Hoppa yfir valmynd

Nr. 419/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 419/2018

Miðvikudaginn 3. apríl 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 28. nóvember 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. nóvember 2018 um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda frá og með X og að stöðva greiðslur mæðralauna og umönnunargreiðslur með afturvirkum hætti frá X. Þá er einnig kærð sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að krefja kæranda um endurgreiðslu framangreindra greiðslna.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. október 2018, var kæranda tilkynnt um fyrirhugaða stöðvun mæðralauna og umönnunargreiðslna, auk milligöngu meðlags frá og með X vegna flutnings hennar úr landi. Kæranda var gefinn þriggja vikna frestur til þess að andmæla. Með tölvupósti 24. október 2018 andmælti kærandi fyrirhugaðri stöðvun greiðslna til hennar. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. nóvember 2018, var kæranda tilkynnt að framkomin andmæli breyttu ekki ákvörðun stofnunarinnar um stöðvun greiðslna til hennar vegna flutnings úr landi. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. nóvember 2018, var kæranda tilkynnt um að stöðvun mæðralauna og umönnunargreiðslna tæki gildi X en stöðvun milligöngu meðlagsgreiðslna tæki gildi X. Þá var kæranda einnig tilkynnt um ofgreiðslu vegna framangreindra greiðslustöðvana að fjárhæð X kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. nóvember 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 19. desember 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með tölvupósti 4. janúar 2019 bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. janúar 2019. Með bréfi, dags. 18. janúar 2019, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 19. febrúar 2019, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. febrúar 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún krefjist þess að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun milligöngu meðlagsgreiðslna, mæðralauna og umönnunargreiðslna auk innheimtu verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kæranda hafi ekki dottið það til hugar að hún þyrfti að fylgjast með því hvort Þjóðskrá hafi ekki skráð hana úr landi eftir að pappírar um það hafi verið sendir frá B. Kærandi hafi haldið að bætur með barninu myndu fylgja henni eins og örorkubæturnar því að barnið sé enn jafn veikt og áður.

Kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar og vinnubrögð stofnunarinnar. Kærandi hafi ítrekað óskað eftir að fá bréf á ensku sem stofnunin eigi að gera, auk rökstuðnings fyrir því hvers vegna stofnunin fylgi ekki Norðurlandasáttmálanum.

„Sosialt samarbeid Artikkel 15

Avtalepartene skal arbeide for at en statsborger i et nordisk land under opphold i et anned nordisk land i størst mulig utstrekning skal nyte godt av de sosiale gode som ytes i oppholdslandet til dets egne statsborgere.“

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi Tryggingastofnunar vegna þessa þar sem hún telji að stofnunin sé að brjóta á rétti margra Íslendinga sem séu búsettir á Norðurlöndunum.

[Barn] kæranda sé [...]. Hún hafi neyðst til að prófa að flytja í annað land þar sem félagslega-, mennta- eða heilbrigðiskerfið hafi ekki getað hjálpað [...]. Það eina sem hafi verið gert hafi verið að dæla í [...] lyfjum sem heilbrigðiskerfinu í B hafi ofboðið að sjá. [Barnið] hafi verið ranglega [greint] á Íslandi en [...] hafi fengið nýja greiningu í B þannig að nú sé hægt að vinna með [...] á réttan hátt en ekki bara með lyfjum. Þá fjallar kærandi frekar um það hvernig heilbrigðis-, félags- og skólakerfið hafi brotið á [...] og kæranda í gegnum árin. Kærandi hafi verið tilneydd til að flytja af landi brott svo að barnið hennar myndi fá aðstoð sem [...] hafi svo fengið strax.

Kærandi hafi flutt aðeins til reynslu í X en fjölskyldan hafi svo flutt endanlega til B í X. Kærandi hafi fyrst farið […] til B í X til að gera allt klárt fyrir þau og svo hafi þau farið öll saman í X [...]. Það hljóti að vera hægt að fletta því upp að barnið hafi klárað skóla á Íslandi og þar af leiðandi hafi [...] ekki verið í B á meðan.

[...] hafi alltaf greitt sín meðlög til Innheimtustofnunar sveitarfélaga og því spyrji kærandi hvað stofnunin ætli að gera við peningana sem verið sé að krefjast til baka.

Varðandi hinar bæturnar þá telji kærandi að samkvæmt Norðurlandasamningnum eigi hún fullan rétt á þeim og eigi líka að vera áfram almannatryggð á Íslandi sem skattgreiðandi þar.

Í athugasemdum kæranda, mótteknum 4. janúar 2019, er ítrekað að upplýsingar um flutning hennar og fjölskyldunnar hafi verið sendar frá B til Þjóðskrár sem hafi ekki breytt skráningu. Kærandi ítreki það sem áður hafi komið fram að hún hafi ekki verið að fylgjast með því hvort gengið hafi verið frá skráningu lögheimilisins þar sem hún hafi verið búin að tilkynna flutninginn. Þá hafi kærandi ekki vitað að hún hafi þurft að tilkynna Tryggingastofnun sérstaklega um flutninginn þar sem hún hafi haldið að upplýsingar um breytingu á lögheimili hafi skilað sér til stofnunarinnar alveg eins og ef um lögheimilisflutning innanlands væri að ræða. Tryggingastofnun hafi fengið bréf sent 19. febrúar 2018 um að hún hafi engan rétt í B þar sem hún fái greiddar bætur frá Íslandi. Hún vinni ekkert í B og sé því að fullu almannatryggð á Íslandi. Þá segi Tryggingastofnun að það hafi vaknað grunsemdir í X sem sé ekki rétt þar sem stofnunin sé með upplýsingar um að kærandi hafi verið að sækja um greiðslur í B síðan í X.

Sem almannatryggður Íslendingur krefjist kærandi þess að fá greidd mæðralaun, umönnunarbætur og meðlög. Almannatrygging sé fyrir hendi þar sem kærandi sé enn sami öryrkinn og [barn] hennar sé enn jafn [veikt], hún borgi skatta á Íslandi og vinni ekki í B. Kærandi hafi eingöngu flutt til að fá aðstoð fyrir [barn sitt] sem [...] hafi ekki fengið á Íslandi.

Kærandi sé nú tilneydd til að […] þar sem hún geti ekki lifað á X kr. á mánuði með X börn og engin meðlög og sé með fatlað barn sem hafi miklar „utgiftir“. Þá fjallar kærandi aftur um hvað verði um þær fjárhæðir sem [...] hennar hafi borgað í meðlög. Að lokum spyr kærandi af hverju öryrkjar geti ekki eins og námsmenn erlendis sótt um skattalega heimilisfesti á Íslandi.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 19. febrúar 2019, segir að málið varði heimild Tryggingastofnunar til þess að endurkrefja kæranda um greiðslur sem hafi verið inntar af hendi til hennar fyrir tímabilið X til X.

Í 76. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins, segi:

„öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“

Þessi réttur sé útfærður í lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar og lögum nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Einnig geti stuðningur sem eigi sér stoð í 76. gr. stjórnarskrárinnar átt sér aðra lagastoð, til dæmis í barnalögum nr. 76/2003. Þegar greiðslur sem byggist á rétti samkvæmt stjórnarskrá séu skertar eða takmarkaðar með einhverjum hætti verði þær einnig að eiga sér skýra lagastoð. Reglur um endurkröfur verði einnig að vera skýrt afmarkaðar í lögum.

Í gögnum málsins komi fram að Þjóðskrá hafði fengið tilkynningu um flutning kæranda til B í X. Þjóðskrá beri ábyrgð á því að öll skráning sé rétt. Samskipti borgaranna byggist á því að þeir geti treysti því að allar greiðslur til þeirra séu byggðar á lögum. Um rétt kæranda er vísað til greinargerðar hennar. Gögn málsins sýni einnig fram á að þær greiðslur, sem kærandi hafi fengið, hafa verið mótteknar með góðri trú.

Varðandi meðlagsgreiðslur þá segi í 63. gr. barnalaga að:

meðlag samkvæmt ákvæðum þessa kafla tilheyrir barni og skal notað í þágu þess. Sá sem krafist getur meðlags skv. 56. gr. innheimtir þó meðlag og tekur við greiðslum þess í eigin nafni.“

Með þessu sé ljóst að meðlagsgreiðsla tilheyri barninu og reglurnar séu settar til að tryggja réttindi barnsins til aðstoðar í skilningi stjórnarskrár.

Allar ákvarðanir sem varði hagsmuni barna verði að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi, með öðrum orðum að þegar val sé á milli möguleika til ákvarðana verði stjórnvald ávallt að velja þann kost sem sé barninu fyrir bestu.

Í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að endurkrafa stofnunarinnar byggi á ákvæði reglugerðar, en greinargerðin taki ekki fram á hvaða lagaheimild sú ákvörðun byggist. Ástæðan fyrir því sé væntanlega sú að ákvörðunin um endurkröfu meðlags hafi ekki verið byggð á lagaheimild, hvað þá skýrri lagaheimild í skilningi stjórnskipunarréttar. Hér verði sérstaklega að vísa til þess sem segi hér að ofan, að í málinu sé tekin ákvörðun sem valdi barni og foreldri miklum skaða og að aðrir möguleikar til ákvörðunar hafi verið til staðar. 

Í þessu samhengi verði að líta til þess að kærandi hafi réttilega talið, sbr. 63. gr. barnalaga, að greiðsla sem meðlagsskyldur aðili hafi greitt hafi átt að fara til framfærslu barnanna þar sem meðlag tilheyri þeim. Kærandi hafi ekki fengið greiðslu meðlags frá B á tímabilinu sem um ræði.

Þá eigi sömu sjónarmið við varðandi mæðralaun og umönnunargreiðslur eins og rakið hafi verið hér að framan. Gengið sé allt of hart gegn fjölskyldu í veikri stöðu og ákvörðunin um endurkröfur byggist á veikum lagagrunni.

Taka skuli tillit til sérstakra aðstæðna hjá kæranda. Með ákvörðun Tryggingastofnunar sé kærandi látin taka á sig gríðarlega erfiðar byrðar vegna mistaka sem Þjóðskrá virðist hafa gert. Málið hefði litið allt öðruvísi við ef Þjóðskrá hefði brugðist rétt við á sínum tíma. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi ekki talið sig hafa verið með skráða búsetu á Íslandi, enda búin að skrá lögheimili sitt og barna sinna í B. Sá langi tími sem hafi liðið frá flutningi lögheimilis til B og þar til að opinberir aðilar á Íslandi hafi gert eitthvað í málinu styðji þá niðurstöðu að kærandi hafi tekið við greiðslum í góðri trú. Hún hafi allan tímann talið að hún væri að fá greiðslur frá Íslandi með réttum hætti þar sem hún hafi talið að hún væri ekki með búsetu skráða á Íslandi. Það sé algerlega óboðlegt að kærandi verði látin greiða fyrir það sem líti út fyrir að vera mistök opinberra aðila.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé stöðvun á milligöngu meðlagsgreiðslna frá X og endurkrafa þeirra greiðslna frá þeim tíma. Þá sé einnig kærð stöðvun mæðralauna og umönnunargreiðslna frá X og endurkrafa þeirra greiðslna frá þeim tíma.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. október 2018, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun á milligöngu meðlagsgreiðslna með X börnum, mæðralauna með X börnum og umönnunargreiðslna með [barni] hennar frá X þar sem stofnunin hefði þær upplýsingar að hún væri ekki lengur búsett á Íslandi. Kæranda hafi verið gefinn kostur á að andmæla stöðvuninni sem hún hafi gert með tölvupósti 24. október 2018. Kæranda hafi verið svarað með bréfi, dags. 7. nóvember 2018, og tilkynnt að stöðvun greiðslna frá X stæði.

Þann X hafi lögheimili kæranda verið flutt til B í Þjóðskrá með gildistöku frá X. Með bréfi, dags. 26. nóvember 2018, hafi Tryggingastofnun tilkynnt kæranda að milliganga meðlagsgreiðslna yrði stöðvuð frá X og greiðsla mæðralauna og umönnunargreiðslna yrði stöðvuð frá X. Þá hafi kærandi verið krafin um endurgreiðslu umræddra greiðslna frá ofangreindum tímum.

Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, segi að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga sé Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.

Þá segi í 14. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærslulaga að Tryggingastofnun sé aðeins skylt að greiða meðlagsmóttakanda meðlag ef hann sé búsettur hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga. Í 2. mgr. greinarinnar segi að stofnuninni sé heimilt, samkvæmt umsókn, að hafa milligöngu um meðlag í þeim tilvikum að staðfest sé að meðlagsmóttakandi teljist falla áfram undir lög um almannatryggingar samkvæmt ákvæðum milliríkjasamninga, enda séu önnur skilyrði reglugerðarinnar uppfyllt.

Í 16. gr. reglugerðarinnar segi að hafi Tryggingastofnun ofgreitt meðlagsmóttakanda meðlag eða önnur framfærsluframlög eigi stofnunin endurkröfurétt samkvæmt almennum reglum.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða mæðralaun til einstæðra foreldra sem hafi tvö eða fleiri börn sín á framfæri og búsett hjá sér.

Í 4. gr. laga um félagslega aðstoð segi að heimilt sé að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna, sem dveljist í heimahúsi eða á sjúkrahúsi ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Þá segi í 1. gr. laga um félagslega aðstoð að bætur samkvæmt lögunum greiðist eingöngu þeim sem lögheimili eigi hér á landi.

Í 55. gr. laga um almannatryggingar segi að hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt þeim lögum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kunni að öðlast rétt til. Einnig eigi Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum. Samkvæmt 13. gr. laga um félagslega aðstoð skuli einnig beita þessari grein vegna endurheimtu á ofgreiddum bótum.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar sé umsækjanda eða greiðsluþega rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, meðal annars með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Í september 2018 hafi vaknað grunur hjá Tryggingastofnun um að kærandi væri ekki búsett á Íslandi. Tryggingastofnun hafi leitað upplýsinga um börn kæranda hjá [...] C, en þar hafi kærandi verið skráð með lögheimili. Með tölvupósti, […], hafi […] staðfest að börn kæranda væru ekki skráð í skólann og að samkvæmt […] upplýsingum væru þau búsett í B.

Í tölvupósti kæranda til Tryggingastofnunar 24. október 2018 hafi kærandi viðurkennt að hún væri flutt til B í þeim tilgangi að fá betri aðstoð vegna veikinda [barns] síns. Þjóðskrá hafi breytt skráningu á lögheimili kæranda X og flutt það til B með gildistöku frá X.

Tryggingastofnun sé einungis heimilt að hafa milligöngu um meðlag til þeirra sem séu búsettir hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga. Þá gildi undanþága 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 945/2009 ekki um kæranda þar sem hún falli ekki lengur undir lög um almannatryggingar samkvæmt ákvæðum milliríkjasamninga. Þá segi skýrt í 1. gr. laga um félagslega aðstoð að bætur laganna greiðist eingöngu þeim sem lögheimili eigi hér á landi. Kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um flutning sinn til B sem henni hafi þó borið að gera, sbr. 39. gr. laga um almannatryggingar.

Tryggingastofnun hafi því hvorki heimild til að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda né greiða henni mæðralaun og umönnunargreiðslur frá þeim tíma sem hún flutti til B samkvæmt upplýsingum í Þjóðskrá, þ.e. frá X. Tryggingastofnun hafi því borið að stöðva umræddar greiðslur og endurkrefja kæranda um þær frá þeim tíma sem hún flutti úr landi.

Um meðlagsgreiðslur og greiðslur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð gildi ekki sömu reglur og um lífeyrisgreiðslur varðandi flutning milli landa. Lífeyrisgreiðslur falli undir EES-samninginn og á grundvelli þess samnings haldi lífeyrisþegi greiðslum sínum áfram þó að hann búi í öðru landi á samningssvæðinu.

Kærandi hafi vísað til Norðurlandasamnings um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu varðandi það að halda félagslegum bótum og fá bréf sín þýdd á annað tungumál, sbr. lög nr. 66/1996 um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að staðfesta fyrir Íslands hönd Norðurlandasamning um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu.

Í umræddum Norðurlandasamningi sé kveðið á um rétt til að nota meðal annars íslensku þegar einstaklingur sé í samskiptum við norræn stjórnvöld og stjórnvöldum beri að taka við erindum og bréfum á íslensku, sbr. 5. gr. samningsins. Í 11. gr. samningsins segi að einstaklingur, sem flytji frá einu norrænu landi til annars norræns lands, eigi rétt á fyrirframgreiðslu barnsmeðlags í síðarnefnda landinu á sömu forsendum og ríkisborgarar þess lands frá þeim tíma sem hann taki upp búsetu í landinu. Skjal um rétt til barnsmeðlags, sem gefið sé út í norrænu landi, skuli einnig teljast gildur grundvöllur fyrirframgreiðslu meðlags í öðru norrænu landi. Þá komi fram í 4. gr. samningsins að við framkvæmd þeirrar löggjafar í norrænu landi, sem samningurinn taki til, njóti ríkisborgarar annarra norrænna landa, sem dvelji með lögmætum hætti tímabundið eða hafi löglega búsetu í landinu, jafnréttis á við eigin ríkisborgara landsins, sem þýði að þeir eiga að geta sótt um og fengið þá félagslegu þjónustu og greiðslur í búsetulandi sínu eins og aðrir ríkisborgarar landsins. Í þessum samningi komi hvergi fram að kærandi eigi rétt á að halda greiðslum á Íslandi við flutning til B.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. janúar 2019, kemur fram að Tryggingastofnun hafi fyrst fengið grun um ranga búsetuskráningu kæranda í X. Fyrir þann tíma hafi stofnunin engar upplýsingar haft um að kærandi hafi verið flutt til B og væri að sækja um greiðslur þar í landi. Að öðru leyti vísi stofnunin til fyrri greinargerðar sinnar í málinu þar sem athugasemdum kæranda hafi verið svarað.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. nóvember 2018 um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda frá og með X og að stöðva greiðslur mæðralauna og umönnunargreiðslur með afturvirkum hætti frá X. Þá er einnig kærð sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að krefja kæranda um endurgreiðslu framangreindra greiðsla.

A. Stöðvun og innheimta mæðralauna og umönnunargreiðslna

Fyrst kemur til skoðunar ákvörðun Tryggingastofnunar um að stöðva mæðralaun og umönnunargreiðslur til kæranda frá X og innheimta þeirra greiðslna.

Mæðralaun eru greidd samkvæmt heimild í 2. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð en 1. mgr. ákvæðisins hljóðar svo:

„Heimilt er að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafa börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og eru búsett hér á landi. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna. Þar er einnig heimilt að skilyrða greiðslu mæðra- og feðralauna við að meðlagsúrskurður hafi verið kveðinn upp eða fyrir liggi staðfest samkomulag um greiðslu framfærslueyris.“

Á grundvelli reglugerðarheimildar í framangreindu lagaákvæði hefur verið sett reglugerð nr. 540/2002 um mæðra- og feðralaun, með síðari breytingu.

Í 4. gr. laga um félagslega aðstoð er fjallað um umönnunargreiðslur. Í 1. mgr. þeirrar lagagreinar segir meðal annars að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna sem dveljist í heimahúsi eða á sjúkrahúsi. Í 4. mgr. sömu greinar segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Gildandi reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna er nr. 504/1997, með síðari breytingum.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um félagslega aðstoð greiðast bætur félagslegrar aðstoðar, þ.á m. mæðralaun og umönnunargreiðslur, eingöngu til þeirra sem eiga lögheimili hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá kemur fram 2. málsl. 13. gr. að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laga um félagslega aðstoð.

Í 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sem er að finna í VI. kafla laganna, er kveðið á um innheimtu bóta. 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, er greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er honum einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. 

Samkvæmt framangreindu er ljóst að það er skilyrði fyrir greiðslu mæðralauna og umönnunargreiðslna að viðtakandi eigi lögheimili á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá var lögheimili kæranda flutt til B þann X með gildistöku frá X. Kærandi mótmælir því ekki að hún sé búsett í B heldur byggir á því að Þjóðskrá hafi ekki séð um að skrá upplýsingar sem stofnuninni voru sendar frá B um lögheimilisflutning hennar. Engar upplýsingar liggja fyrir um hvort Þjóðskrá hafi borist upplýsingar frá B. Aftur á móti gerir 39. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem þiggur bætur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um breytingar á aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Óumdeilt er að kærandi upplýsti Tryggingastofnun ekki um flutninginn til B.

Kærandi byggir á því að hún eigi rétt á að fá greidd mæðralaun og umönnunargreiðslur þrátt fyrir að hún búi í B með vísan til 15. gr. Helsingforssamningsins, þ.e. samstarfssamnings á milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar. Ákvæði 15. gr. samningsins hljóðar svo:

„Samningsaðilar skulu vinna að því, að ríkisborgarar Norðurlanda, sem dveljast í öðru Norðurlandanna en eigin landi, skuli svo sem framast er unnt njóta þeirra félagslegu hlunninda, sem ríkisborgarar dvalarlandsins njóta.“

Framangreint ákvæði kveður á um ákveðnar skyldur Norðurlanda gagnvart ríkisborgurum annarra Norðurlanda sem dvelja í landinu. Fyrir liggur að í tilviki kæranda þá er B dvalarlandið og því varðar ákvæðið ekki félagsleg réttindi kæranda á Íslandi. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun mæðralauna og umönnunargreiðslna verði ekki felld úr gildi með vísan til framangreinds ákvæðis í Helsingforssamningnum.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki hægt að líta fram hjá skyldu kæranda samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar til að tilkynna um breytingar á aðstæðum og því að Tryggingastofnun ríkisins er ekki heimilt að greiða mæðralaun og umönnunargreiðslur í tilvikum þar sem lögheimili greiðsluþega er ekki á Íslandi. Samkvæmt 2. málsl. 53. gr. laga um almannatryggingar falla bætur niður í lok þess mánaðar sem bótarétti lýkur. Þar sem kærandi var með lögheimili í B frá X átti hún ekki rétt á mæðralaunum og umönnunargreiðslum frá X. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva mæðralaun og umönnunargreiðslur til kæranda frá X er því staðfest.

Eins og fyrr greinir eru umönnunargreiðslur greiddar á grundvelli laga um félagslega aðstoð og samkvæmt 2. málsl. 13. gr. þeirra laga skal beita V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Í 55. gr. laga um almannatryggingar, sem er að finna í VI. kafla laganna, segir í 1. málsl. 1. mgr. að hafi Tryggingastofnun ríkisins ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Í 2. málsl. sömu málsgreinar segir að stofnunin eigi einnig endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.

Að því virtu að kærandi fékk greidd mæðralaun og umönnunargreiðslur á tímabilinu X til X án þess að skilyrði greiðslnanna væri uppfyllt, telur úrskurðarnefnd velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að krefja hana um endurgreiðslu vegna ofgreiddra mæðralauna og umönnunargreiðslna, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er framangreindur réttur Tryggingastofnunar ríkisins til endurkröfu skýr og því er ekki fallist á að framkvæmd stofnunarinnar sé í andstöðu við 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Ákvörðun stofnunarinnar þar um er því staðfest.

B. Stöðvun og innheimta ofgreidds meðlags

Kemur næst til skoðunar ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda vegna flutnings til B frá X. Ákvörðunin byggist á því að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá hafi kærandi ásamt börnum sínum flutt til B X.

Samkvæmt 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 er Tryggingastofnun skylt að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur er hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setja.

Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildi þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Í 6. mgr. sömu lagagreinar segir að heimilt sé að setja reglugerð um framkvæmd greinarinnar þar sem meðal annars sé kveðið á um fyrirframgreiðslu meðlags þegar foreldri eða börn séu búsett erlendis og um hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun inni af hendi.

Með framangreindri lagastoð hefur reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga verið sett. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar segir að stofnuninni sé aðeins skylt að greiða meðlagsmóttakanda meðlag sé hann búsettur hér á landi, sbr. 67. gr. barnalaga.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 68. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að semja um fyrirframgreiðslu meðlags á milli samningsríkja, sbr. 63. gr., eins og um bætur almannatrygginga sé að ræða.

Með hliðsjón af framangreindu er meginreglan sú að Tryggingastofnun hefur eingöngu milligöngu um greiðslu meðlags til meðlagsmóttakenda sem eru búsettir hér á landi. Þó er stofnuninni heimilt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til meðlagsmóttakanda sem búsettur er utan Íslands ef ákvæði milliríkjasamninga mæla fyrir um það.

Eins og fram hefur komið hér að framan þá liggur fyrir yfirlit Þjóðskrár um að lögheimili kæranda er skráð í B frá X. Að mati úrskurðarnefndar verður ráðið af framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum að Tryggingastofnun ríkisins sé ekki heimilt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags í þeim tilvikum þar sem greiðsluþegi er fluttur af landi brott nema annað leiði af milliríkjasamningum. Engin ákvæði í milliríkjasamningum kveða á um að Tryggingastofnun sé heimilt að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til meðlagsmóttakanda sem búsettur er í B. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda frá X er því staðfest. Sú niðurstaða hefur þó engin áhrif á skyldu meðlagsgreiðanda til greiðslu meðlagsins beint til kæranda.

Kemur þá til skoðunar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að endurkrefja kæranda um meðlag sem stofnunin hafði milligöngu um að greiða til hennar á tímabilinu X til X.

Í 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála er kveðið á um hlutverk nefndarinnar. Þar segir svo:

„Úrskurðarnefnd velferðarmála skal úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar.“

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála að því er varðar stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna. Ákvæðið hljóðar svo:

„Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum þessum kveður úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr.“

Í 13. gr. laga um almannatryggingar er tilgreint hvaða ágreiningsefni verða kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála á grundvelli laganna. Úrskurðarnefndinni er því ekki heimilt að úrskurða um önnur ágreiningsefni en þau sem falla undir framangreint ákvæði.

Úrskurðarnefndin hefur samkvæmt framangreindri 1. mgr. 13 gr. heimild til þess að kveða upp úrskurð þegar ágreiningur varðar endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu bóta samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Í fyrrgreindri 55. gr. laga nr. 100/2007 er eingöngu verið að fjalla um þau tilvik þegar aðilar fá ofgreiddar eða vangreiddar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar sem meðlag telst ekki til bóta, tekur ákvæðið ekki til endurkröfuréttar vegna ofgreidds eða vangreidds meðlags.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að nefndin hafi ekki heimild til þess að fjalla um ágreining um endurkröfurétt vegna ofgreidds meðlags.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt, nema annað leiði af lögum eða venju. Í máli þessu er félagsmálaráðuneytið hið æðra stjórnvald, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, 4. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands og b-lið 3. tölul. 4. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna á milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Stjórnvaldsákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins verða því kærðar til félagsmálaráðuneytisins, nema annað leiði af lögum eða venju.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 26. nóvember 2018, um endurkröfu ofgreidds meðlags vegna tímabilsins X til X, er með vísan til framangreinds heimilt að kæra til félagsmálaráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga er kæru á ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreidds meðlags því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og framsend félagsmálaráðuneytinu.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 26. nóvember 2018 um að stöðva greiðslur mæðralauna og umönnunargreiðslna til A, frá X og innheimtu ofgreiddra greiðslna er staðfest. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda frá X er staðfest. Kæru á ákvörðun Tryggingastofnunar um endurkröfu ofgreidds meðlags er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála og framsend félagsmálaráðuneytinu.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta