Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2007. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 4. apríl 2007

í máli nr. 3/2007:

Olíufélagið hf.

gegn

Ríkiskaupum

           Með bréfi 5. febrúar 2007 kærir Olíufélagið hf. ákvörðun Ríkiskaupa um frávísun á tilboði þess í útboði nr. 14158 auðkennt sem ,,Hreinlætisefni, hreinlætispappír, tæki og áhöld.“

Kærandi krefst þess að tilboð hans í hinu kærða útboði verði tekið til greina.

            Kærði krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað og að honum verði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð samkvæmt 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup.

I.

            Í nóvember 2006 leitaði kærði fyrir hönd áskrifenda að rammasamningakerfi sínu á hverjum tíma eftir tilboðum vegna kaupa á hreinlætispappír, hreinlætisefnum og tækjum. Leitað var eftir því að aðilar gætu boðið sem fjölbreyttast vöruúrval í þeim fjórum vöruflokkum sem útboðið náði til, en heimilt var að bjóða í alla eða einstaka vöruflokka. Um var að ræða flokkana hreinlætispappír, hreinlætisefni, tæki til hreingerninga og áhöld til hreingerninga. Tilboð voru opnuð 30. nóvember 2006 og bárust tilboð frá fjórtán bjóðendum. Samdægurs hafði starfsmaður kærða samband við kæranda og tók fram að annmarkar væru á tilboði hans sem óskað væri skýringa á og var veittur frestur til þess. Skýringar og úrbætur bárust frá kæranda 1. og 5. desember 2007. Með tölvupósti 22. desember 2006 var bjóðendum tilkynnt um niðurstöðu útboðsins og  voru þar taldir upp þeir bjóðendur sem ákveðið hafði verið að taka tilboðum frá. Kærandi var ekki meðal þeirra og óskaði hann eftir rökstuðningi fyrir höfnun á tilboði hans. Barst sá rökstuðningur 12. janúar 2007 og var honum þá tilkynnt að tilboði hans hefði verið vísað frá. 

II.

Kærandi vísar til þess að rökstuðningur kærða fyrir frávísun á tilboði hans hafi borist 12. janúar 2007 og hafi kæra því komið fram innan fjögurra vikna frá því að hann hafi fengið rökstuðning fyrir ástæðu frávísunar og upplýsingar um að tilboði hans hefði verið vísað frá.

Vísað er til þess að óskað hafi verið eftir tækniupplýsingum varðandi tæki til hreingerninga þar sem kærði hafi talið þær vanta. Hafi kærandi í upphaflegum tilboðsgögnum til dæmis sent lýsingu á ryksugu sem boðin hafi verið, þ.e. ,,Ryksuga – Numatic 1200w, loftflæði 3500l/mín, tankur 25 lítrar.“ Með því hafi fylgt myndabæklingur um viðkomandi tæki og hafi kærandi talið þetta vera greinargóða lýsingu á boðinni ryksugu. Hafi ekki komið fram í fyrirspurn kærða hvaða viðbótarupplýsinga óskað væri eftir. Þó hafi kærandi bætt við bæklingi frá framleiðandanum Numatic þar sem fram komi nánar tilgreindar upplýsingar ásamt fjölda skýringarmynda. Vísað er til þess að fram komi í rökstuðningi kærða um þessa bæklinga að ,,annar þeirra fjallaði um ryksugu (hvergi vísað í tegundarheiti/týpur/stærðir/gerðir o.s.frv.) og virðist vera almenn umfjöllun og bætir engu við það sem óskað var eftir.“ Þar sem þessi bæklingur hafi fjallað um viðkomandi tegund ryksugu hafi ekki verið ástæða til að bæta nokkru við, enda hafi kærði ekki kallað eftir viðbótarupplýsingum og sé enn ekki ljóst hvaða upplýsingar hafi vantað. Hafi jafnframt verið afhentir bæklingar frá framleiðendum varðandi gólfþvottavélar þar sem fram hafi komið myndir og upplýsingar um eiginleika. Hafi reyndar verið gerð ein villa í gögnum frá kæranda þar sem vél hafi verið tilgreind með 50x50 lítra tank, en tankur verið 30x30 eins og fram komi í bæklingi. Hafi vélin sem kærandi bauð að öðru leyti verið mjög sambærileg. Í bæklingnum komi jafnframt fram stærð burstamótors og sugumótors, straumur, stærð bursta, hraði, tankstærð, drægni, þyngd, stærð og líftími hleðslu. Ráði ekki vatnsmagn tanka heldur stærð bursta og sköfu. Passi vatnsmagnið við stærð rafgeyma og geti vélin gengið í tvær og hálfa klukkustund í stanslausri notkun. Þegar borin sé saman tækni frá mismunandi framleiðendum sé nauðsynlegt að taka tillit til þess að allir bjóðendur selji ekki Taski vélar og þurfi því að taka tillit til viðleitni bjóðenda við að finna sambærilegar vörur. Hvað varðar háþrýstidælur komi fram í verðkörfu að boðin hafi verið dæla sem hafi verið með 140 bör með 360 lítra flæði á klukkustund, sem séu þær mælieiningar sem almennt séu notaðar. Einnig hafi verið sendur bæklingur með Bosch háþrýstidælum, en átta slíkar verið í verðlista kæranda og hafi kærða verið í lófa lagið að taka til viðmiðunar eina af þeim hafi hann ekki verið sammála vali kæranda í verðkörfu. Byggt er á því að fyrirspurn kærða hafi verið svarað með bæklingum frá framleiðendum ásamt þeim upplýsingum sem þegar hafi verið í verðkörfu, enda hafi ekki komið frekari athugasemdir á matstíma tilboðs.

Hvað varðar athugasemd um að ekki hafi verið tilgreindar magntölur í verðlista pappírsvöru er vísað til þess að kærandi hafi strax brugðist við því með því að fylla inn einingarfjölda. Þess beri að geta að því er varði rúllur að einingarfjöldi sé almennt einn, fyrir utan smærri rúllur í salerni og eldhúspappír. Hafi magn í ytri pakkningu einnig verið sett inn í verðlistann til frekari skýringa og sá listi verið sendur kærða tímanlega. Hafi sá verðlisti sem fylgdi útboðsgögnum innihaldið sérstakan reit með lýsingu hverrar vöru. Þá hafi með tilboði verið afhentur vörulisti kæranda þar sem pappírsvörur séu í sérstökum kafla og á skýran hátt gerð grein fyrir pakkningastærðum, auk þess sem myndir og ýmsar aðrar upplýsingar hafi fylgt. Þá hafi ekki verið gerð athugasemd við verðkörfuna sjálfa enda hafi hún innihaldið umbeðnar upplýsingar. Samkvæmt ofangreindu hafi kærandi svarað fyrirspurn kærða innan tímamarka og er því mótmælt að ekki hafi verið veittar þær upplýsingar sem þörf hafi verið á til mats á tilboði.

Hvað varðar athugasemd um að ósamræmi hafi verið á milli verðkörfu og verðlista er vísað til þess að tekið hafi verið dæmi um eina vöru sem hafi verið í verðkörfu en ekki verðlista. Hafi verið um að ræða vörunúmer sem komið hafi í almenna sölu í mars 2006 og ekki verið komið inn í verðlistann. Sé þetta réttmæt athugasemd, en á móti beri að hafa í huga að varan hafi verið í verðkörfu þar sem allar upplýsingar um hana hafi komið fram og er bent á að verðlistarnir séu umfangsmiklir og um stóran vöruflokk að ræða. Því er mótmælt að það feli í sér veigamikil mistök að hafa ekki skráð eina vöru inn á upphaflegan verðlista. Hafi það þó að sjálfsögðu verið lagfært um leið og ábendingin kom fram. Vísað er til þess að einnig hafi verið bent á að í verðkörfu hafi átt að setja miðaþurrku með Z-broti, en þess í stað hafi verið boðin vara með interfold broti. Hafi þarna verið um augljós mistök að ræða og verið einfalt að sjá verð á þurrku með Z-broti í verðlista. Hafi þessi mistök verið leiðrétt og miðaþurrka með Z-broti verið sett inn á tilboðsblað með því verði sem var að finna í meðfylgjandi verðlista. Þá hafi einnig verið gerð athugasemd við verð á fimm tegundum hreinlætisefna þar sem verð í verðkörfu hafi verið annað en í meðfylgjandi verðlista. Hafi verið um að ræða mistök í verðlistaskjali sem hafi verið lagfærð. Hafi verði samkvæmt verðkörfu ekki verið breytt þannig að þetta hafi ekki verið til þess fallið að raska eða bæta stöðu bjóðenda. Hafi kærði gefið kæranda kost á úrbótum á vöru- og verðlistum og hafi það verið gert. Ekki hafi verið bætt inn vörunúmerum sem ekki hafi þegar verið í verðkörfu eða verðlista. Við leiðréttingu verðlistans hafi eingöngu verið notuð verð sem þegar hafi verið í upphaflega tilboðinu í verðkörfunni og er því mótmælt að verðum hafi verið breytt sem bætt hafi stöðu kæranda.

Vísað er til þess að í rökstuðningi kærða hafi jafnframt komið fram að ekki hafi verið farið að skilmálum útboðsgagna. Hafi vantað tilgreiningu á söluhæstu vörum kæranda samkvæmt lið 2.8 og ekki verið tilgreindur fjöldi vörunúmera eins og áskilið hafi verið til mats á vöruúrvali. Kærandi hafnar þessu þar sem í verðlistanum hafi verið sérstakur dálkur sem bar heitið ,,Söluhæstu vörur“ þar sem hakað hafi verið við þær með skýrum hætti. Jafnframt hafi verð- og vörulistinn sem fylgdi tilboðinu haft að geyma mjög skýra framsetningu á fjölda vörunúmera til mats á vöruvali og sé ekki ljóst hvernig kærandi hafi átt að uppfylla útboðskröfur með betra hætti.

Því er hafnað að þeim spurningum sem lagðar voru fram í fylgiskjali kærða nr. 5 hafi ekki verið svarað og sérstaklega vísað til orðalags tölvupósts kærða þar sem óskað var skýringa og úrbóta innan ákveðins tímafrests. Því er jafnframt mótmælt að kærandi hafi gefið villandi upplýsingar um verð og vörur og einnig kröfu kærða um að kærandi beri málskostnað við kæru. 

III.

Kærði vísar til þess að kæra hafi verið móttekin hjá kærunefnd útboðsmála 8. febrúar 2007, en niðurstaða útboðsins verið tilkynnt kæranda 22. desember 2006. Sé kæran því of seint fram komin og þess krafist að henni verði vísað frá. Í lið 1.2.15 í útboðslýsingu hafi verið gerð grein fyrir réttarúrræðum bjóðenda og komi þar fram að kæra skuli borin undir kærunefnd innan fjögurra vikna frá því kærandi vissi eða mátti vita um ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Hafi kærandi sótt útboðsgögn 26. nóvember 2006 og borið innan fjögurra vikna frá þeim tíma að gera athugasemdir við það sem hann taldi þarfnast skýringa eða benda til ósamræmis í gögnunum. Hafi kærandi ekki sent inn athugasemdir eða fyrirspurnir.

Í útboðsgögnum hafi verið gerð grein fyrir fjórum vöruflokkum og hafi verið heimilt að bjóða annað hvort í alla vöruflokka eða einstaka vöruflokka. Hafi kærandi boðið í alla fjóra vöruflokka og tilboð hans verið tekið til mats miðað við þá forsendu. Samkvæmt útboðsgögnum hafði verðhluti útboðsins vægið 60 af 100. Í lið 1.2.5 í útboðsgögnum hafi verið gerð grein fyrir mati á verði og byggðist það á lægsta verði samkvæmt tilboði (verðkarfa 30 stig og heildarverðlisti 30 stig) að frádregnum afslætti ef um hann er að ræða, sem fengi hæstu einkunn eða 60 stig, en eftir það réði nánar tilgreint reiknilíkan. Hafi verið tilgreind lágmarksviðmið boðinna tækja í verðkörfu. Hafi tilgangur verðkörfu verið að tilboð bjóðenda væru sett fram á sama hátt og væru þannig samanburðarhæf. Sé verðkarfan sem slík hvorki verð- né vörulisti bjóðanda eins og fram komi í lið 2.7. í útboðsgögnum og sé óheimilt að setja vöru í verðkörfu sem ekki eigi sér hliðstæðu í verðlista bjóðanda.

Við mat á tilboði kæranda hafi komið fram verulegt misræmi á milli þess og fylgigagna með því. Hafi kærði leitað skýringa hjá kærða 30. nóvember 2006, en svör kæranda í engu skýrt það sem leitað var skýringa á og hafi í sumum tilvikum verið um leiðréttingar á boðnum verðum að ræða, ný tilboðsblöð verið send inn og misræmi verið á milli vara í verðkörfum, verðlistum og upplýsingum kæranda.

Kærði mótmælir því að beiðni hans um nánari skýringar hafi verið nægjanlega svarað með bæklingum og upplýsingum sem kærandi sendi eftir á og færði sjálfur í verðkörfu. Hann mótmælir því jafnframt að ósamræmi milli verðkörfu og verðlista flokkist undir veigalítil mistök. Hafi eitthvað verið óskýrt eða óljóst í útboðsgögnum hafi kæranda borið að óska upplýsinga með fyrirspurn áður en opnun tilboða fór fram, en engar slíkar fyrirspurnir hafi borist frá honum. Hafi kæranda verið í lófa lagið að bera boðnar vörur í verðkörfu saman við gildandi verðlista og fylgigögn sem hann sendi inn með tilboði sínu. Fyrir hverja verðkörfu hafi bjóðendum borið að fylla út nokkrar vörulínur sem skiptust þannig að níu vörulínur voru í pappírshluta, ellefu í hreinsiefnahluta, fimm í tækjahluta og fimm í áhaldahluta, þ.e. alls 30 vörulínur í fjórum verðkörfum. Hafi verið ósamræmi í að minnsta kosti ellefu vörulínum kæranda. Hafi eitt nánar tilgreint vörunúmer í verðkörfu ekki verið að finna í gildandi verðlista, eitt vörunúmer ekki verið í samræmi við tilskilin viðmið í verðkörfu, verð fjögurra vörunúmera í verðkörfu verið töluvert lægra en í gildandi verðlista og ekki verið unnt að sannreyna fullyrðingu kæranda um stærðir fimm vörunúmera af fyrirliggjandi tækniupplýsingum.

Vísað er til þess að kærandi hafi óskað eftir skýringum á tilboði kæranda og vakið athygli hans á því að það vantaði allar tæknilegar upplýsingar um boðin tæki til hreingerninga. Hafi þær skýringar sem bárust verið til þess fallnar að bæta stöðu kæranda á kostnað annarra bjóðenda og því ekki verið mögulegt að taka þær gildar vegna jafnræðisreglu. Þá hafi umræddar skýringar jafnframt verið ófullnægjandi og tilboð kæranda ekki verið tækt til mats. 

Hvað varðar vöruflokk 1, sem bar heitið hreinlætispappír, er vísað til þess að kærði hafi vakið athygli kæranda á því að með innsendum verðlista í tilboði hans hafi ekki verið tilgreindar magntölur, eins og áskilið sé í útboðslýsingu. Til nánari glöggvunar hafi verðkarfa verið með þeim hætti að bjóðendum bar sjálfum að fylla út upplýsingar um boðna pappírsvöru og umreikna hana til 1000 metra einingar. Til að unnt sé að sannreyna þennan umreikning þurfi að koma fram í verðlista einingarverð boðinnar vöru og metrafjöldi hennar, sbr. lið 2.8 í útboðsgögnum. Hafi engar magnupplýsingar verið í innsendum verðlista með tilboði kæranda og því ekki verið hægt að sannreyna þetta. Hafi kærði áréttað að skylt hefði verið að setja umræddar upplýsingar í innsendan verðlista og kærandi svarað með því að senda inn nýjan verðlista þar sem bætt hafi verið við magntölum sem stæðu að baki boðnum einingarverðum. Þrátt fyrir þessar skýringar hafi enn verið ósamræmi í boðinni verðkörfu pappírs. Bera megi fyrstu þrjár vörulínur í verðkörfunni í tilboði kæranda saman við skýringar hans. Sé litið til fyrstu vörulínunnar hafi einingarverð fyrir hvern metra verið 0,758 eða kr. 52,30 fyrir hverja rúllu. Í nýjum verðlista komi fram að magnið sé sex einingar og heildarverð kr. 209. Þetta skýri kærandi svo að það vanti í nýja verðlistann innri magneiningar sem séu fjórar og þá gangi þetta upp. Sé með sama hætti skoðuð næsta vörulína í boðinni verðkörfu pappírs komi fram að rúllan sé 69 metrar og einingarverð fyrir hvern metra 0,947 eða kr. 65,34 fyrir hverja rúllu. Komi hins vegar fram í nýjum innsendum verðlista að rúllan sé 70 metrar og að sex slíkar rúllur kosti 262 krónur. Þetta fái ekki staðist því rúllan hafi verið boðin á kr. 65,34 í verðkörfu en í verðlista sé hún kr. 43,66. Þá fái heldur ekki staðist að kærði hafi getað gefið sér sem algilda skýringu að á bak við hverjar sex einingar í ytri pakkningu beri að reikna fjórar einingar í innri pakkningu, enda komi slíkt ekki fram í skýringum kæranda og fái það jafnframt ekki staðist að svo hafi átt að vera. Þegar skoðuð sé þriðja vörulínan í boðinni verðkörfu komi fram að einingarverð fyrir hvern metra sé 0,688 eða kr 261,4.  Sé þessi vara borin saman við hinn nýja innsenda verðlista komi fram að magn sé 6 einingar og verðið kr. 262. Standist það ekki heldur því þá hafi rúllan átt að vera á kr. 43,66. 

Þessu til viðbótar hafi kæranda verið bent á ósamræmi í verðkörfu sem stafaði af því að gefnar voru upp tvær vörur í pappír sem ekki fundust í verðlista, þ.e. vörur nr. 848100148 (Z-þurrkur) og 84810182 (servíettur). Þessu hafi kærandi svarað svo að vörurnar væru nýlegar og því ekki í verðlista. Hvað fyrrnefnda vöru varðar hafi verið boðinn interfold pappír í stað Z pappírs vegna mannlegra mistaka. Í lið 2.7 í útboðsgögnum hafi komið fram að óheimilt væri að setja vöru í verðkörfu sem ekki ætti sér hliðstæðu í verðlista bjóðanda. Af þessu öllu megi sjá að verulega erfitt hafi verið að sannreyna tilboð kæranda, þrátt fyrir að honum hafi verið gefið færi á skýringum. Hafi kærandi sent inn nýtt tilboðsblað þar sem hann breytti umræddri interfold vöru til samræmis því sem áskilið var og sendi jafnframt inn nýjan verðlista þar sem bætt var við vöru 84810182, eftir að tilboð höfðu verið opnuð. Í þessum nýja innsenda verðlista lækkaði kærandi ennfremur aðrar boðnar vörur í hreinsiefnahluta tilboðsins en slíkt er óheimilt.

            Hvað varðar vöruflokk II, sem bar heitið hreinlætisefni, vísar kærði til þess að verulegt ósamræmi hafi verið á verði í uppgefinni verðkörfu vegna margra vara.  Í þessum hluta verðkörfunnar hafi fjórar vörulínur af ellefu verið með lægri verðum en fram komu í innsendum verðlista. Sem dæmi megi nefna vörulínu nr. 6917925 þar sem verð í verðkörfu var 950 krónur, en í gildandi verðlista kr. 1.372 og vörulínu nr. 6917928 þar sem verð í verðkörfu hafi verið kr. 1556, en í verðlista kr. 2.640. Þegar óskað hafi verið skýringa á þessu hafi kærandi ógilt fyrri verðlista sem fylgdi upphaflegu tilboði og sent inn nýjan verðlista þar sem hann lækkaði viðkomandi vörunúmer í verði. Slíkt samrýmist ekki þeim sjónarmiðum sem gildi í opinberum innkaupum um skýrleika tilboða og er í því sambandi vísað til úrskurðar kærunefndar útboðsmála í máli nr. 34/2004.

            Hvað varðar vöruflokk III, sem bar heitið tæki til hreingerninga, vísar kærði til þess að bjóðendur hafi verið beðnir um að fylla út fimm atriði í verðkörfu til samanburðar á tilboðum bjóðenda. Hafi verið tilgreind lágmarksviðmið boðinna tækja í verðkörfunni, en með tilboði kæranda vantað tæknilegar upplýsingar um boðin tæki. Hafi einungis verið gefið upp vörunúmer, verð og vísað í mynd af tækjum sem kærandi hafi valið og skráð í verðkörfu með tilboði sínu. Hafi verið fullyrt að umræddar vörur stæðust skilyrt viðmið verðkörfunnar og kærandi talið það nægilegt. Þar sem boðin verð í verðkörfu kæranda hafi verið óeðlilega lág miðað við verð annarra bjóðenda í þessum flokki og þar sem engar tæknilegar upplýsingar fylgdu tilboði hans hafi verið óskað eftir þeim upplýsingum svo að sannreyna mætti að um sambærileg tæki væri að ræða. Hafi viðunandi tæknilegar upplýsingar ekki borist frá kæranda þannig að sannreyna mætti órökstudda fullyrðingu hans um að valdar vörur í verðkörfu hans uppfylltu þær viðmiðunarkröfur sem gerðar voru.

            Ef litið sé til fyrsta liðarins í umræddri verðkörfu sem sé gólfþvottavél hafi kærandi sett vörunúmerið 6954002 úr verðlista sínum í verðkörfuna. Hafi hann fullyrt að vélin væri með 85 cm. sköfu, tvöföldum 50x 50 L tanki, innbyggðu hleðslutæki og þurrrafgeymi. Við könnun á boðnum verðlista til að sannreyna umrædda vöru hafi komið í ljós að þar var aðeins að finna upplýsingar um vörunúmer, verð og svohljóðandi vörulýsingu: Gólfþvottavél TTB.3450 S blá. Hafi kæranda verið bent á að ekki væri hægt að meta og sannreyna fullyrðingu hans varðandi umrædd tæki þar sem tæknilýsingar hafi vantað. Sem svar við beiðni kærða um skýringar hafi kærandi sent nokkra nýja vörulista þar á meðal yfir gólfþvottavélar og bónvélar þar sem fjallað hafi verið um tvær megingerðir gólfþvottavéla, TTB6652T og TT/TTBB3450C, en boðin gólfvél kæranda hafi borið númerið TTB.3450S. Megi sjá af bæklingnum að ekki hafi verið um sömu útfærslu að ræða og boðin var í verðkörfu og verðlista kæranda, auk þess sem þær hafi verið með 30 lítra tanki og því töluvert minni vélar en áskilið var í viðmiðum verðkörfunnar. Hafi raunar engar tæknilegar upplýsingar fylgt tilboði kæranda þannig að hægt væri að sannreyna einföld atriði, svo sem stærðir, afl og getu tækja, og kærandi kosið að senda ekki skýringar þegar þess var kostur. Vísað er til þess að kærandi hafi viðurkennt að gera eina villu þar sem vél hafi verið tilgreind með 50 x 50 lítra tank, en í raun verið 30 x 30 lítra tankur.

Vísað er til þess að í lið 2 í umræddri verðkörfu þar sem boðin var bónvél, hafi kærandi valið vöru nr. 6954007 og fullyrt að um væri að ræða bónvél með ryksugu,  1.800 W,  2000 snúningar á mínútu og 50 cm paddi. Við samanburð boðinnar vöru í innsendum verðlista kæranda hafi komið í ljós að vörunni var lýst sem Gólfslípivél NSU1500 High Speed. Við nánari athugun hafi komið í ljós að sem fyrr vantaði þær upplýsingar sem þörf var á til að staðfesta að umrædd vél væri búin þeim eiginleikum sem kærandi lofaði. Var honum gefinn kostur á að koma skýringum sínum á framfæri, en engar skýringar borist varðandi þessa tilteknu vél þó svo að sendar væru upplýsingar um gólfslípivélar af gerðinni Loline 332 (NLL332) og Loline 414 (NLL415). Af þeim gögnum varð ekki ráðið að um væri að ræða upplýsingar um boðna vél nr. 6954007 – NSU1500 High Speed, úr verðkörfu kæranda. Vísað er til liðar 3 í verðkörfu sem varði ryksugu og tekið fram að kærandi hafi staðfest að texti tæknilýsingar eins og hún komi fram í verðkörfu útboðsins eigi að gilda. Í verðkörfu hafi vörunni verið lýst sem ryksugu, 1200w, loftflæði 3500l/mín, tankur 25 L. frá Numatic, en í verðlista sem ryksugu NVP370-2. Hafi kærði þurft staðfestingu á því að um væri að ræða þá vöru sem lýst var í verðkörfu, en kærandi svarað fyrirspurn hans með því að senda inn bækling sem sé ekki um téða ryksugu NVP370-2 heldur um ryksugu sem beri tegundarheitið “Henry” og sé allt önnur ryksuga en sú sem boðin hafi verið í verðkörfu. Vísað er til liðar 4 í umræddri verðkörfu sem varðar vatnssugu. Hafi komið fram í verðkörfu að boðin væri vatnssuga, 1200w, loftflæði 3500 l/mín, tankur 25 L frá Numatic, en í verðlista sé henni lýst sem vatnssuga ryksuga vatn WVT.470 Black V30. Hafi sem fyrr ekki verið hægt að sannreyna staðhæfingu kæranda og engar tæknilegar upplýsingar borist í því sambandi. Vísað er til liðar 5 í umræddri verðkörfu sem varðar háþrýstitæki. Í verðkörfu komi fram að boðið sé háþrýstitæki 120 bör, 450l/klst, en í verðlista sé vörunni lýst sem háþrýstidælu 230V/50HZ 1750W. Hafi engar tæknilegar upplýsingar fylgt um þessa vél og heldur ekki myndabæklingur. Hafi þær upplýsingar sem bárust síðar verið um tæki frá Bosch, en umrædda vél ekki verið að finna í þeim bæklingi. Þannig sé ljóst að upplýsingar varðandi háþrýstidælur sem kærandi sendi inn til skýringa voru afar óljósar og beinlínis villandi. Þar sem engar upplýsingar hafi borist um vélina hafi ekki verið hægt að sannreyna boðna vöru eða fullyrðingu í verðkörfu kæranda.

            Kærði vísar til þess að samkvæmt lið 2.8 í útboðslýsingu hafi bjóðendum borið að merkja við þrjár til fimm söluhæstu vörurnar innan hvers skilgreinds flokks í innsendum vöru- og verðlista. Hafi kærandi merkt við 13 vörulínur í verðlista sínum sem skipti hundruðum vörulína. Í verðkörfunni einni hafi verið 30 vörulínur. Svo virðist sem kærandi hafi misskilið þennan þátt og talið að tilgreina bæri þrjár til fimm söluhæstu vörur í hverjum vöruflokki útboðsins. Engu að síður hafi hann látið það ógert að merkja við tækjahluta útboðsins. Þó má geta þess að í lið 2.7 í útboðslýsingu hafi komið fram skýring á þessu og hafi bjóðendum samkvæmt því borið að velja söluhæstu vörur sínar í verðkörfu sem samanstóð af 30 vörulínum. Sé ljóst að aðeins 13 af þeim vörum sem kærandi merkti sem söluhæstar hafi ratað í verðkörfu hans, þó svo að þar væru 30 vörulínur.

Í ljósi þess að kærandi lagði fram kæru hafi þess verið freistað af hálfu kærða að fá tæknilegar upplýsingar vegna þeirra fjögurra vara sem voru í verðkörfu hans í vöruflokki III. Hafi þá komið í ljós að gólfþvottavél reyndist vera með 30L capacity, in a single dirty water tank en ekki 50x50 L. /þurrafhlöður, gólfslípivél reyndist vera 1500 w en ekki 1800 w eins og fullyrt var og jafnframt með 40cm padda en ekki 50cm eins og áskilið var, ryksuga reyndist vera með sog 2.700 l/mín, en ekki 3.500 l/mín og var jafnframt með 15 lítra tanki en ekki 25 lítra tanki eins og fullyrt var, vatnssuga reyndist vera með sog 2.400 l/mín en ekki 3.500 l/mín eins og fullyrt var og tankur jafnframt 20 lítra en ekki 25 lítra eins og fullyrt var, háþrýstidæla reyndist vera af tegundinni “East High” en ekki “Bosch” eins og kærandi reyndi að sýna fram á með innsendum tæknilýsingum. Megi sjá af þessu að fullyrðingar kæranda um stærðir boðinna tækja í fyrrgreindri verðkörfu standist ekki og að ekkert tækjanna standist lágmarksviðmið. Hafi enginn annar bjóðandi litið svo á að ekki þyrfti tækniupplýsingar til að sannreyna boðnar vörur með tilliti til verðlista og verðkörfu. Að mati kærða hafi kærandi valið vélar og tæki sem eru töluvert undir þeim kröfum sem óskað var eftir til þess að hafa lægri verð í verðkörfu við samanburð tilboða við aðrar bjóðendur. Hafi verðlistar kæranda verið flokkaðir samkvæmt kafla 2 í útboðslýsingu, en ekki verið merkt við þrjár til fimm söluhæstu vörurnar innan skilgreindra flokka. Þá hafi kærandi ekki tilgreint fjölda vörunúmera og vöruflokka sem nota átti við mat á vöruúrvali í samræmi við lið 2.9 í útboðslýsingu. Hafi tilboð kæranda verið afar villandi og ruglingslega fram sett og skýringar sem bárust þegar eftir var leitað verið ófullnægjandi. Ekki verði annað séð að virtum gögnum en að kærandi hafi gefið upp villandi upplýsingar bæði um verð og eiginleika vöru með tilboði sínu óafvitandi eða vitandi vits. Ekki hafi annað verið hægt að öllum gögnum virtum og til að gæta sanngirni við aðra bjóðendur en vísa tilboði kæranda frá.

 

 

IV.

Kærði byggir á því að kæra sé of seint fram komin þar sem kæranda hafi verið tilkynnt um niðurstöðu útboðsins 22. desember 2006, en kæra ekki verið móttekin hjá kærunefnd útboðsmála fyrr en 8. febrúar 2007. Kæra lýtur að þeirri ákvörðun kærða að vísa tilboði kæranda frá. Sú ákvörðun var fyrst tilkynnt kæranda með rökstuðningi kærða 12. janúar 2007 og barst kæra innan fjögurra vikna frá því tímamarki. Er því ekki fallist á að kæra sé of seint fram komin, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 94/2001.

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort kærða hafi verið heimilt að vísa tilboði kæranda frá. Kærði hefur meðal annars rökstutt þá ákvörðun með því að tæknilegar upplýsingar um boðin tæki til hreingerninga hafi vantað. Þá hafi ekki verið tilgreindar boðnar einingar eða magntölur sem lágu til grundvallar verði í verðlista í flokknum hreinlætispappír, auk þess sem ein vörutegund í verðkörfu hafi ekki verið í boðnum verðlista. Jafnframt hafi borið að setja miðaþurrku með Z-broti í verðkörfu, en kærði boðið vöru með interfold broti. Þá hafi verð fimm vörutegunda í verðkörfu í flokki hreinlætisefna verið í ósamræmi við uppgefin verð í verðlista. Þar að auki vísar kærði til fleiri annmarka á tilboði sem gerð var grein fyrir að framan.

Það er meginregla í opinberum innkaupum að ef tilboð er að verulegu leyti í ósamræmi við útboðsskilmála er óheimilt að taka því og er verkkaupa rétt að líta svo á að það sé ógilt. Jafnframt geta bjóðendur ekki breytt tilboðum sínum eftir að þau hafa verið opnuð. Stefna þessar reglur að því að tryggja jafnræði bjóðenda, sbr. 1. og 11. gr. laga nr. 94/2001. Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að ýmsir annmarkar voru á tilboði kæranda. Má þar nefna að tilboð hans var í ósamræmi við lið 2.8 í útboðsgögnum þar sem boðnar einingar sem lágu til grundvallar verðlista flokksins hreinlætispappír voru ekki tilgreindar. Þá var tilboðið í ósamræmi við lið 2.7 þar sem tekið var fram að óheimilt væri að setja vöru í verðkörfu sem ekki ætti sér hliðstæðu í verðlista bjóðanda, en vörutegund nr. 84810182, sem var í verðkörfu kæranda, var ekki að finna í verðlista hans. Þá var ósamræmi á milli verðlista og verðkörfu í flokki hreinlætisefna þar sem fimm vörutegundir voru með lægra verði í verðkörfu en í verðlista. Jafnframt setti kærandi í einu tilviki aðra vöru í verðkörfu en óskað var eftir á tilboðsblaði. Auk þess fylgdi ekki tilboðinu tæknileg lýsing á eiginleikum þeirra vörutegunda sem boðnar voru í flokknum tæki til hreingerninga, en samkvæmt útboðsgögnum þurftu tækin að uppfylla ákveðin lágmarksviðmið. Var tilboðið að þessu leyti í ósamræmi við lið 1.1.9 í útboðsgögnum þar sem fram kom að tilboði ætti að fylgja tæknileg lýsing á eiginleikum boðinnar vöru í samræmi við matsviðmið. Þegar óskað var eftir skýringum kæranda sendi hann meðal annars inn ný tilboðsblöð og verðlista. Höfðu hin nýju gögn að geyma ákveðnar breytingar á tilboði kæranda og var meðal annars skipt út vöru í verðkörfu og tiltekin verð í verðlista lækkuð. Telja verður að tilboð kæranda hafi samkvæmt framansögðu verið í slíku ósamræmi við útboðsgögn að kærða hafi verið rétt að vísa því frá, en honum var jafnframt óheimilt að taka tillit til þeirra breytinga sem kærandi leitaðist við að gera á tilboði sínu þar sem þær voru til þess fallnar að raska jafnræði bjóðenda. Verður samkvæmt framangreindu að hafna kröfu kæranda.

Kærði krefst þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað á grundvelli 3. mgr. 81. gr. laga nr. 94/2001 um opinber innkaup. Í tilgreindu lagaákvæði kemur fram að kærunefnd útboðsmála geti ákveðið, ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa, að kærandi greiði málskostnað sem renni í ríkissjóð. Ekki er fallist á að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt eins og máli þessu er háttað og verður kröfunni því hafnað.

Úrskurðarorð:

            Hafnað er kröfu kæranda, Olíufélagsins hf., vegna útboðs Ríkiskaupa auðkennt sem ,,Hreinlætisefni, hreinlætispappír, tæki og áhöld.“

            Kröfu kæranda um að kærða verði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð er hafnað.

 

                                                               Reykjavík, 4. apríl 2007.

                            Páll Sigurðsson

                                          Stanley Pálsson            

                                                               Sigfús Jónsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 4. apríl 2007.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta