Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 361/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 361/2016

Miðvikudaginn 8. mars 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 19. september 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2016 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum vegna ársins 2015 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 26.474 kr. að teknu tillit til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Kæranda var tilkynnt um framangreint uppgjör og ofgreiðslu með bréfi, dags. 21. júní 2016. Þann 19. ágúst 2016 óskaði kærandi eftir rökstuðningi stofnunarinnar fyrir framangreindri ákvörðun og var hann veittur með bréfi, dags. 25. ágúst 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. september 2016. Með bréfi, dags. 22. september 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 21. október 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2015 verði endurskoðaður. Í kæru segir að kærandi hafi óskað rökstuðnings Tryggingastofnunar ríkisins vegna meðhöndlunar stofnunarinnar á styrkjum sem hún hafði fengið frá B við endurreikning framangreinds árs. Kærandi gerir sérstakar athugasemdir við eftirfarandi orðalag í svarbréfi Tryggingastofnunar sem hafi verið svohljóðandi: „Þessar greiðslur eru ekki skilgreindar sem atvinnutekjur þar sem skilyrði greiðslna þeirra er ekki atvinnuþátttaka.“ Það séu sérstaklega hugtökin „atvinnutekjur“ og „atvinnuþátttaka“ sem hún sé hugsi yfir. Sagt er frá því í kæru að á meðan kærandi hafi verið á vinnumarkaði hafi hún verið félagsmaður í B og hafi greitt félagsgjald í prósentuhlutfalli af sínum tekjum. Þá hafi vinnuveitandinn einnig greitt til B margs konar framlög sem hlutfall af launum. Með greiðslum þessum hafi safnast upp sjóðir sem hún hafi aðgang að. Varasjóðurinn hafi orðið til af hennar félagsgjaldi sem hún hafi greitt til B og hafi farið eftir launum hennar. Þessa styrki hafi kærandi nýtt sér á árinu 2015 til frekara náms og í tómstundir, enda hafi hún verið búin að vinna fyrir þeim með sinni atvinnuþátttöku til margra tuga ára. Skapast hafi rými þegar atvinnuþátttöku hafi lokið til að nýta þessa styrki sem hafa orðið til af hennar vinnuframlagi. Þá er það sérstaklega tilgreint að styrkirnir fáist ekki greiddir nema framvísað hafi verið kvittun fyrir greiðslu á því sem styrkurinn nái til.

Kærandi sé því ósátt við að þessir styrkir skuli hafa þau áhrif á mánaðarlegar tekjur hennar frá Tryggingastofnun ríkisins og að henni skuli gert að greiða til baka til þeirra sem þessum styrkjum nemi. Þetta séu sannanlega aðgangur að sjóðum sem henni hafi tekist að safna upp á meðan á atvinnuþátttöku hafi staðið og hún hafi aðgang að í þrjú ár eftir að greiðslu félagsgjalds lýkur.

Á þeim tíma sem hún hafi verið á vinnumarkaðnum hafi hún nýtt sér eitthvað úr sjóðunum en laun hennar hafi ekki lækkað. Sannarlega hafi kærandi greitt skatt af styrkjunum en vinnuveitandinn hafi ekki verið að skipta sér af því hvort hún hafi nýtt sér þá eða ekki.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta 2015. Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað teljist til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Um skattskyldar tekjur sé fjallað um í II. kafla laga um tekjuskatt. Í 1. tölulið, A-liðar, 7. gr. laganna sé fjallað um atvinnutekjur í skilningi tekjuskattslaga en í 2. tölulið, A-liðar, 7. gr. sé fjallað um styrki.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Á árinu 2015 hafi kærandi verið með ellilífeyri og tengdar greiðslur allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 26.474 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2016 vegna tekjuársins 2015, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum á skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun þann 14. janúar 2015. Samkvæmt tillögunni hafi verið gert ráð fyrir að árið 2015 væri kærandi með 73.224 kr. í launatekjur, 2.239.920 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 60.000 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi hafi leiðrétt þessa tekjuáætlun og sent inn nýja þann 27. janúar 2015 og í henni hafi verið gert ráð fyrir að árið 2015 væri kærandi með 2.240.000 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 96.000 kr. í fjármagnstekjur.

Við bótauppgjör ársins 2015 hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með 2.188.142 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 89.541 kr. í fjármagnstekjur og 134.151 kr. í aðrar tekjur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2015 hafi verið sú að kærandi hafi fengið of háar greiðslur í bótaflokkunum tekjutryggingu, heimilisuppbót og orlofs- og desemberuppbót.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og einnig fyrir dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2015 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt á árinu 1.302.659 kr. en hafi átt að fá greitt 1.260.436 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 26.474 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Ágreiningur þessarar kæru snúi fyrst og fremst að meðhöndlun Tryggingastofnunar á styrk sem kærandi hafi fengið greiddan á árinu 2015. Eins og komið hafi verið að hér að framan þá sé skilgreint í 1. ml. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar hvað teljist til tekna og sé þar vísað í II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Samkvæmt 7. gr. laga um tekjuskatt sé meginregla II. kafla laganna sú að skattskyldar tekjur teljist vera hvers konar gæði, arður laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og ekki skipti máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær séu. Síðan sé talið upp í A, B og C-liðum margvíslegar tekjur sem séu skattskyldar. A-liður greinarinnar skiptist í fjóra tölusetta undirflokka. Samkvæmt 1. tölulið A-liðar greinarinnar teljist til skattskyldna tekna endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, án tillits til viðmiðunar, sem innt sé af hendi fyrir annan aðila og teljist þessar tekjur vera atvinnutekjur. Samkvæmt 2. tölulið A-liðar teljist til skattskyldra tekna tryggingabætur, meðlög og styrkir ásamt fleiru. Umræddur styrkur sem kærandi fékk greiddan sé skattskyldar tekjur samkvæmt 2. tölulið A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og teljast þær til tekna samkvæmt almannatryggingalögum og eigi því sem slíkar að hafa áhrif á útreikning tekjutengdra bóta og njóta ekki frítekjumarks.

Þá segir að styrkir, líkt og þeir sem kærandi hafi fengið, séu eðlisólíkir þeim greiðslum sem teljist atvinnutekjur og séu aðgreindir á greinilegan hátt frá þeim í lögum um tekjuskatt.

Áður hafi reynt á þetta hjá forvera núverandi úrskurðarnefndar, þ.e. úrskurðarnefnd almannatrygginga, og sé þá sérstaklega vísað til mála nr. 316/2014 og 317/2014 þar sem niðurstaða Tryggingastofnunar hafi verið staðfest og málsatvik hafi í öllum aðalatriðum verið sambærileg og í máli þessu.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2015.

Kærandi var ellilífeyrisþegi á árinu 2015 og fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt. Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreiking og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum ársins 2015 með bréfi, dags. 21. júní 2016. Niðurstaða endurreikningsins var sú að kærandi hefði fengið ofgreidda tekjutryggingu, heimilisuppbót og orlofs- og desemberuppbót, samtals að fjárhæð 26.474 kr. að teknu tilli til endurgreiddrar staðgreiðslu. Endurreikningurinn byggðist á því að tekjur kæranda á árinu 2015 hefðu verið lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð 2.188.142 kr., svokallaðar „aðrar tekjur“ að fjárhæð 134.151 kr. ásamt 89.541 kr. í fjármagnstekjur.

Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til þess að kærandi fékk greidda styrki frá B á árinu 2015. Óumdeilt er að kærandi fékk framangreinda styrki. Ágreiningur þessarar kæru snýr að meðhöndlun Tryggingastofnunar á styrkjum sem kærandi fékk greidda á árinu 2015 við endurreikning og uppgjör ársins.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt er meginregla II. kafla laganna sú að skattskyldar tekjur teljast vera hvers konar gæði, arður, laun og hagnaður sem skattaðila hlotnast og metin verða til peningaverðs og skiptir ekki máli hvaðan þær stafa eða í hvaða formi þær séu. Í A, B og C-liðum eru taldar upp margvíslegar tekjur sem eru skattskyldar. A-liður 7. gr. tekjuskattslaga skiptist upp í fjóra tölusetta undirflokka. Samkvæmt 1. tölulið A-liðar telst til skattskyldra tekna endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu án tillits til viðmiðunar sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Samkvæmt 2. tölulið A-liðar teljast styrkir meðal annars til skattskyldra tekna. Er því ljóst að umræddur styrkur sem kærandi fékk greiddan er skattskyldur sem tekjur samkvæmt 2. tölulið A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Skýr greinarmunur er gerður í lögunum á atvinnutekjum annars vegar og styrkjum hins vegar.

Í 3. málsl. b-liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er að finna ákvæði er lýtur að frítekjumarki lífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar. Fjárhæðir frítekjumarka almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2015 voru ákveðnar með reglugerð nr. 1212/2014 sem í dag er fallin úr gildi, en þar var tilgreint að lífeyrisþegi skyldi hafa 1.315.200 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar, sbr. einnig tölulið 14 í ákvæði til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar. Af gögnum málsins má ráða að kærandi telji að framangreint frítekjumark eigi við um styrkina sem hún hlaut.

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að allar þær tekjur, sem greint er frá í II. kafla laga um tekjuskatt, skerða tekjutryggingu lífeyrisþega. Eins og komið var að hér að framan er það mat úrskurðarnefndarinnar að styrkur kæranda falli undir skattskyldar tekjur samkvæmt kaflanum. Hins vegar er ákveðið frítekjumark vegna atvinnutekna samkvæmt lögum um almannatryggingar. Hvorki í lögum um almannatryggingar né í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags var á þessum tíma að finna skilgreiningu á hugtakinu atvinnutekjur. Hafa má til hliðsjónar að skilgreining atvinnutekna kom í lög um almannatryggingar með lögum nr. 88/2015 sem staðfesti fyrri túlkun á hvað telst til atvinnutekna samkvæmt lögunum. Samkvæmt þeirri skilgreiningu eru atvinnutekjur endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu samkvæmt 1. tölulið A-liðar og B-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt sem og greiðslur sem koma í stað slíks endurgjalds. Þær tekjur sem ágreiningur málsins lýtur að fékk kærandi greiddar frá B. Af gögnum málsins er ljóst að það er óumdeilt að þar hafi ekki verið um endurgjald fyrir vinnu að ræða. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefnd velferðarmála að umræddur styrkur verði ekki felldur undir atvinnutekjur í skilningi 3. málsl. b-liðar 2. mgr. nefndrar 16. gr. og því eigi framangreint frítekjumark samkvæmt reglugerð nr. 1212/2014 ekki við um styrkinn.

Tekjuáætlun kæranda gerði ekki ráð fyrir styrkjum á tekjuárinu 2015. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi bótaþega og er það á ábyrgð bótaþega sem nýtur tekjutengdra bóta að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári, sbr. áðurnefnda 39. gr. laga um almannatryggingar.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2015.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2015 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta