Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 440/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 440/2019

Miðvikudaginn 22. apríl 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru 21. október 2019, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiðar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót/styrk til kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiðar með umsókn, dags. 15. júlí 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. júlí 2019, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að kærandi væri inniliggjandi á stofnun og uppfyllti því ekki tilskilin skilyrði. Þann 16. október 2019 fór umboðsmaður kæranda fram á rökstuðning fyrir ákvörðuninni. Í kjölfarið ákvað Tryggingastofnun ríkisins að endurupptaka fyrri ákvörðun og synjaði kæranda á ný með bréfi, dags. 21. október 2019, á þeim grundvelli að ökumaður bifreiðarinnar væri ekki heimilismaður kæranda.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. október 2019. Með bréfi, 20. nóvember 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. desember 2019, barst greinargerð frá Tryggingastofnun og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. desember 2019. Athugasemdir bárust þann 17. janúar 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. janúar 2020. Með bréfi, dags. 5. febrúar 2020, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. febrúar 2020. Athugasemdir bárust þann 28. febrúar 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. mars 2020. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að Tryggingastofnun dragi kærða ákvörðun sína til baka.

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun um að veita kæranda ekki uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið á þeim forsendum að hann sé inniliggjandi á stofnun. Það sé gagnrýnt að ekki sé tekið tillit til sérstakra aðstæðna kæranda og hans fjölskyldu. Kærandi sé með lögheimili að X ásamt eiginkonu sinni og syni en dvelji á hjúkrunarheimilinu C á X. Kærandi sé X ára og hafi í X fengið heilablæðingu sem hafi valdið því að hann sé bundinn hjólastól og sé með talsvert skerta getu sem feli meðal annars í sér jafnvægisleysi, sjónskerðingu og skerðingu í […] hendi. Í bréfi Tryggingastofnunar segi að markmið með styrkjum og uppbótum vegna bifreiða sé að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu, skóla og sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Kærandi sæki talsverða læknisþjónustu til X. Einnig hafi hann þurft að sækja töluverða tannlæknaþjónustu og talþjálfun utan heimilis ásamt annarri tilfallandi þjónustu. Sveitarfélagið X, þar sem kærandi sé búsettur, bjóði einstaklingum ekki upp á ferðaþjónustu utan sveitarfélagsins og því sé kærandi alfarið háður sinni eigin bifreið til að komast á þessa staði.

Með umsókn kæranda hafi fylgt hreyfihömlunarvottorð og þá sé hann einnig með örorkumat hjá Tryggingastofnun.

Sú bifreið sem kærandi hafi aðgang að sé Toytota Auris sem henti honum mjög illa þar sem hann sé hávaxinn og það sé erfitt fyrir hann að setjast inn í og fara úr bílnum. Auk þess rúmi bíllinn illa hjólastól sem þurfi alltaf að vera meðferðis. Mikið álag sé á aðra fjölskyldumeðlimi við að aðstoða kæranda inn og út úr bifreiðinni, ásamt því að reyna að koma hjólastólnum þar fyrir. Á veturna komist kærandi ekkert nema með bifreið og þá aukist álagið, bæði fyrir kæranda og fjölskyldu hans.

Kærandi sé bundinn við að nota bíl til að komast á milli staða, sinna fjölskyldunni og félagslegum tengslum. Kærandi sé félagslega sterkur einstaklingur sem vilji vera þátttakandi í lífi fjölskyldunnar og samfélaginu. Fötlun hans hamli honum hins vegar að vera þessi þátttakandi nema með því að fá viðeigandi aðlögun í umhverfinu sem tryggi lífsgæði hans.

Kærandi og konan hans hafi tekið á sig talsverðan kostnað í kjölfar slyssins Auk mikils tekjumissis séu þau einnig með eitt barn á framfæri. Sé litið til jafnræðis- og mannúðarsjónarmiða telji kærandi að líta verði á mál hans í heild sinni.

Umsókn kæranda sé synjað á þeim forsendum að hann sé inniliggjandi á stofnun og uppfylli því ekki ofangreint skilyrði. Í synjun Tryggingastofnunar sé vísað í reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í reglugerðinni komi ekki fram að heimilt sé að synja umsækjendum á þessum forsendum. Umboðsmaður kæranda hafi sent fyrirspurn til stofnunarinnar þar sem óskað hafi verið eftir svari við því hvar þessi heilmild komi fram en svar hafi ekki borist.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda frá 17. janúar 2020, kemur fram að í greinargerð Tryggingastofnunar segi: ,,Þar sem þú uppfyllir ekki skilyrði reglugerðarinnar þá er þér synjað um uppbót/styrk...“ Í ljósi þess að í íslenskum rétti sé það grundvallarregla að stjórnsýslan sé lögbundin hljóti það að vera spurning hvaða heimildir séu í lögum fyrir því að neita kæranda um bílastyrkinn út frá þessari reglugerð.

Í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að kærandi hafi ekki heimilisfesti á skráðu lögheimili. Kærandi spyr hvaðan Tryggingastofnun fái upplýsingar um að hann sé ekki raunverulegur heimilismaður þar sem hann sé skráður í þjóðskrá. Þá er spurt hvort Tryggingastofnun hafi heimild til að efast um heimilisfesti viðkomandi og á hvaða lagagrundvelli það byggist.

Varðandi þær upplýsingar að Tryggingastofnun hafi undir höndum haldbær gögn sem gætu haft veruleg áhrif á niðurstöðu málsins sé ljóst að samkvæmt stjórnsýslurétti hafi stofnuninni borið að upplýsa um það og gefa kæranda kost á að andmæla í ljósi almenns réttar í íslensku samfélagi um að stjórnvöld eigi að gæta meðalhófs í ákvörðunum sínum þannig að ekki halli á borgarann.

Enn fremur segi í greinargerð Tryggingarstofnunar: ,,Að lokum er rétt að taka það fram að markmiðið með styrkjum og uppbót vegna bifreiða er að gera einstaklingum kleift að stunda atvinnu, skóla og sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð. Ekki er ljóst hvort þú uppfyllir það markmið í dag, en þar sem að þú uppfyllir ekki önnur skilyrði reglugerðarinnar er ekki ástæða til að óska eftir upplýsingum frá þér þar að lútandi“. Kærandi sé bæði með hreyfihömlunarvottorð og örorkumat og hafi þau gögn verið til hjá Tryggingastofnun við afgreiðslu umsóknarinnar. Enn fremur hafi verið færð rök fyrir nauðsyn bifreiðar í kæru. Að auki sé kærandi hreyfihamlaður og þurfi að sækja læknismeðferð og aðra tilfallandi þjónustu. Það hljóti því að vera ámælisvert að stjórnvald eins og Tryggingastofnun neiti kæranda um styrk til bifreiðakaupa byggt á þessu mati á mjög svo óljósri forsendu þegar öll skilyrði séu uppfyllt í umsókninni.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda frá 28. febrúar 2020 segi: „Í máli þessu er ekki deilt um að kærandi dvelst…“ Í ljósi þess að í íslenskum rétti sé það grundvallarregla að stjórnsýslan sé lögbundin, hljóti það að vera spurning hvaða heimildir séu í lögum fyrir því að neita kæranda um bílastyrk þegar lögheimili hans sé X. Í 1. gr. laga um félagsleg aðstoð segi: „bætur félagslegrar aðstoðar greiðast eingöngu þeim sem lögheimili eiga hér á landi, [sbr. 2. gr. laga um lögheimili og aðsetur]“ Spurt er hvort Tryggingastofnun hafi heimild til að taka ákvörðun út frá gögnum sem ekki hafi verið kynnt aðilum máls.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi „Í máli þessu er ekki deilt um að…“ Tryggingastofnun vísi í læknisvottorð frá heimilislækni kæranda, dags. 8. janúar 2019. Nýtt læknisvottorð hafi verið lagt inn 28. febrúar 2020 þar sem fram komi hvernig kærandi verji tíma sínum á lögheimili sínu X. Góður rökstuðningur komi fram í nýja læknisvottorðinu frá 27. febrúar 2020 um hversu mikla þörf kærandi hafi fyrir þennan bílastyrk og hafi ákvörðun stofnunarinnar mikla þýðingu fyrir hann og fjölskyldu hans.

Þess sé krafist að úrskurðarnefnd velferðarmála ógildi ákvörðun Tryggingastofnunar og sendi málið til nýrrar meðferðar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um uppbót/styrk til reksturs og kaupa á bifreið samkvæmt 2., 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Kærandi hafi sótt um uppbót/styrk til reksturs og kaupa á bifreið samkvæmt 2., 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 vegna kaupa á bifreið þann 19. júlí 2019. Umsókninni hafi upphaflega verið synjað á röngum forsendum með bréfi, dags. 22. júlí 2019.

Tölvupóstur hafi borist frá umboðsmanni kæranda í október 2019. Við skoðun málsins í kjölfarið hafi uppgötvast að synjunin hafði verið gerð á röngum forsendum og hafi málið verið endurupptekið hjá stofnuninni. Umsókninni hafi svo verið synjað aftur með bréfi stofnunarinnar þann 21. október 2019. Nú hafi borist kæra.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt 3. gr. 10. gr. sé Tryggingastofnun heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Sett hafi verið reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða þar sem 10. gr. laganna sé útfærð nánar. Í 1. mgr. 1. gr. komi fram að markmið reglugerðarinnar sé að auðvelda bótaþegum að sækja um lögbundna styrki og uppbætur ef sýnt þyki að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Í 1. mgr. komi jafnframt fram að það sé markmið með styrkjum og uppbótum vegna bifreiða að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu, skóla og sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Í 3. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar komi fram að með bifreið í reglugerðinni sé átt við fólksbifreið eða sendibifreið sem ætluð sé til daglegra nota.

Í 1. tölul. 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar komi fram að uppbót til reksturs bifreiðar megi einungis veita ef að hinn hreyfihamlaði eða annar heimilismaður hans hafi ökuréttindi. Hið sama gildi um uppbót vegna kaupa á bifreiða samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Á sama hátt komi fram í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar að styrkur vegna kaupa bifreiðar megi einungis veita ef hinn hreyfihamlaði eða heimilismaður hans hafi ökuréttindi. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar gildi skilyrði 4. gr. reglugerðarinnar einnig um styrki sem veittir séu samkvæmt 5. gr.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 170/2009 komi fram að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða styrki og uppbætur samkvæmt reglugerðinni að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Það sé ljóst að kærandi uppfylli ekki ákveðin skilyrði reglugerðarinnar.

Hinn hreyfihamlaði eða heimilismaður hans þurfi að vera ökumaður bifreiðarinnar til þess að hægt sé að greiða uppbót/styrk vegna reksturs eða kaupa bifreiðar samkvæmt 2., 3. og 4. gr. reglugerðarinnar.

Í umsókninni komi fram að kærandi muni ekki keyra bifreiðina sjálfur. Skráður ökumaður sé maki kæranda en hún sé skráð til heimilis á X. Kærandi dveljist hins vegar á stofnun og sé því ekki lengur heimilismaður kæranda í skilningi reglugerðarinnar. Af læknisvottorði og öðrum gögnum málsins sé alveg skýrt að kærandi ætli ekki að keyra bifreiðina sjálfur.

Núgildandi reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða hafi tekið gildi árið 2009 og hafi tekið við af eldri reglugerð nr. 752/2002 um styrki og uppbætur Tryggingastofnunar ríkisins til hreyfihamlaðra vegna bifreiða, með síðari breytingum.

Með þeirri reglugerð hafi aðgengi að uppbótum og styrkjum verið rýmkað verulega frá því sem áður hafi verið. Eitt af þeim atriðum sem sérstaklega hafi verið tekin afstaða til hafi verið hversu ströng skilyrði ætti að setja um að uppbótar- eða styrkþeginn hefði sjálfur ökuréttindi. Í eldri reglugerð hafi eins og nú verið skilyrði fyrir veitingu uppbótar vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiðar að umsækjandi eða heimilismaður hans hefðu ökuréttindi. Fyrir veitingu styrkja vegna bifreiðakaupa hafi hins vegar verið strangari skilyrði en í þeim tilvikum hafi umsækjandi sjálfur þurft að hafa ökuréttindi.

Í reglugerð nr. 170/2009 hafi skilyrði til þess að eiga rétt á styrk vegna bifreiðakaupa, hvort sem það sé samkvæmt 4. gr. eða 5. gr. reglugerðarinnar, verið rýmkuð á þann hátt að nú þurfi umsækjendur ekki sjálfir að hafa ökuréttindi heldur dugi að heimilismaður hafi slík réttindi. Núna séu því gerðar sömu kröfur til ökuréttinda umsækjanda og heimilismanns hans hvort sem um sé að ræða uppbætur vegna bifreiðakaupa og reksturs bifreiða samkvæmt 2. og 3. gr. eða styrki til bifreiðakaupa samkvæmt 4. eða 5. gr. reglugerðarinnar.

Markmið breytinganna, sem gerðar hafi verið árið 2009, virðist hafa verið að samræma þau skilyrði sem gerð hafi verið til ökuréttinda, hvort sem um sé að ræða uppbót til reksturs bifreiðar, uppbót til kaupa á bifreið eða styrk vegna kaupa á bifreið.

Miðað við skýrt og afdráttarlaust orðalag ofangreindra ákvæða sé ljóst að kærandi eigi ekki rétt á uppbót/styrk til bifreiðakaupa á þessum forsendum. Rétt sé að benda á að sú niðurstaða Tryggingastofnunar sé í samræmi við fordæmi úrskurðarnefndar í fjölda mála. Tryggingastofnun vilji vekja sérstaklega athygli á úrskurðum úrskurðarnefndar í málum nr. 66/2015 og 144/2017.

Tryggingastofnun vilji taka fram að í synjun Tryggingastofnunar, dags. 21. október 2019, hafi ekki komið fram ein forsenda þess að kærandi eigi ekki rétt á uppbót til reksturs og kaupa á bifreið samkvæmt 2. og 3. gr. reglugerðar nr. 100/2007. Sú forsenda hafi hins vegar ekki áhrif á rétt kæranda til styrks samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi hafi fengið greiddan örorkulífeyri í X en hafi frá þeim tíma ekki fengið örorkulífeyri frá Tryggingastofnun. Samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar þá sé sá lífeyrisþegi sem fái greiddan lífeyri samkvæmt almannatryggingalögum.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar sé alveg skýrt að til að eiga rétt á þessum uppbótum þurfi viðkomandi að vera elli- og örorkulífeyrisþegi eða örorkustyrkþegi til að geta átt rétt á uppbótunum.

Í samræmi við orðalag reglugerðarinnar og fyrri niðurstöðu úrskurðarnefndar, meðal annars í máli nr. 106/2018, eigi kærandi ekki rétt á greiðslum uppbóta samkvæmt þessum ákvæðum þegar af þeirri ástæðu að hann sé ekki lífeyrisþegi í skilningi viðeigandi laga og reglugerða.

Í 1. gr. reglugerðarinnar komi einnig fram að umsækjandi þurfi að sýna fram á nauðsyn á bifreið, þ.e. að hann geti ekki komist af án uppbótarinnar/styrksins. Þar komi jafnframt fram að markmiðið með reglugerðinni sé að gera hreyfihömluðum einstaklingum kleift að stunda atvinnu, skóla og sækja reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð. Í ákvæðinu komi svo að lokum fram að ætlast sé til þess að bifreiðin sé hugsuð hinum hreyfihamlaða til daglegra nota.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda hafi komið í ljós að hann sé inniliggjandi á stofnun. Í slíkum tilvikum óski Tryggingastofnun að jafnaði eftir gögnum og upplýsingum, meðal annars um ferðaþörf umsækjanda og til hvers nota eigi bifreiðina.

Í tilfelli kæranda hafi verið ljóst að ökumaður hafi ekki verið heimilismaður kæranda og því hafi hann ekki átt rétt á uppbót/styrk vegna bifreiða. Það hafi því ekki þótt ástæða til þess að tefja afgreiðslu málsins með því að óska eftir upplýsingum frá kæranda varðandi þetta atriði þar sem stofnuninni hafi borið að synja honum á öðrum grundvelli.

Tryggingastofnun hafi farið yfir gögn málsins og telji að fyrri ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um veitingu uppbóta og styrkja vegna bifreiða. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. febrúar 2020, komi fram að í ljósi þeirra athugasemda sem hafi komið fram telji stofnunin rétt að koma með eftirfarandi athugasemdir.

Réttur til uppbóta/styrkja vegna kaupa og reksturs á bifreið sé að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Sá réttur sé útfærður nánar með reglugerð nr. 170/2009 sem sett sé með stoð í 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Tryggingastofnun sé sú stofnun sem meti hvort skilyrði einstakra bóta séu uppfyllt og sé stofnuninni ekki bara heimilt að sannreyna forsendur þess að kærandi uppfylli skilyrði uppbótar/styrks til bifreiðakaupa heldur beinlínis skylt. Megi meðal annars benda þar á 37., 38. og 45. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Í máli þessu sé ekki deilt um að kærandi dveljist á stofnun. Greiðslur örorkulífeyris og tengdra bóta hafi verið felldar niður frá og með X þar sem hann hafi fallið undir skilyrði 5. mgr. 48. gr. laga um almannatryggingar um dvöl á slíkri stofnun. Áður en ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 21. október 2019, hafi legið fyrir hafði kærandi einnig skilað inn gögnum þar sem fram komi skýrt og greinilega að kærandi búi á tiltekinni heilbrigðisstofnun, meðal annars læknisvottorð, dags. 8. janúar 2019. Í ljósi fyrirliggjandi gagna hafi því ekki verið ástæða til þess að óska eftir andmælum kæranda í samræmi við hefðbundin sjónarmið í stjórnsýslurétti.

Hvað varði athugasemdir umboðsmanns kæranda við ákveðið orðalag í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. október 2019, sem einnig komi fram í fyrri greinargerð stofnunarinnar, sé rétt að ítreka það að Tryggingastofnun sé ekki að synja umsókn kæranda á þeim grundvelli að hann hafi ekki þörf fyrir bifreiðina. Einungis hafi verið að taka fram að sú þörf hefði ekki verið könnuð þar sem önnur skilyrði hafi ekki verið uppfyllt. Beðist sé velvirðingar á því, hafi það atriði ekki verið nægilega skýrt.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um uppbót/styrk til að kaupa bifreiðar og vegna reksturs bifreiðar.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til bifreiðakaupa er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Í nefndri 10. gr. segir:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða, með síðari breytingum. Ákvæði 2. gr. reglugerðarinnar fjallar um uppbót vegna reksturs bifreiða, 3. gr. reglugerðarinnar fjallar um uppbót vegna kaupa á bifreið og ákvæði 4. gr. fjallar um styrki vegna kaupa á bifreið. Samhljóða ákvæði eru í 1. tölul. 2. mgr. 2. gr., 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar þar sem segir að heimilt sé að veita uppbót vegna reksturs bifreiðar og uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið ef uppfyllt er meðal annars eftirfarandi skilyrði:

„Hinn hreyfihamlaði hefur sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður. Þetta á þó ekki við þegar um er að ræða hreyfihamlaða einstaklinga í sjálfstæðri búsetu, sbr. 6. mgr. 1. gr., sem hafa persónulega aðstoðarmenn samkvæmt samningi við sveitarfélag viðkomandi, t.d. samning um notendastýrða persónulega aðstoð, beingreiðslusamning eða sambærilegan samning.“

Í máli þessu kemur til skoðunar hvort kærandi uppfylli framangreind skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 2. gr., 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. og 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar um að annar heimilismaður hafi ökuréttindi.

Í umsókn kæranda er greint frá því að maki kæranda sé ökumaður hans. Þá verður ráðið af gögnum málsins að kærandi hefur verið búsettur á hjúkrunarheimilinu C á X frá X, þó svo að kærandi sé með skráð lögheimili að X. Ljóst er að kærandi uppfyllir þar af leiðandi ekki skilyrði 1. tölul. 2. mgr. 3. gr., 1. tölul. 2. mgr. 3. gr., og 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 fyrir veitingu uppbótar vegna reksturs bifreiðar og uppbótar/styrks vegna kaupa á bifreið um að ökumaður kæranda sé heimilismaður hans. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að skilyrðið um að ökumaður sé heimilismaður sé málefnalegt, enda sé nauðsynlegt að tryggja að bifreiðin sé einungis nýtt í þágu bótaþegans. Þegar af þeirri ástæðu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um styrk til bifreiðakaupa staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiðar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta