Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 340/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 340/2016

Miðvikudaginn 1. mars 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 2. september 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. ágúst 2016 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 23. maí 2016. Með örorkumati, dags. 9. ágúst 2016, var umsókn kæranda synjað en henni metinn örorkustyrkur tímabundið frá 1. febrúar 2016 til 30. september 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. september 2016. Með bréfi dags, 7. september 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. október 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst greiðslna örorkulífeyris.

Í kæru greinir kærandi frá því að hún fari fram á 75% örorku þar sem að hún sé ekki vinnufær og að hún sé búin að kanna alla möguleika og láta reyna á þá. Hún hafi veikst sumarið X þegar hún starfaði á […]. Hún hafi brunnið út í vinnu og verið undir miklu álagi. Hún hafi hætt að geta sofið fyrir verkjum og kvíða. Hún hafi lagst í mikið þunglyndi og verið endalaust þreytt. Þá hafi hún ekki séð annan kost en að taka sitt eigið líf en maðurinn hennar hafi komið í veg fyrir það. Í kjölfarið hafi hún hætt að vinna og byrjað í endurhæfingu og hafi unnið mikið í sjálfri sér til að koma sér á rétt ról. Henni hafi farið að líða betur og getað minnkað verulega inntöku verkjalyfja. Fyrir ári hafi hún byrjað í vinnuprófun í gegnum VIRK og hafi það gengið vel til að byrja með. Mánuði eftir að hún byrjaði að vinna sem […] hafi fyrra ástand tekið sig upp aftur. Hafi hún þá byrjað aftur í nuddi og læknisheimsóknum og inntöku meiri lyfja. Þá hafi mígrenið byrjað aftur. Hún hafi orðið orkulaus og ekki lengur getað séð um heimili og börn ásamt því að hafa byrjað að einangra sig og fá kvíða- og hræðsluköst. Hún hafi hætt að sinna sjálfri sér og ekki getað sinnt endurhæfingu vegna þreytu og verkja. Sjálfsvígshugsanir hafi komið aftur ásamt miklu vonleysi.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kært sé örorkumat Tryggingastofnunar, dags. 9. ágúst 2016.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.

Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar sem skiptist í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. almannatryggingalaga þeim sem skortir a.m.k. helming starfsorku sinnar.

Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Við örorkumat þann 9. ágúst 2016 hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 17. maí 2016, skoðunarskýrsla, dags. 14. júlí 2016, yfirlit frá VIRK, dags. 2. maí 2016, svör umsækjanda við spurningalista vegna færniskerðingar og umsókn um örorku.

Við skoðun með tilliti til staðals hafi komið fram að svefnvandamál hefðu áhrif á dagleg störf, andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf, henni finnist oft að hún hafi svo mörgu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis, hún kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna, hugaræsingur vegna hversdagslegra atburða leiði til óviðeigandi/truflandi hegðunar og hún ergi sig yfir því sem ekki hafi angrað hana áður en hún hafi orðið veik. Þetta hafi ekki nægt til að uppfylla efsta stig örorku en henni hafi verið veittur örorkustyrkur.

Í þessu tilviki hafi umsækjandi ekkert stig hlotið í líkamlega hlutanum og átta stig í þeim andlega. Þetta nægi ekki til þess að uppfylla skilyrði efsta stigs samkvæmt staðli en umsækjandi hafi verið talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks og hafi hann því verið veittur.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. ágúst 2016. Umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en henni metinn örorkustyrkur tímabundið. Ágreiningur snýst um hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá stofnuninni samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Samkvæmt fylgiskjalinu fjallar fyrri hluti örorkustaðalsins um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni. Þar leggjast öll stig saman og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Með umsókn kæranda um örorkulífeyri fylgdi vottorð B læknis, dags. 17. maí 2016, en samkvæmt því eru sjúkdómgreiningar kæranda eftirfarandi:

„Ofvirkniröskun

Depressio Mentis

Fibromyalgia

Streituröskun eftir áfall“

Þá er sjúkrasögu hennar lýst svo:

„Sjá endurhæfingarvottorð frá 05.05.2015. Vil einnig vísa í gögn frá Virk sem fylgja með þessu vottorði. Frá síðasta vottorði 05.05.15 hefur eftirfarandi gerst: Kom til mín 21.05.2015 og sagðist þá líða betur eftir að hún hafi aukið Zoloft í 150 mg x 1. Ég fékk síðan bréf frá C á D X, A hefði notið þjónustu D í tæpt ár, var vísað í D af […] stuttu eftir fæðingu E sem þarna var orðinn X, D þjónustar foreldra […].

Tilvísunarástæða voru áhyggjur af tengslamyndun við drenginn. A kaus að halda maka sínum fyrir utan meðferðarviðtölin sem á á skjön við hugmyndafræði D. F geðlæknir hafði einnig hitt A og hafði nýlega hafið lyfjameðferð með Ritalin Uno 40 mg x 2 og Imovane 7,5 mg p.n. A var ánægð með þessa lyfjameðferð og upplifi betri líðan. Hugmyndin var að F myndi hitta hana áfram á stofu í einhverntímann.

[…]. Í lokaviðtali 29.06. tjáði A D að fjölskyldulíf og samskipti við maka gengi betur og eins liði […] betur. Hún hefði fullan hug á að efla sig, bæði líkamlega og andlega. Hún hafði nýlega fengið styrk til að útfæra hugmyndir sínar í […] sem gaf henni mikið. Álagið heima þó áfram mikið en hún var lausnamiðaðri en áður þegar henni leið sem verst. Þó var áhyggjuefnið að það var ekki í sjónmáli dagvistunarúrræði eða dagmóðir fyrir E, en A hafði fengið […] sína til að passa hann að hluta […] svo gæti sinnt […].

Hún hefur hug á því að leita til G sálfræðings sem hún hafði af og til leitað til um langt skeið og er enn að því. Mun reyna að hafa samband við F fljótlega. Fór síðan í ristilspeglun í X. Ég hitti hana síðan í nóvember. Hafði þá sótt um gömlu vinnuna aftur en ekki fengið hana. Var í vinnuprufu á vegum VIRK. Það kom fram að […]. Við jukum Zoloft í 200 mg x 1. Fór síðan vegna verkja í vinstri úlnlið til H skurðlæknis X. og tekin var rtg.mynd. Þar sást status eftir brot á processus styloideus ulna og er lítið fragmen þar distalt við processus styloideus ulna. Lítil ummerki voru um brot í radius og liðbil í radiocarpal liðnum virtust ágætlega varðveitt. H sendi tilvísun á J bæklunarskurðlækni. Þar er talað um mögulegt ganglion sem þurfi aðgerðar við. Þetta var síðan lagað X. Það gekk vel. Hún kom til mín 16.12. þá kom fram að hún ætti að vera í þrjá mánuði með […]hér í bæ. Hún var nýbúin að hitta G og leið betur en fann samt kvíða og þreytu á milli. Var enn að bíða eftir […]sem fram átti að fara í janúar. […]. Hélt áfram með Zoloft 200 mg x 1. Síðan barst bréf frá J sem staðfesti að líklega væri hér um dorsalganglion að ræða. Kom síðan til mín í lok janúar og var slæm af vöðvabólgu þrátt fyrir að hafa verð á K. Spurning var um þvagsýrugigt í stórutá. Ákveðið að mæla þvagsýru í kasti en gigtarlæknir hafði velt þessu fyrir sér. Ekki fengið slíkt kast síðan. Við töluðum að hún þyrfti að fara í nudd. Kom síðan til L 22.02.2016. Var þreytt. Ákveðið var að nota Imigran út af höfuðverki. Það hefur hjálpað. Henni var ráðlagt að auka aftur Zoloft upp í 200 mg. Ég hitti hana síðan aftur 29.02. Henni leið betur þá. Það kom fram að mikil ættarsaga væri um Migreni. Hefði fengið mataræðisráðgjöf hjá M hjúkrunarfræðingi hjá okkur. Var aum í hnakkabarði og herðum. Þann 31.03. hitti hún mig á ný og hún sagði mér að hún hefði versnað við að vinna með […] sem ég nefndi áður. Var hætt því. Ég sendi hana því aftur til VIRK til mats á því hvort að um frekari starfsendurhæfingu yrði að ræða. Svo er ekki. Ég tel því ekki eftir neinu að bíða að sækja um örorku þar sem konan er ekki vinnufær.“

Um skoðun á kæranda 17. maí 2016 segir í vottorðinu:

„Hæð er X cm og þyngd X kg. Sjá að öðru leyti að ofan og áður.“

Samkvæmt vottorðinu var kærandi metin óvinnufær frá X 2012 og ekki búist við að færni aukist.

Meðfylgjandi umsókn um örorku fylgdi yfirlit yfir feril hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði, dags. 2. maí 2016. Þar segir meðal annars að kærandi hafi verið í þjónustu VIRK frá […] til […]. Á því tímabili hafi hún farið í 37 viðtöl hjá ráðgjafa VIRK ásamt því að hafa farið í eftirfarandi starfsendurhæfingarúrræði: Einstaklingsviðtal hjá sálfræðingi, sjúkraþjálfun, starfsþjálfun og fjármálanámskeið. Þá kom þar fram að kærandi hafi útskrifast þann 14. janúar 2016 í 75% starf. Með framangreindu yfirliti fylgdi sérhæft mat, dags. 4. mars 2013 og starfsgetumat 8. janúar 2015.

Í sérhæfðu klínísku mati læknis, dags. 4. mars 2013, segir svo:

„Kona með mjög erfiða sögu sálfélagslega. […]. Ung komin í neyslu og upplifði erfiða hluti. Móðir X ára og þá í óreglu og þurfti að standa á eigin fótum eða reiða sig á misstyðjandi umhverfi og fjölskyldu. Fann þegar fyrir þunglyndi á skólaaldri og upplifði einangrun og einelti. Erfiðleikar við að smíða eigin sjálfsmynd. Átröskun. Þunglyndi. Áfallastreita. Einkenni ofvirkni. Vefjagigt, síþreyta. Kynntist loks eðlilegu lífi þegar húntók saman við núverandi maka og barnsföður að […] árið X. Og þrátt fyrir þessa sögu kemur nú fram sterkur vilji til að komast áfram í lífinu og finnur að sálfræðimeðferð, þjálfun og virkni skila árangri.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 1. júní 2016, sem hún skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún þjáist af síþreytu, vefjagigt, áfallastreituröskun, þunglyndi, mígreni og spennuhöfuðverk. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að það sé erfitt ef hún sitji lengi, þá fái hún verki í mjóbak og mjaðmir. Kærandi svarar spurningu um hvort að erfitt sé að beygja sig eða krjúpa þannig að á því sé dagamunur, stundum ekki erfitt en svo komi dagar þar sem það sé erfitt vegna mjóbaks og mjaðma. Kærandi svarar spurningu um hvort erfitt sé að standa játandi, ef hún standi mikið og lengi þá séu meiri líkur á verkjum um nóttina og fótapirringi. Kærandi svarar spurningu um hvort hún eigi erfitt með að ganga á jafnsléttu þannig að það sé erfitt þegar mjaðmirnar séu aumar. Kærandi svarar spurningu um hvort erfitt sé að ganga upp og niður stiga þannig að það sé aðallega erfitt sé gólfið steinn, það taki á verkjalega. Kærandi svarar spurningu um hvort erfitt sé að nota hendurnar þannig að það sé erfitt ef hún geri mikið og allt sem hún geri fyrir ofan höfuð sé erfitt. Þá sé vinstri hönd slæm eftir brot. Kærandi svarar spurningu um hvort erfitt sé að lyfta og bera þannig að það sé erfitt ef hlutirnir séu þungir þar sem hún verði mjög verkjuð á eftir. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í vandræðum með sjón þannig að hún noti gleraugu og þoli illa ljós út af mígreni. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi, um sé að ræða þunglyndi, sjálfsvígshugsanir, áfallastreituröskun og kvíða.

Skýrsla N skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 14. júlí 2016. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún geti ekki setið nema tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi eigi ekki við líkamlega færniskerðingu að etja. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að svefnvenjur kæranda hafi áhrif á dagleg störf. Andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf. Kæranda finnist oft að hún hafi svo mörgu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis. Kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Hugaræsing vegna hversdagslegra atburða leiði til óviðeigandi/truflandi hegðunar. Þá ergi kærandi sig yfir því sem ekki hefði angrað hana áður en hún hafi veikst. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir geðheilsu kæranda í skýrslu sinni þannig að það sé saga um ofvirkniröskun, þunglyndi, kvíða og streituröskun og að hún sé á lyfjum. Þá lýsir skoðunarlæknir atferli kæranda í viðtali með eftirfarandi hætti:

„Kemur vel fyrir og er snyrtileg. Myndar góðan kontakt og gefur greinargóða sögu og er viðræðugóð. Róleg og yfirveguð og geðslag telst eðlilegt. Dómgreind er í lagi og innsæi gott.“

Skoðunarlæknir lýsir læknisskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:

Almennt:

Er X cm á hæð og vegur X kg. Samsvarar sér vel. Kvik í hreyfingum. Situr eðlilega í viðtalinu í 45 mín. Stendur upp án þess að styðja sig við. Göngulag eðlilegt. Hreyfingar liprar. Líkamsstaða bein.

Skoðun Stoðkerfis:

Getur staðið á tám og hælum og sest niður á hækjur sér. Hreyfiferlar í hálsi eru eðlilegir. Lyftir báðum örmum beint upp. Heldur höndum fyrir aftan hnakka. Við framsveigju í hrygg vantar 5 cm á að fingur nái gólfi. Aftursveigja, hliðarsveigja og snúningur allt fremur liprar hreyfingar. Vægir verki í lok hreyfiferla.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur engin stig samkvæmt örorkustaðli. Að mati skoðunarlæknis er andleg færniskerðing kæranda sú að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Skoðunarlæknir metur það svo að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt staðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kæranda finnist oft að hún hafi svo mörgu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Þá leiði hugaræsingur vegna hversdagslegra atburða til óviðeigandi eða truflandi hegðunar. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt staðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi ergi sig á hlutum sem ekki hafi angrað hana áður en hún varð veik. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt staðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til átta stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin gerir þá athugasemd við skoðunarskýrslu að skoðunarlæknir meti það svo að geðsveiflur valdi umsækjanda ekki óþægindum einhvern hluta dagsins. Rök skoðunarlæknis eru þau að kærandi kveðst aðspurð ekki vera sveiflótt á geði. Þó fær kærandi stig samkvæmt staðli vegna þess að hugaræsingur leiðir til óviðeigandi hegðunar. Rök skoðunarlæknis fyrir því mati er að kærandi eigi til að missa stjórn á skapi sínu. Þá kemur eftirfarandi fram í lýsingu á skapferli kæranda í skoðunarskýrslu: „Kveðst vera jafnlynd og skapgóð en ekki sveiflótt. Hún sé hins vegar pirruð og með stuttan kveikjuþráð hina síðustu mánuði. Á það til að missa stjórn á skapi sínu. […]“ Úrskurðarnefndin telur framangreint gefa til kynna að geðsveiflur valdi kæranda óþægindum einhvern hluta dagsins. Þrátt fyrir að kæranda væri veitt stig fyrir þetta atriði myndi það hins vegar ekki hafa áhrif á niðurstöðu málsins þar sem það gefur einungis eitt stig samkvæmt staðlinum. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk ekkert stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og níu stig úr þeim hluta staðals er varðar andlega færni, þá uppfylli hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta