Mál nr. 188/2010
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 22. september 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 188/2010.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 27. september 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún hafi stundað vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 121.145 kr. fyrir tímabilið 22. júní til 19. júlí 2010 er hún uppfyllti ekki skilyrði um greiðslu atvinnuleysistrygginga skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 7. október 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þann 26. apríl 2009 og fékk greitt í samræmi við rétt sinn.
Í júlímánuði 2010 bárust eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar upplýsingar þess efnis að kærandi væri við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Kærandi hafði ekki tilkynnt til stofnunarinnar um tilfallandi vinnu eða tekjur. Eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar hófst því handa við að afla frekari upplýsinga um hagi kæranda. Athugun á samskiptasíðunni „facebook“ leiddi í ljós að kærandi hafði komið á fót versluninni „X“ og samkvæmt athugasemdum kæranda á samskiptasíðu verslunarinnar bauð kærandi upp á ásetningu gervinagla ásamt því að vera með ýmsan varning til sölu og í umboðssölu í versluninni.
Í málinu liggur fyrir leigusamningur, dags. 1. júlí 2010, um leigu kæranda á atvinnuhúsnæði til sex mánaða. Eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar mætti á vettvang þann 13. júlí 2010, en þar var enginn viðstaddur. Samkvæmt fyrirliggjandi ljósmynd var hurð verslunarinnar merkt með nafninu „X“ og símanúmeri kæranda. Í kjölfarið var kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 19. júlí 2010, að Vinnumálastofnun hefði undir höndum upplýsingar um að hún hefði verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og óskaði stofnunin eftir skriflegri afstöðu hennar. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda einnig að samkvæmt heimild þeirri sem kveðið er á um í 2. mgr. 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar, myndi stofnunin halda eftir atvinnuleysisbótum til hennar þar sem rökstuddur grunur væri á því að kærandi uppfyllti ekki lengur skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Í málinu liggur fyrir að vegna mistaka Vinnumálastofnunar hélt stofnunin ekki eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga til kæranda eins og Vinnumálastofnun hafði tilkynnt henni. Sökum þess er krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á hendur kæranda gerð án þess 15% álags sem kveðið er á um í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar segir að atvinnuleitanda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur með 15% álagi, en fella skal álagið niður ef hinn tryggði ber ekki ábyrgð á þeim annmörkum sem leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.
Engar skýringar bárust frá kæranda og með bréfi, dags. 16. ágúst 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun henni að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar skyldu stöðvaðar þar sem umbeðnar upplýsingar höfðu ekki borist stofnuninni.
Vinnumálastofnun bárust athugasemdir frá kæranda þann 31. ágúst 2010. Kærandi segist ekki hafa sett á laggirnar fyrirtæki heldur hafi verið um að ræða viðskiptahugmynd sem enn sé í vinnslu.
Með bréfi, dags. 9. september 2010, óskaði Vinnumálastofnun eftir skriflegri afstöðu kæranda til atvika í máli hennar þar sem upplýsingar liggi fyrir um að hún hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Í bréfinu er þess ekki getið við hvaða grein laga um atvinnuleysistryggingar háttsemi kæranda gæti heyrt undir heldur aðeins bent á að brot geti valdið viðurlögum skv. XI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun bárust skýringar frá kæranda í tölvupósti, dags. 13. september 2010, en afrit af þeim tölvupósti ásamt öðrum samskiptum kæranda og starfsmanns Vinnumálastofnunar fylgdu kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. október 2010. Í svarpósti starfsmanns Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 14. september 2010, kemur fram að Vinnumálastofnun hafi þurft að gæta andmælaréttar kæranda og af þeim sökum hafi orðið að senda henni nýtt bréf, þar sem henni hafi verið gerð grein fyrir mögulegum viðurlögum og gefa henni tækifæri á að koma andmælum á framfæri. Ráða má af gögnum málsins að verið sé að vísa til áðurnefnds bréfs Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 9. september 2010. Í öðrum tölvupósti frá starfsmanni Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 15. september 2010, kemur síðan fram að búið sé að taka ákvörðun í máli hennar og verði ákvörðunin tilkynnt með formlegu bréfi í vikunni. Ákvörðun Vinnumálastofnunar sé sú að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að hún þurfi að sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem þýði að hún þurfi að starfa í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði til þess að eiga aftur rétt á atvinnuleysisbótum. Jafnframt verði innheimtar ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá og með 22. júní 2010 en án álags, samtals 121.145 kr.
Í skýringarbréfi kæranda, dags. 31. ágúst 2010, segir hún að hún hafi ekki stundað vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Kærandi segir að hún hafi hægt og rólega verið að vinna í því að láta viðskiptahugmynd sína verða að raunveruleika, en hægt hafi gengið að koma þeirri hugmynd í framkvæmd þar sem hún sé ófrísk og heilsufar hennar á meðgöngunni hafi verið slæmt. Kærandi segir að hún hafi verið að skoða ýmsa valkosti og að hún hafi skráð sig á námskeið hjá ríkisskattstjóra í því skyni að læra meira um rekstur eigin fyrirtækis.
Í tölvupósti, dags. 13. september 2010, gagnrýnir kærandi málsmeðferð Vinnumálastofnunar og segist hafa fengið misvísandi svör og að erfiðlega gangi að ná tali af starfsmönnum stofnunarinnar til þess að fá svör við spurningum um meðferð máls hennar. Kærandi gagnrýnir einnig að Vinnumálastofnun hafi sent póst í annað sinn þar sem óskað er eftir upplýsingum, þegar þær upplýsingar hafi legið fyrir, þar sem kærandi hafi sent skýringarbréf þann 31. ágúst 2010, eða níu dögum fyrr.
Kærandi staðfestir að hún hafi tekið húsnæði á leigu í því skyni að hefja þar rekstur, en hún hafi ekki opnað verslunina og hún hafi ekki fengið VSK-númer fyrir reksturinn. Því sé um að ræða viðskiptahugmynd sem sé í vinnslu en hún hafi ekki hafið rekstur fyrirtækis.
Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. október 2010, bendir kærandi á að hún hafi fengið tölvupóst, dags. 14. september 2010, þar sem henni hafi verið tilkynnt að Vinnumálastofnun væri búin að taka ákvörðun í máli hennar og að hún verði látin sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þann 16. september 2010 hafi hún hins vegar fengið bréf frá Vinnumálastofnun þar sem henni er tilkynnt að umsókn hennar um styrk til þróunar á eigin viðskiptahugmynd hafi verið samþykkt. Kærandi segir að starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi síðan lesið inn skilaboð á talhólf farsíma hennar þar sem henni hafi verið tilkynnt að hún myndi ekki fá umræddan styrk. Kærandi bendir jafnframt á að engar tekjur hafi komið frá rekstri verslunar hennar, X, þar sem sá rekstur hafi ekki verið hafinn. Kærandi segir að hún hafi ekki verið komin með virðisaukaskattsnúmer, hún hafi hvorki verið búin að merkja glugga verslunarinnar né vörur og hún hafi ekki verið að auglýsa verslunina eða vörur. Kærandi segir að hún hafi eingöngu verið að nýta tækifæri sem henni bauðst, til þess að taka á leigu hentugt húsnæði með hagstæðri leigu, fyrir þann rekstur sem hún hafi áætlað að hefja síðar.
Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga dags. 2. febrúar 2011, bendir Vinnumálastofnun á að upplýsingar hafi borist stofnuninni í júlímánuði 2010 um að kærandi væri við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi ekki tilkynnt um tilfallandi vinnu eða tekjur. Eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar hafi því grennslast fyrir og gert athuganir á samskiptasíðunni „facebook“ þar sem í ljós hafi komið að kærandi hafi stofnað verslun er bar nafnið „X“.
Vinnumálastofnun vísar til athugasemda á áðurnefndri síðu kæranda á „facebook“ þar sem skýrt komi fram að kærandi hafi boðið upp á förðunarþjónustu ásamt því að selja snyrtivörur og hafi auglýst eftir íslenskri hönnun í umboðssölu. Eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar hafi því farið á vettvang og gert athugun á starfsstöð verslunarinnar „X“ þann 13. júlí 2010. Enginn hafi verið viðstaddur en símanúmer kæranda hafi verið skráð á merktri hurð verslunarinnar, eins og sjá megi á fyrirliggjandi ljósmynd sem eftirlitsdeildin tók á vettvangi.
Vinnumálastofnun vísar til athugasemda sem stofnuninni bárust frá kæranda þann 31. ágúst 2010 þar sem kærandi mótmælir því að hún hafi verið við störf samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Telur Vinnumálastofnun að skýringar kæranda séu í engu samræmi við upplýsingar stofnunarinnar, fullyrðingar kæranda á samskiptasíðunni „facebook“ og þeirri staðreynd að kærandi hafið starfrækt verslun sem býður upp á þjónustu og hefur til sölu ýmsan varning.
Vinnumálastofnun áréttar að í 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um markmið laganna sem sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan sá tryggði leitar að starfi. Í 13. og 14. gr. laganna sé kveðið á um það meginskilyrði að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur verði að vera í virkri atvinnuleit. Nánar sé kveðið á um það í a–h-liðum 1. mgr. 14. gr. hvað telst vera virk atvinnuleit. Sé meðal annars gert ráð fyrir því að sá sem þiggur atvinnuleysisbætur hafi vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara og sé reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. c- og d-lið 1. mgr. 14. gr.
Vinnumálastofnun vísar einnig til þess að með lögum nr. 134/2006, til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir þeim atvikum sem geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins verði beitt. Segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefur stofnuninni „vísvitandi rangar upplýsingar“ sem leiða til þess að atvinnuleitandi telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta. Þá sé einnig gert ráð fyrir því að sömu viðurlög eigi við ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna. Þá segi að hið sama eigi við í „tilvikum er ætlaður atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu skv. 11. gr. frumvarpsins. Verður þetta að teljast mikilvægur liður í því að sporna við „svartri atvinnustarfsemi“ þar sem atvinnuleitendur sem fá greiddar atvinnuleysisbætur verða að tilkynna fyrir fram um hina tilfallandi vinnu eða samdægurs í nánar tilgreindum undantekningartilvikum.“
Vinnumálastofnun vísar til andmæla kæranda sem stofnunin telur að snúi aðallega að því hversu langt á leið umræddur rekstur verslunar hennar hafi verið kominn og hversu umfangsmikil starfsemin hafi verið á þeim tímapunkti er eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar fór að starfsstöð verslunarinnar þann 13. júlí 2010. Samkvæmt athugasemdum á samskiptasíðu verslunarinnar var versluninni lokað frá 8. júlí til 22. júlí 2010 vegna sumarleyfis. Vinnumálastofnun bendir á að stofnunin hafi ekki undir höndum afgerandi upplýsingar um umfang starfseminnar, enda sé ekki til að dreifa opinberum gögnum um tekjur kæranda. Telur Vinnumálastofnun engu að síður að því verði slegið föstu að starfsemi verslunarinnar hafi hafist á sama tímabili og kærandi hafi þegið atvinnuleysisbætur.
Í ljósi afdráttarlausra athugasemda frá kæranda sjálfri á samskiptasíðu hennar á „facebook“ og upplýsingum frá kæranda um starfsemi „X“ sem fram koma meðal annars í kæru hennar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. október 2010, hafnar Vinnumálastofnun andmælum kæranda. Telur Vinnumálastofnun að kærandi hafi verið við vinnu á umræddu tímabili. Þó ekki liggi fyrir upplýsingar um tekjur kæranda af starfseminni verði ekki séð að kærandi geti talist í virkri atvinnuleit í skilningi 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á sama tímabili og hún sinnti þeirri starfsemi. Þar sem kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um að hún hafi hætt atvinnuleit eða um tilfallandi vinnu, líkt og henni hafi borið skv. 3. mgr. 9. gr. og 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sé það eindregin afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.
Vinnumálastofnunar vísar til afdráttarlausrar verknaðarlýsingar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvílir á atvinnuleitendum að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar, sbr. 35. gr. a. laga nr. 54/2006. Verði að telja kæranda hafa brugðist skyldum sínum. Telur Vinnumálastofnun að ekki verði séð að skiljanlegar ástæður séu fyrir því að kærandi lét hjá líða að tilkynna stofnuninni um starfsemi sína.
Vinnumálastofnun áréttar að í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um að atvinnuleitandi sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun telji að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 22. júní til 19. júlí 2010 að fjárhæð 121.145 kr. Telji Vinnumálastofnun að kæranda beri að endurgreiða hinar ofgreiddu atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Niðurstaða Vinnumálastofnunar er því að stöðva skuli greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda og að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Starfsmaður úrskurðarnefndarinnar óskaði eftir skýringum Vinnumálastofnunar á því að kærandi hafi fengið samþykkta umsókn um styrkveitingu vegna þróunar á eigin viðskiptahugmynd á sama tíma og Vinnumálastofnun var að rannsaka meint brot hennar á lögum um atvinnuleysistryggingar, vegna sama reksturs og styrkveitingin sneri að. Í gögnum málsins var ekki að finna afturköllun á umræddri styrkveitingu.
Úrskurðarnefndinni barst svar frá Vinnumálastofnun þann 21. júlí 2011. Vinnumálastofnun bendir á að á fundi stofnunarinnar þann 15. september 2010 hafi verið tekin ákvörðun vegna umsóknar kæranda um samning á þróun eigin viðskiptahugmyndar vegna verkefnisins „Neglur, fegurð, heilsa, hönnun“. Vinnumálastofnun áréttar að þegar fyrrgreind ákvörðun hafi verið tekin hafi legið fyrir að umsækjandi hafi ekki uppfyllt skilyrði þess að fá samþykktan samning um þróun eigin viðskiptahugmyndar, en vegna mistaka stofnunarinnar hafi umsókn kæranda verið samþykkt. Fyrir hafi legið upplýsingar um að kærandi hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og óskað hafi verið eftir skýringum hennar vegna þessa með bréfi, dags. 9. september 2010.
Að fengnum skýringum kæranda hafi henni verið tilkynnt með bréfi, dags. 27. september 2010, um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar skyldu stöðvaðar og að innheimtar yrðu ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með birtingu ákvörðunarinnar hafi verið ljóst að kærandi uppfyllti ekki þau skilyrði sem fyrrgreindur samningur feli í sér, en forsenda slíks samnings sé að aðili sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins.
Í ljósi þess telur Vinnumálastofnun að með birtingu ákvörðunar frá 27. september 2010 hafi ákvörðun stofnunarinnar frá 16. september 2010 verið afturkölluð.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. febrúar 2011, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og meðfylgjandi gögnum og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum og er frestur til þess fyrir mistök veittur til 21. nóvember 2011. Kærandi kom athugasemdum sínum á framfæri með bréfi, dags. 18. febrúar 2011 sem barst 21. febrúar 2011.
2.
Niðurstaða
Vinnumálastofnun taldi sig hafa undir höndum upplýsingar þess efnis að kærandi hefði verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Talið var að kærandi ræki eigin verslun þar sem hún seldi snyrtivörur og förðunarþjónustu ásamt því að hafa auglýst eftir íslenskri hönnun í umboðssölu. Vinnumálastofnun óskaði af því tilefni eftir skriflegri afstöðu kæranda með bréfi, dags. 19. júlí 2010. Kæranda var veittur andmælafrestur til 26. júlí 2010. Engar skýringar bárust frá henni og með bréfi, dags. 16. ágúst 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar skyldu stöðvaðar, þar sem umbeðnar upplýsingar hefðu ekki borist stofnuninni. Bent var á að ekki væri ljóst hvort skilyrði 1. gr., 9. gr. og a-liðar 1. mgr. 13. gr., sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, væru uppfyllt. Vinnumálastofnun bárust athugasemdir frá kæranda þann 31. ágúst 2010. Hún kvaðst ekki hafa sett á laggirnar fyrirtæki heldur hafi verið um að ræða viðskiptahugmynd sem enn væri í vinnslu. Kærandi gerir athugasemdir við meðferð máls þessa hjá Vinnumálastofnun og hún telur að andmælaréttar hennar hafi ekki verið gætt.
Í 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um andmælarétt kemur fram að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.
Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 9. september 2010, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda til máls hennar þar sem upplýsingar lægju fyrir um að hún hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Í bréfinu er þess ekki getið við hvaða grein laga um atvinnuleysistryggingar háttsemi kæranda var talin geta heyrt undir heldur aðeins bent á að brot kærandi gæti valdið viðurlögum skv. XI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Verður því vart fullyrt að kæranda hafi með bréfi þessu verið gert fyllilega ljóst hvaða sakir væru á hana bornar þar sem henni var ekki með skýrum hætti gerð grein fyrir þeim refsikenndu viðurlögum sem ætluð brot hennar voru talin varða við. Veittur var sjö daga frestur til þess að svara bréfi þessu. Í tölvupósti frá sérfræðingi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 15. september 2010, þ.e. áður en fyrrnefndur sjö daga frestur var liðinn, kom fram að búið væri að taka ákvörðun í máli hennar og verði ákvörðunin tilkynnt henni með formlegu bréfi í vikunni. Ákvörðun Vinnumálastofnunar væri sú að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að hún þyrfti að sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem þýddi að hún þyrfti að starfa í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði til þess að eiga aftur rétt á atvinnuleysisbótum. Jafnframt verði innheimtar ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá og með 22. júní 2010 en án álags, samtals 121.145 kr. Kæranda var því ekki gefið færi á að svara bréfi Vinnumálastofnunar frá 9. september 2010 með þeim hætti sem gefinn var kostur á í bréfinu, hefði hún óskað þess, auk þess sem mikilvægar upplýsingar skorti í bréfið, þar sem ekki var vísað í þá lagagrein sem talin var eiga við í máli kæranda.
Kæranda barst síðan formlegt bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 27. september 2010, þar sem fram kemur að stofnunin hafi ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún hafi verið staðin að vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur.
Það er mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Um er að ræða íþyngjandi ákvörðun um refsikennd viðurlög þar sem miklu skipti að vanda til málsmeðferðar. Því verður að líta svo á að verulegir annmarkar séu á meðferð málsins sem leiðir til þess að ómerkja verður hina kærðu ákvörðun og vísa málinu aftur til löglegrar meðferðar.
Úrskurðarorð
Hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. september 2010 í máli A um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar er ómerkt og málinu vísað til Vinnumálastofnunar til löglegrar meðferðar.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson