Hoppa yfir valmynd

Nr. 247/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 23. júlí 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 247/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20060015

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.               Málsatvik

Þann 6. desember 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 6. september 2019 um að taka ekki umsókn […], fd. […], ríkisborgara Egyptalands (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 9. desember 2019. Beiðni um frestun réttaráhrifa barst kærunefnd þann 16. desember 2019. Þeirri beiðni var hafnað af kærunefnd með úrskurði dags. 7. febrúar 2020. Þann 12. júní 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt greinargerð kæranda.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

II.                  Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er rakið að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 31. maí 2019. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 skuli taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda. Með vísan til framangreinds telji kærandi að stjórnvöldum sé skylt að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá bárust andmæli frá kæranda þann 3. júlí sl., þar sem fram kom frekari rökstuðningur. Kom m.a. fram sú afstaða kæranda að hann mótmælti því að hann hafi tafið mál sitt vísvitandi. Hafi hann tafið mál sitt hafi það verið í skamman tíma og að slík töf hafi verið réttlætanleg og eðlileg miðað við öryggissjónarmið og allsherjarreglu. Í frekari andmælum sem bárust frá kæranda þann 15. júlí sl. mótmælti kærandi því að hann hafi tafið mál sitt af ásetningi. Mikil óvissa hafi verið í samfélaginu og upplýsingaflæði í þessum fordæmalausum aðstæðum hafi verið ófullkomið. Kærandi verði því að fá að njóta vafans. Þá var af hálfu kæranda tekið fram að kærandi hefði nú gengið í hjúskap hér á landi og hefði nú tengsl við landið, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin), sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Þann 24. júlí 2019 samþykktu hollensk stjórnvöld að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd. Byggði samþykki Hollands á 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Við rekstur máls sem fer samkvæmt fyrirkomulagi Dyflinnarreglugerðarinnar þurfa stjórnvöld að gæta að tilteknum tímafrestum, sbr. m.a. 1. og 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um fyrirkomulag og fresti. Í því ákvæði felst m.a. að flutningur á umsækjanda skal fara fram innan sex mánaða frá því að lokaákvörðun er tekin um kæru eða endurskoðun. Þó er heimilt í undantekningartilvikum að framlengja frest til flutnings í að hámarki 18 mánuði ef hlutaðeigandi einstaklingur hleypst á brott (e. abscond). Ef umræddir frestir líða leiðir það til þess að ábyrgð á viðkomandi umsókn um alþjóðlega vernd færist sjálfkrafa yfir til þess aðildarríkis sem leggur fram beiðni, sbr. til hliðsjónar dómur Evrópudómstólsins í máli C-201/16 Shiri frá 25. október 2017 (26.-34. mgr. dómsins). Ef frestir skv. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar líða er íslenskum stjórnvöldum því ekki lengur heimilt að krefja viðkomandi ríki um viðtöku einstaklings í skilningi c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í úrskurði kærunefndar í máli nr. KNU19040090 frá 9. maí 2019 ákvað kærunefnd að þegar mál hefur verið kært til kærunefndar og réttaráhrifum frestað yrði upphafstími þessa frests miðaður við dagsetningu birtingar úrskurðar kærunefndar. Eins og að framan greinir samþykktu hollensk stjórnvöld endurviðtökubeiðni íslenskra stjórnvalda þann 24. júlí 2019. Þá var endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi birt fyrir kæranda þann 9. desember 2019. Rann því upphaflegur sex mánaða frestur til þess að flytja kæranda úr landi út þann 9. júní 2020. Í tilkynningu frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins frá 16. apríl 2020, C(2020) 2516 final, kemur fram að ekkert ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar heimili frávik frá 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar við aðstæður sambærilegum þeim sem leiða af Covid-19 faraldrinum. 

Þann 10. júní 2020 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra um hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort þær væru á ábyrgð kæranda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svör frá Útlendingastofnun við beiðni kærunefndar og frekari fyrirspurnum hennar bárust dagana 10. júní til 14. júlí 2020. Í svörum Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að það sé mat stofnunarinnar að kærandi hafi tafið mál sitt þar sem hann hafi látið sig hverfa og verið skráður horfinn þann 18. mars 2020 og allt þar til hann hafi komist aftur í leitirnar þann 18. maí s.á. þegar hann hafi mætt í nafnakall hjá þjónustuteymi stofnunarinnar og látið vita af dvalarstað sínum. Hafi kærandi því tafið mál sitt um tvo mánuði. Þann sama dag og kærandi hafi verið skráður horfinn hafi tilkynning verið send til hollenskra yfirvalda og þau látin vita að kærandi hafi hlaupist á brott ásamt því að sex mánaða frestur til að flytja kæranda hafi verið framlengdur í 18 mánuði eða til 24. janúar 2021 í samræmi við 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Meðfylgjandi í svari Útlendingastofnunar var afrit af umræddri tilkynningu ásamt staðfestingu á móttöku frá hollenskum yfirvöldum.

Dagana 19. og 23. júní 2020 bárust kærunefnd svör frá stoðdeild ríkislögreglustjóra við fyrirspurnum nefndarinnar. Kom þar m.a. fram að skipulagning á flutningi kæranda til viðtökuríkis hafi hafist þann 10. mars 2020 þegar flugmiði hafi verið verið bókaður fyrir kæranda. Sama dag hafi verið hringt í kæranda þar sem hann hafi verið látinn vita af fyrirhuguðum flutningi en umrætt flug átti að eiga sér stað þann 17. mars 2020. Þá hafi aftur verið hringt í kæranda þann 16. mars 2020 en kærandi hafi ekki svarað. Alls hafi verið gerðar sjö tilraunir til þess að ná í kæranda símleiðis. Þar sem ekki hafi tekist að ná í kæranda símleiðis hafi stoðdeild sent smáskilaboð í farsíma kæranda þar sem ítrekað hafi verið að flug hans væri áætlað daginn eftir auk þess sem hann hafi verið hvattur til þess að hafa samband við starfsmenn deildarinnar. Engin svör hafi borist við smáskilaboðunum og hafi kærandi ekki haft frekara samband við stoðdeild. Samkvæmt stoðdeild hafi þó náðst samband við herbergisfélaga kæranda sem hafi greint frá því að kærandi dveldi ekki lengur í húsnæðinu, heldur dveldi hann á ótilgreindum stað á Reykjavíkursvæðinu. Greindi stoðdeild jafnframt frá því að Holland hafi lokað landamærum sínum þann 17. mars 2020 sökum Covid-19, þann sama dag og fyrirhugað var að flytja kæranda. Vegna lokunarinnar hafi ekki verið gerðar frekari tilraunir til þess að ná í kæranda þar sem ómögulegt sé að flytja hann þar til landamæri Hollands opni aftur, en samkvæmt tilkynningu frá hollenskum yfirvöldum, dags. 19. júní 2020, stóð til að gera það þann 1. júlí sl.

Til viðbótar við ofangreind svör frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra þá fylgdu ýmis gögn með svörum stofnananna til þess að sannreyna það sem fram kom í svörum þeirra. Frá Útlendingastofnun barst m.a. upplýsingablað sem kærandi hafði undirritað þar sem honum var gerð grein fyrir rétti sínum til húsnæðis, vasapenings og fæðis. Enn fremur barst skjáskot úr Erlendi, sem er upplýsingakerfi á vegum stofnunarinnar, þar sem var að finna tengiliðaupplýsingar kæranda, þ. á m. farsímanúmer sem stofnunin hafði úthlutað honum. Frá stoðdeild ríkislögreglustjóra barst farmiði sem bókaður hafði verið fyrir kæranda auk skjáskota úr Löke, upplýsingakerfi lögreglunnar, þar sem var að finna færslur sem skráðar höfðu verið í kerfið þegar annað hvort haft var samband eða reynt var að hafa samband við kæranda. Þá hafði kærunefnd útlendingamála samband við Isavia með tölvupósti, dags. 23. júní 2020, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort flug kæranda, dags. 17. mars 2020, hafi átt sér stað. Svar frá Isavia barst þann sama dag þar sem staðfest var að flugið hafi verið framkvæmt og hafi brottfarartími þess verið kl. 07:42 þann 17. mars 2020.

Dagana 30. júní, 7. júlí og 14. júlí 2020 var kæranda veitt færi á að koma að andmælum vegna ofangreindra upplýsinga. Svör frá kæranda bárust dagana 3., 8. og 15. júlí 2020. Í andmælum kæranda greindi hann m.a. frá því að þar sem hann hafi verið skráður horfinn og eftirlýstur þann 18. mars sl. hafi hann ekki getað tafið málið eins og honum var gefið að sök þar sem Dyflinnarskrifstofur Hollands hafi á því tímamarki verið lokaðar fyrir endursendingar. Bendir kærandi jafnframt á að þann 19. mars sl. hafi allur heimurinn verið skilgreindur sem áhættusvæði. Telur kærandi ljóst vera að hann hafi ekki tafið mál sitt vísvitandi, heldur frekar að um mistök hafi verið að ræða. Kærandi telur þá að túlka verði allan vafa honum í hag. Áréttar kærandi að í marsmánuði 2020 hafi nafnakall hjá Útlendingastofnun verið fellt niður og telur kærandi að hann hafi mátt túlka það sem svo að aðstæður væru breyttar og fyrst og fremst væri brýnt að huga að smitvörnum, fremur en endursendingum og óþarfa fólksflutningum yfir landamæri. Ákvarðanir sem hann hafi tekið sem hafi miðað að því að vernda eigin heilsu og líf ættu ekki að vera túlkaðar honum í óhag. Kærandi mótmæli því að hann hafi tafið mál sitt vísvitandi. Hafi hann tafið mál sitt hafi það verið í skamman tíma og að slík töf hafi verið réttlætanleg og eðlileg miðað við öryggissjónarmið og allsherjarreglu. Þá hafi flutningur við þær aðstæður sem voru uppi þann 17. mars sl. falið í sér brot gegn 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, ásamt því að vera í andstöðu við almenn fyrirmæli og ráðleggingar á tímum Covid-19 og hafi kæranda því verið rétt að virða fyrirhugaðan flutning þann sama dag að vettugi. Í andmælum sem bárust frá kæranda þann 15. júlí kom þá jafnframt fram að kærandi hefði nú gengið í hjúskap hér á landi og hefði nú tengsl við landið, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í máli kæranda er ljóst að fyrirhugað hafi verið, af hálfu stoðdeildar ríkislögreglustjóra, að framkvæma flutning þann 17. mars 2020. Var m.a. búið að bóka farmiða fyrir kæranda, sem stoðdeild lagði fram við meðferð málsins, með flugi FI500 á vegum Icelandair umræddan dag. Samkvæmt bókun í Löke, dags. 10. mars 2020, var haft samband við kæranda símleiðis og hann látinn vita af fyrirhugðum flutningi. Kærandi hefur ekki mótmælt því að hann hafi vitað af fyrirhuguðum flutningi en byggir á því að hann hafi ekki sinnt tilmælum um að mæta í flug m.a. til að vernda eigin heilsu. Samkvæmt annarri bókun í Löke, dags. 16. mars 2020 eða einum degi fyrir fyrirhugaðan flutningi, er skráð að reynt hafi verið að hafa samband við kæranda símleiðis en hringt hafi út í fyrstu tilraun. Þá hafi símsvari strax komið upp í annarri og þriðju tilraun stoðdeildar til að ná sambandi við kæranda. Einungis hafi náðst í herbergisfélaga kæranda sem hafi tjáð stoðdeild að kærandi dveldi á ótilgreindum stað í Reykjavík. Enn fremur hafi verið send smáskilaboð í síma kæranda kl. 21:42 þann sama dag, skv. bókun í Löke þann 17. mars 2020. Í smáskilaboðunum hafi kærandi verið látinn vita að enn stæði til að framkvæma flutning til Amsterdam um morguninn þann 17. mars. 2020, auk þess sem kærandi var hvattur til þess að hafa samband við stoðdeild þar sem ekki hefði tekist að ná í hann. Í bókuninni er einnig tekið fram að engin viðbrögð hafi fengist við umræddum smáskilaboðum og að í heildina hafi verið gerðar sjö tilraunir til að ná í kæranda símleiðis ásamt því að reynt hafi verið að ná í hann með öðru símanúmeri en án árangurs. Með tölvupósti, dags. 19. júní 2020, gerði stoðdeild ríkislögreglustjóra grein fyrir því að þrátt fyrir að umrædd bókun hafi verið skráð þann 17. mars 2020 þá hafi skilaboðin verið send kvöldið áður þann 16. mars s.á. Líkt og að ofan greinir þá óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Isavia við meðferð málsins, þ.e. til að athuga hvort flug sem kærandi átti bókaðan farmiða með hafi í raun átt sér stað. Var það gert þar sem að samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra þá hafi Holland lokað fyrir landamæri sín þann sama dag og flug kæranda var áætlað. Með tölvupósti, dags. 23. júní 2020, fékkst staðfesting á því frá rekstrarstjórnstöð Isavia að flug FI500 hafi verið framkvæmt og að brottför þess hafi verið kl. 07:42 þann 17. mars 2020. Þá er til þess að líta að kærandi var skráður horfinn hjá Útlendingastofnun þann 18. mars 2020 eða degi eftir fyrirhugaðan flutning hans. Var kærandi skráður horfinn í kerfum stofnunarinnar til 18. maí 2020 þegar hann veitti upplýsingar um nýjan dvalarstað. Samkvæmt framangreindu var kærandi skráður horfinn í tvo mánuði hjá stofnuninni.

Kærunefnd tekur fram að samkvæmt 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar er almennt lagt til grundvallar að flutningur hlutaðeigandi einstaklings til ábyrgs aðildarríkis skuli fara fram innan 6 mánaða frá þar tilgreindum tímamörkum þ.e. til dæmis eftir að lokaákvörðun hefur verið tekin um kæru, hafi réttaráhrifum verið frestað. Framlenging á þeim tímafresti í 18 mánuði, sbr. 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, felur í sér undantekningu frá þeirri almennu reglu. Í því ljósi og með hliðsjón af því að sex mánaða tímafrestinum er ætlað að tryggja að flutningur fari fram eins skjótt og hægt er í þágu umsækjenda telur nefndin að stjórnvöld þurfi að sýna fram á í hverju tilviki fyrir sig og með fullnægjandi hætti að hlutaðeigandi einstaklingur hafi hlaupist á brott svo komið geti til beitingar 18 mánaða frests 2. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar.

Í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins hefur hugtakið að hlaupast á brott (e. abscond) í skilningi 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar verið skýrt sem svo að það geti gefið til kynna ásetning hlutaðeigandi einstaklings um að komast undan einhverju eða flýja einhvern, í þessu tilviki yfirvöld og fyrirhugaðan flutning á viðkomandi, sbr. til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins í máli C-163/17 Jawo frá 19. mars 2019. Samkvæmt þeim dómi, sem kærunefnd telur að hafa megi nokkra hliðsjón af, verða þær kröfur þó ekki gerðar til stjórnvalda að þurfa að færa fram sönnur um ásetning umsækjenda um að hlaupast á brott.

Samkvæmt dómi Evrópudómstólsins í ofangreindu máli taldi dómstóllinn að yfirgefi umsækjandi búsetuúrræði sitt án þess að upplýsa stjórnvöld um fjarveru sína geti stjórnvöld metið það svo að umsækjanda hefði staðið ásetningur til að hlaupast á brott, með þeim fyrirvara þó að umsækjanda hafi verið gerð grein fyrir þessari tilkynningarskyldu sinni og afleiðingum þess að henni sé ekki sinnt. Þá telur dómstóllinn að umsækjandi geti komið að þeim vörnum að vanræksla hans á að tilkynna ekki um brottför frá búsetuúrræði hafi verið byggð á málefnalegum ástæðum en ekki ásetningi um að koma í veg fyrir flutning. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kæranda hafi verið leiðbeint um að honum væri skylt að tilkynna ef hann hyrfi á brott úr búsetuúrræði og hvaða afleiðingar það hefði tilkynnti hann ekki um slíka brottför, umfram þær afleiðingar sem það kynni að hafa á fjárhagslegan stuðning stjórnvalda til kæranda í form framfærslu. Af þeim sökum telur kærunefnd að brottför kæranda úr því búsetuúrræði sem hann dvaldi í leiði ekki ein og sér til þess að kærandi teljist hafa hlaupist á brott í skilningi 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kemur því til skoðunar að meta hvort kærandi hafi með því að mæta ekki í það flug sem hann hafði verið boðaður í talist hafa hlaupist á brott.

Kærunefnd telur þær röksemdir kæranda um að hann hafi ekki mætt í flug til að verja eigin heilsu ekki leiða sjálfstætt til þess að kærandi teljist ekki hafa hlaupist á brott. Þá telur kærunefnd að sú óvissa sem skapast hafi vegna þess að nafnaköll í búsetuúrræði kæranda voru felld niður ekki hafa sjálfstæða þýðingu í þessu máli en kærunefnd telur að kæranda hefði mátt vera ljóst að hann átti að mæta í flug til viðtökuríkis að morgni 17. mars 2020.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9722/2018 frá 9. desember 2019 fjallaði umboðsmaður um hvenær umsækjandi teljist bera ábyrgð á töfum á flutningi til viðtökuríkis að því marki að sá 12 mánaða frestur sem vísað er til í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiði ekki til þess að mál hans skuli tekið til efnismeðferðar. Af álitinu má ráða að umboðsmaður telji að skýrt orsakasamhengi þurfi að vera á milli þeirra athafna sem umsækjandi ber ábyrgð á og þeirrar niðurstöðu að ekki hafi tekist að flytja hann til viðtökuríkis innan 12 mánaða frestsins. Af álitinu má jafnframt ráða að orsök tafa á flutningi verði í meginatriðum að vera á ábyrgð umsækjanda til að stjórnvöld geti synjað um efnismeðferð þrátt fyrir að 12 mánaða frestur 2. mgr. 36. gr. hafi liðið. Þó svo að álitið fjalli um beitingu 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga en ekki um 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar telur kærunefnd óvarlegt annað en að leggja til grundvallar við beitingu síðarnefndar ákvæðisins þau sjónarmið sem fram komu í áliti umboðsmanns.

Af gögnum sem lögregla sendi kærunefnd verður ekki annað ráðið en að viðtökuríkið hafi lokað fyrir endursendingar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar þann 17. mars 2020, sama dag og fyrirhugaður flutningur átti að eiga sér stað. Af þessu leiðir að kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að telja að talsverðar líkur hafi verið á því að viðtökuríkið hefði hafnað viðtöku á kæranda hefði hann mætt í umrætt flug. Þá er jafnframt ljóst að endursendingar til viðtökuríkis hófust ekki áður en sex mánaða frestur skv. 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar rann út.

Kærunefnd telur því að verulegur vafi leiki á því hvort vanræksla kæranda á því að mæta í umrætt flug til viðtökuríkis hafi verið meginástæða þess að ekki tókst að flytja kæranda innan þess tímamarks sem 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar mælir fyrir um. Þá lítur kærunefnd til þess að afleiðingar Covid-19 faraldursins voru óvenjulegar og margvíslegar og að afar sérstakar aðstæður voru uppi um það leyti sem flytja átti kæranda til viðtökuríkis. Í ljósi þeirrar óvissu um að endursending hefði í raun getað farið fram þann 17. mars 2020 telur kærunefnd að þessar aðstæður vegi þyngra en fjarvera kæranda úr flugi þegar metnar eru orsakir þess að kærandi var ekki fluttur innan tímafrests.

Af þessum sökum og á grundvelli heildarmats á aðstæðum öllum telur kærunefnd að ekki sé hægt að leggja til grundvallar að kærandi hafi hlaupist á brott í skilningi 2. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðar á þann hátt að frestur til flutnings hafi framlengst umfram þá sex mánuði sem ákvæðið mælir fyrir um. Af því leiðir að ábyrgð á umsókn kæranda um alþjóðlega vernd fluttist yfir á íslensk stjórnvöld þegar sá frestur leið og að ekki sé lengur hægt að krefja viðtökuríkið um að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærunefnd fellst því á beiðni kæranda um að úrskurður nefndarinnar frá 6. desember 2019 verði endurupptekinn og leggur fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

Af þessu leiðir jafnframt að ekki er ástæða til að fjalla um hvort frestur skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hafi liðið eða hvort kærandi hafi á grundvelli nýlegs hjúskapar síns sérstök tengsl við landið í skilningi sama ákvæðis.

Samantekt

Það er niðurstaða kærunefndar að endurupptaka mál kæranda. Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kæranda til efnismeðferðar hér á landi.

 

 

Úrskurðarorð

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The appellant´s request for re-examination of his case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant’s application for international protection in Iceland.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                Bjarnveig Eiríksdóttir

               

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta