Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 29/2014

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 7. janúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 29/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 17. október 2013, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A, að hann greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hjá Vinnumálastofnun hefði kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júní til 31. júlí 2012 en þá hefði hann ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Skuldin nam 232.428 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 34.864 kr. eða samtals 267.292 kr. Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði felld niður. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 17. janúar 2012. Hann lagði inn umsókn um þátttöku í vinnumarkaðsúrræðinu „Eigið frumkvöðlastarf“, sem var samstarfsverkefni milli Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Þátttaka hans í úrræðinu var samþykkt á fundi 30. apríl 2012 og var honum veitt heimild til að skapa sér starf við eigin rekstur á tímabilinu 1. júní til 1. ágúst 2012 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta.

Við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra kom í ljós að kærandi var með tekjur að fjárhæð 331.920 kr. frá B fyrir júnímánuð 2012 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og hafði Vinnumálastofnun ekki borist upplýsingar um þær tekjur. Kæranda var því sent bréf, dags. 6. september 2012, þar sem óskað var eftir upplýsingum vegna þessa. Skýringar kæranda voru á þá leið að hann hafi lagt inn umsókn um þátttöku í úrræðinu „Eigið frumkvöðlastarf“ í mars 2012 og meðan hann hafi beðið svara eftir því hvort umsókn hans myndi verða samþykkt hafi hann hafist handa við að stofna fyrirtæki, sem hafi verið mjög kostnaðarsamt. Kærandi skilaði ekki inn tekjuáætlun og fékk þar af leiðandi ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. júní til 31. júlí 2012, samtals að fjárhæð 232.428 kr. Kæranda var tilkynnt um skuldina með greiðsluseðli dags. 17. september 2012 ásamt tilkynningu á heimasvæðinu „mínar síður“ hjá Vinnumálastofnun. Þar sem skuld kæranda var enn ógreidd var honum sent bréf þar að lútandi, dags. 17. október 2013, eins og rakið hefur verið. Kærandi sendi Vinnumálastofnun athugasemdir sínar í kjölfarið og var mál hans endurupptekið í ljósi nýrra gagna sem hann hafði lagt fram. Fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar var staðfest 5. desember 2013.

Fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kemur fram af hálfu kæranda að hann hafi í mars 2012 sótt um styrk vegna eigin frumkvöðlastarfs. Rúmum tveimur mánuðum síðar eða 4. júní 2012 hafi samningur þar að lútandi verið undirritaður. Þar sem þetta hafi tekið svona langan tíma hafi hann verið langt kominn með verkefnið og verið farinn að afla sér tekna þegar samningurinn hafi loks komið. Kærandi tekur fram að hann hafi ekki haft tekjur nema af atvinnuleysisbótunum til að sjá fyrir fjölskyldu sinni og hafi því greitt sér laun í byrjun júlí eða um leið og hann hafi getað. Hafi hann gert það til að koma til móts við tilfallinn kostnað sem þetta verkefni hafi haft í för með sér enda hafi skilaboðin sem hann hafi fengið verið þau að nú væri hann búinn á bótunum og hefði fengið styrk til að vinna að sinni eigin viðskiptahugmynd. Þetta hafi gengið ágætlega út sumarið en hann hafi fljótlega séð að þetta myndi ekki ganga um veturinn vegna þess að starfsemin hafi verið mælingavinna fyrir jarðvinnuverktaka sem dragist alltaf mikið saman yfir veturinn. Þess vegna hafi fjölskyldan ákveðið að flytja suður.

Kærandi bendir á að á vefsíðu verkefnisins sé hvergi talað um áframhaldandi atvinnuleysisbætur og ekkert hafi staðið um það í samningnum heldur. Hann hafi fengið tölvupóst frá forstöðukonu Vinnumálastofnunar á Vestfjörðum þar sem talað hafi verið um „styrk til að vinna að eigin viðskiptahugmynd“. Þar að auki hafi einu upplýsingarnar sem hann hafi fengið hjá Vinnumálastofnun verið þær að hann ætti að halda áfram að staðfesta atvinnuleit hjá þeim sem formsatriði en annars ætti hann bara að snúa sér að C.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. apríl 2014, kemur fram að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. júní til 31. júlí 2012. Í október 2013 hafi skuldin verið ógreidd og honum tilkynnt að hún yrði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið.

Fyrir liggi að kærandi hafi fengið greidd laun frá B fyrir júní og júlí 2012. Laun hans frá fyrirtækinu hafi verið gefin upp til skatts enda hafi komið í ljós við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra að kærandi hefði haft laun samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta án þess að gera Vinnumálastofnun grein fyrir þeim. Þá liggi jafnframt fyrir launaseðlar hans frá B þar sem fram komi að kærandi hafi fengið greidd laun fyrir dagvinnu að viðbættu orlofi fyrir tímabilið 1. júní til 31. júlí 2012.

Það liggi einnig fyrir að kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 1. júní til 31. júlí 2012 enda hafi honum verið gert að staðfesta atvinnuleit sína hjá stofnuninni mánaðarlega með hefðbundnum hætti. Þá hafi kæranda verið tilkynnt um greiðslur atvinnuleysisbótanna á tímabilinu með greiðsluseðlum. Misskilningur kæranda um að hann hafi fengið greiddan styrk en ekki atvinnuleysisbætur á meðan þátttöku hans í úrræðinu „Eigið frumkvöðlastarf“ hafi staðið yfir geti ekki leitt til þess að ekki eigi að koma til skerðingar á greiðslum atvinnuleysisbóta hans líkt og skýlaus ákvæði 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kveði á um. Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skulu tekjur umfram frítekjumark koma til frádráttar á atvinnuleysisbótum. Sökum þess að kærandi hafi ekki skilað inn tekjuáætlun til Vinnumálastofnunar hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og því hafi myndast skuld í greiðslukerfi stofnunarinnar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. maí 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 20. maí 2014. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því að kærandi, sem þáði greiðslu atvinnuleysisbóta, tók þátt í vinnumarkaðsúrræðinu „Eigið frumkvöðlastarf“ sem var samstarfsverkefni milli Vinnumálastofnunar og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, á tímabilinu 1. júní til 1. ágúst 2012. Kærandi stofnaði í kjölfarið fyrirtækið B og greiddi sér í júní 2012 tekjur að fjárhæð 331.920 kr. samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Hann skilaði ekki inn tekjuáætlun og því myndaðist skuld við Vinnumálastofnun.

Kærandi hefur borið því við að hann hafi mátt ætla að þegar hann tók þátt í úrræðinu „Eigið frumkvöðlastarf“ hafi hann ekki þegið atvinnuleysisbætur heldur hafi verið um að ræða styrk. Kærandi bendir á að hvergi á vefsíðu verkefnisins sé talað um áframhaldandi atvinnuleysisbætur og þá hafi hann fengið tölvupóst frá forstöðukonu Vinnumálastofnunar á Vestfjörðum þar sem talað hafi verið um „styrk“ til að vinna að eigin viðskiptahugmynd. Einu upplýsingarnar sem hann hafi fengið hjá Vinnumálastofnun hafi verið að hann ætti að halda áfram að staðfesta atvinnuleit sem formsatriði en annars ætti hann bara að snúa sér að C. Kærandi telji því að honum beri ekki að endurgreiða þá fjárhæð sem Vinnumálastofnun telur að hafi verið ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

„Eigið frumkvöðlastarf“ var hugsað sem vinnumarkaðsúrræði fyrir atvinnuleitendur í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Úrræðið var ákveðið þannig að atvinnuleitandinn væri ekki í virkri atvinnuleit á tímabilinu en honum bar þó að staðfesta atvinnuleit, sbr. meðal annars 7. gr. samnings sem kærandi gerði við Impru á Nýsköpunarmiðstöð 1. júní 2012. Kærandi naut greiðslna atvinnuleysisbóta á tímabilinu.

Kærandi var með tekjur að fjárhæð 331.920 kr. frá B fyrir júní 2012 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Hann hafði ekki skilað inn tekjuáætlun og fékk því ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. júní til 31. júní 2012 samtals að fjárhæð 232.428 kr. Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysisbætur kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur en hann hafi átt rétt á beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Kæranda ber því, með vísan til framangreinds og skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysisbætur að endurgreiða 232.428 kr. auk 15% álags að fjárhæð 34.864 kr. eða samtals 267.292 kr. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er staðfest.

 

Úrskurðarorð

 Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A frá 17. október 2013 er staðfest. Honum ber að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 232.428 kr. auk 15% álags að fjárhæð 34.864 eða samtals 267.292 kr.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta