Mál nr. 38/2014
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 21. janúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 38/2014.
1. Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 17. desember 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 17. desember 2013 fjallað um rétt hennar til atvinnuleysisbóta, þar sem hún hafi ekki tilkynnt fyrirfram um dvöl sína erlendis sé bótaréttur hennar felldur niður frá og með 17. desember 2013 í þrjá mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin væri tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Ekki væru greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þá daga sem hún hafi verið erlendis. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 27. mars 2014. Kærandi óskar þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.
Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 4. september 2013. Vinnumálastofnun bárust upplýsingar um að kærandi hafi farið erlendis í nóvember 2013. Með bréfi, dags. 5. desember 2013, var kæranda boðið að skila inn skýringum á ótilkynntri dvöl erlendis innan sjö daga. Kærandi mætti á þjónustuskrifstofu hjá Vinnumálastofnun 9. desember 2013 og tilkynnti um ferð sína erlendis og sendi í kjölfarið skýringarbréf vegna ferðarinnar. Þar tekur hún fram að hún hefði fengið óvæntar fréttir um alvarleg veikindi hjá fjölskyldu sinni í B og hafi því tekið skyndiákvörðun um að fara út og gleymt að tilkynna um það til Vinnumálastofnunar. Samkvæmt farseðlum kæranda var hún stödd erlendis á tímabilinu 21. nóvember til 5. desember 2013.
Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, dags. 27. mars 2014, að hún hafi farið erlendis án þess að tilkynna för sína sem hafi verið vanhugsað. Hún hafi tilkynnt um ferðina um leið og hún kom til baka. Kærandi bendir á að hún hafi þurft að aðstoða móður sína vegna flutninga og hún sendi læknisvottorð frá lækni móðurinnar með.
Áður en umrædd viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin hafði verið tekin önnur viðurlagaákvörðun í máli kæranda á sama bótatímabili eða 29. október 2013 og kom þessi síðari því til ítrekunar þeirri fyrri, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. maí 2015, vísar Vinnumálastofnun til c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Vinnumálastofnun vísar einnig til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar, en atvinnuleitanda ber skylda til þess að upplýsa Vinnumálstofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans eða annað sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Stofnunin bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009, til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, komi meðal annars fram að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálstofnun nauðsynlegar upplýsingar eða veiti rangar upplýsingar, komi til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun áréttar að einnig sé mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Þar segir að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.
Vinnumálastofnun bendir á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu hins tryggða.
Vinnumálastofnun bendir jafnframt á að ljóst sé að kærandi hafi verið stödd erlendis tímabilið 21. nóvember til 5. desember 2013. Stofnunin áréttar að í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta að vera í virkri atvinnuleit. Sé það jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrir fram um þessa utanlandsferð sína, líkt og henni hafi borið skv. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Á kynningarfundum Vinnumálastofnunar sé vakin athygli á því að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi og að ótilkynntar ferðir til útlanda séu óheimilar meðfram töku atvinnuleysisbóta. Þessar upplýsingar sé einnig að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. maí 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 30. maí 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2. Niðurstaða
Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 22. gr. laga nr. 134/2009 og 3. gr. laga nr. 153/2010, en hún er svohljóðandi:
Þetta ákvæði þarf meðal annars að túlka með hliðsjón af því að skv. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. gr. laga nr. 134/2009, er eitt af skilyrðum þess að geta haldið rétti sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu að vera búsettur og staddur hér á landi.
Samkvæmt gögnum málsins var kærandi stödd erlendis á tímabilinu frá 21. nóvember til 5. desember 2013, en tilkynnti ekki Vinnumálastofnun fyrir fram að hún yrði ekki stödd á landinu á umræddu tímabili. Af hálfu kæranda kemur fram að hún hafi þurft að aðstoða skyldmenni við flutninga og veita annan stuðning erlendis. Hún hafi farið til útlanda án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um för sína og hafi það verið vanhugsað.
Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu atvinnuleitenda sem kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 134/2009, verður fallist á að kærandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í umrætt sinn, er hún hélt af landi brott án þess að láta vita af því fyrir fram. Því bar Vinnumálastofnun að gera henni að sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr. laganna. Eins og fram hefur komið var um að ræða aðra viðurlagaákvörðun í máli kæranda á sama bótatímabili og kom þessi síðari því til ítrekunar þeirri fyrri, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun verður hún staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 17. desember 2013 í máli A þess efnis að bótaréttur hennar verði felldur niður frá og með 17. desember 2013 í þrjá mánuði er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson