Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 41/2014

 Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 21. janúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 41/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur 3. febrúar 2014. Kærandi hafði áður verið skráður atvinnulaus og fékk meðal annars greiddar atvinnuleysisbætur árið 2011. Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju, 3. febrúar 2014, taldi Vinnumálastofnun hann aðeins eiga tæplega hálfan mánuð eftir af bótarétti sínum. Vinnumálastofnun taldi hann ekki hafa áunnið sér rétt til nýs bótatímabils skv. 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann hafi ekki starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í 24 mánuði frá því hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur þar til bótarétti hans var lokið í mars 2014. Kærandi vildi ekki una þessu og telur að hann eigi fullan rétt á atvinnuleysisbótum. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að með bréfi 9. apríl 2014 hafi kærandi fengið staðfestingu á því að bótatímabil hans væri fullnýtt. Stofnunin tekur fram í ljósi ummæla kæranda í málsgögnum og í kæru til úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur 30. ágúst 2013 en afturkallað síðar umsókn sína. Fyrir mistök hafi kæranda verið greiddar atvinnuleysisbætur í september 2013 en ekki hafi verið litið til þessa þegar hann hafi sótt um að nýju. Umsókn kæranda frá 2013 hafi því ekki haft áhrif á útreikning á bótatímabili hans þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur í febrúar 2014.

Fram kemur í kæru að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur 30. ágúst 2013. Hafi hann áður þegið bætur og fullnýtt bótarétt sinn í desember 2011 eftir að hafa verið í 50% starfi og fengið 50% mótframlag frá Vinnumálastofnun. Hann hafi greinst með B á þessu sama tímabili og strax byrjað í lyfjameðferð sem hafi valdið því að hann hafi ekki mætt á fundinn 11. september 2013, hafi ekki stimplað sig inn á tímabilinu 20. til 25. september 2013 og dregið umsókn sína til baka 25. september 2013. Á einhvern óskiljanlegan hátt hafi hann samt fengið greiddar rúmlega 5.000 kr. sem hann hafi ekkert orðið var við og geti varla talist vera á hans ábyrgð en virðist verða þess valdandi að hann eigi ekki rétt á bótum núna. Kærandi kveðst vera búinn að vera af bótum í 27 mánuði og hafi hann unnið af þeim í 20 mánuði í 100% starfi. Hann ætti þar með að eiga fullan bótarétt en mistök hafi verið gerð í hans garð og sé hann mjög ósáttur við þá niðurstöðu Vinnumálastofnunar að telja hann ekki eiga rétt á bótum. Hann voni að úrskurðarnefndin sé mannleg og sjái að mistökin liggi ekki hjá honum enda sé þetta búið að vera nógu erfitt tímabil.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. maí 2014, kemur fram að í VI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um það tímabil sem atvinnuleysisbætur séu greiddar. Komi fram í 29. gr. laganna að atvinnuleitandi geti í mesta lagi átt rétt á atvinnuleysisbótum í samfellt þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Þá segi í 4. mgr. 29. gr. laganna að tímabilið haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Lengd þess tímabils sem atvinnuleysisbætur sé greiddar sé því almennt þrjú ár.

Í 30. og 31. gr. laganna sé fjallað um þau tilvik sem leiði til þess að bótatímabil endurnýist. Annars vegar sé um að ræða endurnýjun á tímabili eftir að atvinnuleitandi hafi fullnýtt bótarétt sinn og hins vegar endurnýjun á bótatímabili áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Þar sem kærandi hafi ekki fullnýtt bótarétt sinn þegar hann hafi síðast þegið atvinnuleysisbætur árið 2011 komi ákvæði 31. gr. laganna einungis til álita í máli þessu. Í ákvæðinu sé fjallað um þau tilvik sem nýtt tímabil skv. 29. gr. hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu. Samkvæmt lagagreininni séu skilyrðin fyrir því að nýtt bótatímabil geti hafist að atvinnuleitandi hafi starfað í a.m.k. 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann hafi fengið síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Það sé því ekki nóg að tvö ár hafi liðið frá því að viðkomandi atvinnuleitandi hafi síðast þegið atvinnuleysisbætur heldur þurfi hann einnig að hafa starfað í a.m.k. 24 mánuði frá þeim tíma.

Kærandi hafi síðast verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun 30. desember 2011. Á meðal málsgagna sé vottorð vinnuveitanda frá B. Í vottorðinu komi fram að kærandi hafi starfað í 100% starfshlutfalli frá 1. janúar 2012 til 31. ágúst 2013 eða í um 20 mánuði. Engin frekari vottorð um vinnusögu kæranda á tímabilinu hafi verið lögð fram í málinu og af upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra sé ekki að sjá að kærandi hafi starfað hjá öðrum vinnuveitanda á tímabilinu.

Kærandi hafi því, samkvæmt framlögðum gögnum, ekki unnið samfellda vinnu í 24 mánuði frá því að hann var afskráður af atvinnuleysisskrá 30. desember 2011 og þar til hann sótti um að nýju 3. febrúar 2014. Af þeirri ástæðu hafi bótatímabil kæranda haldið áfram að líða þegar hann hafi aftur sótt um atvinnuleysisbætur í febrúar 2014. Þegar kærandi hafi sótt um í febrúar 2014 hafi hann átt eftir tæplega hálfan mánuð af bótatímabili sínu.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. júní 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 20. júní 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.      Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 3. febrúar 2014 en hann hafði áður verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun, síðast 30. desember 2011. Þegar kærandi var afskráður af atvinnuleysisskrá árið 2011 átti hann tæplega hálfan mánuð eftir af bótarétti sínum. Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi í 100% starfshlutfalli hjá B frá 1. janúar 2012 til 31. ágúst 2013 eða í um 20 mánuði. Í 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um að nýtt tímabil skv. 29. gr. laganna hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þar sem kærandi hafði aðeins starfað í 20 mánuði á umræddu tímabili hélt fyrra bótatímabil kæranda áfram að líða þegar hann skráði sig atvinnulausan að nýju 3. febrúar 2014, en þá átti hann eftir tæplega hálfan mánuð af bótatímabili sínu eins og fram hefur komið. Hann átti því ekki rétt á nýju bótatímabili skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þegar hann sótti aftur um atvinnuleysisbætur 3. febrúar 2014.

Sú staðreynd að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 30. ágúst 2013 en afturkallaði síðar umsókn sína og Vinnumálastofnun greiddi honum í kjölfarið fyrir mistök atvinnuleysisbætur hefur engin áhrif á niðurstöðu þessa máls.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

 Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja A um greiðslu frekari atvinnuleysisbóta eftir að bótarétti hans var lokið í mars 2014 er staðfest.

 Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta