Mál nr. 18/2014
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 7. janúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 18/2014.
1. Málsatvik og kæruefni
Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í máli kæranda, A, 3. desember 2013 og gerði Vinnumálastofnun að taka mál kæranda fyrir að nýju vegna þess að andmælaréttur kæranda hafði ekki verið virtur. Stofnunin endurupptók málið í kjölfarið og staðfesti fyrri ákvörðun sína í málinu 19. desember 2013. Með bréfi kæranda, dags. 12. febrúar 2014, var málinu skotið til úrskurðarnefndarinnar að nýju. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun. Kærandi óskar þess að farið verði með málið af sanngirni.
Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi frá Vinnumálastofnun, dags. 20. september 2012, var kæranda tilkynnt um ofgreiddar atvinnuleysisbætur til hans fyrir tímabilið 1. september til 19. desember 2011. Kærandi sendi inn skýringar og gögn til stofnunarinnar með bréfi, dags. 1. október 2012, þar sem fram kom að hann teldi að um misskilning væri að ræða sem hægt væri að leiðrétta. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 22. október 2012, kom fram að litið væri svo á að kærandi væri að biðja um endurupptöku málsins og var þeirri beiðni hans hafnað. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 17. janúar 2013, þar sem hann krafðist þess að synjunin um endurupptöku yrði felld úr gildi. Úrskurðarnefndin gerði Vinnumálstofnun með úrskurði sínum 3. desember 2013 að taka málið fyrir að nýju eins og fram hefur komið.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 16. janúar 2009. Kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun á fundi 28. júní 2011 að hann hefði komist í frumgreinanám við Háskólann í Reykjavík og var honum á fundinum tilkynnt að hann yrði að skila inn staðfestingu vegna námsins til þess að gera námssamning. Þegar slík staðfesting bærist myndi stofnunin kanna hvort unnt væri að gera námssamning við hann. Kærandi hafði ekki frekara samband við Vinnumálstofnun. Við hefðbundið eftirlit Vinnumálstofnunar í desember 2011 kom í ljós að kærandi var skráður í nám samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta án þess að vera með námssamning við stofnunina.
Við meðferð fyrra málsins hjá úrskurðarnefndinni kom fram af hálfu kæranda að hann hafi ekki fengið sanngjarnt tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Vinnumálastofnun hafi sent honum bréf á rangt heimilisfang þrátt fyrir að hann hafi verið rétt skráður í kerfinu hjá þeim. Af þeim sökum hafi hann aldrei fengið tækifæri til þess að leiðrétta þann samning sem málið hafi fjallað um. Kærandi greindi frá því að rétt hafi verið að hann hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun til að fara í nám. Stofnunin hafi verið með staðfestingu á skólavist hans. Atvik málsins hafi verið þau að Vinnumálastofnun hafi haustið 2011 boðið honum að stunda nám við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík. Kærandi hafi þegið það þar sem stofnunin hafi boðist til að greiða skólagjöldin auk þess að greiða atvinnuleysisbætur áfram á önninni. Kærandi hafi hafið nám við skólann um haustið. Kærandi greindi frá því að upplýsingarnar sem vantaði til að ganga frá málinu hafi verið sendar á rangt heimilisfang og af þeim sökum ekki borist honum. Það hafi ekki verið fyrr en í september 2012 að hann hafi fengið innheimtubréf frá stofnuninni vegna ofgreiddra bóta að honum hafi fyrst orðið kunnugt um að samningurinn um námið hafi ekki verið fullfrágenginn. Kærandi hafi strax haft samband við Vinnumálastofnun og óskað eftir endurupptöku málsins og hafi þeirri beiðni verið synjað.
Í kæru kæranda, dags. 12. febrúar 2014, segir að kærandi telji sig hafa gefið ásættanlegar og nákvæmar skýringar á ástæðum þess að hafa þegið atvinnuleysisbætur haustið 2011. Hann telji vinnubrögð Vinnumálastofnunar óásættanleg og sé það einlæg ósk hans að farið verði með málið af sanngirni.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. mars 2014, sem send var að beiðni úrskurðarnefndarinnar í kjölfar síðari kæru kæranda, kemur fram að í skýringabréfi frá kæranda sem hafi borist 16. desember 2013 greini hann frá því að misskilningur hafi átt sér stað. Hann hafi talið eftir viðtal sitt með ráðgjafa stofnunarinnar að málið væri frágengið utan að Háskólinn í Reykjavík myndi senda Vinnumálastofnun staðfestingu á því að hann væri í fullu námi við frumgreinadeild skólans, með hliðstæðum hætti og skólinn geri gagnvart Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hafi hann haldið að hann hefði gengið frá öllum nauðsynlegum þáttum til þess að geta hafið námið á þeirri forsendu sem boðið hafi verið upp á með átakinu „Nám er vinnandi vegur“.
Fram kemur að málið lúti að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 19. desember 2013 að staðfesta fyrri ákvörðun í máli kæranda frá 11. janúar 2012. Í því hafi falist að kærandi beri að endurgreiða stofnuninni þær atvinnuleysisbætur sem hann hafi þegið samhliða námi sínu við Háskólann í Reykjavík á tímabilinu 1. september til 19. desember 2011 að fjárhæð samtals 671.993 kr. ásamt 15% álagi.
Fyrir liggi að kærandi hafi verið við nám í Háskólanum í Reykjavík á haustönn 2011 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og án þess að fyrir hafi legið námssamningur við stofnunina. Kærandi hafi mætt í viðtal hjá ráðgjafa stofnunarinnar 28. júní 2011 þar sem hann hafi greint frá því að umsókn hans um námsvist við Háskólann í Reykjavík hafi verið samþykkt. Kæranda hafi verið tilkynnt að hann yrði að skila inn staðfestingu vegna námsins. Þegar slík staðfesting bærist myndi stofnunin kanna hvort unnt væri að gera námssamning við hann. Kærandi hafi í kjölfarið ekki haft frekara samband við stofnunina varðandi gerð námssamnings. Það hafi síðan, við hefðbundið eftirlit Vinnumálastofnunar í desember 2011 við samkeyrslu gagnagrunna stofnunarinnar við nemendaskrár viðurkenndra menntastofnana, þ. á m. Háskólann í Reykjavík, komið í ljós að kærandi hafi verið skráður í nám samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur án þess að vera með námssamning við stofnunina. Engar skýringar hafi borist frá kæranda vegna málsins.
Kærandi hafi mætt til Vinnumálastofnunar 1. október 2012 í kjölfar þess að honum hafi borist innheimtubréf stofnunarinnar og skilað í framhaldinu skýringarbréfi vegna náms síns við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík. Hafi kærandi tekið fram að hann hefði talið að skólinn myndi senda staðfestingu á skólavist til Vinnumálastofnunar og að hann hefði sjálfur ekki þurft að gera það. Hafi kærandi tekið fram að hann hefði greinilega misskilið ferlið og hafi talið að námssamningur við sig væri fullkláraður.
Með bréfi sínu, dags. 16. desember 2013, hafi kærandi fært fram frekari skýringar í máli sínu. Segi þar meðal annars að hann hafi talið, eftir viðtal sitt með ráðgjafa Vinnumálastofnunar, að mál hans væri frágengið og að Háskólinn í Reykjavík myndi senda Vinnumálastofnun staðfestingu þess að hann væri í fullu námi við frumgreinadeild skólans. Það hafi því verið skilningur kæranda að hann hefði gengið frá öllum nauðsynlegum þáttum til þess að hann gæti hafið nám á þeirri forsendu sem boðið hafi verið upp á með átakinu „Nám er vinnandi vegur“. Með erindi kæranda hafi verið skólavottorð frá Háskólanum í Reykjavík, dags. 1. október 2012, er hafi staðfest að hann hafi lokið tilskildum einingafjölda á haustönn 2013. Hafi kærandi farið fram á við Vinnumálastofnun að litið yrði svo á að allar forsendur hafi verið fyrir greiðslu styrks honum til handa á grundvelli reglugerðar nr. 1235/2011 varðandi nám hans á haustönn 2011 og að felld yrði niður að fullu krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu á þeim atvinnuleysisbótum sem hann hafi fengið greiddar á haustönn 2011.
Mál kæranda hafi verið tekið til endurumfjöllunar á fundi Vinnumálastofnunar 19. desember 2013. Það hafi verið niðurstaða stofnunarinnar að staðfesta ætti fyrri ákvörðun í máli kæranda frá 11. janúar 2012. Til þess að kæranda hafi verið heimilt að stunda nám við frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur hafi hann orðið að vera með námssamning við Vinnumálastofnun, sbr. 1. mgr. 52. gr. og 62. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir nr. 55/2006 og bráðabirgðaákvæði við reglugerð nr. 12/2009 sem bætt hafi verið við reglugerðina með reglugerð nr. 781/2011 og gilt hafi til 31. desember 2011. Misskilningur kæranda á gerð námssamnings geti ekki leitt til þess að skilyrði fyrrgreindra laga og reglugerðar geti talist uppfyllt haustið 2011. Hafi það því verið niðurstaða Vinnumálastofnunar, sem tilkynnt hafi verið kæranda með bréfi, dags. 27. desember 2013, að í kjölfar endurupptöku stofnunarinnar á máli hans yrði ákvörðun frá 11. janúar 2012 í máli hans staðfest.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. apríl 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 16. apríl 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2. Niðurstaða
Kærandi var við nám í Háskólanum í Reykjavík á haustönn 2011 samhliða töku atvinnuleysisbóta og án þess að fyrir lægi námssamningur við Vinnumálastofnun. Á fundi kæranda með ráðgjafa hjá Vinnumálastofnun 28. júní 2011 var rætt um gerð námssamnings og í samskiptasögu Vinnumálastofnunar segir þennan dag að kærandi sé búinn að fá inngöngu í frumgreinanám í Háskólanum í Reykjavík og komi með staðfestingu og geri námssamning þá. Ekki heyrðist frekar í kæranda varðandi gerð námssamnings. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi talið eftir þetta viðtal að málið væri frágengið, utan það að Háskólinn í Reykjavík myndi senda Vinnumálastofnun staðfestingu þess að hann væri í fullu námi við frumgreinadeild skólans með hliðstæðum hætti og skólinn geri gagnvart Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hafi hann talið að þar með hafi verið gengið frá öllum nauðsynlegum þáttum til þess að hann gæti hafið námið á þeirri forsendu sem boðið hafi verið upp á með átakinu „Nám er vinnandi vegur“. Kærandi vísar einnig til tölvupósts Ketils Jónssonar náms- og starfsráðgjafa hjá Vinnumálastofnun, dags. 2. október 2012, máli sínu til stuðnings. Þar kemur meðal annars fram að kærandi hafi gleymt að framfylgja því að gerður yrði námssamningur vegna náms hans haustið 2011.
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst hver sá sem stundar nám ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, er fjallað um skipulag vinnumarkaðsúrræða og í 3. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að ráðherra skuli í reglugerð kveða nánar á um skipulag vinnumarkaðsúrræða. Í 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistrygginga-kerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009, er fjallað um heimild til gerðar námssamninga. Í reglugerð nr. 781/2011 sem sett var til bráðabirgða um breytingu á reglugerð nr. 12/2009 og gilti til 31. desember 2011 eru ákvæði um úrræðið „Nám er vinnandi vegur“. Þar er einnig fjallað um skilyrði þess að Vinnumálastofnun sé heimilt að gera sérstaka námssamninga við atvinnuleitanda.
Eins og rakið hefur verið var ekki gerður námssamningur við kæranda og verður Vinnumálastofnun ekki kennt um það. Gleymska kæranda eða misskilningur getur ekki orðið til þess að litið verði framhjá framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum.
Með vísan til framanskráðs og gagna málsins er ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að kærandi endurgreiði 546.152 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 81.923 kr. eða samtals 628.075 kr. staðfest.
Úrskurðarorð
Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar, að gera A að endurgreiða 546.152 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 81.923 kr. eða samtals 628.075 kr. er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúríksdóttir
Helgi Áss Grétarsson