðferð málsins þar sem fram kemur að framangreindur maður leiti enn kæranda. Að öðru leyti hefur kærandi ekki lagt fram gögn í því skyni að styðja við frásögn hans af ástæðum flótta. Kærunefnd fór þess á leit við kæranda að hann legði fram frumrit bréfsins og gögn um uppruna þess. Kærandi lagði fram frumrit bréfsins og umslög þann 23. nóvember 2018. Í bréfinu og á umslagi pósthússins er heimilisfang systur kæranda skráð í borginni Benín en kærandi kvað í viðtali hjá Útlendingastofnun að systir hans væri búsett í þorpinu Ewohimi í heimaríki en kæranda og fjölskyldu hans væri ekki unnt að búa í borginni sökum hættu á ofsóknum frá manninum sem kærandi hafi veitt kynlífsþjónustu. Kærunefnd gaf kæranda færi á að skýra misræmið með tölvupósti dags. 27. nóvember 2018 og barst svar degi síðar. Kærandi greindi frá því að um væri að ræða heimilisfang pósthússins en samkvæmt rannsókn kærunefndar er engin póstþjónusta skráð á uppgefið heimilisfang í Benín. Þá má ráða af vefsíðu póstþjónustu Nígeríu að stofnunin reki pósthús í Ewohimi, nánar tiltekið á […] í þorpinu. Þrátt fyrir að skýringar kunni að vera á þessu misræmi er það mat kærunefndar að framlagt bréf leggi ekki frekari grunn að þeim staðhæfingum kæranda að hann eigi hættu á ofsóknum af hálfu tilgreinds manns í heimaríki. Kærunefnd telur ekki útilokað að kærandi hafi veitt manni kynlífsþjónustu gegn greiðslu og orðið fyrir áreiti þegar hann hafi slitið fyrirkomulaginu. Í viðtali kæranda við Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að aðeins örfáir hafi vitað af samskiptum hans og mannsins en hann geti ekki útilokað að eiginkona hans, sem hafi yfirgefið hann fyrir flótta hans, hafi greint fleirum frá því. Þá greindi kærandi frá því að hann hafi farið árið 2016 í nokkra daga til heimaríkis en hafi ekki stafað hætta af manninum þar sem maðurinn viti ekki hvert heimaþorp kæranda sé. Hins vegar geti kærandi ekki farið til borgarinnar í nágrenni þorpsins þar sem maðurinn geti komist á snoðir um veru hans þar og óttist kærandi að hann muni beita hann ofbeldi. Kærandi greindi frá því að hafa flúið land í ársbyrjun 2010 og liggur því fyrir að þeir atburðir sem hann hefur borið fyrir sig hafi átt sér stað fyrir að minnsta kosti átta árum síðan. Í ljósi frásagnar kæranda um að óvíst sé hversu margir hafi vitað af fyrirkomulagi kæranda og mannsins, þess að maðurinn viti ekki hvar kærandi búi í heimaríki og þess hversu langt sé liðið frá atburðunum er það mat kærunefndar að kærandi hafi ekki gert líklegt að hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu mannsins né samfélagsins á grundvelli þess að hann hafi veitt manni kynlífsþjónustu.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu nígerískra yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Jafnframt hefur ekki verið sýnt fram á að stjórnvöld í Nígeríu geti ekki eða vilji ekki veita honum vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar kemur fram að borgurum landsins standi almennt skilvirk vernd yfirvalda til boða þurfi þeir á slíkri aðstoð að halda. Eins og að framan greinir hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem leiða líkur að því að hann hafi ekki getað notið verndar lögreglu vegna áreitisins eða sýnt fram á það að öðru leyti. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef hann telur sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 4. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kærenda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærendur séu í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærendur verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kærenda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi ber fyrir sig erfiðum almennum og félagslegum aðstæðum í heimaríki þar sem hann hafi átt í kynferðislegu sambandi við annan karlmann. Í fyrsta lagi óttist kærandi ofbeldi af hálfu viðkomandi og Í öðru lagi telji kærandi sig í hættu á að verða fyrir félagslegri útskúfun. Þá telji kærandi sig ekki geta fengið vernd lögreglu. Í viðtali kæranda við Útlendingastofnun kemur fram að kærandi sé ekki samkynhneigður og hafi aðeins átt í þessu eina kynferðislega sambandi við annan karlmann en það hafi verið af fjárhagslegum toga og lokið fyrir hartnær áratug síðan. Það er því mat kærunefndar að kærandi eigi ekki í hættu á að verða fyrir félagslegri útskúfun kynhneigðar sinnar vegna í heimaríki sem hafi þau áhrif á kæranda að hann teljist hafa ríka þörf á vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. Ennfremur, með vísan til umfjöllunar um löggæslu í heimaríki og þörf kæranda á slíkri vernd, telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að unnt sé að veita honum dvalarleyfi á þeim grundvelli.

Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hann sé við góða líkamlega og andlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Í 5. mgr. 104. gr. útlendingalaga, þar sem fjallað er um framkvæmd ákvörðunar, kemur fram að ef útlendingur hefur gilda heimild til dvalar í öðru EES-eða EFTA-ríki skal hann fluttur þangað. Þar sem fyrir liggur að kærandi hefur haft heimild til dvalar á Ítalíu telur kærunefnd rétt að taka sérstaka afstöðu til þess hvort ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi í vegi fyrir því að kærandi verði fluttur til Ítalíu.

Við mat á aðstæðum á Ítalíu hefur kærunefnd tekið mið af þeim upplýsingum sem liggja fyrir um Ítalíu og skoðaðar hafa verið vegna fyrri úrskurða kærunefndar í tengslum við endursendinga einstaklinga til Ítalíu, m.a. úrskurð kærunefndar í máli kæranda nr. 10/2018, þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að hvorki aðstæður né móttökuskilyrði þar séu þess eðlis að endursending kæranda til Ítalíu sé ekki heimil vegna 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til rökstuðnings úrskurðar kærunefndar nr. 10/2018 er það niðurstaða nefndarinnar að 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda til Ítalíu.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands þann 10. júní 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta