Nr. 290/2018 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 21. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 290/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18050053
Beiðni […] um endurupptöku
I. Málsatvik
Þann 10. apríl 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. desember 2017, um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Indlands (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Belgíu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 30. apríl 2018. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 7. maí 2018.
Þann 28. maí 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins með beiðni þess efnis. Greinargerð kæranda, ásamt gögnum, þ. e. læknisvottorði dags. 17. maí 2018, vottorði frá […], dags. 20 apríl 2018, tölvupósti dags. 28. maí 2018 frá […] og yfirlýsingu frá formanni […], bárust kærunefnd þann sama dag. Krafa kæranda um endurupptöku máls hans er byggð á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem að íþyngjandi ákvörðun í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi og röngum upplýsingum. Kærandi byggir kröfu sína á því að með beiðni sinni hafi kærandi nú lagt fram vottorð sálfræðings, dags. 17. maí 2018, þar sem fram komi að kærandi þjáist af miklum kvíða, örvæntingu, depurð og sjálfsvígshugsunum. Þá komi fram að kærandi sýni mörg einkenni áfallastreituröskunar og það mat að hann þurfi á áframhaldandi viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi og lyfjameðferð hjá geðlækni eða lækni. Kærandi rekur jafnframt meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála og bendir á að það sé ljóst að Útlendingastofnun hafi ekki tekið tillit til mikilvægra læknisfræðilegra gagna við töku ákvörðunar í málinu. Þá kemur fram í vottorði sem kærandi lagði fram að hann fái sjálfsvígshugsanir sem tengjast því að honum verð vísað úr landi. Ljóst sé því að kærandi sé mjög illa farinn andlega að mati sérfræðinga og það sé honum lífsnauðsynlegt að fá umfangsmikla heilbrigðisþjónustu hjá geðlæknum og sálfræðingum. Það liggi hins vegar ekki fyrir að kærandi muni fá aðgang að slíkri þjónustu í Belgíu sem hafi í för með sér óafturkræfar afleiðingar fyrir hann.
Kærandi mótmælir einnig þeirri fullyrðingu að hann hafi engin tengsl við Ísland, en hann hafi t.d. staðist allar kröfur um ástundun og árangur í íslenskunámi hjá […], sbr. vottorð dags. 20. apríl 2018. Þá sé hann skráður í framhaldsnámskeið sem ljúki 12. júní nk., sbr. tölvupóst dags. 28. maí 2018, en efni námskeiðsins tengist daglegum athöfnum með því markmiði að setjast að á Íslandi. Þá hafi kærandi náð góðum árangri í […] hér á landi og m.a. komið fram fyrir hönd […] í alþjóðlegum fjölmiðlum, sbr. yfirlýsingu frá formanni félagsins sem kærandi lagði fram með beiðni sinni.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Kærandi hefur lagt fram ný gögn í málinu, þ.e. læknisvottorð dags. 17. maí 2018, vottorð frá […] dags. 20. apríl 2018, tölvupóst frá […] dags. 28. maí 2018 og yfirlýsingu frá formanni […].
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 10. apríl 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kæranda til Belgíu bryti hvorki gegn 1. né 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í máli kæranda, þ.e. að kærandi hefði ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.
Í úrskurði kærunefndar var kærandi metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, með tilliti til atvika málsins. Í úrskurðinum var m.a. fjallað um að við meðferð málsins hjá kærunefnd hafði kærandi greint frá því að hann væri ekki við góða andlega heilsu, hann hafi m.a. verið greindur með þunglyndi og áfallastreituröskun. Einnig kom fram að hann glímdi við tannvandamál ásamt því að hann glímdi við innvortis vandamál endrum og sinnum. Samkvæmt framansögðu lágu fyrir gögn varðandi andlega og líkamlega heilsu kæranda þegar kærunefnd úrskurðaði í máli hans og var byggt á því við meðferð málsins að andleg heilsa hans væri nokkuð alvarleg. Þá var í úrskurði kærunefndar farið yfir heilbrigðisþjónustu í viðtökuríki, Belgíu, þar sem nefndin komst m.a. að þeirri niðurstöðu að hann geti leitað sér fullægjandi heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi, m.t.t. andlegra veikinda hans.
Í vottorði sálfræðings, dags. 17. maí 2018, sem kærandi hefur nú lagt fram með beiðni sinni um endurupptöku, koma fram upplýsingar um andlegt ástand kæranda, m.a. að hann þjáist af áfallaröskun, sé mjög dapur og að á hann leiti sjálfsvígshugsanir. Eru upplýsingarnar að mestu leyti til samræmis við þær upplýsingar sem komu fram í komunótum frá Göngudeild sóttvarna, dags. 21. september 2017 – 8. janúar 2018, sem lágu fyrir þegar kærunefnd úrskurðaði í máli hans. Er það því mat kærunefndar að vottorðið bendi ekki til þess að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða séu þess eðlis að aðstæður kæranda teljist hafa breyst verulega frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð í málinu þann 10. apríl sl.
Kærandi hefur einnig með beiðni sinni um endurupptöku greint frá því að hann hafi myndað tengsl við landið og m.a. lagt fram vottorð um að hafa lokið íslenskunámi hér á landi og yfirlýsingu frá formanni […]. Það er afstaða kærunefndar að þau gögn sem kærandi hefur lagt fram séu ekki þess eðlis að aðstæður hans hafi breyst verulega eða að byggt hafi verið á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum í skilningi 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Það er því niðurstaða kærunefndar að framangreind atriði varðandi kæranda leiði ekki til þess að ástæða sé til að fallast á endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 10. apríl 2018, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Beiðni kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.
Úrskurðarorð
Kröfu kæranda er hafnað.
The request of the appellant is denied.
Anna Tryggvadóttir
Árni Helgason Erna Kristín Blöndal