Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 37/2013

Föstudagurinn 12. apríl 2013

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B hdl.

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Einar Páll Tamimi formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 7. mars 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 14. febrúar 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn nauðasamningi með vísan til 1. mgr. 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Þann 26. mars 2012 var B hdl. skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda. Umsjónarmaður sendi kröfuhöfum frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings 18. desember 2012.

Þann 4. janúar 2013 barst höfnun við frumvarpinu frá Landsbankanum. Í mótmælunum kom fram að þrátt fyrir að kærandi hefði verið með neikvæða greiðslugetu samkvæmt frumvarpi til greiðsluaðlögunar hefði hann keypt gjaldeyri þann 5. ágúst 2012 fyrir 279.637 krónur.

Þann 29. janúar 2013 barst höfnun við frumvarpinu frá Arion banka en bankinn hafði þann 8. janúar 2013 gert athugasemd við frumvarpið á þeim grundvelli að meðalvelta á bankareikningi kæranda árið 2012 hefði verið um 375.000 krónur á mánuði. Bankinn hafi farið fram á að kærandi greiddi 2.300.000 krónur inn á veðkröfur, en þeirri fjárhæð taldi hann skuldara hafa átt að safna á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana miðað við meðalveltu á tímabilinu.

Í ljósi athugasemda kröfuhafa bauð fulltrúi umsjónarmanns kæranda að endurskoða frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Þann 11. janúar sendi skuldari afstöðu sína til framkominna athugasemda. Eftir skoðun fulltrúa á athugasemdum kröfuhafa og afstöðu kæranda ráðfærði umsjónarmaður sig símleiðis við kæranda þann 28. janúar 2013. Í kjölfarið tjáði kærandi umsjónarmanni að hann vildi leita nauðasamninga við kröfuhafa. Fulltrúi umsjónarmanns sendi kæranda tölvupóst þar hann fór fram á staðfestingu á vilja hans að leita nauðasamnings. Í svari kæranda, dags. 31. janúar 2013, kom fram að hann samþykkti „ekki neitt sem [umsjónarmaður hefði] fram að færa í þessu máli að svo stöddu“ en fór fram á fund með umsjónarmanni um málið. Á fundi umsjónarmanns og kæranda, þann 11. febrúar 2013, ritaði kærandi undir yfirlýsingu um vilja sinn til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns, dags. 14. febrúar 2013, kemur fram að umsjónarmaður mæli gegn því að nauðasamningur skuldara og kröfuhafa komist á í ljósi athugasemda sem gerðar voru við frumvarpið þann 4. og 8. janúar 2013, sbr. 1. mgr. 18. gr. lge. Mat umsjónarmanns byggi annars vegar á því að færsluyfirlit, sem kröfuhafi sendi umsjónarmanni þann 8. janúar 2013, bendi bæði til þess að kærandi hafi ekki staðið við skyldur sínar skv. a-lið 12. gr. lge. og hins vegar að upplýsingar sem hann hafi gefið fulltrúa umsjónarmanns á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana um innkomu hafi ekki verið réttar. Samkvæmt færsluyfirliti reiknings kæranda var meðalvelta á reikningi hans á mánuði árið 2012 og í janúar 2013 alls 376.925 krónur. Kærandi hafi hins vegar gefið upp við umsjónarmann að tekjur sínar á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana væru 190.000 krónur. Í tölvubréfi kæranda til umsjónarmanns, dags. 11. janúar 2013, neitaði hann að hafa haft þá innkomu sem fram kemur í reikningsyfirliti.

Með vísan til framangreinds telur umsjónarmaður að ekki hafi að öllu leyti verið staðið heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, sbr. 1. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kæranda

Í kæru er þess krafist að ákvörðun umsjónarmanns verði felld úr gildi. Ákvörðun umsjónarmanns hafi byggst á því að kærandi hefði neitað því að hafa haft þá innkomu sem fram komi á fyrirliggjandi reikningsyfirliti bankareiknings.

Kærandi bendir á að þessi fullyrðing umsjónarmanns sé röng og í tölvupósti, dags. 11. janúar 2013, til umsjónarmanns, liggi fyrir sundurliðað hvaða viðbótargreiðslur við áður áætlaðar 190.000 króna tekjur hafi borist kæranda.

Þá sé kæranda með öllu óskiljanlegt hvernig umsjónarmaður hafi getað skilið framangreindan tölvupóst, dags. 11. janúar 2013, á þann veg að kærandi hefði neitað að hafa þá innkomu sem hann hafi beðið um skýringar á þegar stærstur hluti tölvupóstsins hafi verið ítarleg sundurliðun á greiðslum til kæranda.

Að öllu þessu virtu telur kærandi að fella beri ákvörðun umsjónarmanns úr gildi.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggir 18. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í 1. mgr. 18. gr. er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla lge. ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðarsamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum skv. 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til hennar til sín taka. Í athugasemdum við ákvæðið segir meðal annars að umsjónarmaður skuli horfa til þess hver rökstuðningur lánardrottna var fyrir því að leggjast gegn frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun en ljóst sé að hann getur ekki einvörðungu staðið í vegi fyrir því að umsjónarmaður mæli gegn nauðarsamningi eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna og þurfa ríkar ástæður að vera fyrir afstöðu lánardrottna.

Umsjónarmaður vísar í ákvörðun sinni til þess að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum skv. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að á meðan skuldari leitar greiðsluaðlögunar skuli hann leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til lge. kemur fram að víki skuldari augljóslega frá þessum skyldum sínum með vísvitandi hætti getur slíkt leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. Í athugasemdum við 1. mgr. 18. gr. lge. segir um 12. gr. laganna að umsjónarmaður skuli líta til þess hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt ákvæðinu, meðal annars hvort hann hefur lagt til hliðar af tekjum sínum fé umfram framfærsluþörf sína og fjölskyldu sinnar og ekki gripið til stærri ráðstafana, svo sem að láta af hendi eða veðsetja eignir eða stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.

Meðal gagna málsins er tölvupóstur kæranda, dags. 11. janúar 2013, til umsjónarmanns þar sem fram kemur að tekjur kæranda hafi verið bætur frá Tryggingastofnun ríkisins 88.000 krónur, greiðsla frá Lífeyrissjóði 25.000 krónur og leigutekjur að frádregnu rafmagni 93.000 krónur, samtals 206.000 krónur á mánuði. Auk þess hafi kærandi fengið greiddar 900.000 krónur frá lífeyrissjóði sem hann hafi lagt til hliðar fyrir utanlandsferð. Einnig hafi kærandi fengið greiðslu frá tryggingafélagi 190.000 krónur vegna bifreiðar sinnar, endurgreiðslu frá skatti 120.000 krónur og 200.000 króna ofgreiðslu frá Tryggingastofnun. Þá hafi kærandi óvænt fengið greitt vegna verkefna sem tengdust ráðgjöf og myndatöku 120.000 krónur. Telur kærandi að hann hafi væntanlega tekið út pening og lagt hann aftur inn á tékkareikning sem auki við veltu hans. Kærandi hafi ekki verið með 400.000 krónur á mánuði enda hafi hann þurft að fá lánaða fjármuni hjá ættingjum.

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að einungis sé heimilt að víkja frá því að leggja fyrir umframfé sé nauðsynlegt að ráðstafa því til framfærslu. Jafnframt kemur fram í c-lið 1. mgr. 12. gr. að á meðan skuldari leiti greiðsluaðlögunar sé honum skylt að láta ekki af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Samkvæmt skýringum kæranda til umsjónarmanns, dags. 11. janúar 2013, fékk kærandi meðal annars greiddar 900.000 krónur frá lífeyrissjóði sem hann setti til hliðar fyrir utanlandsferð.

Eins og áður segir eru skuldurum settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár sem safnast fyrir í greiðsluskjóli. Kæranda var í fyrsta lagi skylt að geyma það fé sem var umfram framfærslu og í öðru lagi var honum skylt að ráðstafa ekki fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Ljóst er að kærandi hefur sinnt hvorugu og ber því þegar af þeirri að ástæðu að staðfesta ákvörðun skipaðs umsjónarmanns.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B um að mæla gegn nauðasamningi A er staðfest.

 

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta