Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 445/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 445/2020

Fimmtudaginn 26. nóvember 2020

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. september 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 16. júní 2020, um synjun á umsókn hans um afskrift á skuld.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 12. mars 2020, sótti kærandi um afskrift á skuld við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun á grundvelli 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 16. júní 2020, á grundvelli mats þar sem litið var til fjárhagsgetu, fjölskylduaðstæðna, framfærslubyrðar og annarra haga kæranda.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 17. september 2020. Með bréfi, dags. 23. september 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 2. október 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. október 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði gert skylt að fella niður skuldina. Um sé að ræða skuld sem hafi myndast eftir nauðungaruppboð sem hafi farið fram 8. október 2013 á fasteign kæranda. Þrátt fyrir einungis einn eiganda fasteignarinnar og skuldara lánsins hafi þau hjónin bæði fengið tilkynningu um að umsókn hefði verið hafnað.

Í hinni kærðu ákvörðun sé meðal annars vísað til viðmiða í grein 11.1 í reglum um meðferð greiðsluerfiðleika en þær hafi hvorki fylgt með né sé að finna neinn rökstuðning fyrir því að nefndin hafi komist að þessari niðurstöðu, annað en þetta almenna orðalag. Því sé óljóst af hverju umsókn um niðurfellingu sé hafnað. Í tölupósti sem hafi fylgt bréfinu leggi lánanefndin til tvo kosti, þ.e. að gera 18 mánaða samning þar sem greiddar yrðu 150.000 kr. á mánuði, samtals 2.700.0000 kr. eða eingreiðsla að fjárhæð 2.050.000 kr. Ef önnur hvor leiðin yrði valin og staðið við greiðslur myndu eftirstöðvar skuldarinnar verða felldar niður þegar greiðsla/ur hafi borist. Þar sem kærandi sjái ekki hvernig þeim hjónum eigi að vera fært að bæta þessum kostnaði við það sem þau séu nú þegar að greiða, meðal annars þegar litið sé til aðstæðna þeirra, fari þau fram á að ákvörðunin verði ógild og umsókn um niðurfellingu samþykkt.

Kærandi greinir frá högum fjölskyldunnar og vísar til yfirlits yfir tekjur og skuldir í september 2020. Eftir greiðslu skulda hafi þau átt 378.123 kr. fyrir framfærslu sex manna fjölskyldu. Ef 150.000 kr. yrðu teknar af þeirri fjárhæð stæði eftir 228.123 kr. fyrir framfærslu sex manna fjölskyldu með miklar sérþarfir sem kærandi greinir nánar frá. Matarkostnaður fjölskyldunnar sé tölvuvert meiri en í flestum þeim viðmiðum sem notuð séu þar sem eitt barn sé með töluvert miklar sérþarfir. Fjórir fjölskyldumeðlimir séu með gleraugu og því falli til kostnaður vegna þess. Fata- og skókostnaður sé hærri vegna þess að öll börnin nema eitt séu komin í fullorðinsstærðir í skóm og flestum öðrum fatnaði. Einnig sé eitt barnið með miklar sérþarfir þegar komi að fötum varðandi efni, stærð og annað. Á heimilinu séu tveir bílar en það sé vegna þess að faðirinn vinni vaktavinnu. Hann þurfi því að hafa sér bíl til og frá vinnu þar sem ekki sé hægt að nálgast bílinn til hans. Móðirin þurfi að sinna ýmsum erindum yfir daginn svo sem læknaþjónustu, sjúkraþjálfun, nuddi og versla inn fyrir heimilið. Þá eigi þau hjólhýsi sem standi á hjólhýsasvæði. Það sé mjög mikilvægt fyrir þau og mikið notað til að geta skipt um umhverfi, sér í lagi fyrir einhverft barn þeirra en ekki síst fyrir alla fjölskylduna. Þau séu ekki með neinar sjónvarpsáskriftir og reyni að halda öllum útgjöldum í lágmarki.

III. Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að fasteign kæranda hafi verið seld nauðungarsölu í október 2013 og á fasteigninni hafi verið áhvílandi lán frá Íbúðalánasjóði. Í kjölfar nauðungarsölunnar hafi myndast eftirstæð krafa, eða svokallað glatað veð, að fjárhæð 8.283.402 kr. Stofn glataðs veðs sé mismunur á heildarkröfu Íbúðalánasjóðs við nauðungarsöluna ásamt kostnaði við uppboð og verðmat, sbr. 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Eftirstæð krafa hafi verið stofnuð á hendur kæranda og honum tilkynnt um skuldastöðu eftir nauðungarsöluna og jafnframt að sjóðurinn myndi ekkert aðhafast við innheimtu kröfunnar. Þá hafi kærandi verið upplýstur um að hann gæti hvenær sem er greitt inn á kröfuna og að heimilt væri að koma til móts við hann við hverja greiðslu með því að fella niður af kröfunni til viðbótar sömu fjárhæð og væri greidd.

Tekið er fram að málsmeðferðin hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, byggð á málefnalegum sjónarmiðum og í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, reglugerð nr. 359/2010 og reglur stjórnar Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleika. Samkvæmt 47. gr. laga um húsnæðismál sé heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur sem hafi glatað veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Um kröfuna fari samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna sem glatað hafa veðtryggingu, sbr. reglugerð nr. 534/2015 og nr. 1138/2018. Reglugerðin sé sett með heimild í 47. og 50. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, með síðari breytingum. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar sé heimilt, að liðnum þremur árum frá sölu fasteignar skuldara, að afskrifa kröfu sem glatað hafi veðtryggingu. Í 2. mgr. 6. gr. séu tilgreind skilyrði fyrir slíkri afskrift:

  1. Eignir umfram skuldir séu ekki meiri en 6.500.000 kr. hvort sem um er að ræða einstakling eða hjón/sambúðarfólk.
  2. Tekjur á ársgrundvelli séu ekki hærri en 3.622.600 kr. fyrir einstakling eða 4.791.180 kr. fyrir hjón eða sambúðarfólk, að viðbættum 570.000 kr. fyrir hvert barn á framfæri skuldara yngra en 20 ára.

Heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. ef sérstakar málefnalegar ástæður liggi fyrir. Meta skuli fjárhagsstöðu skuldara með framkvæmd greiðslumats og heimilt sé að semja um niðurfellingu á grundvelli niðurstöðu mats á greiðslugetu. Í kafla 11 í reglum stjórnar um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða sé fjallað um afgreiðslu umsókna. Þar komi fram að eignir og tekjur umsækjanda skuli byggja á meðaltali síðustu þriggja ára samkvæmt skattframtali en heimilt sé að byggja á samtímagögnum ef tilefni þyki til. Við meðferð málsins hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun farið yfir fyrirliggjandi gögn og forsendur sem hafi legið fyrir við mat á því hvort kærandi uppfyllti framangreind skilyrði fyrir niðurfellingu kröfunnar. Við útreikning á tekjum hafi skattframtöl vegna áranna 2017 til 2019 verið lögð til grundvallar.

Við ákvörðun í málinu hafi lánanefnd Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar talið, með hliðsjón af framangreindu, óumdeilt að tekjur á ársgrundvelli væru yfir skilgreindum tekjumörkum samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010. Í árslok 2019 hafi eignir samanstaðið af inneign í bönkum að fjárhæð 246.776 kr., hlutafé að fjárhæð 500.000 kr. í tilteknu einkahlutafélagi og bifreiðum/hjólhýsum að fjárhæð 4.029.710 kr. Eftirstöðvar skulda hafi numið 4.217.996 kr. Það hafi því verið niðurstaða lánanefndar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir niðurfellingu eftirstæðrar kröfu og af þeirri ástæðu bæri að synja kæranda. Til skoðunar hafi komið hvort ástæða væri til að veita undanþágu frá skilyrðum 2. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar á grundvelli málefnalegra sjónarmiða, sbr. 6. mgr. 6. gr. Lagt hafi verið heildstætt mat á hagi kæranda þar sem meðal annars hafi verið litið til greiðslugetu, fjölskylduaðstæðna, framfærslubyrðar og aflahæfi. Samkvæmt greiðslumati sé tekjuafgangur 355.128 kr. en mánaðarleg greiðslubyrði af lánum, þar með talið bílaláni, sé samtals 98.607 kr.

Að mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar séu möguleikar kæranda til að afla tekna góðir en starf hans sé að eigin sögn stöðugt. Maki kæranda sé sem standi á endurhæfingarlífeyri með starfshæfni að markmiði. Ljóst sé að greiðsla endurhæfingarlífeyris sé tímabundin, enda sé ófyrirséð hver starfshæfni hennar verði til lengri tíma litið. Kærandi og maki hans eigi fjögur börn og þau séu búsett í leiguhúsnæði. Í greinargerð kæranda sem hafi verið höfð til hliðsjónar við mat á fjölskylduaðstæðum komi fram að eitt barn þeirra sé með dæmigerða einhverfu, sein- og misþroska og að ADHD greining væri í gangi. Að sögn kæranda hafi þetta áhrif á fjárhag fjölskyldunnar. Stofnunin bendi á að fjölskyldan fái umönnunargreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins til að mæta kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, meðferðar og þjálfunar.

Það hafi verið niðurstaða lánanefndar að ekki væri tilefni til að afskrifa skuldina að fullu, enda megi ætla að kærandi geti endurgreitt hluta kröfunnar að teknu tilliti til greiðslugetu. Nefndin hafi þannig samþykkt að heimilt væri að semja um niðurfellingu kröfunnar við kæranda og lagt til að hann myndi greiða annaðhvort með eingreiðslu 2.050.000 kr. eða 150.000 kr. á mánuði í 18 mánuði. Ef slíkt samkomulag hefði verið efnt af hálfu kæranda myndu eftirstöðvar kröfunnar verða felldar niður. Kærandi hafi kosið að semja ekki við stofnunina um greiðslu hluta kröfunnar en þess í stað kært ákvörðunina. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun geri þá kröfu að ákvörðun lánanefndar í málinu verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, um synjun á umsókn kæranda um afskrift á skuld við sjóðinn.

Um afskriftir veðkrafna fer eftir 47. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laganna er heimilt að afskrifa útistandandi veðkröfur stofnunarinnar sem glatað hafa veðtryggingu við nauðungarsölu íbúðar. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að afskrifa slíkar kröfur að liðnum þremur árum frá sölu fasteignar skuldara. Í 5. gr. reglugerðarinnar kemur fram að skuldari geti hvenær sem er greitt inn á kröfu sem glatað hefur veðtryggingu og að Íbúðalánasjóði sé heimilt að koma til móts við skuldara við hverja greiðslu með því að fella niður af kröfunni til viðbótar sömu fjárhæð og greidd hafi verið. Með því sé krafa að fullu greidd þegar skuldari hafi greitt helming hennar.

Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar eru tilgreind skilyrði fyrir afskrift á kröfu sem glatað hefur veðtryggingu. Þar segir:

  1. Eignir umfram skuldir séu ekki meiri en 6.500.000 kr. hvort sem um er að ræða einstakling eða hjón/sambúðarfólk.
  2. Tekjur á ársgrundvelli séu ekki hærri en 3.622.600 kr. fyrir einstakling eða 4.791.180 kr. fyrir hjón eða sambúðarfólk, að viðbættum 570.000 kr. fyrir hvert barn á framfæri skuldara yngra en 20 ára.

Í 6. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur fram að heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. ef sérstakar málefnalegar ástæður liggi fyrir. Meta skal fjárhagsstöðu skuldara með framkvæmd greiðsluerfiðleikamats og heimilt er að semja um niðurfellingu á grundvelli niðurstöðu mats á greiðslugetu. Í kafla 11 í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða er fjallað um afgreiðslu umsókna. Þar segir í grein 11.1 að eignir og tekjur umsækjanda skuli byggðar á meðaltali síðustu þriggja ára samkvæmt skattframtali en heimilt sé að byggja á samtímagögnum ef greiðsluerfiðleikanefnd þyki tilefni til. Við greiðsluerfiðleikamat sé miðað við dæmigert viðmið framfærslu, útgefnu af velferðarráðuneyti. Rekstrarkostnaður fasteignar og bifreiðar skuli metinn með sama hætti og gert sé í greiðslumati vegna nýrra lána. Ekki sé tekið mið af greiðslubyrði skuldbindinga vegna LÍN. Þá sé heimilt að horfa ekki til greiðslubyrðar skuldbindinga sem telja verði óhóflegar í ljósi fjárhagsstöðu viðkomandi. Í grein 11.2 kemur fram að með umsókn skuli fylgja skattskýrslur síðustu þriggja ára og afrit af launaseðlum síðustu þriggja mánaða. Heimilt sé að kalla eftir frekari gögnum ef ástæða þyki til. Umsóknin fari til vinnslu hjá starfsmanni á viðskiptasviði sem stilli upp erindi og leggi fyrir greiðsluerfiðleikanefnd á þar til gerðu eyðublaði með rökstuddri tillögu.

Í gögnum málsins liggja fyrir upplýsingar um tekjur kæranda og maka hans. Samkvæmt þeim eru tekjur þeirra á ársgrundvelli umtalsvert yfir skilgreindum tekjumörkum 2. tölul. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 359/2010, sbr. 4. mgr. sömu greinar, og því eru skilyrði fyrir niðurfellingu kröfunnar ekki uppfyllt. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur vísað til þess að einnig hafi verið lagt heildstætt mat á hagi kæranda og hvort tilefni stæði til að afskrifa skuldina á grundvelli málefnalegra sjónarmiða. Við það mat hafi verið litið til greiðslugetu, fjölskylduaðstæðna, framfærslubyrðar og aflahæfis. Stofnunin hafi talið möguleika kæranda til að afla tekna góða. Því megi ætla að kærandi geti endurgreitt hluta kröfunnar, að teknu tilliti til greiðslugetu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið gögn málsins og telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við framangreint mat stofnunarinnar. Synjun á umsókn kæranda um afskrift á skuld er því staðfest.

 

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 16. júní 2020, um synjun á umsókn A, um afskrift á skuld, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta