Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 332/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 332/2021

Miðvikudaginn 17. nóvember 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 28. júní 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. maí 2021 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta 2020 og ákvörðun Tryggingastofnunar frá 15. júní 2021 um afgreiðslu á innsendri tekjuáætlun kæranda vegna ársins 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. maí 2021, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2020 hefði leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 256.813 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi var í tölvupóstsamskiptum við Tryggingastofnun ríkisins í júní 2021 varðandi meðhöndlun stofnunarinnar á greiðslum frá séreignarsjóðum og var svarað með bréfi, dags. 9. júlí 2021. Með umsókn, dags. 3. júní 2021, sótti kærandi um niðurfellingu ofgreiðslukrafna. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2021, synjaði Tryggingastofnun ríkisins beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu á þeim grundvelli að krafan væri réttmæt og skilyrði um alveg sérstakar aðstæður í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 hafi ekki verið talin vera fyrir hendi. Í bréfinu kemur fram að eftirstöðvum krafna að fjárhæð 1.160.393 kr. hafi þó verið dreift á 60 mánuði. Undir rekstri málsins sótti kærandi á ný um niðurfellingu framangreindrar kröfu með umsókn, dags. 18. ágúst 2021. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 24. ágúst 2021, var kærandi upplýstur um að í fyrra bréfi stofnunarinnar hefði gleymst að upplýsa hann um að eftirstöðvar kröfu að fjárhæð 353.844 kr. vegna uppgjörs tekjuársins 2014 hefði verið felld niður sökum fyrningar. Eftirstöðvar krafna í innheimtu væru að fjárhæð 806.549 kr.

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. júní 2021, var kæranda tilkynnt um breyttar greiðslur í framhaldi af reglubundnu eftirliti með tekjuáætlun og staðgreiðsluskrá Skattsins, auk áætlaðrar kröfu að fjárhæð 175.445 kr. og breyttrar tekjuáætlunar til samræmis við upplýsingar í staðgreiðsluskrá. Þann 14. júní 2021 breytti kærandi tekjuáætlun á Mínum síðum og gerði ráð fyrir 2.300 kr. tekjum á árinu 2021. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. júní 2021, var ekki fallist að fullu á breytingar kæranda með þeim rökum að samkvæmt staðgreiðsluskrá væri kærandi með laun fyrir apríl og þá hafi hann einnig fengið greiðslur úr séreignarsjóði á árinu. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. júní 2021. Með bréfi, dags. 6. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. júlí 2021, barst beiðni frá Tryggingastofnun ríkisins um frávísun málsins með þeim rökum að kærandi hefði sótt um niðurfellingu ofgreiðslukröfu með umsókn, dags. 3. júní 2021, sem hafi ekki verið afgreidd. Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu kæranda til þeirrar beiðni með bréfi, dags. 12. júlí 2021. Með tölvubréfi 13. júlí 2021 óskaði kærandi þess að lífeyrir hans ásamt uppbótum yrði reiknaður tvö ár aftur í tímann. Með bréfi, dags. 16. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir efnislegri greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi, dags. 26. ágúst 2021, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. ágúst 2021. Viðbótargögn bárust frá kæranda 31. ágúst 2021 og voru þau send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 1. september 2021. Þá bárust viðbótargögn frá kæranda 13. september 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að samkvæmt Tryggingastofnun ríkisins hafi kærandi verið með tekjur á árinu 2021 sem hafi leitt til lækkunar á greiðslum til hans á árinu. Þetta sé ekki rétt þar sem greiðslur frá B og C falli ekki undir tekjur, þótt það hafi verið ranglega skráð. Kærandi hafi nýtt sér sérstakt úrræði stjórnvalda vegna Covid-19 til að leysa út séreignarsparnað í B. Kærandi hafi sent þeim póst og óskað eftir leiðréttingu. Greiðsla frá C sé fjárhagsstuðningur og hafi kærandi einnig sent þeim póst.

Á árinu 2020 hafi kærandi fengið greiðslur frá B og hafi hann nýtt sér sérstök úrræði stjórnvalda en nú sé séreignarsparnaðurinn uppurinn. Kærandi eigi ekki rétt á greiðslum úr lífeyrissjóðum því að hann hafi safnað upp í lífeyrissjóð eftir að hann hafi verið metinn til 75% örorku árið 1997.

Kærandi óski eftir því að skuldir verði felldar niður og að hann fái fullar greiðslur. Kærandi hafi eingöngu bætur frá Tryggingastofnun þar sem hann sé orðinn það slæmur og taugakerfið sé í miklum lamasessi.

Í athugasemdum kæranda frá 13. júlí 2021 kemur fram að hann hafi verið í samskiptum við Tryggingastofnun í júní 2021 og að bréf stofnunarinnar, dags. 9. júlí 2021, hafi komið honum á óvart. Eðlilega þurfi kærandi að greiða skatt vegna útborgunar úr sérstökum aðgerðum stjórnvalda af séreignarsparnaði fyrir árin 2020 og 2021, en það hafi skýrt komið fram að þessar aðgerðir eigi ekki að hafa áhrif á greiðslur lífeyristrygginga. Þar af leiðandi skuldi kærandi þeim ekkert vegna þessa eða vegna fjárhagsstuðnings frá C.

Kærandi fari fram á að lífeyrir hans ásamt uppbótum verði reiknaður tvö ár aftur í tímann.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi óski eftir niðurfellingu á kröfu og einnig séu gerðar athugasemdir við skráningu tekna.

Kærandi hafi sótt um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu með umsókn, dags. 3. júní 2021, sem hafi ekki verið afgreidd. Stofnunin hafi einnig sent kæranda bréf, dags. 9. júlí 2021, varðandi skráningu tekna.

Þar sem þau atriði sem kærandi geri athugasemdir við séu til skoðunar hjá Tryggingastofnun, sé þess óskað að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd að svo stöddu. Telji nefndin ástæðu til þess að taka málið fyrir engu að síður, áskilji stofnunin sér rétt til þess að koma að efnislegri greinargerð.

Í greinargerð Tryggingstofnunar, dags. 26. ágúst 2021, kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2020 og synjun á umsókn um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu sem hafi myndast í kjölfar uppgjörs tekjuáranna 2016 og 2020. Þá hafi krafa vegna tekjuársins 2014 verið felld niður vegna fyrningar. Einnig séu gerðar athugasemdir við meðferð stofnunarinnar á tekjum kæranda við vinnslu tekjuáætlunar vegna ársins 2021.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.

Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar sem sé svohljóðandi: „Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem hafi myndast við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi: „Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Með 9. gr. laga nr. 25/2020 um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, hafi ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða verið breytt. Í 1. mgr. ákvæðisins segi að þrátt fyrir ákvæði 11. og 12. gr. laganna sé rétthafa séreignarsparnaðar heimilt á tímabilinu 1. apríl 2020 til 1. janúar 2021 að sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar, sem hafi myndast af viðbótariðgjaldi samkvæmt II. kafla, til vörsluaðila samkvæmt 3.-5. mgr. 8. gr. og skuli greiðslum háttað eftir því sem nánar sé mælt fyrir um í ákvæði þessu. Í 8. mgr. ákvæðisins segi svo að útgreiðsla séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæði þessu hafi ekki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Þá hafi útgreiðslan ekki áhrif á greiðslu húsnæðisbóta samkvæmt lögum um húsnæðisbætur, greiðslur barnabóta eða vaxtabóta samkvæmt 68. gr. laga um tekjuskatt, atvinnuleysisbóta samkvæmt 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 22. gr. laga nr. 22/2006.

Kröfur þær sem deilt sé um í þessu máli séu tilkomnar vegna uppgjöra tekjuáranna 2016 og 2020. Kærandi hafi notið greiðslna örorkulífeyris og tengdra greiðslna allt árið 2020. Krafa vegna ársins 2014 hafi verið felld niður vegna fyrningar.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest af dómstólum.

Kæranda hafi verið send tekjuáætlun vegna ársins 2016 með bréfi, dags. 11. janúar 2016, þar sem gert hafi verið ráð fyrir því að kærandi hefði eingöngu 334 kr. í vexti og verðbætur á árinu 2016. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við þessa tekjuáætlun og hafi hann fengið greitt á grundvelli hennar frá 1. janúar til 31 ágúst 2016. Við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar þann 10. ágúst 2016 hafi komið í ljós misræmi á milli tekjuáætlunar kæranda og upplýsinga úr staðgreiðsluskrá. Tekjuáætlun kæranda hafi því verið leiðrétt af stofnuninni. Í nýrri tekjuætlun hafi verið gert ráð fyrir að tekjur kæranda yrðu 1.283.260 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 2.665.704 kr. í aðrar erlendar tekjur og 334 kr. í vexti og verðbætur sameiginlegar með maka. Kærandi hafi fengið greitt á grundvelli þessarar áætlunar frá 1. september til 31. desember 2016.

Við bótauppgjör ársins 2016 hafi komið í ljós að endanlegar tekjur kæranda á árinu hafi verið 10.413.654 kr. í aðrar erlendar tekjur og 7.328 kr. í vexti og verðbætur sameiginlegar með maka. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2016 hafi verið sú að kærandi hafi verið að fullu ofgreiddur í öllum bótaflokkum. Hafi það leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 801.407 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Kæranda hafi verið send tekjuáætlun vegna ársins 2020 með bréfi, dags. 23. janúar 2020, þar sem eingöngu hafi verið gert ráð fyrir 2.316 kr. í vexti og verðbætur á árinu 2020. Á grundvelli þessarar tekjuáætlunar hafi kærandi fengið greitt allt árið 2020.

Við bótauppgjör ársins 2020 hafi komið í ljós að endanlegar tekjur kæranda á árinu hafi verið 204 kr. í vexti og verðbætur og 1.466.502 kr. í greiðslu séreignarsparnaðar. Af þeirri fjárhæð, sem kærandi hafi fengið greidda í séreignarsparnað, hafi 800.000 kr. verið sérstök útgreiðsla lífeyrissparnaðar og hafi sú greiðsla ekki haft áhrif á greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar eða lögum um félagslega aðstoð. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2020 hafi verið sú að kærandi hafi verið að fullu ofgreiddur í bótaflokknum sérstök uppbót til framfærslu. Kærandi hafi fengið 3.666.623 kr. greiddar á árinu en hefði með réttu átt að fá 3.285.620 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 256.813 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Tryggingastofnun hafi borist umsókn kæranda um niðurfellingu á ofgreiðslukröfum þann 3. júní 2021. Samráðsnefnd Tryggingastofnunar um niðurfellingu á ofgreiðslukröfum hafi tekið málið fyrir á fundi og hafi umsókninni verið synjað með bréfi, dags. 9. ágúst 2021. Leiðrétt bréf hafi verið sent þann 24. ágúst 2021.

Við afgreiðslu á beiðni kæranda um niðurfellingu hafi, ásamt fyrirliggjandi gögnum, meðal annars verið skoðuð ástæða ofgreiðslunnar, upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur og eignir, að viðbættum þeim upplýsingum sem aflað hafi verið úr tölvukerfi stofnunarinnar um fjárhag og félagslega stöðu.

Í 55. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um innheimtu ofgreiddra bóta. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest af dómstólum. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt. Í þessu ákvæði felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við.

Umræddar kröfur hafi orðið til við endurreikninga áranna 2016 og 2020. Ekki sé deilt um að kröfurnar séu réttmætar. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs. Eins og meðfylgjandi gögn beri með sér sé ljóst að ástæða ofgreiðslunnar hvort árið um sig hafi verið röng tekjuáætlun. Varðandi árið 2016 hafi þar verið um að ræða verulegar erlendar aðrar tekjur sem kærandi hafi ekki gefið upp og árið 2020 hafi verið um að ræða greiðslu séreignarsparnaðar snemma árs. Þessar tekjur hafi ekki komið fram á tekjuáætlun kæranda. Lífeyrisþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna.

Í tilfelli kæranda sé rétt að vekja sérstaka athygli á því að frá árinu 2006 hafi hann haft kröfur, í sumum tilfellum verulegar kröfur, öll árin fyrir utan árin 2015 og 2019. Kærandi hafi einnig áður fengið fellda niður kröfu (50%) vegna erfiðra fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna. 

Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa upp réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Miðað við gögn málsins sé ekki hægt að sjá að kærandi hafi verið í góðri trú.

Samráðsnefnd hafi metið fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli upplýsinga sem stofnunin hafi aðgang að. Við skoðun þeirra hafi það verið mat nefndarinnar að ekki væri tilefni til að fella niður kröfuna. Við mat á fjárhags- og félagslegum aðstæðum kæranda hafi verið ljóst að núverandi tekju- og eignastaða sé ekki mjög góð. Tryggingastofnun hafi hins vegar talið að ekki væri hægt að horfa fram hjá ítrekuðum ofgreiðslukröfum kæranda, fyrri tekjum og þeirri staðreynd að áður hafi verið felldur niður verulegur hluti eldri krafna. Það hafi því verið mat Tryggingastofnunar að ekki væri hægt að líta svo á að hann uppfyllti skilyrði undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Hins vegar hafi verið talin ástæða til þess að koma til móts við kæranda og þess vegna hafi verið samþykkt að dreifa kröfunni á 60 mánuði frá 1. september 2021 vaxtalaust, en að jafnaði sé gert ráð fyrir að kröfur séu greiddar upp á 12 mánuðum. Í dag standi krafan í 806.549 kr. og greiði kærandi 13.442 kr. á mánuði.

Í kæru komi fram nokkur atriði sem rétt sé að svara sérstaklega. Kærandi telji að tekjur sínar á árinu 2020 hafi ekki verð meðhöndlaðar rétt, nánar tiltekið að séreignarsparnaður hafi ekki átt að hafa áhrif á greiðslur hans. Eins og fram komi í kæru og meðfylgjandi gögnum hafi 800.000 kr. af séreignarsparnaði ekki haft áhrif á réttindi hans þar sem um sérstaka greiðslu séreignarsparnaðar hafi verið að ræða í samræmi við ákvæði til bráðabirgða VIII í lögum nr. 129/1997, sbr. lög nr. 25/2020.

Í því ákvæði komi hins vegar skýrt fram að þetta eigi bara við um þær greiðslur sem greiddar séu á grundvelli ákvæðisins og séu greiddar á tímabilinu 1. apríl 2020 til 31. desember 2021. Í mars 2020 hafi kæranda verið greiddar 666.502 kr. í séreignarsparnað. Sú greiðsla falli því ekki undir ákvæðið og hafi því áhrif á sérstaka uppbót á lífeyri sem sé greidd samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð.

Kærandi geri einnig athugasemd við meðferð tekna sinna á árinu 2021. Kærandi hafi ekki sent Tryggingastofnun neitt erindi þar að lútandi og sé þetta því í fyrsta skipti sem stofnunin sjái það erindi. Hvað varði áhrif greiðslu séreignarsparnaðar í janúar 2021 komi ekki fram í staðgreiðsluskrá að um sérstaka greiðslu séreignarsparnaðar sé að ræða heldur sé þetta skráð eins og venjuleg greiðsla séreignarsparnaðar. Sé um mistök að ræða geti kærandi fengið þetta leiðrétt hjá greiðanda og skilað Tryggingastofnun staðfestingu þess efnis að um ranga skráningu hafi verið að ræða. Sama gildi um launagreiðslu í apríl, sé hún rangt skráð sé hægt að leiðrétta það. Tekjur kæranda á tekjuáætlun séu skráðar í dag í samræmi við opinbera skráningu í staðgreiðsluskrá.

Tryggingastofnun hafi skoðað gögn málsins en telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun um synjun á niðurfellingarbeiðni kæranda.

IV.  Niðurstaða

Upphafleg kæra í málinu varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2020 og afgreiðslu Tryggingastofnunar á innsendri tekjuáætlun kæranda frá 15. júní 2021. Undir rekstri málsins synjaði Tryggingastofnun jafnframt umsókn kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu með bréfi, dags. 9. ágúst 2021. Kærumál þetta lýtur að þessum þremur ákvörðununum.

A. Endurreikningur og uppgjör

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun á árinu 2020. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. þeirra laga ber Tryggingastofnun að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Á grundvelli 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er heimilt að greiða örorkulífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án hennar. Til þess að eiga rétt á uppbót þurfa heildartekjur að vera undir ákveðinni fjárhæð sem hefur verið hækkuð árlega. Til tekna teljast allar skattskyldar tekjur, sbr. 3. mgr. sömu greinar, þar á meðal lífeyrissjóðstekjur.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 25/2020 um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru var sett VIII. ákvæði til bráðabirgða í lög nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Þrátt fyrir ákvæði 11. og 12. gr. er rétthafa séreignarsparnaðar heimilt á tímabilinu 1. apríl 2020 til 1. janúar 2022 að sækja um útgreiðslu séreignarsparnaðar, sem myndast hefur af viðbótar­iðgjaldi skv. II. kafla, til vörsluaðila skv. 3.–5. mgr. 8. gr. og skal greiðslum háttað eftir því sem nánar er mælt fyrir um í ákvæði þessu.“

Í 1. málsl. 8. mgr. 9. gr. sömu laga segir:

„Útgreiðsla séreignarsparnaðar samkvæmt ákvæði þessu hefur ekki áhrif á bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.“

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins sendi Tryggingastofnun kæranda tekjuáætlun, dags. 23. janúar 2020, vegna ársins 2020 þar sem gert var ráð fyrir 2.316 kr. í fjármagnstekjur á árinu. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá áætlun og voru bótaréttindi því reiknuð og bætur greiddar í samræmi við þær tekjuforsendur allt árið.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2020 reyndist kærandi hafa fengið 1.466.502 kr. úr séreignarsjóði og 204 kr. í fjármagnstekjur á árinu. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2020 leiddi í ljós að kærandi hafi ekki átt rétt á framfærsluuppbót á árinu og því hafi myndast ofgreiðsla að fjárhæð 256.813 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er sú að tekjur ársins 2020 voru hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun. Um var að ræða greiðslur úr séreignarsjóði. Greiðslur úr séreignarsjóði hafa áhrif á sérstaka uppbót. Við útreikning sérstakrar uppbótar til framfærslu samkvæmt 9. gr. laga um félagslega aðstoð teljast allar skattskyldar tekjur til tekna, sbr. 1. málsl. 3. mgr., með undantekningum í 2. málsl. sömu málsgreinar.

Á árinu 2020 var efra tekjumark vegna greiðslna sérstakrar uppbótar 255.834 kr., sbr. reglugerð nr. 1122/2019 um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2020. Kærandi átti því ekki rétt á sérstakri uppbót sökum tekna.

Kærandi fer fram á að við endurreikning Tryggingastofnunar á tekjutengdum greiðslum á árinu 2020 verði honum ekki talið til tekna greiðslur úr séreignarsjóði í samræmi við VIII. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 129/1997, sbr. lög nr. 25/2020. Við úrlausn þessa máls horfir úrskurðarnefnd til þess að umræddar tekjur voru greiddar kæranda á árinu 2020 og tilheyra því ári samkvæmt skattframtali kæranda. Kærandi fékk annars vegar greiðslur úr séreignarsjóði í mars 2020 og hins vegar í desember 2020. Við endurreikning Tryggingastofnunar voru greiðslur úr séreignarsjóði, sem kærandi fékk í desember, ekki taldar honum til tekna við útreikning sérstakrar uppbótar en aftur á móti voru þær greiðslur, sem hann fékk greiddar í mars úr séreignarsjóði, taldar honum til tekna við endurreikninginn. Framangreint undantekningarákvæði í lögum nr. 25/2020 tilgreinir sérstaklega að það taki til tímabilsins 1. apríl 2020 til 1. janúar 2022 og því ber Tryggingastofnun að horfa til þeirra tekna, sem ekki voru greiddar á nefndu tímabili, við endurreikning tekjutengdra bóta ársins 2020. Tryggingastofnun er ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega. Að þessu virtu fellst úrskurðarnefnd ekki á kröfu kæranda um að greiðslur úr séreignarsjóði frá mars 2020 skerði ekki tekjutengd bótaréttindi hans frá Tryggingastofnun á árinu 2020.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2020.

B. Krafa um niðurfellingu ofgreiddra bóta

Eins og áður hefur komið fram ber Tryggingastofnun lögum samkvæmt að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreinda 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni ber að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laganna. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Aðstæður verða að vera sérstakar. Við mat á því hvort aðstæður séu sérstakar skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort bótaþegi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum. Tryggingastofnun ríkisins hefur hafnað því að heimild tilvitnaðs reglugerðarákvæðis eigi við í tilviki kæranda.

Í máli þessu lýtur ágreiningurinn að synjun Tryggingastofnunar á beiðni kæranda um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu sem hafði myndast vegna ofgreiddra bóta áranna 2016 og 2020.

Kærandi hefur fengið greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur í nokkur ár. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2016 með bréfi, dags. 21. júní 2017. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til hans hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð 801.407 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til þess að tekjur í skattframtali kæranda voru ekki í samræmi við tekjuáætlun ársins. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2020 með bréfi, dags. 20. maí 2021. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til hans hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð 256.813 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til þess að greiðslur úr séreignarsjóði hafi ekki verið í samræmi við tekjuáætlun ársins.  

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við úrlausn þessa máls að greiðslur örorkulífeyris og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður greinir gerir 39. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Þannig hvílir sú ábyrgð á bótaþega að tekjuáætlun sé rétt. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að kæranda hefði mátt vera kunnugt um að umræddar tekjur gætu haft áhrif á bótagreiðslur og því hafi honum borið að upplýsa um þær. Því er ekki fallist á að kærandi hafi verið í góðri trú í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kemur þá til skoðunar hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda gefi tilefni til niðurfellingar. Í umsókn kæranda frá 3. júní 2020 um niðurfellingu ofgreiðslukröfu greinir kærandi stuttlega frá veikindum sínum og að greiðslur úr séreignarsjóði hafi leitt til ofgreiðslunnar. Í umsókn kæranda frá 18. ágúst 2021 fer hann fram á niðurfellingu ofgreiddra bóta með vísan til fjárhags- og félagslegrar stöðu. Fram kemur að kærandi þurfi að búa hjá foreldrum sínum, hann skuldi ríkinu mikið, heilsan fari versnandi og að hann sé að einangra sig. Samkvæmt staðgreiðsluskrá voru meðaltekjur kæranda 378.858 kr. á mánuði á árinu 2020 og 354.852 kr. fyrstu sjö mánuði ársins 2021. Af gögnum málsins verður ráðið að skuldir kæranda séu umtalsvert meiri en eignir. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að fjárhagslegar aðstæður kæranda séu nokkuð bágbornar. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála leiðir það eitt og sér aftur á móti ekki sjálfkrafa til þess að allar kröfur séu felldar niður heldur þurfi að meta aðstæður kæranda heildstætt með hliðsjón af öllum þeim atriðum sem tilgreind eru í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Eins og áður hefur komið fram er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi hafi ekki verið í góðri trú um greiðslurétt sinn. Þá verður ráðið af gögnum málsins að kröfurnar séu tilkomnar vegna vantaldra tekna á framangreindum árum. Úrskurðarnefndin lítur einnig til þess að 16. apríl 2019 felldi Tryggingastofnun niður kröfu á hendur kæranda að fjárhæð 1.603.945 kr. vegna erfiðra fjárhags- og félagslegra aðstæðna og að stofnunin felldi niður kröfu frá árinu 2014 í júlí 2021 að fjárhæð 353.844 kr. sökum fyrningar. Jafnframt horfir nefndin til þess að Tryggingastofnun hefur dreift eftirstöðvum af kröfunni á 60 mánuði í stað þess að kærandi þurfi að endurgreiða ofgreiðslukröfuna á tólf mánuðum eins og kveðið er á um í lögum. Að lokum lítur nefndin til þess að samkvæmt meginreglu 55. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiddra bóta.

C. Breyting á greiðslum og áætluð krafa í kjölfar reglulegs eftirlits með staðgreiðsluskrá

Kærandi hefur fengið greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun á árinu 2021, nánar tiltekið örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót, tekjutryggingu og sérstaka uppbót til framfærslu.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. sömu laga segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Áætlun um tekjuupplýsingar byggist á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið er um í 39. og 40. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun ríkisins skuli hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið sé um í 40. gr. laganna.

Í tekjuáætlun ársins 2021 var ekki gert ráð fyrir að kærandi væri með tekjur á árinu. Við samkeyrslu tekjuáætlunar við staðgreiðsluskrá í júní 2021 kom í ljós að kærandi hafði verið með skráð laun frá C í apríl og greiðslur úr séreignarsparnaði í janúar það ár. Tryggingastofnun útbjó nýja tekjuáætlun, dags. 11. júní 2021, sem gerði ráð fyrir 315.135 kr. í launatekjur og 556.654 kr. úr séreignarsjóði til samræmis við það sem fram kom í staðgreiðsluskrá Skattsins. Jafnframt var kæranda tilkynnt um áætlaða ofgreiðslu að fjárhæð 175.445 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Kærandi lagði fram nýja tekjuáætlun, dags. 14. júní 2021, þar sem eingöngu var gert ráð fyrir 2.300 kr. fjármagnstekjum á árinu. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 15. júní 2021, var kæranda tilkynnt að tekjuáætlun hans hafi ekki verið samþykkt að öllu leyti á þeim grundvelli að samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins hafi kærandi verið með 35.015 kr. í launatekjur og 556.654 kr. í greiðslur úr séreignarsjóði á árinu.

Eins og áður hefur komið fram er kærandi ósáttur við að í tekjuáætlun Tryggingastofnunar hafi verið gert ráð fyrir launum frá C þar sem um styrk hafi verið að ræða og auk þess eigi greiðslur úr séreignarsparnaði ekki að hafa áhrif á greiðslur til hans vegna sérstaks úrræðis vegna Covid-19, sbr. lög nr. 25/2020 um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru.

Fyrir liggur að þær greiðslur sem kærandi fékk frá C eru skráðar sem launatekjur samkvæmt staðgreiðsluskrá. Kærandi hefur ekki lagt fram nein gögn sem staðfesta að framangreindar tekjur hafi ekki verið rétt skráðar. Tryggingastofnun var því rétt að skrá og meðhöndla þær tekjur í samræmi við upplýsingar úr staðgreiðsluskrá að mati úrskurðarnefndar. Úrskurðarnefnd velferðarmála vill jafnframt benda kæranda á þann möguleika að leita til C til að leiðrétta þessar upplýsingar til Skattsins ef þær eru rangar.

Varðandi kröfu kæranda að greiðslur úr séreignarsjóði eigi ekki að teljast honum til tekna með vísan í lög nr. 25/2020 þá liggja engin gögn fyrir sem staðfesta það að umræddar greiðslur hafi verið þess eðlis að þær falli undir sérúrræði sem getið er um í framangreindum lögum. Tryggingastofnun hafi skráð tekjurnar í samræmi við opinbera skráningu í staðgreiðsluskrá. Úrskurðarnefnd velferðarmála gerir ekki athugasemdir við það en bendir kæranda á að hann geti snúið sér til greiðsluaðila til að fá þessu breytt ef skráningin er ekki rétt.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins hafi afgreitt innsenda tekjuáætlun kæranda eins og lög kveða á um. Að því virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. júní 2021 um útreikning mánaðarlegra greiðslna til kæranda staðfest.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að endurreikningur og uppgjör tekjutengdara bóta ársins 2021 mun fara fram vorið 2022 eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Verði kærandi ekki sáttur við niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins getur hann kært ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum, A, á árinu 2020, synjun umsóknar um niðurfellingu ofgreiddra bóta og lækkun mánaðarlegra greiðslna á árinu 2021, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta