Hoppa yfir valmynd

Nr. 502/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 14. september 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 502/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060030

Kæra [...] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.         Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 8. júní 2017 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. maí 2017, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.           Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kom fram að kærandi hafi haft dvalarleyfi hér á landi á grundvelli atvinnuþátttöku frá 1. nóvember 2005 til 31. ágúst 2009. Þann 18. október 2016 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, en með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 8. júní 2017. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 21. júní 2017.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að þegar litið væri til dvalar kæranda hér á landi á árunum 2005 til 2009 væri ljóst að hann hefði myndað félags- og menningarleg tengsl við landið. Kvaðst kærandi hafa aðlagast íslensku samfélagi vel, hann hafi talað þó nokkra íslensku og myndað sterk tengsl við landið í gegnum vini og samstarfsfélaga, auk þess að eiga tengsl í gegnum fjölskyldu. Að mati Útlendingastofnunar yrði þó að horfa til þess að kærandi hefði ekki dvalið hér á landi síðastliðin átta ár og að hann hefði sterk fjölskyldutengsl í heimaríki þar sem hann ætti eiginkonu, þrjú ung börn, systkini og foreldra. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar að tengsl kæranda við landið væru ekki talin svo sterk að þau réttlættu veitingu dvalarleyfis á grundvelli 78. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda um dvalarleyfi því synjað.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til þess að hann hafi haft dvalarleyfi hér á landi frá 1. nóvember 2005 til 31. ágúst 2009 á grundvelli atvinnuþátttöku. Á tímabilinu hafi eiginkona kæranda og sonur hans einnig búið með honum hér á landi. Fram kemur að bróðir kæranda sé íslenskur ríkisborgari, búsettur hér á landi, en þeir bræður séu mjög nánir og heimsæki hvorn annan mikið. Þá eigi eiginkona kæranda tvær systur hér á landi sem kærandi og eiginkona hans séu í miklum samskiptum við. Kærandi sé einnig í miklum samskiptum við fyrrum vinnuveitanda sinn hér á landi, en kærandi hafi starfað hjá fyrirtæki hans allan þann tíma er hann hafi verið búsettur hér á landi. Þá eigi kærandi og eiginkona hans fjölmarga vini hér á landi og að kærandi hafi talað þó nokkra íslensku er hann hafi yfirgefið landið árið 2009.

Í greinargerðinni kemur fram að þegar kærandi hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið hafi lög nr. 96/2002 um útlendinga verið í gildi. Ákvörðun Útlendingastofnunar sé hins vegar byggð á ákvæðum laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem tóku gildi 1. janúar sl. Telur kærandi að beita beri ákvæðum eldri laga um útlendinga við úrlausn málsins þar sem þau hafi verið í gildi þegar hann hafi sótt um dvalarleyfi hér á landi. Því næst er fjallað um leiðbeinandi sjónarmið við veitingu dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga, útgefin af innanríkisráðuneytinu þann 10. mars 2014.

Fallist kærunefnd útlendingamála ekki á þau rök að lög nr. 96/2002 um útlendinga gildi um umsókn kæranda um dvalarleyfi leiki þó enginn vafi á því, í ljósi þess að ekki sé kveðið á um lagaskil í lögum nr. 80/2016 um útlendinga, að kærunefndinni beri að beita þeim lögum er veiti kæranda betri rétt. Í 78. gr. núgildandi laga sé fjallað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 540/2017, sé að finna ítarlegar leiðbeiningar um hvaða atriða skuli horfa til við mat á umsókn á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Í ákvæðinu sé lögð áhersla á að um sé að ræða heildarmat á aðstæðum umsækjanda en að sérstaklega skuli horft til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt sé liðið frá dvalartíma, brotaferils umsækjanda hér á landi, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og fjölskyldustærðar, auk umönnunarsjónarmiða. Kærandi hafi dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis í tæp fjögur ár á árunum 2005 til 2009. Þótt hann hafi ekki haft fasta búsetu hér á landi síðan þá hafi hann haldið miklum tengslum við landið í gegnum bróður sinn, mágkonur og vini sem búi hér á landi. Þá hafi kærandi hvorki gerst sekur um refsiverðan verknað hér né í heimaríki sínu. Þessu til viðbótar liggi fyrir að kærandi hafi fengið boð um vinnu á sama vinnustað og bróðir hans starfar og að kærandi muni því eiga auðvelt með að koma sér inn í félagslega umhverfið á vinnustaðnum. Þá tali kærandi ágæta íslensku og hafi mikinn áhuga á menningu Íslands.

Í greinargerð kæranda er vísað til úrskurðar kærunefndar útlendingamála frá 15. júlí 2015, í máli nr. 104/2015, en kærandi telur málsatvik þess máls keimlík máli sínu þegar litið sé til tímabils lögmætrar dvalar, fjölskyldutengsla og félagslegra tengsla. Með úrskurðinum hafi kærunefnd lagt fyrir Útlendingastofnun að veita aðila málsins dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Að mati kæranda verði ekki séð að kærunefnd útlendingamála sé tækt að synja umsókn hans um dvalarleyfi með hliðsjón af nefndum úrskurði og með tilliti til jafnræðissjónarmiða.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Í greinargerð byggir kærandi á því að umsókn hans um dvalarleyfi heyri undir ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, enda hafi lögin verið í gildi á þeim tíma sem kærandi lagði fram umsókn sína um dvalarleyfi. Þar sem ekki sé kveðið á um lagaskil í lögum nr. 80/2016 um útlendinga beri kærunefnd útlendingamála að beita þeim lögum er veiti kæranda betri rétt til dvalarleyfis.

Í 1. mgr. 121. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um gildistöku laganna þann 1. janúar 2017. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 121. gr. laganna að um mál sem borist hafi kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en hafi ekki verið afgreidd með úrskurði gildi ákvæði laga nr. 80/2016. Þótt lagaleg álitaefni sem tengjast samanburði á gildandi rétti við eldri lagareglur kunni að vakna við lagaskil, einkum þegar leyst er úr umsókn sem berst í gildistíð laga sem fallin eru úr gildi, er ótvírætt að stjórnvaldsákvarðanir þurfa að eiga sér stoð í gildum lögum. Við gildistöku laga nr. 80/2016 voru lög um útlendinga nr. 96/2002 felld úr gildi. Að framangreindu virtu telur kærunefnd ljóst að stjórnvöldum beri, við ákvarðanir teknar eftir gildistöku laga nr. 80/2016, að byggja ákvarðanir sínar á ákvæðum núgildandi laga um útlendinga. Á það við jafnvel þótt umsókn um dvalarleyfi hafi borist í gildistíð eldri laga, en við þær aðstæður yrði að hafa hliðsjón af réttarstöðu viðkomandi samkvæmt lögum nr. 96/2002 um útlendinga, að því marki sem hún rúmast innan ákvæða laga nr. 80/2016 um útlendinga. Verður samkvæmt framansögðu ekki fallist á með kæranda að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið reist á röngum lagagrundvelli.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Til sérstakra tengsla geti m.a. talist tengsl sem útlendingur hafi stofnað til meðan á dvöl hans hér á landi hafi staðið samkvæmt útgefnu dvalarleyfi sem verði ekki endurnýjað eða hafi verið afturkallað vegna breyttra aðstæðna eða annarra atvika, sbr. 2. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í 3. mgr. 78. gr. er kveðið á um að heildstætt mat skuli fara fram á tengslum umsækjanda við landið. Við það mat skuli að jafnaði horft til lengdar lögmætrar dvalar. Jafnframt sé heimilt að líta til fjölskyldutengsla, þ.e. fjölskyldusamsetningar umsækjanda með tilliti til umönnunarsjónarmiða, sbr. a-lið 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga, og félagslegra og menningarlegra tengsla við landið á grundvelli atvinnuþátttöku eða annarra sambærilegra tengsla, sbr. b-lið 3. mgr. 78. gr. laganna.

Í 19. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sem tók gildi þann 29. maí sl., er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla þegar umsækjandi hefur áður búið á Íslandi. Þar segir m.a. að áhersla skuli lögð á heildarmat á aðstæðum umsækjanda en að sérstaklega skuli horfa til lengdar lögmætrar dvalar, hversu langt sé liðið frá dvalartíma, brotaferils umsækjanda hér á landi, fjölskyldutengsla, fjölskyldumynsturs og annarra atriða í því sambandi auk umönnunarsjónarmiða. Í b-lið 19. gr. reglugerðarinnar kemur fram að hafi umsækjandi um dvalarleyfi dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis verði dvalarleyfi almennt ekki veitt vegna sérstakra tengsla nema önnur tengsl við landið séu mjög sterk.

Fyrir liggur að kærandi hefur dvalist erlendis lengur en 18 mánuði samfellt frá útgáfu síðasta dvalarleyfis. Við túlkun á heimild til að veita dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla skv. 78. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd þó að líta verði til þess að kærandi sótti um dvalarleyfi í gildistíð eldri laga um útlendinga nr. 96/2002. Þar var kveðið á um að heimilt væri að veita útlendingi dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla hans við landið. Þann 10. mars 2014 gaf innanríkisráðuneytið út leiðbeinandi sjónarmið við veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Þar kemur m.a. fram að við mat á tengslum skuli sérstaklega horft til dvalar á síðastliðnum tíu árum og að við mat á tengslum vegna fyrri dvalar sem langt sé liðið frá skuli litið til þess hversu langur dvalartíminn hafi verið. Samkvæmt framansögðu er ljóst að þegar kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið var einkum horft til lögmætrar dvalar á síðastliðnum tíu árum og lengdar fyrri dvalartíma þegar langt var liðið frá fyrri dvöl.

Líkt og rakið hefur verið var kærandi búsettur hér á landi ásamt eiginkonu og syni í tæp fjögur á tímabilinu frá 1. nóvember 2005 til 31. ágúst 2009, eða um fjögur ár á síðustu ellefu árum. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé mjög náinn bróður sínum, sem sé búsettur hér á landi, og að kærandi og eiginkona hans séu einnig í miklum samskiptum við tvær systur eiginkonu hans sem séu einnig búsettar hér. Kærandi hafi starfað á sama vinnustaðnum allan dvalartíma sinn hér á landi og sé í enn í góðum samskiptum við fyrrum vinnuveitanda sinn hér á landi. Á þessum árum hafi kærandi enn fremur náð ágætum tökum á íslensku og eignast marga vini.

Á hinn bóginn má ráða af gögnum málsins að kærandi hafi verið búsettur í heimaríki ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum síðustu átta ár, auk þess að eiga foreldra þar. Þótt kærandi hafi vissulega myndað nokkur tengsl við Ísland eftir fjögurra ára dvöl hér á landi, auk þess að eiga bróður og mágkonur sem eru búsett hér, er það mat kærunefndar, í ljósi þess tiltölulega langa tíma sem liðið hefur frá því kærandi var búsettur hér og fjölskylduaðstæðna hans í heimaríki, að kærandi hafi ekki nægilega sterk tengsl við Ísland til að rétt sé að veita honum dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.Verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Vegna tilvísunar kæranda til úrskurðar kærunefndar útlendingamála þann 15. júlí 2015, í máli nr. 104/2015, skal tekið fram að aðili þess máls rauf ekki dvöl sína hér á landi með búsetu erlendis áður en umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið var lögð fram, líkt og við á í máli kæranda. Af þeirri ástæðu verður ekki fallist á með kæranda að umræddur úrskurður hafi fordæmi fyrir úrlausn í máli hans.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                                  Árni Helgason

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta