Hoppa yfir valmynd

Nr. 170/2022 Úrskurður

Beiðni kæranda um endurupptöku er samþykkt. Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. apríl 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 170/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22030036

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Hinn 10. júní 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. febrúar 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landi. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 14. júní 2021. Hinn 21. júní 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og hinn 28. júní 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins auk greinargerðar. Hinn 6. júlí 2021 var beiðnum kæranda synjað. Hinn 20. september 2021 barst kærunefnd í annað sinn beiðni kæranda um endurupptöku og synjaði kærunefnd þeirri beiðni með úrskurði nefndarinnar hinn 18. nóvember 2021.

Kærandi lagði í þriðja sinn fram beiðni um endurupptöku hinn 4. desember 2021 sem var synjað með úrskurði kærunefndar hinn 17. febrúar 2022. Hinn 16. mars 2022 barst kærunefnd fjórða endurupptökubeiðni kæranda ásamt greinargerð og fylgigögnum.

Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að frestur samkvæmt 1. mgr. 29. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) sé liðinn. Lokaákvörðun í máli kæranda hafi verið tekin hinn 10. júní 2021 og því hafi frestur samkvæmt umræddri grein runnið út hinn 10. desember 2021.

Í úrskurði kærunefndar í máli nr. KNU21120006 hafi verið reifaður aðdragandi þess að kærandi hafi verið skráður horfinn af Útlendingastofnun fyrir að neita að gefa upp við lögreglu hvar hann væri niðurkominn þegar hann átti að mæta í Covid-19 sýnatöku í tengslum við flutning hans til viðtökuríkis. Í greinagerð kæranda kemur fram að hann hafi hinn 30. nóvember 2021 farið til Útlendingastofnunar þar sem hann hefði ekki skilið erindi stoðdeildar í gegnum síma. Af þessu megi ráða að kærandi hafi ranglega verið skráður horfinn. Kærandi gerir í greinargerð sinni tilteknar athugasemdir við málsmeðferð stoðdeildar og niðurstöðu kærunefndar í máli nr. KNU21120006 og mótmælir því að hann hafi hlaupist á brott hinn 29. nóvember 2021. Kærandi hafi verið búsettur í húsnæði á vegum Útlendingastofnunar á þessum tíma og meðfylgjandi greinargerð eru yfirlýsingar sambýlismanna hans þar að lútandi. Þá gerir kærandi athugasemd við upplýsingagjöf stoðdeildar en eins og áður hafi komið fram skilji kærandi varla ensku og þess vegna hefði verið nauðsynlegt að tilkynna honum allar upplýsingar með sannanlegum hætti með aðstoð túlks. Það hafi þó ekki verið gert hinn 29. nóvember 2021. Vegna þessa hafi kærandi óskað eftir því að notast væri við túlk þegar rætt væri við hann um fyrirhugaðan brottflutning. Meðfylgjandi greinargerð er umrædd beiðni, dags. 3. desember 2021. Kærandi mótmælir því mati að hann hafi neitað að gefa upp hvar hann væri niðurkominn hinn 29. nóvember 2021 auk þess sem að hann telji það ósannað. Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til forúrskurðar Evrópudómstólsins í máli C-163/17.

Að mati kæranda sé ljóst að hann hafi ekki látið sig hverfa þar sem hann hafi aldrei yfirgefið það húsnæði sem yfirvöld hafi úthlutað honum. Auk þess hafi hann haft góðar og gildar ástæður fyrir því að hafa ekki mætt til sýnatöku enda hafi kærandi ekki verið boðaður á tungumáli sem hann skildi, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi ekki látið sig hverfa heldur hafi hann þvert á móti haft samband við yfirvöld í gegnum ráðgjafa í teymi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og óskað eftir því að stjórnvöld hefðu samband við hann með aðstoð túlks svo hann gæti skilið hvað fram færi. Þá er þess getið að lögmaður kræanda hafi óskað eftir nánari skýringum varðandi framangreinda skráningu kæranda frá stoðdeild hinn 13. desember 2021 en engin svör hafi borist sem telja verði ámælisvert. Af framangreindu megi ráða að ásetningur kæranda hafi ekki staðið til þess að koma sér undan yfirvöldum í skilningi 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland Dyflinnarreglugerðina, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Hinn 25. september 2020 samþykktu þýsk stjórnvöld að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd. Byggði samþykki Þýskalands á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Við rekstur máls sem fer samkvæmt fyrirkomulagi Dyflinnarreglugerðarinnar þurfa stjórnvöld að gæta að tilteknum tímafrestum, sbr. m.a. 1. og 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um fyrirkomulag og fresti. Í því ákvæði felst m.a. að flutningur á umsækjanda skal fara fram innan sex mánaða frá því að lokaákvörðun var tekin um kæru eða endurskoðun. Þó er heimilt í undantekningartilvikum að framlengja frest til flutnings í að hámarki 18 mánuði ef hlutaðeigandi einstaklingur hleypst á brott (e. abscond). Ef umræddir frestir líða leiðir það til þess að ábyrgð á viðkomandi umsókn um alþjóðlega vernd færist sjálfkrafa yfir til þess aðildarríkis sem leggur fram beiðni, sbr. til hliðsjónar dómur Evrópudómstólsins í máli Shiri, C-201/16, frá 25. október 2017 (26.-34. mgr. dómsins). Ef frestir samkvæmt 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar líða er íslenskum stjórnvöldum því ekki lengur heimilt að krefja viðkomandi ríki um viðtöku einstaklings í skilningi c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í úrskurði kærunefndar í máli nr. KNU19040090 frá 9. maí 2019 ákvað kærunefnd að þegar mál hefur verið kært til kærunefndar og réttaráhrifum frestað yrði upphafstími þessa frests miðaður við dagsetningu birtingar úrskurðar kærunefndar. Eins og að framan greinir samþykktu þýsk stjórnvöld endurviðtökubeiðni íslenskra stjórnvalda hinn 25. september 2020. Þá var endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi birt fyrir kæranda hinn 14. júní 2021. Rann því upphaflegur sex mánaða frestur til þess að flytja kæranda úr landi út hinn 14. desember 2021. Í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frá 16. apríl 2020, C(2020) 2516 final, kemur fram að ekkert ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar heimili frávik frá 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar við aðstæður sambærilegar þeim sem leiða af Covid-19 faraldrinum.

Kærunefnd hefur áður tekið afstöðu til þeirrar málsástæðu sem kærandi byggir á í endurupptökubeiðni sinni en með úrskurði kærunefndar í máli nr. KNU21120006 frá 24. febrúar 2022 var komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar væru ekki uppfyllt. Með endurupptökubeiðni kæranda hefur kærandi komið á framfæri nýjum upplýsingum og lagt fram ný gögn sem ekki lágu fyrir þegar kærunefnd kvað upp úrskurð sinn hinn 24. febrúar 2022. Meðal hinna nýju gagna er tölvubréf, dags. 3. desember 2021, sem var sent til stoðdeildar frá ráðgjafa sem starfar fyrir teymi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í tölvubréfinu kemur fram að kærandi hafi óskað eftir því að notast væri við túlk þegar rætt væri við hann um fyrirhugaðan brottflutning þar sem að enskukunnátta hans sé takmörkuð og hann skilji ekki allt sem fram fari í samskiptum við stoðdeild. Þá lagði kærandi fram samskipti á milli lögmanns síns og Útlendingastofnunar sem bera með sér að kæranda hafi verið tilkynnt með tölvubréfi Útlendingastofnunar, dags. 7. desember 2021, að hann hafi verið skráður horfinn og eftirlýstur hjá stofnuninni og í lögreglukerfinu frá og með 29. nóvember 2021.

Kærunefnd tekur fram að samkvæmt 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar er almennt lagt til grundvallar að flutningur hlutaðeigandi einstaklings til ábyrgs aðildarríkis skuli fara fram innan 6 mánaða frá þar tilgreindum tímamörkum, þ.e. til dæmis eftir að lokaákvörðun hefur verið tekin um kæru, hafi réttaráhrifum verið frestað. Framlenging á þeim tímafresti í 18 mánuði, sbr. 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, felur í sér undantekningu frá þeirri almennu reglu. Í því ljósi og með hliðsjón af því að sex mánaða tímafrestinum er ætlað að tryggja að flutningur fari fram eins skjótt og hægt er í þágu umsækjenda telur nefndin að stjórnvöld þurfi að sýna fram á í hverju tilviki fyrir sig og með fullnægjandi hætti að hlutaðeigandi einstaklingur hafi hlaupist á brott svo komið geti til beitingar 18 mánaða frests 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar. Í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins hefur hugtakið að hlaupast á brott (e. abscond) í skilningi 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar verið skýrt sem svo að það geti gefið til kynna ásetning hlutaðeigandi einstaklings um að komast undan einhverju eða flýja einhvern, í þessu tilviki yfirvöld og fyrirhugaðan flutning á viðkomandi, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins í máli Jawo, C-163/17, frá 19. mars 2019. Samkvæmt þeim dómi, sem kærunefnd telur að hafa megi nokkra hliðsjón af, verða þær kröfur þó ekki gerðar til stjórnvalda að þau þurfi að færa fram sönnur um ásetning umsækjenda um að hlaupast á brott.

Í því máli sem hér er til meðferðar stóð til að flytja kæranda hinn 30. nóvember 2021 til viðtökuríkis. Kærandi mætti á fund stoðdeildar hinn 23. nóvember 2021 þar sem honum var kynnt að til stæði að flytja hann til viðtökuríkis og að hann þyrfti að fara í Covid-19 sýnatöku hinn 29. nóvember 2021. Á fundi stoðdeildar lýsti kærandi því yfir að hann hygðist ekki gangast undir Covid-19 sýnatöku í tengslum við flutning sinn til viðtökuríkis. Hinn 29. nóvember 2021 hafði stoðdeild samband við kæranda símleiðis vegna fyrirhugaðrar Covid-19 sýnatöku en samkvæmt stoðdeild hafi kærandi neitað að gefa upp hvar hann væri niðurkominn. Í kjölfar þess hafi kærandi verið skráður horfinn í kerfum íslenskra stjórnvalda hinn 29. nóvember 2021 en tilkynning þess efnis þó ekki send til þýskra yfirvalda fyrr en 7. desember 2021. Í greinargerð kæranda er því mótmælt að hann hafi neitað að gefa upp staðsetningu sína þegar hann ræddi við starfsmann stoðdeildar hinn 29. nóvember 2021 en kærandi hafi ekki fyllilega skilið hvað fram fór í símtali þeirra þar sem ekki hafi verið notast við túlk af hálfu stoðdeildar.

Líkt og að framan greinir þurfa stjórnvöld að sýna fram á í hverju tilviki fyrir sig og með fullnægjandi hætti að umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi hlaupist á brott svo komið geti til beitingar 18 mánaða frests 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Af gögnum málsins er ljóst að starfsmaður stoðdeildar hafði samband við kæranda hinn 29. nóvember 2021 í tengslum við fyrirhugaða Covid-19 sýnatöku þann sama dag. Í símtalinu hafi komið fram að kærandi ætlaði ekki að mæta í Covid-19 sýnatöku en ágreiningur er um hvort kærandi hafi neitað að gefa upp staðsetningu sína í umræddu símtali. Ekki liggja fyrir upplýsingar um að starfsmaður stoðdeildar hafi farið á dvalarstað kæranda til þess að kanna hvort hann væri þar. Af gögnum málsins má sjá að í samskiptum kæranda við stoðdeild hafi í einhverjum tilvikum verið þörf á túlki, s.s. þegar stoðdeild ræddi við hann símleiðis hinn 22. nóvember 2021. Til stuðnings þess að hann hafi ekki skilið hvað hafi átt sér stað í símtalinu hefur kærandi lagt fram tölvubréf sem var sent á stoðdeild hinn 3. desember 2021 þar sem óskað var eftir því að notast yrði við túlk þegar verið væri að ræða við hann um fyrirhugaðan flutning til viðtökuríkis. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en þegar umrætt tölvubréf var sent á stoðdeild þá hafi kæranda ekki verið kunnugt um að hann væri skráður horfinn í kerfum stjórnvalda.

Í úrskurði kærunefndar frá 24. febrúar 2022 var byggt á fyrirliggjandi gögnum um málsatvik og var lagt til grundvallar að kærandi hefði látið sig hverfa í skilningi 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Hin nýju gögn sem reifuð hafa verið að framan bera það með sér að vafi leiki á því hvort kærandi hafi fyllilega skilið hvað átti sér stað í símtali hans við stoðdeild hinn 29. nóvember 2021 og þá hafi stjórnvöld ekki kannað með fullnægjandi hætti hvort að kærandi hefði í raun látið sig hverfa í þeim tilgangi að koma sér hjá framkvæmd á úrskurði kærunefndar frá 10. júní 2021. Við þessar aðstæður telur kærunefnd að það hefði verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, m.a. í því skyni að fyrirbyggja misskilning og tryggja sönnun, að fá frekari staðfestingu á því hvort kærandi væri sannanlega að koma sér undan flutningi eða hvort kærandi hafi verið að neita samvinnu varðandi Covid-19 sýnatöku.

Af þessum sökum og á grundvelli heildarmats á aðstæðum öllum telur kærunefnd að ekki sé hægt að leggja til grundvallar að kærandi hafi hlaupist á brott í skilningi 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar á þann hátt að heimilt væri að að framlengja frest til flutnings umfram þá sex mánuði sem ákvæðið mælir fyrir um. Af því leiðir að ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd fluttist yfir á íslensk stjórnvöld þegar umræddur frestur leið, hinn 14. desember 2021, og ekki er því lengur hægt að krefja viðtökuríkið um að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærunefnd fellst því á að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp og því sé rétt að mál kæranda verði endurupptekið, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi.


 

Úrskurðarorð:

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for interantional protection in Iceland.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                 Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta