Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 563/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 563/2021

Miðvikudaginn 19. janúar 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. október 2021, kærði B f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. október 2021 um að synja umsókn kæranda um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greidda uppbót vegna kaupa á bifreið í janúar 2017 frá Tryggingastofnun ríkisins. Með tölvupósti 24. ágúst 2021 óskaði umboðsmaður kæranda eftir undanþágu frá þeirri reglu að fimm ár þurfi að líða á milli styrkveitinga. Með umsókn, dags. 7. september 2021, sótti kærandi um uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Með bréfi, dags. 21. október 2021, var umsókn kæranda synjað með þeim rökum að nýtt læknisvottorð gæfi ekki tilefni til breytinga á fyrra hreyfihömlunarmati og umsóknin væri því ótímabær þar sem ekki væru liðin fimm ár frá síðustu úthlutun í janúar 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. október 2021. Með bréfi, dags. 29. október 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 24. nóvember 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. nóvember 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 8. desember 2021, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 9. desember 2021. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 10. desember 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. desember 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun ríkisins hafi synjað umsókn kæranda um uppbót/styrk til kaupa á bifreið. Í bréfi Tryggingastofnunar sé bent á að kærandi eigi rétt á uppbót/styrk til bifreiðakaupa í febrúar 2022. Fram kemur að umsóknin sé ótímabær. Í símtali kæranda við þjónustufulltrúa 22. október 2021 hafi enn fremur verið tekið fram að Tryggingastofnun gæti ekki veitt undanþágu frá svokallaðri fimm ára reglu þar sem bifreið kæranda hefði eyðilagst með því að bila svo að ekki væri hægt að gera við hana, en öðru máli hefði gegnt hefði bifreiðin eyðilagst í árekstri.

Kærandi mótmæli framangreindum málatilbúnaði Tryggingastofnunar. Ekki liggi efi á að bifreið sú sem kærandi hafi fengið styrk fyrir í febrúar 2017 sé ónýt, enda hafi kærandi afhent Tryggingastofnun skjal um afskráningu bifreiðarinnar frá viðeigandi yfirvöldum. Ekki leiki heldur vafi á því að samkvæmt fimm ára reglunni eigi kærandi rétt á uppbót/styrk í febrúar 2022.

Eins og fram hafi komið í öðrum gögnum kæranda til Tryggingastofnunar hafi hún glímt við mikið þunglyndi um áraraðir. Auk þess hafi hún fengið hjartaáfall 2017. Kærandi hafi því verið ákaflega illa í stakk búin til að standa í nokkrum aðgerðum til að bæta stöðu sína. Það séu henni því gríðarleg vonbrigði að Tryggingastofnun skuli beita þeim ómálefnalegu rökum að bifreiðin hafi orðið ónýt á röngum forsendum til þess að synja kæranda um þá uppbót sem um ræði. Kærandi telji að Tryggingastofnun eigi og geti veitt henni undanþágu á þeim grundvelli sem komi fram í umsókn hennar, dags. 7. september 2021, þ.e. að bifreiðin hafi eyðilagst þannig að ekki hafi verið mögulegt að gera við hana.

Kærandi fari fram á að úrskurðarnefndin endurskoði afstöðu og ákvörðun Tryggingastofnunar hið allra fyrsta og veiti henni umsótta undanþágu. Þannig verði henni kleift að bæta hag sinn með því hagræði sem það sé henni að eiga bifreið og geta farið um akandi.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að í framhaldi af greinargerð Tryggingastofnunar vilji kærandi taka fram að hún hafi upphaflega sótt um uppbót til bifreiðakaupa hinn 25. ágúst 2021 og samkvæmt nákvæmum skýringum stofnunarinnar gildi því fyrri reglugerð nr. 170/2009 um þá umsókn. Af þeim ástæðum beri Tryggingastofnun skylda til að veita kæranda nú þegar uppbót til bifreiðakaupa. Umsókn sú sem kærandi hafi gert 26. október 2021 hafi ekki verið að hennar frumkvæði heldur í grundvallaratriðum vegna vanþekkingar starfsfólks Tryggingastofnunar og að kröfu þess. Sú umsókn sé af þeim sökum því aðeins gjörningur af hennar hálfu til þrautavara, líkt og Tryggingastofnun túlki þá umsókn í greinargerð sinni.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á umsókn um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Með breytingalögum nr. 120/2009, sem tekið hafi gildi 1. janúar 2010, hafi eftirfarandi málslið verið bætt við þessa málsgrein:

„Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.“

Reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða sé sett með heimild í lögum um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar segir:

„Heimilt er að veita uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings.“

Kærandi hafi sótt um uppbót/styrk til bifreiðakaupa með umsókn, dags. 7. september 2021. Við afgreiðslu umsóknarinnar hafi komið í ljós að kærandi hafi fengið greidda uppbót vegna bifreiðakaupa samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð í janúar 2017. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 21. október 2021, hafi umsókn kæranda því verið synjað. 

Ekki sé deilt um það í málinu að kærandi hafi síðast fengið uppbót til bifreiðakaupa í janúar 2017. Eins og áður hafi verið rakið sé Tryggingastofnun ekki heimilt að veita uppbót vegna bifreiðakaupa vegna sama einstaklings nema á fimm ára fresti. Rétt sé að vekja athygli á því að reglan sé afdráttarlaus og án undantekninga í 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Í 1. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 905/2021 sé sú regla ítrekuð að Tryggingastofnun sé einungis heimilt að veita uppbót vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings. Sú regla sé afdráttarlaus og án undantekninga.

Tryggingastofnun sé því óheimilt að veita kæranda uppbót til bifreiðakaupa að svo stöddu. Eins og fram komi í bréfi Tryggingastofnunar þann 21. október 2021 sé ekki heimilt að úthluta kæranda uppbót til bifreiðakaupa að nýju fyrr en í febrúar 2022.

Í kæru komi fram að kærandi hafi haft samband við Tryggingastofnun símleiðis og fengið þær upplýsingar að ástæða þess að kærandi gæti ekki fengið undanþágu frá þeirri reglu að fimm ár þyrftu að líða á milli þess sem veitt væri uppbót vegna bifreiðakaupa, væri sú að bifreið kæranda hefði ekki eyðilagst í árekstri. Tryggingastofnun vilji hér með leiðrétta þetta. Stofnunin hafi ekki metið það á neinn hátt hvort bifreið kæranda væri ónýt og ekki heldur á hvaða hátt hún hafi eyðilagst.

Kæranda hafi verið synjað á þeim forsendum að ekki hafi verið liðin fimm ár frá því að henni hafi síðast verið veitt uppbót til bifreiðakaupa í janúar 2017. Engar undantekningar séu á þeirri reglu, hvorki í lögum um félagslega aðstoð né í reglugerð nr. 905/2021.

Tryggingastofnun geti, eðli málsins samkvæmt, ekki sagt til um hvaða upplýsingar kærandi hafi fengið í símtali við stofnunina. Það sé þó mögulegt að hún hafi fengið þessar upplýsingar þar sem í gildistíð eldri reglugerðar nr. 170/2009, hafi verið í gildi ákvæði er hafi bannað sölu á bifreið sem keypt hafi verið á grundvelli veitingar uppbótar til bifreiðakaupa innan fimm ára frá veitingu uppbótarinnar. Það bann hafi verið með þrönga undantekningarheimild til þess að heimila sölu bifreiðar innan fimm ára á þeim grundvelli að hún hefði eyðilagst eða bótaþegi látist. Nú sé ekki í gildi neitt slíkt bann við sölu bifreiðar og því sé engin undantekning á því banni.

Tryggingastofnun biðjist því velvirðingar hafi kærandi fengið rangar upplýsingar í kjölfar afgreiðslu stofnunarinnar, en ítreki að þau sjónarmið sem þar hafi verið reifuð hafi ekki verið forsendur synjunar stofnunarinnar.

Að lokum sé rétt að taka fram að stofnuninni hafi borist ný umsókn um uppbót/styrk til bifreiðakaupa. Sú umsókn sé nú til meðferðar og muni kærandi innan skamms fá efnislega ákvörðun um rétt sinn til uppbótar til bifreiðakaupa frá 1. febrúar 2022.

Tryggingastofnun hafi farið yfir málið og telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærandi vilji að miðað sé við að tölvupóstur teljist fullnægjandi umsókn.

Í 52. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 sé kveðið á um að sækja skuli um allar bætur. Einnig segi að umsóknir skuli vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða sendar með rafrænum hætti sem stofnunin telji fullnægjandi. Í 4. mgr. 53. gr. sé svo miðað við umsókn og nauðsynleg gögn þegar verið sé að meta upphaf bótaréttar.

Tryggingastofnun telji að tölvupóstur umboðsmanns kæranda þann 24. ágúst 2021 hafi ekki verið fullnægjandi, meðal annars vegna þess að hún hafi ekki borist á réttu formi, hvorki skriflegu né rafrænu, og einnig hafi öll nauðsynleg gögn ekki fylgt með, meðal annars vanti mat fagaðila á ástandi bifreiðar.

Að lokum sé rétt að vekja athygli á því að ný umsókn kæranda um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa hafi nú þegar verið afgreidd.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. október 2021 um að synja kæranda um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa á þeim grundvelli að ekki væru liðin fimm ár frá síðustu úthlutun.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 10. gr. segir meðal annars svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

[...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða tók gildi 1. september 2021. Áður var í gildi reglugerð nr. 170/2009. Um endurnýjun umsókna er fjallað í 11. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Ákvæðið hljóðar svo:

Heimilt er að veita uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings.

Þegar um er að ræða styrki skv. 7. og 8. gr. reglugerðar þessarar er heimilt að víkja frá tímamörkum skv. 1. mgr. eyðileggist bifreið á tímabilinu. Þó er eingöngu heimilt að víkja frá tímamörkum 1. mgr. þegar um styrk skv. 7. gr. er að ræða hafi bifreiðin verið tólf ára eða yngri þegar hún eyðilagðist.“

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa á þeim grundvelli að ekki væru liðin fimm ár frá síðustu úthlutun. Fyrir liggur að kærandi fékk greidda uppbót til bifreiðakaupa í janúar 2017. Með tölvupósti 24. ágúst 2021 óskaði umboðsmaður kæranda eftir undanþágu frá þeirri reglu að fimm ár þyrftu að líða á milli styrkveitinga. Byggt var á því að bifreiðin hefði eyðilagst. Með umsókn, dags. 7. september 2021, sótti kærandi um uppbót/styrk til kaupa á bifreið.

Meginreglan er sú að einungis er heimilt að veita uppbót/styrk til bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings, sbr. 2. málsl. 1. og 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 905/2021 er kveðið á um undanþágu frá framangreindri meginreglu þegar um styrki er að ræða, að nánari skilyrðum uppfylltum. Þar sem kærandi fékk greidda uppbót til bifreiðakaupa í janúar 2017 en ekki styrk er ljóst að framangreind undanþága á ekki við í hennar tilviki. Engin heimild er í reglugerð nr. 905/2021 til veita kæranda undanþágu frá meginreglunni um að uppbót sé einungis veitt á fimm ára fresti.

Kærandi byggir á því að reglugerð nr. 170/2009 gildi um umsókn hennar þar sem hún hafi upphaflega sótt um uppbót til bifreiðakaupa með tölvupósti 24. ágúst 2021. Samkvæmt 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð skal beita V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laga um félagslega aðstoð. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar skal sækja um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögunum. Þá segir í 2. mgr. 52. gr. að umsóknir skuli vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða sendar með rafrænum hætti sem stofnunin telji fullnægjandi. Við afgreiðslu umsóknar skuli þess gætt að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir, sbr. 38. gr., svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum.

Fyrir liggur að kærandi sótti ekki um uppbót/styrk til bifreiðakaupa á eyðublaði Tryggingastofnunar fyrr en með umsókn, dags. 7. september 2021. Tryggingastofnun byggir á því að tölvupóstur 24. ágúst 2021 hafi ekki verið fullnægjandi, meðal annars vegna þess að hann hafi ekki borist á réttu formi, hvorki skriflegu né rafrænu. Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst á það, enda eru rafrænar umsóknir, meðal annars umsóknir um uppbót/styrk til bifreiðakaupa, sendar í gegnum „Mínar síður“ hjá Tryggingastofnun og leiðbeint er um það á heimasíðu stofnunarinnar.

Þar sem reglugerð nr. 905/2021 hafði tekið gildi þegar umsókn kæranda um uppbót/styrk til bifreiðakaupa barst á eyðublaði Tryggingastofnunar þann 7. september 2021, fellst úrskurðarnefndin á að rétt hafi verið hjá stofnuninni að beita þeirri reglugerð við afgreiðslu umsóknar kæranda. Líkt og áður hefur verið fjallað um er engin heimild í reglugerð nr. 905/2021 til veita kæranda undanþágu frá meginreglunni um að uppbót sé einungis veitt á fimm ára fresti.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. október 2021 um að synja umsókn kæranda um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. október 2021 um að synja umsókn A, um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið, er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta