Hoppa yfir valmynd

Nr. 286/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 27. ágúst 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 286/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20080008

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I.                    Málsatvik

Þann 16. apríl 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 30. október 2019 um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 20. apríl 2020. Þann 27. apríl 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar sem og beiðni kæranda um að nefndin endurskoðaði úrskurð hans. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað þann 8. maí 2020. Þá var kröfu kæranda um endurupptöku á máli hans hafnað þann 18. júní sl.

Þann 17. ágúst 2020 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins að nýju án þess að með þeirri beiðni hafi fylgt nokkur rökstuðningur eða gögn. Þá óskaði kærandi eftir fresti til þess að skila rökstuðningi og gögnum til stuðnings þeirrar beiðni. Með tölvupósti, þann sama dag, var kæranda tilkynnt um að slíkur frestur sé ekki veittur vegna beiðni um endurupptöku.

II.                  Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af tölvupóstum talsmanns kæranda til kærunefndar, dags. 17. ágúst 2020, má ráða að kærandi telji að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt þar sem Útlendingastofnun hafi, þann 12. ágúst 2020, afturkallað ákvörðun um að honum skuli vísað af landi brott og ákveðið endurkomubann. Þá krefst kærandi þess að honum verði veitt mannúðarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd þann 11. janúar 2019 og telji hann, í ljósi þess að fyrrgreind ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið afturkölluð, að meðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd hafi staðið yfir í tæpa 18 mánuði.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kæranda þann 16. apríl 2020. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þá var fyrri beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans hafnað með úrskurði kærunefndar þann 18. júní 2020. Fram kom m.a. í úrskurðinum að þau gögn sem bárust með beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans hafi ekki gefið til kynna að aðstæður kæranda hafi breyst verulega eða að úrskurður nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þá kom fram að ekkert í beiðni kæranda hafi raskað mati nefndarinnar á trúverðugleika frásagnar hans.

Í 2.mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 11. janúar 2019 og var úrskurður kærunefndar í máli hans birtur honum þann 20. apríl 2020. Kærandi fékk því endanlega niðurstöðu í máli sínu, hvað varðar umsókn hans um alþjóðlega vernd, á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða. Afturköllun Útlendingastofnunar á ákvörðun sinni, dags. 29. ágúst 2020, um að kæranda skuli vísað brott frá Íslandi og ákveðið endurkomubann, breytir þar engu, enda um ótengt mál að ræða hjá lægra settu stjórnvaldi. Eðli máls samkvæmt hafa atvik málsins því ekki breyst vegna þess eins að Útlendingastofnun hafi afturkallað fyrrgreinda ákvörðun.

Samkvæmt framansögðu eru því hvorki forsendur til að endurupptaka mál kæranda á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga né til þess að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Að mati kærunefndar hefði talsmanni kæranda mátt vera framangreint ljóst af lestri fyrrgreindra ákvæða. Beiðni kæranda var ekki studd með frekari rökstuðningi eða nýjum gögnum og telur kærunefnd, með hliðsjón af framangreindu, að um tilhæfulausa beiðni um endurupptöku sé að ræða. Kærunefnd gerir því athugasemd við vinnubrögð talsmanns að þessu leyti.

Eru því skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, að mati kærunefndar, ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.


 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta