Mál nr. 21/2015
Kærunefnd barnaverndarmála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík
Miðvikudaginn 11. nóvember 2015 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A, gegn B vegna umgengni við dóttur hennar, C, nr. 21/2015.
Kveðinn var upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R:
Með bréfi 14. júlí 2015 skaut D hdl., fyrir hönd A, úrskurði B frá 1. júlí 2015, vegna umgengni kæranda við dóttur sína, C, til kærunefndar barnaverndarmála. Fjölskyldu- og velferðarnefndin fer með störf barnaverndarnefndar í B.
Samkvæmt hinum kærða úrskurði er umgengni C við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári í fjórar klukkustundir í senn undir eftirliti á hlutlausum stað. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi auk þess sem þar er bent á kæruheimild til kærunefndar barnaverndarmála:
„B ákveður að barnið C skuli hafa umgengni við móður sína A fjórum sinnum á ári, ársfjórðungslega í fjórar klukkustundir í senn, sbr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Umgengnin verði undir eftirliti aðila sem barnið þekki vel til á hlutlausum stað.“
Kærandi krefst þess að umgengni verði ákveðin tvisvar í mánuði í sex klukkustundir í senn á heimili kæranda og án eftirlits. Til vara krefst kærandi þess að umgengni verði einu sinni í mánuði í sex klukkustundir í senn á heimili kæranda og án eftirlits. Verði ekki fallist á að umgengni fari fram á heimili kæranda krefst kærandi þess að umgengni fari fram á hlutlausum stað þar sem fósturforeldrar komi ekki beint að umgengni.
Af hálfu B er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Fósturforeldrar C telja samkvæmt því sem fram kemur í tölvupósti þeirra 21. október 2015 til kærunefndarinnar að umgengni eigi að fara fram tvisvar sinnum á ári í tvo tíma í senn undir eftirliti aðila sem stúlkan þekki og treysti. Umgengni þurfi að fara fram í nærumhverfi stúlkunnar, annað hvort á heimili hennar eða á hlutlausum stað.
I. Málavextir
Stúlkan C er fædd árið X og er nú X ára gömul. Stúlkan lýtur forsjá B, en kærandi var svipt forsjá með dómi Héraðsdóms E þann X. Með dómi Hæstaréttar X var sú niðurstaða staðfest. Stúlkan hefur verið í umsjá fósturforeldra frá því í X vegna fíkniefnaneyslu kæranda, líkt og kemur fram í hinum kærða úrskurði.
Samkvæmt gögnum málsins var engin umgengni á milli kæranda og stúlkunnar frá þeim tíma og þar til í X. Samkomulag var í upphafi um að kærandi hefði umgengni við stúlkuna tvisvar í viku en samkvæmt því sem fram kemur í hinum kærða úrskurði reis ágreiningur síðar um fyrirkomulag umgengni milli kæranda og fósturforeldra. Krafðist kærandi þess að B úrskurðaði um að hún mætti hafa barnið í umgengni á heimili sínu til lengri tíma. Nefndin kvað upp úrskurð 18. ágúst 2014 og jók við tímalengd umgengni, en kærandi kærði þann úrskurð til kærunefndar barnaverndarmála sem felldi úrskurðinni úr gildi með úrskurði 7. janúar 2015.
Samkvæmt því sem kemur fram í hinum kærða úrskurði leitaði starfsmaður B til lögmanns kæranda með tölvupósti 4. febrúar 2015 og óskaði eftir tillögum að umgengni. Lögmaðurinn kynnti tillögur kæranda að umgengni með tölvupósti 15. febrúar 2015. Fósturforeldrar skiluðu umsögn sinni um umgengni með tölvupósti 19. febrúar 2015. Með tölvupósti 7. apríl 2015 til lögmanns kæranda óskaði starfsmaður B eftir tillögum kæranda að umgengni við barnið í varanlegu fóstri. Lögmaðurinn vísaði í fyrri tillögur kæranda með tölvupósti 10. apríl 2015. Tillaga starfsmanna nefndarinnar var lögð fyrir meðferðarfund 21. apríl 2015 og kynnt lögmanni kæranda 22. apríl 2015. Tillagan var um umgengni fjórum sinnum á ári í þrjár til fjórar klukkustundir í senn á fósturheimili eða í nærumhverfi með aðila sem er barninu náið.
B barst erindi frá lögmanni kæranda 18. maí 2015 þar sem tilkynnt var að kærandi hefði hafið áfengis- og vímuefnameðferð á Vogi. Fram kom að kærandi færi í endurhæfingu á meðferðarheimli á F og myndi ljúka henni 18. júní 2015. Í erindinu kom fram að kærandi mótmælti tillögu starfsmanna um umgengni og óskaði eftir því að málið yrði lagt fyrir nefndina til úrskurðar.
Málið var lagt fyrir meðferðarfund 26. maí 2015 og var ákveðið að undirbúa málið fyrir nefndina til úrskurðar. Á fundi nefndarinnar 1. júlí 2015 lá fyrir fyrrgreind tillaga starfsmanna B. Ekki náðist samkomulag um umgengni. Var málið því tekið til úrskurðar samkvæmt 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) og hinn kærði úrskurður kveðinn upp sama dag.
II. Afstaða kæranda
Í kæru er vísað til þess að kærandi hafi verið undir eftirliti barnaverndarnefndar frá árinu X í aðdraganda þess að hún eignaðist barnið. Frá september á sama ári hafi barnið verið í umsjá fósturforeldra.
Kærandi hafi á köflum átt í vandræðum með misnotkun fíkniefna en hún hafi nýlega lokið meðferð á Vogi. Hún hafi síðan farið í endurhæfingu á F og sé nú í bataferli. Ekkert liggi fyrir um að ástand hennar sé óljóst eða óstöðugt eins og haldið sé fram í hinum kærða úrskurði.
Kærandi hafi verið svipt forsjá dóttur sinnar með dómi Héraðsdóms E þann X en dóminum hafi verið áfrýjað. Því sé mikilvægt að slíta ekki tengls milli kæranda og dóttur hennar þar sem málið sé enn til meðferðar hjá Hæstarétti og því ekki hægt að útiloka að kröfunni um forsjársviptingu verði hafnað þar. Með tilliti til stöðugleika og hags barnsins sé því nauðsynlegt að umgengni verði regluleg þar til endanleg niðurstaða um forsjársviptingu liggi fyrir.
Kærandi óskar eftir því að öll umgengni fari fram á heimili hennar en ekki á heimili fósturforeldra þar sem henni hafi fundist sá staður afar þrúgandi þegar umgengni hafi farið þar fram. Kærandi fer jafnframt fram á að ekkert eftirlit verði með umgengninni en hún hafni þeim staðhæfingum að staða hennar sé óljós varðandi stöðugleika og vímuefnanotkun enda liggi engin gögn fyrir því til staðfestingar. Þá vísar kærandi til þess að umgengnin hafi gengið vel og sé hún afar tengd barninu.
Kærandi telur niðurstöðuna í hinum kærða úrskurði fyrir hinni skertu umgengni illa rökstudda. Í úrskurðinum sé ítrekað vísað í aldur og þroska barnsins sem rökstuðning fyrir afar lítilli umgengni auk þess sem vísað sé í stöðugleika barnsins og möguleika þess til að öðlast öryggi hjá fósturfjölskyldu. Engin rökstuðningur sé fyrir því að aukin umgengni muni raska þessum þáttum hjá barninu. Raunar sé ekki að finna neinar röksemdir sem styðji niðurstöðu hins kærða úrskurðar og minni hann óneitanlega á þann úrskurð sem kveðinn hafi verið upp í september 2014 sem felldur hafi verið úr gildi í janúar 2015, einmitt vegna þess hversu illa hann hafi verið rökstuddur. Í hinum kærða úrskurði sé ekki að finna skilgreiningu á hagsmunum barnsins, ekkert frekar en í fyrri úrskurði, auk þess sem staðhæfingar varðandi óljósa stöðu kæranda varðandi stöðugleika og vímuefnanotkun virtust úr lausu lofti gripnar.
Í hinum kærða úrskurði sé tekið fram að ekki liggi fyrir ný gögn um aðstæður kæranda frá því að matsgerð hafi verið unnin, eða frá 27. janúar 2015, önnur en þau að lögmaður kæranda hafi upplýst um að kærandi sé hætt í neyslu og stundi endurhæfingu. Þar sé tekið fram að engar upplýsingar liggi fyrir um búsetu kæranda eða aðstæður hennar að öðru leyti og því ljóst að hinn kærði úrskurður sé að mestu leyti byggður á fimm mánaða gömlum upplýsingum um kæranda.
Kærandi vísar til 41. gr. bvl. en þar sé rannsóknarregla, sem barnaverndaryfirvöldum beri að fara eftir, enda sé það í þeirra verkahring að rannsaka mál og afla gagna, niðurstöðum sínum til stuðnings. Í lagagreininni komi fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Það geti ekki talist góð vinnubrögð og raunar hreint brot á rannsóknarreglunni að staðhæfa að ástand kæranda sé mjög óljóst, meðal annars varðandi vímuefnanotkun hennar og stöðugleika, og byggja niðurstöðu úrskurðarins að miklu leyti á því, án þess að kanna aðstæður hennar.
Hinn kærði úrskurður virtist í heild byggjast á einhvers konar ályktunum um hvað starfsmenn Fjölskyldu- og velferðarnefndarinnar telji rétt í stað þess að hann sé byggður á raunverulegri könnun í málinu.
Til þess að stjórnvaldsákvörðun standist meðalhófsreglu barnaverndarlaga, sbr. meðal annars 7. mgr. 4. gr. bvl. og til hliðsjónar 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verði hún að vera til þess fallin að ná því markmiði sem að sé stefnt, vægasta úrræði beitt og úrræðinu auk þess beitt af hófi. Eins og vísað sé til í hinum kærða úrskurði eigi barn rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir á meðan það er í fóstri, sbr. 70. og 74. gr. bvl., auk 25. gr. reglugerðar nr. 804/2004. Barnið eigi rétt á að þekkja uppruna sinn, sögu og foreldra auk þess sem mikilvægt sé að það hafi tilfinningalegt leyfi til að þykja vænt um kynforeldra sína og aðra sem tengist því. Órökstutt sé hvernig svo lítil umgengni, eða fjórum sinnum á ári í fjórar klukkustundir í senn, geti stuðlað að þessu markmiði.
Kærandi telur málshraðareglu 41. gr. bvl. þverbrotna við meðferð máls hennar. Fyrir liggi að málið hafi fyrst farið fyrir B vegna umgengni í septembermánuði 2014. Úrskurður nefndarinnar á þeim fundi hafi síðan verið kærður til kærunefndar barnaverndarmála vegna verulegra ágalla á málsmeðferðinni. Þann 7. janúar 2015 hafi verið kveðinn upp úrskurður kærunefndar barnaverndarmála í umgengnismáli kæranda. Niðurstaða kærunefndarinnar hafi verið að fella úrskurðinn úr gildi þar sem hann hafi ekki uppfyllt form- eða efnisreglur barnaverndarlaga. Síðan hafi liðið fimm mánuðir og hafi undirritaður ítrekað þrýst á að málið yrði tekið fyrir þar sem hagsmunir kæranda standi til þess að koma á umgengni milli hennar og dóttur hennar. Þetta verði að teljast óeðlileg og óafsakanleg töf. Á því verði stjórnvaldið að bera ábyrgð og bæta kæranda upp þennan drátt á málsmeðferð með tíðari umgengni þar sem hún hafi verið útilokuð frá umgengni við barn sitt frá því í október 2014 vegna slælegra vinnubragða starfsmanna B og nefndarmanna. Mikilvægt sé að viðhalda tengslum milli mæðgnanna.
Kærandi gerir auk þess athugasemd við það að í hinum kærða úrskurði virtist að öllu leyti miðað við það að barnið sé komið í varanlegt fóstur til fósturfjölskyldu. Eins og kærandi hafi bent á sé málið enn til meðferðar hjá Hæstarétti og því liggi ekki fyrir endanleg niðurstaða um forsjársviptingu kæranda. Það séu því miklir hagsmunir í því fólgnir að halda sterkum tengslum á milli kæranda og dóttur hennar, að minnsta kosti þar til endanleg niðurstaða í forsjársviptingarmálinu liggi fyrir. Ekki sé hægt að útiloka gagnstæða niðurstöðu Hæstaréttar, þ.e. að hafnað verði kröfu um forsjársviptingu.
Kærandi krefst þess að tekið verði mið af sameiginlegum hagsmunum kæranda og barnsins. Nauðsynlegt sé að rökstyðja betur niðurstöðu B og rannsaka aðstæður og hagi kæranda betur, eigi að takmarka umgengni með þeim hætti sem gert sé í hinum kærða úrskurði. Mikilvægt sé að slíta ekki tengsl milli kæranda og dóttur hennar á meðan málið sé enn til meðferðar hjá Hæstarétti þar sem ekki sé hægt að útiloka að hafnað verði kröfunni um forsjársviptingu. Óásættanlegt sé að byggt sé á því í hinum kærða úrskurði að barnið sé komið í varanlegt fóstur. Með stöðugleika og hag barnsins í huga sé nauðsynlegt að umgengni sé nokkuð regluleg þar til endanleg niðurstaða um forsjársviptingu liggi fyrir. Vegna mikilla og óafsakanlegra tafa á málsmeðferðinni hafi kærandi ekki fengið umgengni við dóttur sína svo mánuðum skipti og telur kærandi að gera verði barnaverndarnefnd að bæta henni það upp með aukinni umgengni á næstu mánuðum enda mikilvægt að viðhalda tenglsum milli mæðgnanna.
III. Afstaða B
Í greinargerð B til kærunefndar barnaverndarmála 7. september 2015, sem barst kærunefndinni 16. september 2015, segir að líkt og komi fram í hinum kærða úrskurði hafi starfsmaður B leitað til lögmanns kæranda um tillögur um umgengni þar sem ekki hafi náðst í kæranda. Lögmaðurinn hafi kynnt tillögur kæranda að umgengni þar sem hún hafi farið fram á reglulega umgengni á eigin heimili, tvisvar í mánuði í sex klukkustundir í senn án eftirlits. Óskað hafi verið eftir skriflegri afstöðu fósturforeldra þar sem fram komi að þau telji að það þjóni hagsmunum barnsins best að umgengni kæranda við barnið í varanlegu fóstri verði einu sinni til tvisvar á ári. Vísi þau til þess að markmið með varanlegu fóstri sé að tryggja stöðugleika og öryggi í lífi barnsins í umsjá þeirra og að barnið muni koma til með að tilheyra þeirra fjölskyldu. Þá hafi komið fram hjá fósturforeldrum að á meðan barnið hafi verið íumsjá þeirra hafi mikill óstöðugleiki ríkt í lífi kæranda og hún nýtt sér umgengni illa. Þau taki fram að kærandi hafi eingöngu komið í sex skipti til að eiga umgengni við barnið frá því að nefndin úrskurðaði í málinu í september 2014 um að umgengni skyldi vera tvisvar í viku og þar til niðurstaða kærunefndar barnaverndarmála hafi legið fyrir í janúar 2015. Fósturforeldrar segi kæranda hafa mætt illa, afboðað seint og viljað breyta tíma með stuttum fyrirvara. Fósturforeldrar hafi farið fram á að umgengni yrði undir eftirliti þar sem fyrri reynsla hafi sýnt að kærandi hefði ekki úthald í umgengnina nema í stuttan tíma og setji eigin þarfir ofar þörfum barnsins. Þá hafi þau lagt til að umgengni færi fram á hlutlausum stað í nærumhverfi barnsins og að hún myndi ekki vara í meira en þrjár til fjórar klukkustundir í senn. Í tillögu starfsmanns B sé vísað til þess að barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir. Þá sé einnig greint frá því að mikilvægt þyki að barnið þekki uppruna sinn, sögu og foreldra og að barnið hafi tilfinningarlegt leyfi til að þykja vænt um kynforeldra sína og aðra sem því tengjast. Til að tryggja markmið laganna með tilliti til varanlegs fósturs hafi verið lagt til að barnið eigi umgengni við kæranda fjórum sinnum á ári í þrjár til fjórar klukkustundir í senn. Ástæða þess að ekki hafi verið lögt til tíðari umgengn sé sú að meiri umgengni gæti haft áhrif á stöðugleika barnsins og möguleika þess til að öðlast öryggi hjá fósturfjölskyldu þar sem um varanlega ráðstöfun sé að ræða. Þá hafi verið talið barninu fyrir bestu að umgengni ætti sér stað á heimili þess eða í nærumhverfi.
Fram komi í kæru kæranda að mikilvægt sé að slíta ekki tengsl milli kæranda og dóttur hennar þar sem málið sé enn til meðferðar hjá Hæstarétti og því ekki hægt að útiloka gagnstæða niðurstöðu, þ.e. að hafnað yrði kröfu um forsjársviptingu. Fram til janúar 2015 hafi umgengni tekið mið af tímabundinni vistun, eða tvisvar sinnum í viku, þrátt fyrir að nefndin hefði ákvarðað um varanlega vistun barnsins í ágúst 2014. Á þessum tíma hafi kærandi nýtt umgengni takmarkað og boðað sjaldan forföll. Barnið sé nú í varanlegri vistun þar sem markmiðið sé að barnið myndi sterkari tengsl við fósturforeldra en kynforeldra. Umgengnissamningur hafi verið gerður eftir að nefndin hafði úrskurðað um umgengni 1. júlí 2015. Sett hafi verið á umgengni 28. júlí 2015 og hafi kærandi verið boðuð. Lögmaður kæranda hafi staðfest við starfsmann B komu kæranda. Hún hafi ekki mætt í fyrirhugaða umgengni og hafi ekki boðað forföll. Þá hafi viðbótar umgengni verið komið á í ágúst 2015 vegna yfirmats um forsjárhæfni kæranda fyrir Hæstarétti. Kærandi hafi mætt í umgengni og hafi hún gengið vel.
Þá komi fram í kæru að kærandi óski eftir því að öll umgengni fari fram á heimili hennar en ekki á heimili fósturforeldra þar sem henni hafi fundist sá staður afar þrúgandi þegar umgengni hafi farið fram þar. B hafi tekið tillit til óska kæranda og hafi umgengni verið á hlutlausum stað í nærumhverfi barnsins þar sem aðstaða og efniviður hafi verið til staðar fyrir barnið. Þá komi einnig fram að B telji stöðu kæranda óljósa varðandi stöðugleika og vímuefnanotkun og engin gögn séu þeim staðhæfingum til grundvallar og virtust þær úr lausu lofti gripnar að mati kæranda. Engin ný gögn hafi verið lög fram í málinu fyrir úrskurð nefndarinnar um aðstæður kæranda frá því að matsgerð sálfræðings hafi legið fyrir í janúar 2015 vegna kröfu nefndarinnar um forsjársviptingu kæranda fyrir Héraðsdómi. Þá hafi starfsmaður nefndarinnar boðið kæranda stuðning og óskað eftir upplýsingum um stöðu hennar án viðbragða frá kæranda. Gerðar séu athugasemdir við tíðni umgengninnar en hún sé í samræmi við markmið fóstursins. Barnið hafi verið hjá núverandi fósturforeldrum frá fimm mánaða aldri og hafi myndað eðlileg geðtengsl við þau. Barnið eigi rétt á að þekkja kæranda og muni að því vera gætt með umgengni fjórum sinnum á ári. Gæta þurfi að þörfum og hagsmunum barnsins. Félagslegar þarfir tveggja ára barna sé best á komið í umhverfi sem það þekki vel og lítið sé um áreiti.
IV. Afstaða fósturforeldra
Í tölvupósti fósturforeldra stúlkunnar 21. október 2015 til kærunefndarinnar kemur fram að þau séu alfarið mótfallin þeim kröfum sem kærandi setji fram varðandi umgengni við stúlkuna. Dómur héraðsdóms E frá því í X segi að stúlkan skuli vera í varanlegu fóstri til átján ára aldurs. Markmið fóstursins og þar af leiðandi umgengni sé af öðrum toga en ef um tímabundið fóstur væri að ræða. Með varanlegu fóstri sé átt við að stúlkan tilheyri fósturforeldrum og þeirra fjölskyldu sem tekið hafi að sér uppeldi hennar. Þau telji að tryggja þurfi stöðugleika og öryggi í lífi stúlkunnar og þeirra álit sé að svo muni ekki verða ef um svo tíða umgengni verði að ræða, líkt og kærandi krefjist í málinu. Kærandi hafi frá því að stúlkan hafi fyrst komið í fóstur til þeirra í október 2013 sýnt fram á það að hún hafi mjög takmarkað nýtt sér þá umgengni sem ákvörðuð hafi verið. Umgengni hafi verið allt að þrisvar sinnum í viku í fjóra tíma í senn þegar um tímabundið fóstur hafi verið að ræða. Í þau skipti sem hún hafi mætt, hafi verið ljóst að hvorki kærandi né stúlkan hafi haft úthald í svo langa umgengni. Eins hafi kærandi aldrei haft dóttur sína ein í sinni umsjá og því telja þau að það myndi vera glapræði að úrskurða umgengni þannig. Ekki sé vitað nægilega mikið um aðstæður kæranda hvað varði neyslu, heimilisaðstæður né hvaða félagsskap hún hafi í kringum sig.
Þeirra álit sé það að umgengni eigi að fara fram tvisvar sinnum á ári í tvo tíma í senn undir eftirliti aðila sem stúlkan þekki og treysti. Þeirra skoðun sé að umgengni eigi að fara fram í nærumhverfi stúlkunnar, þá annað hvort á heimili hennar eða á hlutlausum stað. Ef umgengni sé á hlutlausum stað þá setji þau sig alfarið á móti því að þau eigi ekki að hafa neina aðkomu að umgengninni nema þá að afhenda stúlkuna í umgengni. Stúlkan sé að fara í aðstæður sem séu henni ókunn og þeirra skoðun sé sú að það væri ekki vænlegt, hvorki fyrir stúlkuna né kæranda, að fósturforeldrar myndu afhenda stúlkuna og skilja hana eftir óörugga og jafnvel grátandi.
V. Niðurstaða
C er tveggja ára gömul og hefur verið hjá fósturforeldrum sínum, G og H, frá því í X. Kærandi var svipt forsjá stúlkunnar með dómi Héraðsdóms E þann X. Dóminum var áfrýjað og með dómi Hæstaréttar X var dómur héraðsdóms staðfestur.
Með hinum kærða úrskurði B 1. júlí 2015 var umgengni stúlkunnar við kæranda ákveðin fjórum sinnum á ári í fjórar klukkustundir í senn undir eftirliti á hlutlausum stað. Kærandi krefst þess að umgengni verði ákveðin tvisvar í mánuði í sex klukkustundir í senn á heimili kæranda og án eftirlits. Til vara krefst kærandi þess að umgengni verði einu sinni í mánuði í sex klukkustundir í senn á heimili kæranda og án eftirlits. Verði ekki fallist á að umgengni fari fram á heimili kæranda krefst kærandi þess að umgengni fari fram á hlutlausum stað þar sem fósturforeldrar komi ekki beint að umgengni. Kærandi krefst þess að umgengni verði með þessum hætti þar til kveðinn hefur verið upp dómur í Hæstarétti í forsjársviptingarmáli kæranda.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal við ráðstöfun barns í fóstur taka afstöðu til umgengni barnsins við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.
Kærandi vísar til þess að hún hafi átt í vandræðum með misnotkun fíkniefna en hún hafi farið í meðferð og endurhæfingu og sé nú í bataferli. Hún heldur því fram að ekkert liggi fyrir um að ástand hennar sé óljóst eða óstöðugt eins og haldið sé fram í hinum kærða úrskurði. Engin ný gögn liggi fyrir um aðstæður kæranda frá því að matsgerð var unnin 27. janúar 2015, önnur en þau að lögmaður kæranda hafi upplýst um að kærandi sé hætt í neyslu og stundi endurhæfingu. Í úrskurðinum sé tekið fram að engar upplýsingar liggi fyrir um búsetu kæranda eða aðstæður hennar að öðru leyti og telur kærandi því ljóst að hinn kærði úrskurður sé að mestu leyti byggður á fimm mánaða gömlum upplýsingum um kæranda. Samkvæmt 41. gr. bvl. beri barnaverndaryfirvöldum að rannsaka mál og afla gagna, niðurstöðum sínum til stuðnings. Í lagagreininni komi fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Það geti ekki talist góð vinnubrögð og raunar hreint brot á rannsóknarreglunni að staðhæfa að ástand kæranda sé mjög óljóst, meðal annars varðandi vímuefnanotkun hennar og stöðugleika, og byggja niðurstöðu úrskurðarins að miklu leyti á því, án þess að kanna aðstæður hennar. Hinn kærði úrskurður virtist í heild byggjast á einhvers konar ályktunum um hvað starfsmenn B telji rétt í stað þess að hann sé byggður á raunverulegri könnun í málinu.
Í málinu liggja fyrir veigamiklar upplýsingar um kæranda, alvarlegan geðrænan vanda hennar og fíknivanda. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði veitti lögmaður kæranda barnaverndarnefndinni upplýsingar um vímuefnameðferð hennar og endurhæfingu 18. júní 2015. Telja verður að þessar upplýsingar hafi legið fyrir með óyggjandi hætti þannig að unnt væri að byggja á þeim þegar hinn kærði úrskurður var kveðinn upp. Kærunefndin telur að rannsókn málsins hafi verið fullnægjandi.
Kærandi vísar einnig til þess að hún hafi verið svipt forsjá dóttur sinnar með dómi Héraðsdóms E þann X en dóminum hafi verið áfrýjað. Því sé mikilvægt að slíta ekki tengls milli kæranda og dóttur hennar þar sem málið sé enn til meðferðar hjá Hæstarétti og því ekki hægt að útiloka að kröfunni um forsjársviptingu verði hafnað þar. Með tilliti til stöðugleika og hags barnsins sé því nauðsynlegt að umgengni verði regluleg þar til endanleg niðurstaða um forsjársviptingu liggi fyrir. Kærandi telur að hún sé afar tengd barninu. Eins og að framan greinir liggur dómur Hæstaréttar fyrir og er því ekki þörf á að fjalla frekar um þessar röksemdir kæranda í kærumáli þessu.
Kærandi óskar eftir því að öll umgengni fari fram á heimili hennar en ekki á heimili fósturforeldra þar sem henni hafi fundist sá staður afar þrúgandi þegar umgengni hefur farið þar fram. Kærunefndin telur að mikilvægt sé að umgengni kæranda við barnið fari fram þar sem barnið nýtur öryggis. Með vísan til þess alvarlega vanda sem kærandi hefur glímt við í langan tíma verður ekki talið að öryggi barnsins sé tryggt á heimili kæranda. Ber því að hafna kröfu kæranda um að umgengnin fari fram á heimili hennar. Af sömu ástæðum verður ekki hjá því komist að eftirlit verði með umgengninni og ber því einnig að hafna þeirri kröfu kæranda að ekkert eftirlit verði með umgengninni.
Kærandi telur niðurstöðuna í hinum kærða úrskurði fyrir hinni skertu umgengni illa rökstudda. Í úrskurðinum sé ítrekað vísað í aldur og þroska barnsins sem rökstuðning fyrir afar lítilli umgengni auk þess sem vísað sé í stöðugleika barnsins og möguleika þess til að öðlast öryggi hjá fósturfjölskyldu. Engin rökstuðningur sé fyrir því að aukin umgengni muni raska þessum þáttum hjá barninu. Raunar sé ekki að finna neinar röksemdir sem styðji niðurstöðu hins kærða úrskurðar og minni hann óneitanlega á þann úrskurð sem kveðinn hafi verið upp í september 2014 sem felldur hafi verið úr gildi í janúar 2015, einmitt vegna þess hversu illa hann hafi verið rökstuddur. Í hinum kærða úrskurði sé ekki að finna skilgreiningu á hagsmunum barnsins, ekkert frekar en í fyrri úrskurði, auk þess sem staðhæfingar varðandi óljósa stöðu kæranda varðandi stöðugleika og vímuefnanotkun virtust úr lausu lofti gripnar.
Barnið er í varanlegu fóstri og hefur þörf fyrir stöðugleika og öryggi. Hér verður að líta til þess að tengsl kæranda og barnsins eru takmörkuð. Hagsmunir barnsins eru þeir að fá að alast upp hjá fósturfjölskyldunni án utanaðkomandi truflunar sem umgengni kæranda við barnið er til þess fallin að valda barninu. Með vísan til þess verður ekki hjá því komist að skerða umgengi þannig að tekið verði mið af þessum hagsmunum og þörfum barnsins. Kærunefndin telur að nægilegt sé að umgengnin verði fjórum sinnum á ári í fjórar klukkustundir í senn þannig að því markmiði verði náð að barnið þekki uppruna sinn, sögu og foreldra.
Kærandi telur málshraðareglu 41. gr. bvl. þverbrotna við meðferð máls hennar. Málið hafi fyrst farið fyrir B vegna umgengni í septembermánuði 2014. Úrskurður nefndarinnar hafi verið kærður til kærunefndar barnaverndarmála vegna verulegra ágalla á málsmeðferðinni. Úrskurður kærunefndarinnar hafi verið kveðinn upp 7. janúar 2015 þar sem niðurstaðan hafi verið að fella hinn kærða úrskurð úr gildi þar sem hann hafi ekki uppfyllt form- eða efnisreglur barnaverndarlaga. Síðan hafi liðið fimm mánuðir og hafi verið farið fram á að málið yrði tekið fyrir þar sem hagsmunir kæranda hafi verið að koma á umgengni milli hennar og dóttur hennar. Þetta verði að teljast óeðlileg og óafsakanleg töf sem stjórnvaldið beri ábyrgð á. Beri því að bæta kæranda upp þennan drátt á málsmeðferð með tíðari umgengni þar sem hún hafi verið útilokuð frá umgengni við barn sitt frá því í október 2014 vegna slælegra vinnubragða starfsmanna B og nefndarmanna. Mikilvægt sé að viðhalda tengslum milli mæðgnanna. Vegna mikilla og óafsakanlegra tafa á málsmeðferðinni hafi kærandi ekki fengið umgengni við dóttur sína svo mánuðum skipti og telur kærandi að barnaverndarnefnd verði gert að bæta henni það upp með aukinni umgengni á næstu mánuðum enda mikilvægt að viðhalda tenglsum milli mæðgnanna.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. bvl., sbr. 2. gr. laga nr. 80/2011, er heimilt að skjóta til kærunefndar barnaverndarmála ákvörðunum og úrskurðum barnaverndarnefnda eftir því sem nánar er kveðið á um í bvl. Krafa kæranda um að barnaverndarnefndinni verði gert að bæta kæranda upp með aukinni umgengni að engin umgengni fór fram á ákveðnu tímabili, eins og kærandi heldur fram, sætir ekki kæru samkvæmt lögunum og kemur krafan því ekki til frekari umfjöllunar í máli þessu.
Samkvæmt því sem að framan er rakið verður ekki fallist á þær röksemdir kæranda að hinn kærði úrskurður sé haldinn þeim annmörkum sem leiði til þess að hann verði felldur úr gildi eða umgengni ákveðin á annan hátt en gert var með úrskurðinum. Ber með vísan til þessa að staðfesta úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Úrskurður B frá 1. júlí 2015 varðandi umgengni A við dóttur sína, C, er staðfestur.
Sigríður Ingvarsdóttir, formaður
Hrafndís Tekla Pétursdóttir
Jón R. Kristinsson