Hoppa yfir valmynd

Nr. 373/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. september 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 373/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18070004

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 6. mars 2018 kærði […], kt. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2018, um að afturkalla dvalarleyfi hans, sbr. 59. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kæranda var afhent hin kærða ákvörðun þann 23. febrúar.

Kærandi setti ekki fram kröfur eða lagði fram greinargerð til kærunefndar útlendingamála. Kærunefnd lítur svo á að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi hér á Íslandi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt því sem kemur fram í hinni kærðu ákvörðun fékk kærandi útgefið dvalarleyfi á Íslandi vegna skorts á starfsfólki þann 30. nóvember 2016 með gildistíma til 18. nóvember 2017. Hafi leyfi kæranda verið endurnýjað þann 20. nóvember 2017 með gildistíma til 16. nóvember 2018. Þann 15. janúar 2018 hafi Vinnumálastofnun afturkallað atvinnuleyfi kæranda. Með ákvörðun, dags. 19. febrúar 2018, afturkallaði Útlendingastofnun dvalarleyfi kæranda. Kærandi kærði þá ákvörðun þann 6. mars 2018 og fylgdu athugasemdir með kæru. Með bréfi, dags. 23. júlí sl., var kæranda skipaður talsmaður af Útlendingastofnun, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga um útlendinga. Með tölvupósti, dags. 23. júlí sl., var talsmanni kæranda veittur frestur til 7. ágúst sl. til að leggja fram greinargerð til kærunefndar.

Með símtali og tölvupósti til kærunefndar þann 7. ágúst sl. greindi talsmaður kæranda frá því að svo virtist sem kærandi vildi ekki nýta sér þjónustu hans. Var talsmanni kæranda veittur frestur til að ræða við skjólstæðing sinn og hafa samband við Útlendingastofnun sem sér um skipun talsmanna. Þann 14. ágúst sl. sendi kærunefnd tölvupóst til kæranda þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort kærandi vildi ekki nýta sér þjónustu hins skipaða talsmanns eða hvort kærandi væri með annan lögmann. Þá var kærandi upplýstur um að samkvæmt Útlendingastofnun og reglum þar að lútandi stæði ríkissjóður einungis straum af kostnaði vegna skipaðra talsmanna. Óskað var eftir svörum fyrir 16. ágúst sl. Svar barst ekki frá kæranda. Með bréfi, dags. 15. ágúst sl., upplýsti talsmaður kæranda kærunefnd um að þar sem kærandi vildi ekki að hann gætti hagsmuna sinna myndi hann ekki taka að sér starf talsmanns eða skila greinargerð. Með tölvupósti til kæranda þann 22. ágúst sl. var kæranda veittur frestur til 30. ágúst sl. til að leggja fram greinargerð. Greinargerð barst ekki til nefndarinnar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að útgáfa dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki væri háð því skilyrði að atvinnuleyfi hefði verið veitt, sbr. b. liður 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga. Ákvæði 59. gr. sömu laga heimilaði stofnuninni að afturkalla dvalarleyfi ef skilyrðum fyrir veitingu þess væri ekki lengur fullnægt. Vísaði stofnunin til þess að þann 15. janúar sl. hafi Vinnumálastofnun afturkallað atvinnuleyfi kæranda, sbr. upplýsingar frá vinnuveitanda. Því væri ljóst að kærandi uppfyllti ekki lengur skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki og var leyfi hans afturkallað af þeirri ástæðu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í athugasemdum kæranda sem fylgdu með kæru segir að þann 23. febrúar sl. hafi bréf borist á heimili kæranda. Í því hafi staðið að dvalarleyfi hans hafi verið afturkallað þar sem kærandi væri ekki lengur við störf hjá fyrri vinnuveitanda. Eftir að hafa skoðað vefsíðu Útlendingastofnunar hafi kærandi tekið ákvörðun um að kæra. Á vefsíðu Útlendingastofnunar standi að þegar dvalarleyfishafi missi grundvöll fyrir leyfi veiti stofnunin viðkomandi 15 daga til að leggja fram nýja umsókn fyrir atvinnuleyfi sem eigi við um sama dvalarleyfi. Þar sem kæranda hafi ekki verið veitt tækifæri á slíku vilji hann kæra ákvörðunina og biðja kærunefnd útlendingamála um að búa til aðra umsókn fyrir atvinnuleyfi sem gildi fyrir sama dvalarleyfi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að afturkalla dvalarleyfi kæranda þar sem skilyrði fyrir veitingu þess séu ekki lengur fyrir hendi, sbr. 59. gr. laga um útlendinga. Eins og að framan greinir dvaldi kærandi hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga.

Í 62. gr. laga um útlendinga er fjallað um heimildir til útgáfu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt 1. mgr. 62. gr. laganna eru m.a. þau að útlendingur fullnægi grunnskilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. laganna, sbr. a-lið 1. mgr. 62. gr., og að tímabundið atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki hafi verið veitt á grundvelli laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga, sbr. b-lið 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga.

Í ákvæði 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga er mælt svo fyrir um að Útlendingastofnun taki ákvörðun um veitingu dvalarleyfis en Vinnumálastofnun um veitingu atvinnuleyfis. Af ákvæðinu er ljóst að ákveðin verkaskipting er milli Útlendingastofnunar annars vegar og Vinnumálastofnunar hins vegar. Er hlutverk Útlendingastofnunar m.a. fólgið í að kanna hvort skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis samkvæmt umsókn þar að lútandi séu fyrir hendi í samræmi við ákvæði laga um útlendinga á meðan Vinnumálastofnun annast m.a. framkvæmd laga atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002, þ.m.t. hvort útlendingi skuli veitt atvinnuleyfi.

Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að afturkalla dvalarleyfi útlendings, m.a. ef ekki eru lengur uppfyllt skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis eða ótímabundins dvalarleyfis. Í máli þessu liggur fyrir að með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. janúar sl. var tímabundið atvinnuleyfi kæranda vegna skorts á starfsfólki afturkallað. Engin gögn liggja fyrir í málinu um að þeirri ákvörðun hafi verið hnekkt. Kærandi uppfyllir því ekki lengur skilyrði b-liðar 1. mgr. 62. gr. laga um útlendinga. Er því heimilt að afturkalla dvalarleyfi kæranda, sbr. 1. mgr. 59. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                         Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta