Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 12/2006

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 12/2006:

A

gegn

Landspítala-háskólasjúkrahúsi

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 9. mars 2007 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru, dags. 29. ágúst 2006, óskaði kærandi A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort launakjör forstöðuiðjuþjálfa í samanburði við launakjör forstöðusálfræðinga við geðsvið Landspítala-háskólasjúkrahúss brytu í bága við ákvæði laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Landspítala-háskólasjúkrahúsi með bréfi, dags. 6. september 2006. Umsögn sjúkrahússins barst með bréfi, dags. 26. september 2006, og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri.

Kærunefnd jafnréttismála óskaði með bréfi, dags. 15. september 2006, eftir gögnum frá Bandalagi háskólamanna (BHM). Þau gögn sem nefndin óskaði eftir voru lögfræðiálit B lögfræðings sem aflað var vegna umfjöllunar BHM um mál kæranda ásamt öðrum þeim gögnum sem aflað var meðan málið var til umfjöllunar innan bandalagsins. Umbeðin gögn bárust nefndinni með bréfi, dags. 20. september 2006.

Athugasemdir kæranda við umsögn Landspítala-háskólasjúkrahúss bárust með bréfi, dags. 20. október 2006. Þær voru sendar sjúkrahúsinu til kynningar með bréfi, dags. 20. október 2006. Athugasemdir Landspítala-háskólasjúkrahúss bárust með bréfi, dags. 3. nóvember 2006, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. nóvember 2006. Athugasemdir kæranda við síðastnefndar athugasemdir sjúkrahússins bárust með bréfi, dags. 16. nóvember 2006, og voru þær sendar því til kynningar með bréfi, dags. 17. nóvember 2006.

Kærunefnd jafnréttismála óskaði með bréfi, dags. 21. nóvember 2006, eftir nánari upplýsingum frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi um ráðningarkjör forstöðuiðjuþjálfa, launaflokkaröðun þeirra og hvort kærandi fengi fastar greiðslur vegna yfirvinnu og aksturs. Þá óskaði nefndin eftir afriti af launaseðlum forstöðuiðjuþjálfa og forstöðusálfræðinga fyrstu sex mánuði ársins 2006. Umbeðin gögn bárust nefndinni með bréfi, dags. 28. nóvember 2006, og voru þau send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. nóvember 2006. Athugasemdir kæranda við gögn Landspítala-háskólasjúkrahúss bárust með bréfi, dags. 14. desember 2006, ásamt fylgigögnum.

Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.

Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

II.

Málavaxtalýsing

Kærandi veitir forstöðu iðjuþjálfun við geðsvið Landspítala-háskólasjúkrahúss og hefur gert það frá árinu 1981. Kærandi þiggur laun samkvæmt launaflokki X og fær 30 tíma greidda í yfirvinnu. Árið 2003 stóð til að raða kæranda í launaflokk Y og fella fasta yfirvinnutíma niður en það vildi kærandi ekki sætta sig við. Við geðsvið Landspítala-háskólasjúkrahúss starfar einn forstöðuiðjuþjálfi og tveir forstöðusálfræðingar en forstöðusálfræðingar þiggja laun samkvæmt launaflokki Y og fá að auki 20 yfirvinnutíma greidda á mánuði auk akstursstyrks. Forstöðuiðjuþjálfi og forstöðusálfræðingar heyra undir sviðsstjóra geðsviðs og eru störfin hliðstæð í skipuriti sjúkrahússins.

Kærandi telur sér vera mismunað í launakjörum sem forstöðuiðjuþjálfi við Landspítala-háskólasjúkrahús. Kærandi hafi fengið vitneskju um það að tveir karlmenn sem starfi sem forstöðusálfræðingar við sjúkrahúsið fái greidd mun hærri laun en hún. Þessi störf séu að mati kæranda jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga.

Landspítali-háskólasjúkrahús hafnar því að um jafnverðmæt og sambærileg störf sé að ræða, þrátt fyrir að umrædd störf séu hliðstæð í skipuriti sjúkrahússins. Meðal annars vegna þess að undir forstöðuiðjuþjálfa heyri yfiriðjuþjálfar sem leiði til þess að stjórnunarumfang forstöðuiðjuþjálfa sé minna þar sem yfiriðjuþjálfarnir annist alla daglega umsjón og yfirsýn með störfum iðjuþjálfa. Hliðstætt stöðugildi yfiriðjuþjálfa fyrirfinnist ekki innan sálfræðiþjónustu sjúkrahússins.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er byggt á því að tveir karlmenn sem sinni jafnverðmætum og sambærilegum störfum og kærandi við Landspítala-háskólasjúkrahús fái greidd mun hærri laun en hún. Kærandi telur að með því sé brotið gegn ákvæði 23. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Að sögn kæranda hófst deila kæranda við stjórn Landspítala-háskólasjúkrahúss um röðun í launaflokk árið 2001. Ákvörðun sjúkrahússins um röðun í launaflokk hafi verið óviðunandi þar sem kærandi hefði samkvæmt henni verið með sömu laun og næsti undirmaður. Því máli sé enn ólokið. Málið hafi verið sett í hendur Iðjuþjálfafélags Íslands (IÞÍ) árið 2002 og hafi launafulltrúi félagsins og formaður síðan haft samskipti við Landspítala-háskólasjúkrahús vegna þess. Kærandi hafi öðru hverju verið boðuð til fundar og kynnt staðan. Á fundi með fulltrúum IÞÍ, dags. 27. júní 2006, hafi kæranda verið afhent þau gögn sem lögð voru fram á síðasta fundi sem haldinn var vegna málsins, dags. 5. júní 2005. Eftir lestur þeirra gagna hafi kærandi öðlast vitneskju um það að tveir karlkyns starfsmenn í sambærilegum og jafnverðmætum störfum hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi hefðu verulega hærri laun en hún. Umræddir starfsmenn séu forstöðusálfræðingar hjá sjúkrahúsinu, hvor á sínu sviði, sbr. bréf þess til BHM, dags. 14. september 2005. Staða kæranda sem forstöðuiðjuþjálfi geðdeilda Landspítala-háskólasjúkrahúss og staða forstöðusálfræðinganna séu hliðsett í skipuriti þess. Forstöðusálfræðingar og forstöðuiðjuþjálfi heyri beint undir sviðsstjóra. Ábyrgð og umfang þessara starfa sé sambærilegt. Starf forstöðuiðjuþjálfa geðdeilda sé þó heldur umsvifameira og fjölþættara þar sem forstöðuiðjuþjálfi beri ábyrgð á þremur starfsstöðum með fjölbreyttri starfsemi. Það sé á ábyrgð atvinnurekenda að tryggja starfsfólki sínu jöfn laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf, kærandi telji því launatilboð Landspítala-háskólasjúkrahúss brjóta í bága við lög nr. 96/2000. Því fái ekki staðist fullyrðingar sjúkrahússins um að störfin séu ekki sambærileg sé litið til ábyrgðar, vinnuframlags og umfangs stjórnunarþátta. Kærandi telji jafnframt að sumar athugasemdir í bréfi sjúkrahússins, dags. 23. desember 2005, virðast vera settar fram með það að markmiði að komast hjá þeirri staðreynd að greidd séu mismunandi laun fyrir jafnverðmæt störf. Að beiðni IÞÍ hafi BHM leitað lögfræðiálits vegna þessa máls og á grundvelli þess hafi verið ákveðið að aðhafast ekki frekar í málinu, sbr. bréf BHM til IÞÍ, dags. 1. júní 2006. Kærandi hafi ýmislegt við lögfræðiálitið að athuga enda byggi það einungis á upplýsingum frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi og hafi ekki verið leitað upplýsinga hjá kæranda við gerð þess. Kærandi ítreki að hún hafi ekki viljað samþykkja tilboð um launakjör þar sem grunur hafi leikið á að tilboðið fæli í sér brot á jafnréttislögum.

Þar sem umrædd störf séu hliðstæð í skipuriti Landspítala-háskólasjúkrahúss telji kærandi þau vera sambærileg og jafnverðmæt, og það sé því sjúkrahússins að sanna að svo sé ekki. Að mati kæranda hafi ekki komið fram að hálfu sjúkrahússins haldbær rök fyrir því að störfin séu ekki jafnverðmæt og sambærileg.

Umrætt mál kæranda eigi sér langa forsögu. Rætur þess megi eins og áður segir rekja til ársins 2001 en þá hafi dregist að endurraða stöðu forstöðuiðjuþjálfa á geðsviði í nýtt launakerfi. Ástæður tafarinnar hafi verið deilur forstöðuiðjuþjálfa og Landspítala-háskólasjúkrahúss um hvernig að því ætti að standa. Við sameiningu spítalanna á höfuðborgarsvæðinu hafi umfang starfs forstöðuiðjuþjálfa geðsviðs orðið meira. Sameiningunni hafi fylgt aukin umsvif og ábyrgð á fleiri deildum og starfsmönnum. Því hefði verið eðlilegt að hækka laun iðjuþjálfa samkvæmt því. Ákvörðun Landspítala-háskólasjúkrahúss um skipan forstöðuiðjuþjálfa í nýju launakerfi hafi ekki falið í sér hækkun launa í samræmi við aukin umsvif og við það hafi kærandi verið ósátt, en á sama tíma hafi laun undirmanna forstöðuiðjuþjálfa hækkað í samræmi við aukin umsvif. Um árabil hafi verið reynt að ná sáttum en lausn hafi ekki náðst. Kærandi hafi lagt fram margvíslegar tillögur við sviðsstjóra geðsviðs til að leysa deiluna, til dæmis að hluti launanna yrði í formi fastrar yfirvinnu. Sviðsstjóri geðsviðs Landspítala-háskólasjúkrahúss hafi sagt slíkt ekki koma til greina, því ekki væri gert ráð fyrir neinni fastri yfirvinnu í nýjum kjarasamningum. Þetta sé athyglisvert því þrátt fyrir þessa yfirlýsingu sviðsstjóra geðsviðs sjúkrahússins við forstöðuiðjuþjálfa þá hafi sjúkrahúsið ráðið á sama tíma í starfsstöður forstöðusálfræðinga sem í báðum tilvikum séu karlmenn en föst yfirvinna sé hluti launakjara þeirra. Kæranda hafi að lokum verið boðin laun samkvæmt launaflokki Y en gengið út frá því að fastir yfirvinnutímar yrðu felldir niður, sbr. bréf sviðsstjóra sjúkrahússins til kæranda, dags. 30. maí 2003. Landspítali-háskólasjúkrahús raði þar með forstöðuiðjuþjálfa í sama launaflokk og forstöðusálfræðingum og með því hljóti sjúkrahúsið að viðurkenna að störfin séu sambærileg og jafnverðmæt. Launamunurinn hljóti þá að helgast af öðrum þáttum en röðun í launaflokka. Greiðslur til forstöðusálfræðinganna umfram launaflokk Y séu 20 klukkustunda föst yfirvinna á mánuði og aksturssamningur upp á 2.000 km á ári. Þetta leiði til þess að laun þeirra hækki um 24%. Á launatöflum frá 1. febrúar 2005 megi einnig sjá að boð Landspítala-háskólasjúkrahúss feli í sér að forstöðuiðjuþjálfa og forstöðusálfræðingi yrði raðað í næstefsta launaflokk.

Í umsögn Landspítala-háskólasjúkrahúss sé bent á að kærandi sé eini starfsmaður sjúkrahússins með starfsheitið forstöðuiðjuþjálfi og umræddir forstöðusálfræðingar sömuleiðis þeir einu með starfsheitið forstöðusálfræðingur. Í þessu sambandi bendi kærandi á dóm Hæstaréttar nr. 258/2004 þar sem mjög ólík störf hafi verið talin sambærileg og jafnverðmæt. Mismunandi starfsheiti geti ekki komið í veg fyrir að störfin geti talist jafnverðmæt og sambærileg í skilningi 23. gr. laga nr. 96/2000. Mismunandi kjarasamningar geti heldur ekki réttlætt launamun. Landspítali-háskólasjúkrahús haldi því fram að í tilviki iðjuþjálfunar sé stjórnunarlag sem ekki fyrirfinnist í sálfræðiþjónustunni því innan hennar starfi svonefndir yfiriðjuþjálfar. Kærandi bendi á að þegar forstöðusálfræðingur geðsviðs hafi verið ráðinn hafi verið starfandi á spítalanum yfirsálfræðingar. Það starfsheiti hafi síðan verið lagt af, en stöður verkefnisstjóra hafi komið í staðinn. Slíkt stjórnunarlag sé því einnig til staðar í sálfræðiþjónustunni, en starfsheitið sé annað. Nú standi til að breyta starfsheiti yfiriðjuþjálfa í deildarstjóra.

Kærandi bendi á að breytt starfsheiti undirmanna breyti ekki verksviði forstöðuiðjuþjálfa. Landspítali-háskólasjúkrahús haldi því fram að störf forstöðuiðjuþjálfa og forstöðusálfræðinga séu ólík hvað varði umfang, eðli, skyldur og ábyrgð enda sé menntun starfsstéttanna ekki sambærileg, hvorki að efni né umfangi. Kæranda sé ljóst að grunnnám sálfræðinga sé lengra en grunnnám iðjuþjálfa, enda endurspegli launatöflur starfsstéttanna þann mun. Menntun starfsstéttanna hafi hins vegar sama markmið; að stuðla að því að fólk með geðraskanir nái bata. Faglíkön, fræðigrunnur og matsaðferðir starfstéttanna séu að sjálfsögðu ekki þær sömu enda væri þá ekki um tvær stéttir að ræða. Hvorug starfsstéttin hafi réttindi til að ávísa lyfjum. Með framangreint í huga telji kærandi ljóst að eðli, skyldur og ábyrgð geri störf forstöðuiðjuþjálfa og forstöðusálfræðinga jafnverðmæt og sambærileg. Í þeirri viðleitni að sýna fram á að störf forstöðuiðjuþjálfa og forstöðusálfræðings séu ekki sambærileg styðjist Landspítali-háskólasjúkrahús meðal annars við starfslýsingar.

Í umsögn Landspítala-háskólasjúkrahúss segi: „Þess má geta, að formleg starfslýsing forstöðusálfræðings geðsviðs (fskj.2) hefur verið til í mörg ár. Einungis eitt ár er síðan formleg starfslýsing forstöðuiðjuþjálfa var gerð (fskj.3). Tilefni þess var að kærandi fór í árs leyfi frá störfum haustið 2005 og við ráðningu í afleysingarstarf forstöðuiðjuþjálfa var sú starfslýsing, sem nú liggur til grundvallar starfi forstöðuiðjuþjálfa, gerð.“ Kærandi bendi á að rangt sé af hálfu Landspítala-háskólasjúkrahúss að leggja starfslýsingu forstöðuiðjuþjálfa, sem sjúkrahúsið vísi hér í, til grundvallar mati á því hvort umrædd störf séu sambærileg. Að áliti kæranda gefi sú starfslýsing ranga mynd af umfangi, skyldum og þeirri ábyrgð sem felist í starfi forstöðuiðjuþjálfa og lýsi því ekki hvernig starfinu hafi verið sinnt til þessa. Kærandi hafi gegnt forstöðu iðjuþjálfunar við geðdeildir Landspítalans frá árinu 1981 en skipurit spítalans tekið margvíslegum breytingum frá þeim tíma. Eins og Landspítali-háskólasjúkrahús bendi á hafi formleg starfslýsing fyrir starf forstöðuiðjuþjálfa ekki verið til. Við þær aðstæður hafi mátt ætla að góðir stjórnunarhættir fælu í sér að starfslýsing yrði gerð í samráði við fastráðinn starfsmann í viðkomandi starfi. Það hafi ekki verið gert. Fastráðinn forstöðuiðjuþjálfi hafi ekki fengið vitneskju um að gerð hefði verið formleg starfslýsing fyrr en að loknu leyfi sínu. Sviðsstjóri geðsviðs Landspítala-háskólasjúkrahúss hafði aldrei gefið til kynna við forstöðuiðjuþjálfa að gera þyrfti formlega starfslýsingu vegna ráðningar afleysingastarfsmanns. Forstöðuiðjuþjálfi hafi heldur ekki verið upplýstur meðan á starfsleyfi stóð að til stæði að gera formlega starfslýsingu. Af ofangreindu megi sjá að starfslýsingin hafi verið gerð einhliða af yfirmönnum forstöðuiðjuþjálfa, auk þess sem starfslýsingin hafi ekki verið staðfest með undirritun sviðsstjóra og forstöðuiðjuþjálfa. Því megi frekar telja hana drög að starfslýsingu en ekki formlega starfslýsingu. Starfslýsingardrögin sem Landspítali-háskólasjúkrahús leggi nú fram geti því ekki talist til gagna sem leggja megi til grundvallar þegar umfang, skyldur og ábyrgð starfs forstöðuiðjuþjálfa og forstöðusálfræðings séu borin saman.

Þá hafnar kærandi þeirri fullyrðingu Landspítala-háskólasjúkrahúss að það sé réttur stjórnenda að gera starfslýsingar, enda sé það í samræmi við stjórnunarrétt þeirra. Í því sambandi vilji kærandi benda á starfslýsingu sviðsstjóra lækninga við sjúkrahúsið, en þar komi fram að þeir eigi að vinna að markmiðum spítalans og virða þríþætt hlutverk hans með tilliti til þjónustu við sjúklinga, menntunar og rannsókna. Sviðsstjóri eigi jafnframt: „Að vinna að því í samráði við framkvæmdastjóra kennslu og fræða og forstöðumenn fræðagreina, að hlutverki spítalans sem háskólasjúkrahúss sé vel og faglega sinnt með öflugri kennslu- og fræðastarfsemi.“ Iðjuþjálfun sé sjálfstæð fræðigrein og hafi verið kennd við heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri frá árinu 1997. Samkvæmt starfslýsingu sviðsstjóra eigi hann að vinna að stefnu spítalans í samráði við forstöðumenn fræðisviða og af þeim sökum verði að hafa samráð varðandi rannsóknir, kennslu og þjónustu hinna ýmsu fræðigreina sem speglist síðan í starfslýsingum viðkomandi forstöðumanna. Þar sem kærandi hafi byggt upp iðjuþjálfastarfsemi á geðsviði og haft yfirumsjón með henni síðastliðinn aldarfjórðung hefðu það talist eðlilegir stjórnunarhættir að gera starfslýsingar í samráði við kæranda sem sitjandi forstöðumann. Miðað við hvernig starfi forstöðuiðjuþjálfa hafi verið sinnt til þessa, sé verið að „verðfella“ það með áðurnefndri starfslýsingu forstöðuiðjuþjálfa. Hafi Landspítala-háskólasjúkrahúsi þótt ástæða til að minnka vægi iðjuþjálfunar á geðsviði hefði átt að gera það í samráði við forstöðumann viðkomandi fræðisviðs.

Kærandi bendi jafnframt á að starfslýsingar yfiriðjuþjálfa sem Landspítali-háskólasjúkrahús leggi nú fram hafi verið unnar með sama hætti; án samráðs við fastráðinn forstöðuiðjuþjálfa. Þær hafi ekki verið staðfestar með undirritun sviðsstjóra og forstöðuiðjuþjálfa og verði því einnig að teljast drög að starfslýsingum, en ekki formlegar starfslýsingar. Þrátt fyrir fullyrðingar Landspítala-háskólasjúkrahúss um að starfslýsing forstöðusálfræðings geðsviðs hafi verið til í mörg ár þá sé sú starfslýsing nýleg sem sjúkrahúsið láti fylgja umsögninni og vísi í. Þó starfslýsingin sé ekki undirrituð virðist ártalið 2005 gefa til kynna aldur hennar. Kærandi telji að sú starfslýsing forstöðusálfræðings geðsviðs sem sjúkrahúsið leggi fram geti alveg eins átt við starf forstöðuiðjuþjálfa eins og því hafi verið sinnt til þessa. Við samanburð sjúkrahússins á umfangi, skyldum og ábyrgð forstöðuiðjuþjálfa og forstöðusálfræðings telji kærandi að verulega sé hallað á hlut forstöðuiðjuþjálfa. Kærandi leggi því fram yfirlit yfir samstarfsverkefni, fyrirlestra, ráðstefnur, blaðagreinar, tengsl, nýsköpun, viðurkenningar og fleira sem sýni umsvif og virkni forstöðuiðjuþjálfa undanfarin ár.

Í frekari viðleitni til að sýna fram á að störf forstöðuiðjuþjálfa og forstöðusálfræðings séu ekki sambærileg styðjist Landspítali-háskólasjúkrahús jafnframt við auglýsingar sem birtar hafi verið vegna ráðninga. Í umsögn sjúkrahússins til kærunefndar jafnréttismála hafi verið hjálögð afrit af auglýsingu um starf forstöðusálfræðings við geðsvið þess og auglýsingu um afleysingastarf forstöðuiðjuþjálfa við geðsviðið. Að mati kæranda séu þessar auglýsingar ótækar til samanburðar á starfi forstöðuiðjuþjálfa og forstöðusálfræðings að því er varði umfang, skyldur og þá ábyrgð sem þeim fylgi. Tilefni auglýsinganna hafi ekki verið sambærileg. Tilefni auglýsingar um starf forstöðusálfræðings við geðsvið Landspítala-háskólasjúkrahúss hafi verið ráðning til frambúðar en tilefni auglýsingar vegna starfs forstöðuiðjuþjálfa við geðsviðið hafi verið ráðning í afleysingarstarf. Þær menntunar- og hæfniskröfur sem gerðar hafi verið í auglýsingu Landspítala-háskólasjúkrahúss um afleysingarstarf forstöðuiðjuþjálfa séu mun minni en gera þyrfti ef sinna ætti starfinu með þeim hætti sem fastráðinn forstöðuiðjuþjálfi hafi gert. Þar sem iðjuþjálfar séu fáir sé markaðurinn þekkt stærð. Það liggi alveg ljóst fyrir hvaða þekking og reynsla sé til á markaðnum og því hafi orðið að „verðfella“ starfið þar sem enginn annar iðjuþjálfi á geðsviðinu hafi haft sambærilega menntun, reynslu og þekkingu. Slík tilhögun hafi ef til vill verið nauðsynleg og viðunandi við tímabundnar afleysingar, enda hafi komið í ljós að einungis einn umsækjandi hafi verið um starfið. Viðkomandi hafi menntunarstigið „diploma“. Allir iðjuþjálfar starfandi við geðsvið, að einum undanskildum, séu með hærra menntunarstig, B.S.-gráðu eða M.S.-gráðu. Kærandi bendi á að iðjuþjálfafagið sé ungt hér á landi. Víða erlendis geti iðjuþjálfar öðlast slík sérfræðiréttindi að undangenginni handleiðslu, starfsreynslu og viðbótarmámi en slíkt standi ekki enn til boða hér á landi. Kærandi uppfylli í einu og öllu þessar kröfur en á Íslandi sé ekki kostur á slíkum réttindum.

Landspítali-háskólasjúkrahús haldi því fram að inntak starfanna sé það ólíkt að óraunhæft sé að bera þau saman. Kærandi hafnar þessum sjónarmiðum. Þá staðhæfi spítalinn að kröfur um reynslu séu mun meiri í tilviki forstöðusálfræðings, auk þess sem ytri ásýnd starfanna sé ólík. Kærandi bendi á að þegar iðjuþjálfunardeild hafi verið stofnuð við Landspítalann árið 1981 hafi kærandi verið ráðin til forstöðu deildarinnar. Hafi starf hennar falist í að sjá um stofnun deildarinnar og framþróun, og hafi kærandi gegnt forstöðu iðjuþjálfunar á sjúkrahúsinu, og síðar stofnuðum deildum þess alla tíð síðan. Reynslu sína á geðsviði telji kærandi því ótvírætt meiri og víðtækari en starfandi forstöðusálfræðings. Landspítali-háskólasjúkrahús nefni að „ytri ásýnd“ starfanna sé ólík. Ytri ásýnd geti ekki réttlætt launamun kynjanna. Sjúkrahúsið haldi því fram að starf forstöðuiðjuþjálfa hafi verið umfangsminna en starf forstöðusálfræðings. Því til staðfestingar sé nefnt að starf forstöðuiðjuþjálfa hafi verið 80% starf þangað til í september árið 2004. Það sé rangfærsla af hálfu spítalans. Starf forstöðuiðjuþjálfa hafi verið fullt starf og hafi kærandi verið í 100% starfi frá upphafi og þar til hún eignaðist sitt annað barn, eða í um tíu ár. Þá hafi starfshlutfall verið minnkað niður í 80% en það hafi verið gert í fullri sátt við stjórnendur. Slík tilhögun sé viðurkennd í dag, sbr. 16. gr. jafnréttislaga. Að halda því fram að þetta hafi verið gert vegna umfangs starfsins sé rangt. Annar starfsmaður, yfiriðjuþjálfi, hafi fengið greitt aukalega sem svari til þeirra 20% sem kærandi varði í að sinna auknum skyldum innan fjölskyldunnar. Í því samhengi verði að geta þess að enginn hafi verið í stöðu forstöðusálfræðings á geðsviði í um það bil tvö ár og deildir á vegum geðsviðs hafi því verið reknar án forstöðusálfræðings. Það hafi ekki verðfellt starf forstöðusálfræðings á neinn hátt.

Þá hafni kærandi því að störf forstöðusálfræðings og forstöðuiðjuþjálfa geðsviðs séu ólík að ábyrgð og inntaki og að þau séu engan veginn sambærileg í skilningi 2. mgr. 23. gr. jafnréttislaga. Kærandi bendi á að henni hafi verið boðin launahækkun í flokk Y, eins og fram komi í bréfi C sviðsstjóra, dags. 30. maí 2003. Þetta sé sá launaflokkur sem forstöðusálfræðingi sé greitt eftir og því engin mismunun í launaröðuninni sjálfri. Mismunun í launum felist í föstum yfirvinnutíma og aksturssamningi forstöðusálfræðings.

Landspítali-háskólasjúkrahús haldi fram að sú staðhæfing kæranda að mál þetta eigi sér langa forsögu sé röng. Sjúkrahúsið telji að ágreiningur kæranda og yfirmanna hennar um launakjör í aðdraganda máls þessa séu ekki brot á jafnréttislöggjöfinni. Kærandi hafni þessu og ítreki að forsaga og aðdragandi verði ekki skilinn frá á seinni stigum málsins. Kæranda hafi grunað að með launatilboði Landspítala-háskólasjúkrahúss, sbr. bréf C sviðsstjóra, dags. 30. maí 2003, væri í launakjörum verið að mismuna starfsmönnum í jafnverðmætum og sambærilegum störfum, annars vegar forstöðuiðjuþjálfa og hins vegar forstöðusálfræðingum. Ekki hafi verið hægt að aðhafast vegna þessa þá þar sem undirrituð hafi ekki haft staðfestar upplýsingar um launakjör forstöðusálfræðinga. Staðfesting Landspítala-háskólasjúkrahúss á launakjörum forstöðusálfræðinganna, sbr. bréf sjúkrahússins til BHM, dags. 14. september 2005, hafi verið kynnt undirritaðri 27. júní 2006. Í framhaldi af því hafi kærandi lagt fram kæru um meint brot á jafnréttislögum til kærunefndar jafnréttismála.

Varðandi starfsvottorð sem Landspítali-háskólasjúkrahús leggi fram beri að athuga að þann l. október 2006 hafði kærandi starfað í 25 ár við Landspítalann. Á vottorðið vanti því rúm sex ár, þ.e. frá 1. október 1981 til 31. desember 1987. Kæranda hafi nú verið sent leiðrétt vottorð. Tekið sé fram að þótt starfsheitið forstöðuiðjuþjálfi hafi ekki komið til fyrr en árið 1994 þá hafi kærandi veitt iðjuþjálfun geðdeildar Landspítalans forstöðu í fjöldamörg ár undir starfsheitinu yfiriðjuþjálfi.

 

IV.

Sjónarmið Landspítala-háskólasjúkrahúss

Af hálfu Landspítala-háskólasjúkrahúss er því hafnað að störf forstöðusálfræðinga og forstöðuiðjuþjálfa séu jafnverðmæt og sambærileg. Kærandi sé eini starfsmaður Landspítala-háskólasjúkrahúss með starfsheitið forstöðuiðjuþjálfi og umræddir forstöðusálfræðingar sömuleiðis þeir einu á sjúkrahúsinu með starfsheitið forstöðusálfræðingur. Kærandi haldi því fram að þar sem staða forstöðuiðjuþjálfa geðdeilda og staða forstöðusálfræðinganna sé hliðstæð í skipuriti Landspítala-háskólasjúkrahúss sé um jafnverðmæt og sambærileg störf að ræða. Þessum sjónarmiðum hafni sjúkrahúsið. Forstöðusálfræðingar og forstöðuiðjuþjálfi heyri líkt og aðrir millistjórnendur beint undir sviðsstjóra og því séu störfin hliðsett í skipuriti sjúkrahússins. Skipulag sálfræðiþjónustu og iðjuþjálfaþjónustu geðsviðs byggi á því að starfsstéttirnar sinni mörgum deildum en séu ekki staðsettar innan ákveðinna deilda, eins og til dæmis í tilviki lækna. Forstöðusálfræðingum, líkt og forstöðuiðjuþjálfum, sé ekki síður ætlað að vera faglegir leiðtogar en stjórnendur. Undir forstöðuiðjuþjálfa heyri yfiriðjuþjálfar en það sé stjórnunarlag sem ekki sé til staðar innan sálfræðiþjónustunnar. Stjórnunarumfang forstöðuiðjuþjálfa sé minna þar sem millistjórnendur þessir annist alla daglega umsjón og yfirsýn með störfum iðjuþjálfa og starfsfólks. Yfiriðjuþjálfar séu yfirmenn allra iðjuþjálfa og starfsmanna á sviðinu, sbr. starfslýsingu yfiriðjuþjálfa. Þá beri yfiriðjuþjálfar ábyrgð á iðjuþjálfaþjónustu sviðsins og þjálfun iðjuþjálfanema og rannsóknar- og kennslustörfum iðjuþjálfa gagnvart forstöðuiðjuþjálfa.

Því sé vísað á bug að ábyrgð og umfang umræddra starfa sé sambærilegt. Umfang, eðli, skyldur og ábyrgð þessara starfa sé ólík enda menntun þessara starfsstétta ekki sambærileg, hvorki að efni né umfangi. Í þeirri viðleitni að sýna fram á að um ósambærileg störf sé að ræða verði látið nægja að styðjast við gögn og staðreyndir sem varpi ljósi á störf forstöðusálfræðings geðsviðs annars vegar og forstöðuiðjuþjálfa geðsviðs hins vegar. Ekki sé talin þörf á að fara í saumana á starfi forstöðusálfræðings endurhæfingarsviðs. Þess beri að geta að enginn forstöðuiðjuþjálfi sé á endurhæfingarsviði þrátt fyrir að iðjuþjálfaþjónusta sé einnig á því sviði. Sviðsstjóri endurhæfingar sé yfirmaður iðjuþjálfa á endurhæfingarsviði.

Til þess að sýna fram á að störf forstöðuiðjuþjálfa og forstöðusálfræðings geðsviðs séu ósambærileg beri meðal annars skoða starfslýsingar þessara starfa. Þess megi geta að formleg starfslýsing forstöðusálfræðings geðsviðs hafi verið til í mörg ár. Einungis eitt ár sé síðan formleg starfslýsing forstöðuiðjuþjálfa hafi verið gerð. Tilefni þess hafi verið að kærandi hafi farið í árs leyfi frá störfum haustið 2005 og við ráðningu í afleysingarstarf forstöðuiðjuþjálfa hafi sú starfslýsing, sem nú liggi til grundvallar starfi forstöðuiðjuþjálfa, verið gerð. Samkvæmt starfslýsingu forstöðusálfræðings geðsviðs beri forstöðusálfræðingur ábyrgð á skipulagi sálfræðiþjónustu geðsviðs og störfum sálfræðinga þess gagnvart sviðsstjóra lækninga og yfirlæknum deilda sviðsins sem sálfræðingar starfi á. Samkvæmt starfslýsingu forstöðuiðjuþjálfa geðsviðs beri forstöðuiðjuþjálfi ábyrgð á faglegri iðjuþjálfun, ráðgjöf og íhlutun/þjónustu við sjúklinga. Forstöðuiðjuþjálfi hafi eftirlit og yfirumsjón með starfsemi á iðjuþjálfadeildum og beri ábyrgð á forgangsröðun og áherslum í þjónustu iðjuþjálfa. Sálfræðiþjónusta geðsviðs sé yfirgripsmeiri en þjónusta iðjuþjálfunar. Á geðsviði starfi 34 sálfræðingar. Forstöðusálfræðingur hafi alla umsjón með starfsþjálfun sálfræðinema í starfsréttindanámi (cand. psych.) en þeir séu að meðaltali átta á geðsviðinu. Forstöðusálfræðingur hafi jafnframt umsjón með lokaverkefnum sálfræðinema, þ.e. B.A.-nema, cand. psych.-nema og doktorsnema. Forstöðusálfræðingur hafi umsjón með störfum aðstoðarmanna sálfræðinga sem séu fjórir. Samkvæmt starfslýsingu hafi forstöðuiðjuþjálfi yfirumsjón með kennslu og starfsþjálfun starfsmanna iðjuþjálfadeildanna. Við iðjuþjálfun á geðsviði starfi 26 manns. Iðjuþjálfar séu samtals 15 að forstöðuiðjuþjálfa meðtöldum en af þeim beri þrír starfsheitið yfiriðjuþjálfi. Ófaglærðir starfsmenn séu 11 og þrír starfsmenn séu í Bergiðjunni sem forstöðuiðjuþjálfi hafi yfirumsjón með. Það sé hins vegar ekki forstöðuiðjuþjálfi sem fari með stjórnun ófaglærðra starfsmanna heldur séu það fyrrnefndir yfiriðjuþjálfar, sbr. starfslýsingar yfiriðjuþjálfa. Að meðaltali komi fimm til sjö nemar í vettvangsnám í iðjuþjálfun á geðsviði. Forstöðuiðjuþjálfi sjái um faghandleiðslu nýrra iðjuþjálfa auk þess að sinna fræðslu fyrir starfsfólk.

Samkvæmt starfslýsingu heyri eftirfarandi þættir undir verksvið forstöðusálfræðings geðsviðs:

  1. Stjórn sálfræðiþjónustu geðsviðs og umsjón með skipulagningu hennar í nánum tengslum við sviðsstjóra lækninga.
  2. Ráðning sálfræðinga og starfsmannamál sálfræðiþjónustu sviðsins í umboði og nánu samráði við sviðsstjóra lækninga.
  3. Samráð við yfirlækna þeirra deilda sviðsins sem sálfræðingar starfa á um störf þeirra og sálfræðiþjónustu á sviðinu.
  4. Mótun og þróun sálfræðiþjónustu sviðsins, klínísk þjónusta, rannsóknarvinna og fræðslustörf, í takt við meginmarkmið þess.
  5. Að fylgjast með störfum sálfræðinga sviðsins, samhæfa þau og sjá eftir atvikum um útdeilingu verkefna til þeirra.
  6. Umsjón með sálfræðilegum meðferðarúrræðum á sviðinu, skipulagningu þeirra og samhæfingu.
  7. Umsjón með fræðslu- og handleiðslustörfum sálfræðinga á sviðinu.
  8. Umsjón með samráðskvaðningum af öðrum sviðum Landspítala-háskólasjúkrahúss til sálfræðinga geðsviðs.
  9. Umsjón með starfsþjálfun sálfræðinema í starfsréttindanámi (cand. psych.).
  10. Ábyrgð á rannsóknarverkefnum sálfræðinga sviðsins gagnvart sviðsstjóra, siðanefndum og Persónuvernd.
  11. Sérstök verkefni, svo sem samstarfs-, rannsóknar- og þróunarverkefni, í samráði við sviðsstjóra.

Eins og fram hafi komið sé sálfræðiþjónusta geðsviðs umfangsmeiri en þjónusta iðjuþjálfunar. Liðir 10 og 11 í starfslýsingu forstöðusálfræðings séu yfirgripsmiklir og ástæða til að nefna þá sérstaklega þar sem þeir varpi nokkru ljósi á eðli starfs forstöðusálfræðings. Nokkur rannsóknarverkefni standi nú yfir sem séu undir stjórn og á ábyrgð forstöðusálfræðings geðsviðs. Verkefnin séu misjöfn að umfangi og sum þeirra unnin í samstarfi við innlenda og erlenda aðila. Í fyrsta lagi megi nefna þverfaglegt rannsóknarverkefni um meðgöngu- og fæðingarþunglyndi sem unnið sé í samstarfi við flestar heilsugæslustöðvar höfuðborgarsvæðisins, Miðstöð mæðraverndar, Miðstöð heilsuverndar barna, Háskóla Íslands, kvennadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss og fleiri aðila. Rannsóknartími verkefnisins sé áætlaður um 10–12 ár og gert sé ráð fyrir að hlutar verkefnisins verði lokaverkefni meistaranema og doktorsnema í sálfræði. Í öðru lagi megi nefna rannsóknarverkefni um hugræna atferlismeðferð í heilsugæslu sem snúist um meðferðarúrræði sem sálfræðiþjónusta geðsviðs veiti nokkrum heilsugæslustöðvum á landinu samkvæmt þjónustusamningi sem fjármagnaður sé af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Fyrirhugað sé að rannsóknin nái til að minnsta kosti 11 heilsugæslustöðva á landinu. Aðstandendur rannsóknarinnar séu sálfræðingar og læknar, og séu þeir átta. Sálfræðinemar komi að rannsókninni og muni vinna lokaverkefni í tengslum við hana, þ.e. meistaraverkefni og doktorsverkefni. Í þriðja lagi megi nefna rannsókn á sjúklingum á Teigi, vímuefnadeild geðsviðs við Hringbraut. Aðstandendur rannsóknarinnar séu sjö. Í fjórða lagi megi nefna rannsóknarverkefni sem beri heitið „Treatment of Mentally Disordered Prisoners in European Prison Systems“. Þetta sé yfirgripsmikil rannsókn sem 27 Evrópuþjóðir taka þátt í. Að lokum megi nefna rannsókn á geðheilsu íslenskra fanga og ofvirknieinkennum. Aðstandendur rannsóknarinnar séu fimm sálfræðingar. Auk þessara rannsóknarverkefna beri að nefna að forstöðusálfræðingur geðsviðs sé í rannsóknarsamstarfi við starfsmenn Háskólans í Reykjavík og Institute of Psychiatry við King’s College, University of London. Ofangreind upptalning á verkefnum og rannsóknum sem forstöðusálfræðingur geðsviðs sinni og beri ábyrgð á fyrir hönd Landspítala-háskólasjúkrahúss sé ekki tæmandi en sé ætlað að varpa ljósi á þætti er varði inntak og eðli starfs forstöðusálfræðings.

Forstöðusálfræðingur sitji og hafi setið í ýmsum nefndum og ráðum Landspítala-háskólasjúkrahúss og megi þar nefna gæðaráð geðsviðs, vinnuhóp um öryggismál á geðsviði, stýrihóp forstjóra og framkvæmdastjórnar um stefnu sjúkrahússins og nefnd um breytingu á áfengis- og vímuefnameðferð á geðsviði. Forstöðusálfræðingur geðsviðs hafi einnig setið í nefnd á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á síðasta misseri um geðheilbrigðisþjónustu við aldraða.

Samkvæmt starfslýsingu heyri eftirfarandi þættir undir starfslýsingu forstöðuiðjuþjálfa geðsviðs:

  1. Heildarskipulag og samhæfing innan og á milli iðjuþjálfadeildanna og annarra deilda geðsviðs í samráði við sviðsstjóra.
  2. Stuðla að þverfaglegu samstarfi iðjuþjálfa við aðra faghópa geðsviðsins.
  3. Yfirumsjón með kennslu og starfsþjálfun starfsmanna iðjuþjálfadeildanna.
  4. Sjá um að greiða fyrir kennslu og starfsþjálfun nema og hvetja til fræðilegra rannsókna og framþróunar í iðjuþjálfun.
  5. Frumkvæði að þróun aukinnar þjónustu iðjuþjálfa við sjúklinga, bæði innan og utan sjúkrahússins.

Forstöðuiðjuþjálfi sitji í gæðaráði geðsviðs auk þess að eiga sæti í handleiðslunefnd geðsviðs.

Af samanburði starfslýsinganna svo og annars sem komið hafi fram megi glögglega sjá að störf og starfssvið forstöðusálfræðings og forstöðuiðjuþjálfa geðsviðs séu ólík að umfangi og ábyrgð. Til að varpa skýrara ljósi á þann mun sem sé á eðli og inntaki starfs forstöðusálfræðings og forstöðuiðjuþjálfa geðsviðs megi skoða þær kröfur sem gerðar hafi verið til þeirra sem hugðust sækja um þessi störf á þeim tíma sem þau hafi verið auglýst til umsóknar.

Í auglýsingu um starf forstöðusálfræðings við geðsvið hafi verið gerð krafa um sérfræðileyfi í klínískri sálfræði eða sambærilega þjálfun og reynslu ásamt reynslu af kennslu á háskólastigi. Mikilvæg ráðningarskilyrði voru tiltekin víðtæk klínísk reynsla og stjórnunarreynsla, doktorspróf í sálfræði, þjálfun í hugrænni atferlismeðferð (CBT) og reynsla af slíkri meðferð og einnig reynsla af því að leiðbeina nemum í klínísku starfi og rannsóknum. Þá var sóst eftir umsækjendum sem höfðu verið virkir í rannsóknum, höfðu haft með hendi stjórn rannsóknarverkefna og birt greinar í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum. Um skilyrði til að öðlast sérfræðileyfi í klínískri sálfræði sé kveðið á um í reglugerð nr. 158/1990, um sérfræðileyfi sálfræðinga.

Í auglýsingu um starf forstöðuiðjuþjálfa sem hafi verið auglýst laust til umsóknar til eins árs þegar kærandi fór í árs leyfi hafi komið fram að iðjuþjálfamenntun væri áskilin og viðbótarmenntun í iðjuþjálfun æskileg. Komið hafi fram í auglýsingunni að áhersla væri lögð á að efla starfsendurhæfingu og félagslega stöðu geðsjúkra. Forstöðuiðjuþjálfi væri yfirmaður iðjuþjálfa á geðsviði og bæri ábyrgð gagnvart sviðsstjóra. Víðtæk starfsreynsla við iðjuþjálfun og stjórnunarreynsla væru mikilvæg ráðningarskilyrði. Reynsla af háskólakennslu og þjálfun nema væru æskileg.

Auk ólíkra menntunarkrafna, sem séu vafalaust meiri í tilviki forstöðusálfræðings, sé inntak starfanna að mati Landspítala-háskólasjúkrahúss það ólíkt að óraunhæft sé að bera þau saman. Enn fremur séu kröfur um reynslu mun meiri í tilviki forstöðusálfræðings auk þess sem ytri ásýnd starfanna sé ólík. Enn fremur séu inntak, eðli og starfsskyldur umræddra starfa ólíkar. Forstöðusálfræðingur hafi víðtækari starfsskyldur en forstöðuiðjuþjálfi og hafi störfunum engan veginn verið ætlað jafnræði. Af framansögðu megi ráða, að fullyrðing kæranda um að starf forstöðuiðjuþjálfa geðdeilda sé umsvifameira og fjölþættara en starf forstöðusálfræðings, þar sem forstöðuiðjuþjálfi beri ábyrgð á þremur starfsstöðum með fjölbreyttri starfsemi, fái ekki staðist. Einnig megi í þessu sambandi nefna að sálfræðiþjónusta geðsviðs, sem samanstandi sem fyrr segi af 34 sálfræðingum, sálfræðinemum og fjórum aðstoðarmönnum, fari fram á flestum starfseiningum geðsviðs. Þessar starfseiningar séu nánar tiltekið við Hringbraut, á Hvítabandi, Kleppi, í Hátúni og á Barna- og unglingageðdeild. Auk þess sjái sálfræðingar á Barna- og unglingageðdeild geðsviðs um sálfræðilega meðferð barna á Barnaspítalanum samkvæmt sérstökum samningi við sviðsstjóra barnasviðs. Einnig beri að nefna viðamikið verkefni sem sé á ábyrgð forstöðusálfræðings geðsviðs en það sé framkvæmd þjónustusamnings sem gerður hafi verið árið 2005 á milli Landspítala-háskólasjúkrahúss og Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og Heilbrigðisstofnananna á Ísafirði og Egilsstöðum um hugræna atferlismeðferð. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fjármagni samninginn. Samningurinn feli í sér að sálfræðiþjónusta geðsviðs Landspítala-háskólasjúkrahúss sjái um að veita sjúklingum fimm heilsugæslustöðva hverju sinni hugræna atferlismeðferð í hóp. Átta til tíu sálfræðingar á geðsviði komi að meðferðinni hverju sinni sem fari fram á viðkomandi heilsugæslustöð. Sem fyrr segi beri forstöðusálfræðingur geðsviðs ábyrgð á og stýri þessari sálfræðiþjónustu.

Starf forstöðuiðjuþjálfa hafi verið umfangsminna en starf forstöðusálfræðings, og ef því sé að skipta, allflestra annarra millistjórnenda á Landspítala-háskólasjúkrahúsi. Því til staðfestingar megi nefna að þar til í september 2004 hafi starf forstöðuiðjuþjálfa verið 80% starf og hafi það verið að kröfu sviðsstjóra að forstöðuiðjuþjálfi hafi verið ráðinn í 100% starf (fullt starf). Því megi draga þá ályktun að kærandi hafi ekki talið starfið fullt starf á þeim tíma. Starf forstöðusálfræðings hafi hins vegar verið 100% starf frá upphafi. Störf forstöðusálfræðings og forstöðuiðjuþjálfa geðsviðs séu ólík að ábyrgð og inntaki og séu engan veginn sambærileg í skilningi 2. mgr. 23. gr. jafnréttislaga. Mismunur á launaröðun forstöðusálfræðings og forstöðuiðjuþjálfa geðsviðs feli ekki í sér mismunun sem rekja megi til kynferðis. Eins og fram komi í kærunni hafi IÞÍ og BHM fallist á skýringar Landspítala-háskólasjúkrahúss á launamun umræddra stjórnenda.

Landspítali-háskólasjúkrahús mótmælir þeim sjónarmiðum kæranda sem fram komu í kærunni og ítrekar jafnframt þau sjónarmið sem fram komu í bréfi D, dags. 23. desember 2005, sem fylgdi með kærunni. Með vísan til framanritaðs telur Landspítali-háskólasjúkrahús að ekki sé um að ræða jafnverðmæt og sambærileg störf í skilningi jafnréttislaga og hafnar því að kæranda hafi verið mismunað í launum eða öðrum kjörum á grundvelli kynferðis, sbr. 23. gr. laganna.

Að auki bendir Landspítali-háskólasjúkrahús á að í athugasemdum kæranda sé að finna sjónarmið sem ekki eigi heima í máli því sem hér sé til úrlausnar. Mál þetta snúist um það hvort launakjör forstöðuiðjuþjálfa í samanburði við launakjör forstöðusálfræðings við geðsvið sjúkrahússins brjóti í bága við ákvæði 23. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það sé hlutverk kærunefndar jafnréttismála að kanna og taka afstöðu til þessa og þar með hvort ákvæði jafnréttislaga hafi verið brotin gagnvart kæranda. Sú staðhæfing kæranda að mál þetta eigi sér langa forsögu sé röng. Ágreiningur kæranda og yfirmanna hennar um launakjör kæranda, sem kærandi vísi til sem forsögu og aðdraganda máls þessa, varði ekki brot á jafnréttislöggjöfinni og verði ekki leystur fyrir kærunefnd jafnréttismála. Þetta komi skýrt fram í þeirri forsögu sem kærandi hafi gert grein fyrir í bréfi sínu. Landspítali-háskólasjúkrahús muni því ekki gera athugasemdir við sjónarmið kæranda að því leyti.

Kærandi fullyrði að hún hafi leitt líkur að því að umrædd störf forstöðuiðjuþjálfa og forstöðusálfræðings á geðsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss séu jafnverðmæt og sambærileg og að því sé það á ábyrgð sjúkrahússins að sanna annað, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í þessum staðhæfingum komi fram misskilningur á efni 2. mgr. 23. gr. laganna. Ákvæðið geri ráð fyrir því að ef leiddar séu líkur að því að kona og karl sem starfi hjá sama atvinnurekanda njóti mismunandi launa eða annarra kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf skuli atvinnurekandi sýna fram á ef um mun sé að ræða að hann skýrist af öðrum þáttum en kynferði. Ekki hafi verið leiddar líkur að því að þau störf sem til umræðu séu í þessu máli séu jafnverðmæt og sambærileg í skilningi jafnréttislaga heldur hafi Landspítali- háskólasjúkrahús þvert á móti sýnt fram á að störfin séu ekki jafnverðmæt eða sambærileg. Þegar af þeirri ástæðu komi það álitaefni hvort að launamunur skýrist af kynferði ekki til skoðunar. Kærandi geri athugasemdir við umfjöllun Landspítala-háskólasjúkrahúss um starfsheiti og vísi í því sambandi á Hæstaréttardóm nr. 258/2004. Kærandi bendi réttilega á að mismunandi starfsheiti geti ekki komið í veg fyrir að störf geti talist sambærileg og jafnverðmæt. Rétt sé að taka fram að hvergi í umsögn sjúkrahússins, sem kærandi vísi til í þessu sambandi, sé því haldið fram að mismunandi starfsheiti geti komið í veg fyrir að störf geti talist sambærileg og jafnverðmæt né heldur mismunandi kjarasamningar. Landspítali-háskólasjúkrahús vilji benda á tvö atriði er varði túlkun kæranda á Hæstaréttardómi nr. 258/2004. Í fyrsta lagi fullyrði kærandi að dómurinn hafi talið mjög ólík störf vera jafnverðmæt og sambærileg. Þessi túlkun sé ekki rétt. Meirihluti dómsins hafi þvert á móti talið að störfin sem um ræddi hafi verið mjög sambærileg bæði að inntaki og ytri búnaði. Ekki verði litið framhjá þeirri staðreynd að dómurinn í umræddu máli hafi klofnað. Niðurstaða minnihlutans, tveggja dómara af fimm, hafi verið sú að um ólík störf væri að ræða og að ekki hefði verið sýnt fram á að störfin hefðu verið sambærileg í skilningi jafnréttislaga. Þessi ósamstaða innan Hæstaréttar varpi ljósi á þá staðreynd að mat á því hvort störf séu sambærileg eða jafnverðmæt í skilningi jafnréttislaga geti verið erfitt. Í öðru lagi haldi kærandi því fram að í dómnum komi fram að mismunandi kjarasamningar geti ekki réttlætt launamun. Þessi túlkun kæranda sé einföldun á orðum Hæstaréttar en í dómnum segi að mismunandi kjarasamningar geti ekki einir sér réttlætt mismun starfskjara kvenna og karla í skilningi jafnréttislaga. Landspítali-háskólasjúkrahús taki fyllilega undir þau sjónarmið sem fram komi í umræddum dómi Hæstaréttar, enda samrýmist þau sjónarmið jafnréttisáætlun sjúkrahússins. Sá munur sé hins vegar á þessu máli og því sem hafi verið til úrlausnar fyrir Hæstarétti að mat á þeim störfum sem hér um ræði geti vart talist erfitt í ljósi framlagðra gagna. Kærandi haldi því fram að sams konar stjórnunarlag sé til staðar í sálfræðiþjónustu Landspítala-háskólasjúkrahúss og í iðjuþjálfuninni, þ.e. að svokallaðir verkefnastjórar séu í sama stjórnunarlagi og yfiriðjuþjálfar. Þessi staðhæfing sé röng því á geðsviði sjúkrahússins sé enginn sálfræðingur í stöðu verkefnastjóra. Hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi starfi tveir sálfræðingar í stöðu verkefnastjóra og sinni hvorugur þeirra sálfræðiþjónustu á vegum sjúkrahússins. Störf umræddra verkefnastjóra eigi sér enga samsvörun í störfum yfiriðjuþjálfa. Kærandi staðhæfi að markmið menntunar starfsstéttanna, sálfræðinga og iðjuþjálfa, sé það sama, þ.e. að stuðla að því að fólk með geðraskanir nái bata. Landspítala-háskólasjúkrahúsi þyki ekki hjá því komist að benda á að hér sé um mikla einföldun að ræða á því hvert sé markmið menntunar umræddra starfsstétta.

Þá mótmælir Landspítali-háskólasjúkrahús athugasemdum kæranda við efnisinnihald starfslýsingar forstöðuiðjuþjálfa. Starfslýsingar hafi almennt að geyma upplýsingar um þær skyldur sem felist í starfi og þá hæfni sem starfsmaður þurfi að búa yfir til að geta gegnt tilteknu starfi. Í sumum tilvikum sé starfslýsing forsenda þess að hægt sé að meta starf til launaröðunar. Það sé réttur stjórnenda og í höndum þeirra að gera starfslýsingar enda í samræmi við stjórnunarrétt þeirra og geti þær á engan hátt takmarkað stjórnunarrétt stjórnenda. Starfslýsingar þær sem Landspítali-háskólasjúkrahús leggi fram í máli þessu séu þær starfslýsingar sem liggi til grundvallar umræddum störfum. Þær upplýsingar sem komi fram í starfslýsingunum séu þær skyldur sem stjórnendur hafi ákveðið að sá starfsmaður gegni sem sinni starfinu. Starfslýsing þurfi ekki að vera tæmandi upptalning á verkefnum starfsmanns enda beri starfsmanni að sinna þeim verkefnum sem honum séu falin af yfirmanni. Það sem ekki komi fram í starfslýsingu sé ekki hluti af skyldum starfsmanns, nema yfirmaður fari sérstaklega fram á það við starfsmann. Það sé stjórnandans að ákveða starfsskyldur starfsmanns en ekki starfsmannsins sjálfs. Starfsmaður eigi ekki rétt á því að þau faglegu viðfangsefni sem hann taki sér fyrir hendur verði hluti af starfslýsingu hans enda ekki réttur hans að búa til starfslýsingu. Að lokum megi geta þess að starfslýsingar þurfi ekki að vera undirritaðar af sviðsstjóra eða öðrum stjórnanda þótt gert sé ráð fyrir undirskrift þeirra.

Kærandi geri jafnframt athugasemdir við auglýsingar um starf forstöðusálfræðings og forstöðuiðjuþjálfa og telji að menntunar- og hæfniskröfur sem gerðar hafi verið í auglýsingu Landspítala-háskólasjúkrahúss um afleysingarstarf forstöðuiðjuþjálfa séu mun minni en gera þyrfti ef sinna ætti starfinu með þeim hætti sem fastráðinn forstöðuiðjuþjálfi hafi gert. Að mati sjúkrahússins rúmist það innan stjórnunarréttar vinnuveitanda að ákveða hvaða menntunar- og hæfniskröfur séu gerðar til starfsmanna í hverju tilviki. Landspítali-háskólasjúkrahús geri ekki minni kröfur til starfsmanna í afleysingarstörfum og það sé fjarri lagi að sjúkrahúsið þurfi að „verðfella“ störf í tilviki afleysinga. Það sé stjórnenda að ákveða hvaða kröfur séu gerðar til starfsmanna.

Kærandi geri enn fremur möguleika iðjuþjálfa erlendis til að öðlast sérfræðiréttindi að umtalsefni. Í því sambandi megi nefna að þrátt fyrir að víða erlendis geti iðjuþjálfar öðlast tiltekin sérfræðiréttindi að undangenginni ákveðinni reynslu og námi að þá sé raunveruleikinn annar hér á landi. Á Landspítala-háskólasjúkrahúsi hafi að minnsta kosti ekki enn sem komið er verið gerð krafa um að iðjuþjálfar hefðu slík réttindi.

Kærandi haldi því fram að reynsla hennar á geðsviði sé ótvírætt meiri en reynsla starfandi forstöðusálfræðings. Þessi fullyrðing breyti ekki þeirri staðreynd að Landspítali-háskólasjúkrahús geri tilteknar kröfur um reynslu í tilviki forstöðusálfræðings. Báðir þeir aðilar sem sinni umræddum störfum hafi uppfyllt fyllilega kröfur sjúkrahússins um reynslu, en þess megi geta að þær kröfur einskorðist ekki við reynslu á geðsviði þess.

Vegna athugasemda kæranda um umfang starfs forstöðuiðjuþjálfa bendi Landspítali-háskólasjúkrahús á starfsvottorð kæranda en samkvæmt því hafi kærandi verið samtals tvö ár í fullu starfi frá því hún hafi orðið forstöðuiðjuþjálfi árið 1994.

Að lokum sé gerð athugasemd við nálgun kæranda á umfjöllun um fasta yfirvinnutíma forstöðusálfræðings. Gerður hafi verið samningur um yfirvinnu á föstum forsendum við forstöðumann í sálfræðiþjónustu á geðsviði þar sem umfang starfs hans og fyrirsjáanlegar kröfur til viðveru hafi ekki rúmast innan dagvinnumarka. Það hafi verið mat stofnunarinnar að viðkomandi stjórnandi þyrfti að hafa möguleika á að skipuleggja vinnu umfram dagvinnutíma sjálfur en jafnframt hafa tilteknar hömlur á vinnumagni í starfinu. Yfirvinna umfram 20 tíma á mánuði sé því ekki greidd. Kröfum á stjórnendur um vinnumagn, viðveru, ábyrgð og fleira í störfum á Landspítala-háskólasjúkrahúsi sé háttað með ýmsu móti enda sé skipulag rekstrar- og fageininga mjög mismunandi. Sums staðar sé stjórnun dreifðari en hjá sálfræðingum og því fleiri sem axli ábyrgð. Einnig sé kröfum um vinnu stjórnenda umfram dagvinnuskyldu háttað með mismunandi hætti eftir umfangi starfs og fleira.

Með vísan til framanritaðs og umsagnar spítalans sé það afstaða Landspítala-háskólasjúkrahúss að ekki hafi með nokkru móti verið sýnt fram á að brotið hafi verið gegn ákvæðum jafnréttislaga gagnvart kæranda í máli þessu.


V.

Niðurstaða

Í 1. gr. laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, segir að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 14. gr. laganna skulu konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla og skulu þau viðmið sem liggja til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Samkvæmt 23. gr. laga nr. 96/2000 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna starfsfólki sínu í launum og öðrum kjörum á grundvelli kynferðis fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Af ákvæðinu má ráða að störf þau sem um ræðir þurfa að teljast vera jafnverðmæt og sambærileg. Að fenginni niðurstöðu um að störfin séu það ber atvinnurekandi sönnunarbyrðina fyrir því að málefnalegar forsendur en ekki kynferði séu fyrir launamun ef honum er til að dreifa.

Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 96/2000 segir að erindi skulu berast kærunefnd jafnréttismála skriflega innan eins árs frá því að ætlað brot á lögunum lá fyrir eða sá sem málið varðar fékk vitneskju um brot. Af gögnum máls þessa má ráða að kæranda bárust upplýsingar um launakjör þeirra karlkyns forstöðumanna sem hún ber sig saman við með erindi sem Landspítali-háskólasjúkrahús sendi Bandalagi háskólamanna, dags. 14. september 2005, og sem kynnt var kæranda skömmu síðar. Kæra í máli þessu barst kærunefnd jafnréttismála 29. ágúst 2006 og telst hún því hafa borist innan loka kærufrests.

Í máli þessu er um það deilt hvort starf kæranda sem forstöðuiðjuþjálfi sé jafnverðmætt og sambærilegt starfi forstöðusálfræðings við geðsvið Landspítala-háskólasjúkrahúss. Deila málsaðilar jafnframt um inntak starfs kæranda, hvað í því felist sem og mikilvægi einstakra þátta í starfinu. Þá er jafnframt ágreiningur um það hvers eðlis sá munur sé sem er á launum kæranda og forstöðusálfræðings geðsviðs sem starfi hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi.

Fyrir liggur að munur er á starfskjörum kæranda og forstöðusálfræðings geðsviðs. Annars vegar er munur á röðun þeirra í launaflokka, bæði þar sem þau þiggja laun samkvæmt mismunandi kjarasamningum en einnig þar sem upplýst er að kærandi hefur afþakkað boð um launahækkun sem sett var fram í bréfi, dags. 30. maí 2003. Hins vegar er sá munur á kjörum kæranda og forstöðusálfræðings geðsviðs að forstöðusálfræðingurinn fær greidda fasta yfirvinnu auk fastra akstursgreiðslna, en forstöðuiðjuþjálfi fær akstursgreiðslur í samræmi við ekna vegalengd og fasta yfirvinnu. Í tilboði Landspítala-háskólasjúkrahúss sem kærandi hafnaði var ekki gert ráð fyrir því að kærandi fengi greidda fasta yfirvinnu. Í málinu er ekki á því byggt af hálfu kæranda að hún hafi unnið yfirvinnu, auk þess sem því hefur ekki verið andmælt að umfang starfs forstöðusálfræðings geðsviðs rúmist ekki innan dagvinnumarka. Upplýst er af hálfu Landspítala-háskólasjúkrahúss að forstöðusálfræðingur geðsviðs leysi störf sín af hendi á mörgum starfsstöðum spítalans en nánari upplýsingar um akstursþörf beggja aðila hafa ekki verið lagðar fyrir nefndina.

Af hálfu Landspítala-háskólasjúkrahúss hefur sjónarmiðum kæranda verið andmælt og á því byggt að umrædd störf séu ekki sambærileg og jafnverðmæt, meðal annars með tilliti til vinnufyrirkomulags og vinnuskyldu sem og að teknu tilliti til menntunar forstöðusálfræðings geðsviðs og þeirrar ábyrgðar sem hann ber.

Við úrlausn málsins reynir á hvort störf kæranda og forstöðusálfræðings geðsviðs séu sambærileg og jafnverðmæt í skilningi 2. mgr. 23. gr. laga nr. 96/2000. Við mat á því hvort störf eru jafnverðmæt og sambærileg hefur verið litið til þess hvort þau séu sambærileg að ábyrgð, inntaki og ytri búnaði, og því hvort störfunum hafi verið ætlað nokkuð jafnræði í ytri ásýnd. Byggt hefur verið á heildstæðu mati og getur verið um slík störf að ræða þótt einstaka þættir þeirra kunni að vera ólíkir og þau krefjist til dæmis mismunandi menntunar. Markmið jafnréttislaga um sömu launakjör kvenna og karla fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf nást ekki ef launajöfnuðurinn á einungis að ná til fólks innan sömu starfsstéttar og hefur löggjafinn við setningu jafnréttislaga sett samningsfrelsi nokkrar skorður að þessu leyti.

Í málinu liggur ekki fyrir formlegt mat á störfunum en samkvæmt skipuriti geðsviðs Landspítala- háskólasjúkrahúss eru störfin hliðsett auk þess sem báðum stöðunum fylgir nokkuð mannahald. Þá er upplýst að forstöðusálfræðingur geðsviðs hefur boðvald yfir fleiri starfsmönnum en forstöðuiðjuþjálfi, en aðila málsins greinir á um þýðingu þess atriðis.

Fyrir kærunefnd jafnréttismála hafa verið lagðar starfslýsingar sem taka til starfa forstöðuiðjuþjálfa og forstöðusálfræðings geðsviðs. Samkvæmt ódagsettri starfslýsingu heyra eftirfarandi þættir undir verksvið forstöðusálfræðings geðsviðs:

  • Stjórn sálfræðiþjónustu geðsviðs og umsjón með skipulagningu hennar í nánum tengslum við sviðsstjóra lækninga.
  • Ráðning sálfræðinga og starfsmannamál sálfræðiþjónustu sviðsins í umboði og nánu samráði við sviðsstjóra lækninga.
  • Samráð við yfirlækna þeirra deilda sviðsins sem sálfræðingar starfa á um störf þeirra og sálfræðiþjónustu á sviðinu.
  • Mótun og þróun sálfræðiþjónustu sviðsins, klínísk þjónusta, rannsóknarvinna og fræðslustörf í takt við meginmarkmið þess.
  • Eftirlit með störfum sálfræðinga sviðsins, samhæfing þeirra og eftir atvikum útdeiling verkefna til þeirra.
  • Umsjón með sálfræðilegum meðferðarúrræðum á sviðinu, skipulagningu þeirra og samhæfingu.
  • Umsjón með fræðslu- og handleiðslustörfum sálfræðinga á sviðinu.
  • Umsjón með samráðskvaðningu af öðrum sviðum Landspítala-háskólasjúkrahúss til sálfræðinga geðsviðs.
  • Umsjón með starfsþjálfun sálfræðinema í starfsréttindanámi (cand. psych.).
  • Ábyrgð á rannsóknarverkefnum sálfræðinga sviðsins gagnvart sviðsstjóra, siðanefndum og Persónuvernd.
  • Sérstök verkefni, svo sem samstarfs-, rannsóknar- og þróunarverkefni í samráði við sviðsstjóra.

Samkvæmt starfslýsingu sem unnin var á árinu 2005 heyra eftirfarandi þættir undir starfslýsingu forstöðuiðjuþjálfa geðsviðs:

  • Stjórn iðjuþjálfunarþjónustu geðsviðs og leiðandi um faglega framþróun iðjuþjálfunar.    
  • Heildarskipulagning og samhæfing innan og á milli iðjuþjálfadeilda og annarra deilda geðsviðs í samráði við sviðsstjóra, og þátttaka í skipulagningu mönnunar deildanna í samræmi við markmið um rekstur og fjárhagsramma. Ábyrgð á forgangsröðun og áherslum í þjónustu iðjuþjálfa.
  • Frumkvæði að þverfaglegu samstarfi iðjuþjálfa við aðra faghópa geðsviðsins.
  • Yfirumsjón með kennslu og starfsþjálfun starfsmanna iðjuþjálfadeilda.
  • Umsjón með greiðslum fyrir kennslu og starfsþjálfun nema og hvatning til fræðilegra rannsókna og framþróunar í iðjuþjálfun.
  • Frumkvæði að þróun aukinnar þjónustu iðjuþjálfa við sjúklinga bæði innan og utan sjúkrahússins.
  • Seta í gæðaráði geðsviðs auk þess að eiga sæti í handleiðslunefnd þess.

Í starfslýsingunni kemur jafnframt fram það skilyrði fyrir starfsgengi að viðkomandi hafi hlotið prófgráðu frá iðjuþjálfaskóla sem sé viðurkenndur af Alheimssamtökum iðjuþjálfa (World Federation of Occupational Therapists). Lágmarksmenntun sé B.S.-gráða eða samsvarandi próf auk þess sem íslenskt starfsleyfi og löggilding frá heilbrigðisráðuneytinu sé skilyrði. Þá sé æskilegt að viðkomandi starfsmaður hafi meistaragráðu eða aðra gráðu sem nýtist í starfi, þekkingu á gæðaþróunarmálum, starfsmannastjórnun og faghandleiðslu.

Í málinu liggja fyrir auglýsingar um störf forstöðusálfræðings geðsviðs og forstöðuiðjuþjálfa þar sem auglýst var eftir staðgengli kæranda vegna fyrirhugaðs starfsleyfis hennar.

Í auglýsingu um starf forstöðusálfræðings geðsviðs kom fram að umsækjendur þyrftu að hafa sérfræðileyfi í klínískri sálfræði eða sambærilega þjálfun og reynslu, ásamt reynslu af kennslu á háskólastigi. Mikilvæg ráðningarskilyrði væru víðtæk klínísk reynsla og stjórnunarreynsla, doktorspróf í sálfræði, þjálfun í hugrænni atferlismeðferð (CBT) og reynsla af slíkri meðferð og reynsla af leiðbeiningu nema í klínísku starfi og rannsóknum. Sóst væri eftir umsækjendum sem hefðu verið virkir í rannsóknum, haft með hendi stjórn rannsóknarverkefna og birt greinar í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum.

Í auglýsingu um störf forstöðuiðjuþjálfa kom fram að iðjuþjálfamenntun væri áskilin og viðbótarmenntun í iðjuþjálfun æskileg. Forstöðuiðjuþjálfi væri yfirmaður iðjuþjálfa á geðsviði og bæri ábyrgð gagnvart sviðsstjóra. Víðtæk starfsreynsla við iðjuþjálfun og stjórnunarreynsla væru mikilvæg ráðningarskilyrði. Reynsla af háskólakennslu og þjálfun nema væri æskileg.

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að störfin séu ekki sambærileg að því leyti að mun meiri menntunarkröfur eru gerðar til forstöðusálfræðings geðsviðs, þar sem doktorspróf er meðal annars áskilið, en forstöðuiðjuþjálfa. Þá má ráða af samanburði þeirra starfslýsinga, sem lagðar hafa verið fram í málinu, að inntak starfanna er að nokkru ólíkt auk þess sem ábyrgð sem fylgir störfunum er ekki sú sama. Þannig fylgir starfi forstöðusálfræðings geðsviðs vald til ráðningar nýrra starfsmanna en slíkt ráðningarvald fylgir ekki starfi forstöðuiðjuþjálfa auk þess sem fleiri starfsmenn lúta boðvaldi forstöðusálfræðings geðsviðs. Þá starfar forstöðusálfræðingur geðsviðs í nánum tengslum við sviðsstjóra lækninga og hefur samráð við yfirlækna viðkomandi deilda um sálfræðiþjónustu og störf sálfræðinga á deildunum, og sýnist fagleg ábyrgð gagnvart sjúklingum, yfirstjórn spítalans og nemum vera meiri en hjá forstöðuiðjuþjálfa.

Með vísan til framangreinds er það álit kærunefndar jafnréttismála að Landspítali- háskólasjúkrahús hafi ekki brotið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000, við ákvörðun launa til handa kæranda og forstöðusálfræðingi geðsviðs Landspítala-háskólasjúkrahúss.

 

 

Björn L. Bergsson

Ragna Árnadóttir

Ása Ólafsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta