Mál nr. 20/2015
Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík
Úrskurður er kveðinn upp 17. september 2015 í máli kærunefndar barnaverndarmála nr. 20/2015: A gegn B vegna dóttur kæranda, C. Á fundi kærunefndarinnar 2. september síðastliðinn var ákveðið að formaður nefndarinnar skyldi fara einn með málið og kveða upp úrskurð í því samkvæmt 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).
Kærð er ákvörðun B, sbr. tölvupóstur 10. júní 2015, þar sem því var hafnað að veita kæranda fjárstyrk til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. Samkvæmt 4. mgr. 10. gr. bvl. er sveitarstjórn heimilt að fela félagsmálanefnd störf barnaverndarnefndar.
Kveðinn var upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
I. Málavextir og kröfugerð
Mál þetta varðar ágreining um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannskostnaðar í tengslum við barnaverndarmál A, vegna dóttur hennar, C.
Í gögnum málsins kemur fram að málefni stúlkunnar hafi verið til vinnslu hjá B frá desember 2012, en hafi áður verið til vinnslu hjá öðrum sveitarfélögum frá þeim tíma er kærandi gekk með barnið. Stúlkan hefur verið vistuð utan heimilis á vegum B, með samþykki forsjáraðila, frá 1. mars 2014, en sá vistunarsamningur rann út 28. febrúar síðastliðinn. Fram hefur komið að í desember 2014 hafi ekki legið fyrir um frekari úrræði en kærandi hafði þá lýsti því að hún vildi taka við umsjá og umönnun barnsins. Af því tilefni og með tilliti til aðstæðna var af hálfu B óskað eftir mati sálfræðings á forsjárhæfni kæranda. Niðurstöður matsins lágu ekki fyrir við lok vistunartímans en leitað var eftir samþykki kæranda fyrir því að barnið yrði vistað áfram utan heimilis þar til niðurstöður forsjárhæfnismatsins lægju fyrir. Kærandi samþykkti það ekki og 27. febrúar 2015 ákvað formaður B að kyrrsetja stúlkuna í fóstrinu samkvæmt 1. mgr. 31. gr. barnaverndarlaga. Á fundi B 9. mars 2015 var fyrirhugað að taka ákvörðun um að kyrrsetja barnið samkvæmt 1. mgr. 27. gr. bvl. en kærandi hafði verið boðuð á fundinn. Hún samþykkti á fundinum að barnið yrði áfram vistað utan heimilis til 27. mars 2015.
Matsgerð um forsjárhæfni kæranda lá fyrir 17. mars 2015 og taldi matsmaður að kærandi væri ekki fær um að veita barni sínu þann stöðugleika og þroskavænlegu skilyrði sem stúlkan hefði þörf fyrir. Á fundi B 26. mars 2015 var úrskurðað um kyrrsetningu barnsins í fóstri og lögmanni sveitarfélagsins jafnframt falið að gera kröfu fyrir dómi um forsjársviptingu. Kærandi hafði verið boðuð á fundinn og henni kynnt að fyrirhugað væri að taka ákvörðun um hvort nauðsynlegt væri að kyrrsetja barnið í fóstri samkvæmt a-lið 1. mgr. 27. gr. bvl. og að henni væri gefinn kostur á að mæta á fundinn og koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Þann X var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur forsjársviptingarmál B gegn kæranda.
Þar sem ekki náðist samkomulag um umgengni kæranda við barnið var kveðinn upp úrskurður um þann ágreining. Kæranda hafði áður verið gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með skriflegum hætti. Fram kemur í málinu að B hafi borist greinargerð kæranda áður en úrskurður var kveðinn upp í umgengnismálinu.
Kæra D hdl., fyrir hönd kæranda A, var móttekin hjá kærunefnd barnaverndarmála 10. júlí 2015. Þar var kærð ákvörðun B frá 10. júní 2015 varðandi greiðslu styrks fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 47. gr. barnaverndarlaga. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að þar sem einungis væru greiddir tíu tímar í lögfræðikostnað samkvæmt reglum B, sem þegar hefðu verið greiddir, séu síðari reikningar lögmanns kæranda endursendir.
Kærandi krefst þess að B verði gert að greiða fjárstyrk vegna lögmannskostnaðar vegna vinnu við að gæta að hagsmunum kæranda vegna funda 26. mars 2015 og 6. maí 2015.
B vísar til þess að rétt hafi verið staðið að hinni kærðu ákvörðun og tilgreinir þau rök sem hafi verið talin fyrir því að hafna að greiða tvo reikninga lögmanns kæranda.
II. Sjónarmið kæranda
Lögmaður kæranda vísar til 1. og 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga þar sem kveðið sé á um að aðilar barnaverndarmáls skuli eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð. Í 2. mgr. 47. gr. sé tekið skýrt fram að veita skuli foreldrum barns sem er aðili máls fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð í tengslum við málsmeðferð ásamt því að veita þeim styrk vegna rekstur máls fyrir kærunefnd barnaverndarmála.
Af hálfu kæranda er vísað til þess að mál hennar hafi í þrígang farið fyrir B á því tímabili sem um ræðiur mðstoðm er aðili m lögmanns, um efni mæði. Í öllum tilvikum hafi verið lögð fram tillaga um að kveða upp úrskurð um málefni dóttur kæranda. Á fyrsta fundinum 9. mars 2015 hafi náðst tímabundin sátt. Á öðrum fundi 26. mars 2015 hafi verið úrskurðað um að dóttir kæranda skyldi vistuð utan heimilis í tvo mánuði að telja. Á þriðja fundi 6. maí 2015 hafi verið úrskurðað um umgengni. Á öllum þessum fundum hafi fundarboð einungis verið sent á lögmann kæranda en það eitt gefi sterka vísbendingu um að B hafi talið rétt að kærandi nyti lögmannsaðstoðar. Ekki sé hægt að túlka 47. gr. bvl. á annan hátt en þann að aðili að barnaverndarmáli skuli eiga kost á lögmannsaðstoð í hvert sinn sem tekin sé ákvörðun sem lúti að barni viðkomandi aðila. Jafnframt skuli viðkomandi barnaverndarnefnd veita foreldri sem sé aðili máls fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar í tengslum við rekstur máls hjá barnaverndarnefnd og einnig við rekstur máls fyrir kærunefnd barnaverndarmála. Í raun hafi barnaverndarnefndir ekki val, heldur sé um skyldu að ræða, enda sé 2. mgr. 47. gr. bvl. orðuð á þann hátt að barnaverndarnefnd skuli veita foreldrum og barni sem er aðili máls fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð. Í greinargerð með barnaverndarlögum komi eftirfarandi fram um 2. mgr. 47. gr. laganna: „Í 2. mgr. er mælt fyrir um fjárstyrk til handa aðilum til að greiða fyrir lögmannsaðstoð skv. 1. mgr. og vegna reksturs máls fyrir kærunefnd barnaverndarmála eftir reglum sem barnaverndarnefnd setur. Í reglunum skal meðal annars taka tillit til efnahags foreldra og eðlis og umfangs málsins. Bent er á að það eru aðilar málsins sem eiga rétt á þessu. Í því felst m.a. að barn sem orðið er 15 ára og er aðili máls á rétt á fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð.“ Efnahagur kæranda sé með þeim hætti að hún hafi ekki efni á að greiða fyrir lögmannsaðstoð. Lögmaður kæranda hafi gætt vel að því að rukka eins lítið og hægt hafi verið fyrir þessa vinnu.
Af hálfu kæranda er bent á að tímaskýrslur lögmannsins séu greinargóðar og sundurliðaðar. Það fari ekkert á milli mála fyrir hvaða vinnu ósk um styrk lúti að. Það sé vegna málsmeðferðar barnaverndarmáls kæranda hjá B á tímabilinu 12. desember 2014 til og með 7. maí 2015. Ekki sé hægt að lesa lögin með öðrum hætti en svo að í hvert sinn sem til standi að taka ákvörðun hjá barnaverndarnefnd sem lúti að hagsmunum barns og foreldris þá eigi viðkomandi aðili lagalegan rétt á að fá greiddan fjárstyrk frá viðkomandi barnaverndarnefnd til að greiða fyrir lögmannskostnað, sbr. 47. gr. bvl.
Í málinu sé þess krafist að B verði gert að greiða fjárstyrk vegna lögmannskostnaðar vegna vinnu við að gæta að hagsmunum kæranda vegna funda hjá nefndinni 26. mars 2015 og 6. maí 2015. Veita beri foreldri fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar í hvert sinn sem mál barns þess fari fyrir fund til að foreldrið geti gætt að hagsmunum sínum og komið að andmælum.
Í athugasemdum lögmanns kæranda til kærunefndarinnar 26. ágúst 2015 við greinargerð B segir að í máli þessu sé óumdeilt að þær vinnustundir sem kærandi krefjist styrk vegna hafi farið í mál kæranda. Um sé að ræða styrki vegna þriggja mála eins og rakið sé í kæru. Tímaskýrslur lögmannsins séu mjög greinargóðar og það fari ekki á neinn hátt framhjá neinum fyrir hvaða vinnu verið sé að óska eftir styrk. Það að ekki hafi verið sent formlegt bréf til B þar sem óskað sé eftir styrk til greiðslu lögmannskostnaðar sé vissulega réttmæt athugasemd. Þó beri að líta á það að reikningur ásamt greinargóðum tímaskýrslum til sveitarfélagsins sé í raun beiðni um fjárstyrk. Upphaflega hafi reikningunum verið hafnað af starfsmanni B. Greinargerð sveitarfélagsins í málinu sé rituð af fulltrúa eða samstarfsmanni lögmanns sveitarfélagsins. Lögmaður sveitarfélagsins mæti á alla fundi nefndarinnar og það hafi komið fyrir að lögmaður kæranda hafi verið í beinu og góðu sambandi við hann persónulega varðandi ákvarðanir um umgengni kæranda við barn sitt.
Lögmaður kæranda hafi komið að mörgum barnaverndarmálum hjá mörgum sveitarfélögum og þetta sé í fyrsta skipti sem gerð sé athugasemd við að reikningur hafi komið án þess að formleg beiðni hafi áður borist um greiðslu lögmannskostnaðar. Venjan í þessum málum hafi verið að senda reikning ásamt greinargóðri tímaskýrslu til barnaverndaryfirvalda og þau metið það svo hvort reikningurinn sé samþykktur óbreyttur eða geri athugasemdir við hann. Í þessu máli hafi reikningunum og þar með fjárstyrknum alfarið verið hafnað á grundvelli þess að reglur sveitarfélagsins segi að eingöngu eigi að greiða styrk vegna tíu klukkustunda fyrir hvert mál. Barnaverndarmál séu mjög mismunandi að umfangi. Þegar gripið sé til veigamestu þvingunarúrræða sem barnaverndarnefnd hafi yfir að ráð þá verði málin þar með mun umfangsmeiri en annars. Í þessum málum sem séu hér til umfjöllunar hafi verið óskað eftir styrk fyrir mál sem þegar hafi verið unnin. Reynt hafi verið að halda kostnaðinum í hófi eftir allra bestu getu. Ekki sé raunhæft að setja reglur um greiðslu á hámark tíu klukkustunda vinnuframlagi, sérstaklega þegar gripið sé ítrekað til þvingunarráðstafana og í allavega eitt skiptið sökum þess að sveitarfélagið taldi sig ekki getað komið að þeirri vönduðu málsmeðferð sem liggi að baki 27. gr. bvl. Vitað hafi verið með góðum fyrirvara að forsjárhæfnismat yrði ekki lokið á þessum tíma, enda hafi ekki verið farið af stað með vinnu þess tímanlega.
III. Sjónarmið B
Í greinargerð B 13. ágúst 2015 kemur fram að á grundvelli 47. gr. barnaverndarlaga hafi B sett reglur um greiðslu lögmannskostnaðar í barnverndarmálum sem séu fyrirliggjandi í gögnum málsins. Þá séu reglurnar aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins.
Í 1. gr. reglnanna komi fram að beiðni um fjárhagsaðstoð til greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar skuli beint til starfsmanna Barnaverndar sem beri þá beiðni undir félagsmálanefnd. Í þessu máli hafi engin beiðni borist frá kæranda um greiðslu kostnaðar fyrir lögmannsaðstoð.
Í 2. gr. reglnanna komi fram þau sjónarmið sem horft sé til við styrkveitingu en jafnframt sé tekið fram að fjárhæð fjárstyrks skuli að hámarki vera greiðsla fyrir tíu klukkustunda vinnu á tímagjaldi sem fram komi í viðmiðunarreglum dómstólaráðs um greiðslu málsvarnarlauna í sakamálum. Þrátt fyrir að málsmeðferð hafi ekki verið fylgt samkvæmt reglunum þá hafi verið ákveðið að greiða reikning lögmanns kæranda sem sendur hafi verið B sem gerði ráð fyrir hámarks styrk vegna lögmannskostnaðar samkvæmt reglunum.
Í kæru komi fram að fundarboð og fleira hafi einungis verið sent á lögmann kæranda en ekki kæranda sjálfa og það virtist vera tiltekið sem rök fyrir frekari styrkveitingum fyrir kostnaði kæranda vegna lögmannsaðstoðar. Af þessu tilefni verði að benda á IV. kafla siðareglna lögmanna, sérstaklega 26. gr. þar sem segi: „Lögmaður má ekki snúa sér beint til aðila um málefni, sem annar lögmaður fer með, án hans samþykkis, nema að brýn nauðsyn krefji. Ávallt skal þá viðkomandi lögmanni þegar um það tilkynnt.“ Þar sem í málinu hafi verið fyrirliggjandi umboð kæranda til lögmanns hennar hafi samskiptum verið beint til lögmannsins en ekki kæranda sjálfrar.
Ljóst sé að sveitarfélagið B hafi veitt styrk vegna lögmannskostnaðar kæranda í því barnaverndarmáli sem um ræði sem nemi hámarki fjárstyrks samkvæmt reglum sveitarfélagsins þar um. Af þeirri ástæðu hafi sveitarfélagið hafnað að greiða tvo reikninga lögmanns kæranda.
IV. Forsendur og niðurstaða
Kærandi krefst þess að B verði gert að greiða henni fjárstyrk vegna lögmannskostnaðar vegna vinnu við að gæta að hagsmunum kæranda vegna funda félagsmálanefndarinnar 26. mars 2015 og 6. maí 2015. Með tölvupósti frá starfsmanni B 10. júní 2015 var því hafnað að greiða frekari styrk til kæranda til greiðslu lögmannsaðstoðar samkvæmt 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga.
Barnaverndarnefnd er skylt að veita foreldri fjárstyrk samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl., sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar, til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem veitt er í tilefni af andmælarétti foreldris við meðferð barnaverndarmáls áður en kveðinn er upp úrskurður í því. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar eftir reglum sem nefndin setur. Reglur B um greisðlu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum voru samþykktar í B 6. júní 2013 og í bæjarráði B 13. júní 2013.
Í málinu liggja fyrir reikningar lögmanns kæranda til B ásamt vinnuskýrslum. Við úrlausn málsins verður að leggja til grundvallar að með þessum skjölum hafi af hálfu kæranda verið krafist fjárskyrks til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 47. gr. bvl., enda kemur fram í þeim að um er að ræða kostnað vegna vinnu við barnaverndarmál kæranda, fundar 26. mars 2015 og ritun andmæla vegna fundar 6. maí s.á. Þar er einnig tilgreindur tímafjöldi og skýringar á vinnuframlagi lögmanns kæranda í tilefni af andmælarétti kæranda. Ber með vísan til þessa að hafna því sjónarmiði sem fram hefur komið af hálfu B að engin beiðni hafi borist frá kæranda um greiðslu kostnaðar fyrir lögmannsaðstoð. Þótt þess hafi eigi verið gætt af hálfu starfsmanna barnaverndar að bera beiðni kæranda undir B, eins og kveðið er á um í 1. gr. reglna Sveitarfélagsins um greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum að gert skuli, verður kærandi ekki látinn bera hallan af því í máli þessu. Samkvæmt sömu grein í reglunum ber að beina beiðni um fjárhagsaðstoð til greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar til starfsmanna barnaverndar sem skulu bera beiðnina undir B.
Eins og fram hefur komið var fundurinn hjá B 26. mars sl. boðaður í tilefni af því að fyrirhugað var af hálfu B að taka ákvörðun um hvort kyrrsetja skyldi barnið í fóstri samkvæmt a-lið 1. mgr. 27. gr. bvl. og var kæranda gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á fundinum. Þá liggur fyrir að kæranda var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri skriflega áður en úrskurður var kveðinn upp um umgengni hennar við barnið 6. maí sl.
Með vísan til þess sem fram hefur komið verður enginn vafi talinn leika á því að umræddir reikningar, annars vegar vegna fundarins 26. mars 2015, að fjárhæð samtals 143.220 krónur, og hins vegar vegna fundarins 6. maí 2015, einnig að fjárhæð 143.220 krónur, eru vegna vinnu lögmanns kæranda í tilefni af andmælarétti kæranda fyrir B áður en úrskurðir voru kveðnir upp í málum hennar, annars vegna vegna kyrrsetningar barnsins og hins vegar vegna umgengnisréttar kæranda við barnið, eins og hér að framan er lýst. Kærandi á því rétt á fjárstyrk samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 47. gr. bvl. til að greiða fyrir lögmannsaðstoð af þessu tilefni. Af hálfu B er vísað til þess að greiddur hafi verið fyrri reikningur lögmannsins en samkvæmt því sem fram hefur komið var sá reikningur vegna greinargerðar og fundar hjá B 9. mars 2015. Sá reikningur er því málum þeim sem hér eru til umfjöllunar óviðkomandi og stoðar B þar með ekki að bera fyrir sig að reglur Sveitarfélagsins um greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum kveði á um að fjárhæð fjárstyrks skuli að hámarki vera greiðsla fyrir tíu klukkustunda vinnu sem þegar hafi verið greiddur. Eins og málið liggur fyrir kemur hin ótvíræða lagaregla um andmælarétt kæranda og réttur hennar til greiðslu fjárstyrks úr hendi barnaverndarnefndar í því sambandi samkvæmt 47. gr. bvl. í veg fyrir að reglunni um hámarksfjárhæð styrks verði beitt hér.
Að öllu þessu virtu verður að telja hina kærðu ákvörðun ólögmæta og ber með vísan til þess og 4. mgr. 51. gr. bvl. að fella hana úr gildi. Samkvæmt því og með vísan til þess að kærunefndin er bær samkvæmt sama lagaákvæði til að meta allar hliðar máls, bæði formlegar og efnislegar, ber að taka til greina kröfu kæranda þess efnis að B verði gert að greiða fjárstyrk samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 47. gr. bvl. vegna lögmannskostnaðar vegna vinnu við að gæta að hagsmunum kæranda vegna barnaverndarnefndarfunda 26. mars 2015 og 6. maí 2015.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Ákvörðun B um að synja kæranda um greiðslu styrks vegna lögmannsaðstoðar er felld úr gildi og er krafa kæranda um greiðslu fjárstyks vegna lögmannskostnaðar vegna barnaverndarnefndarfunda 26. mars og 6. maí 2015 tekin til greina.
Sigríður Ingvarsdóttir, formaður