Hoppa yfir valmynd

Nr. 351/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. júlí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 351/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19040111

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. apríl 2019 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […], og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2019, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 5. júlí 2017. Með ákvörðun dags. 13. nóvember 2017 komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til Danmerkur á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 9. janúar 2018, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný. Með ákvörðun dags. 31. janúar 2018 komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi sendur til Danmerkur á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 29. maí 2018, var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 14. nóvember 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 17. apríl 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 29. apríl 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 20. maí 2019. Viðbótargreinargerð barst kærunefndinni þann 27. maí s.á. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 4. júlí 2019 ásamt talsmanni sínum og túlki. Þann 8. júlí 2019 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir kæranda.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að kærandi sé í hættu í Sómalíu vegna aðildar sinnar að tilteknum ættbálki auk þess sem kærandi óttist Al-Shabaab. Þá standi kæranda ekki til boða aðstoð eða vernd lögreglu aða annarra stjórnvalda í Sómalíu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur og uppalinn í bænum […] í […] héraði í Sómalíu og að hann hafi verið búsettur þar áður en hann hafi flúið heimaríki sitt. Kærandi tilheyri ættbálki er nefnist Qubeys sem sé undirflokkur stærri ættbálks að nafni Dir og heldur kærandi því fram í greinargerð að ættbálkur hans sé í minnihluta í Sómalíu. Kærandi hafi alist upp hjá frænda sínum en frændinn hafi gifst inn í annan ættbálk og því hafi kærandi og frændinn búið hjá ættbálki konu frændans er nefnist Murusade og tilheyri Hawiye ættbálkinum. Kærandi kveðst ekki vita hvar aðrir meðlimir úr fjölskyldu hans dvelji í Sómalíu, en ástæður flótta kæranda megi rekja til deilna milli ættbálks kæranda og ættbálks konu frænda hans árið 2012. Ættbálkarnir hafi átt í útistöðum vegna þess að einstaklingur úr Hawiye hafi verið myrtur af einstaklingi úr ættbálki kæranda. Í kjölfarið hafi frændi kæranda verið myrtur í hefndarskyni og deilurnar aukist. Að lokum hafi kærandi ekki átt annarra kosta völ en að flýja þar sem einstaklingar úr Hawiye ættbálkunum hafi viljað ná kæranda. Kærandi hafi ekki getað leitað til yfirvalda þar sem engin eiginleg yfirvöld hafi verið á staðnum jafnframt sem Al-Shabaab hafi náð yfirráðum í heimabæ kæranda. Meðlimir hryðjuverkasamtakanna hafi komið í heimabæ kæranda, gert það sem þeim sýndist og safnað að sér hverjum þeim sem þeir hafi viljað í samtökin. Hafi samtökin jafnframt reynt að fá kæranda til liðs við sig með því að koma í skóla kæranda, taka hann og nokkra aðra úr skólanum og fara með þá á staðinn þar sem þjálfunin hafi átt að fara fram. Vinur frænda kæranda hafi borið kennsl á kæranda og aðstoðað hann við að flýja. Sami einstaklingur hafi aðstoðað kæranda við að flýja til Eþíópíu, þaðan til Íran, til Tyrklands og loks til Evrópu.

Kærandi óttist ættbálk konu frænda síns og greindi frá því að hafa orðið fyrir mismunun af þeirra hálfu, en í heimabæ kæranda hafi meðlimir Hawiye ættbálksins verið fleiri en meðlimir í ættbálki kæranda og hafi Hawiye ættbálkurinn því haft meira vægi. Dæmi um þetta nefnir kærandi að hann hafi þurft að flýja og fela sig í holu í tvo daga án matar eftir að sonur frænda kæranda hafi verið myrtur, en þar hafi kærandi verið ataður í blóði og í gríðarlegu áfalli. Kærandi kvað engan hafa komið og athugað með sig í kjölfarið. Líkt og komið hefur fram séu engin eiginleg yfirvöld í Sómalíu og ítök Hawiye ættbálksins mikil á heimasvæði kæranda og því sé enga vernd að fá fyrir hann. Þá geti kærandi ekki búið annarsstaðar í Sómalíu þar sem hann sé hvergi öruggur fyrir Hawiye ættbálkinum, en Hawiye ættbálkurinn muni ekki fyrirgefa kæranda. Þá kveður kærandi að eiginkona frænda hans hafi látist viku áður en efnisviðtal hans við Útlendingastofnun hafi farið fram. Þá kemur fram í greinargerð að nýlegar heimildir hermi að meirihluti íbúa heimabæjar kæranda, […], hafi þurft að flýja þaðan vegna lamandi refsiaðgerða vopnaðra einstaklinga.

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi gerir athugasemd við niðurstöður tungumála- og staðháttarprófs hans og það vægi sem Útlendingastofnun veiti niðurstöðunum í trúverðugleikamati sínu á frásögn kæranda. Niðurstöður tungumála- og staðháttarprófsins bentu til þess að mállýska kæranda sé Northern-Somali, sem sé meðal annars töluð í Austur-Eþíópíu. Í greinargerð kemur fram að Northern-Somali sé mállýska sem yfir 60 % Sómala tali og sé hún ekki bundin við norðurhluta landsins þó nafnið gefi það til kynna. Heimildir beri með sér að Northern-Somali sé í raun grunnur nútíma sómalísku og sé töluð frá syðsta hluta Sómalíu til norðurhlutans. Fyrirvari hafi verið settur við niðurstöður tungumála- og staðháttarprófs kæranda og sé í fyrsta lagi tekið fram að engar rannsóknir hafi verið gerðar á mismunandi mállýskum í Sómalíu síðan á 9. áratug síðustu aldar ef frá sé talin rannsókn sem framkvæmd hafi verið í Sómalílandi árið 1999. Í öðru lagi sé tekið fram að sú óöld sem hafi ríkt í Sómalíu hafi leitt af sér mikla fólksflutninga því sé ráðlagt að viðhafa sérstaka varúð þegar bein tenging sé gerð á milli landsvæða og tiltekinna mállýskna í Sómalíu. Í þriðja lagi sé tekið fram að tungumála- og staðháttarprófið ákvarði ekki þjóðerni einstaklingsins heldur það málasamfélag sem viðkomandi tilheyri. Slík málasamfélög séu sjaldnast staðbundin innan tiltekinna landfræðilegra marka. Þá þurfi að gæta sérstakrar varúðar þegar einstaklingur hafi búið á fleiri en einum stað og verið í blönduðu umhverfi og séu flóttamannabúðir teknar sem dæmi sem og lönd þar sem mörg þjóðerni komi saman. Kærandi hafi verið ungur að árum þegar hann hafi neyðst til að flýja heimaríki sitt árið 2012. Kærandi hafi verið á flótta í mörg ár og geti þetta haft áhrif á talanda kæranda. Kærandi heldur því fram að niðurstöður prófsins geti því ekki útilokað að kærandi komi frá Sómalíu.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og öryggisástand í Sómalíu. Þá er sérstaklega tekið fram að í Sómalíu hafi óöld og lögleysa ríkt frá árinu 1991. Borgarastyrjaldir hafi geysað og átök séu á milli íbúa landsins vegna skiptingar þeirra í aðskilda ættbálka, en ættbálkakerfið í Sómalíu hafi einkennst af valdabaráttu og ofbeldisfullum átökum. Kærandi vísar til alþjóðlegra skýrslna sem hann telur styðja mál sitt.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi hans séu ekki tryggð af hálfu stjórnvalda. Kærandi heldur því fram að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem ofsóknir í hans garð megi rekja til aðildar hans að tilteknum þjóðfélagshópi, skv. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Ástæða flótta kæranda frá heimaríki sé vegna ofsókna sem kærandi eigi yfir höfði sér í Sómalíu vegna stöðu hans sem meðlimur í Dir/Qubeys ættbálkinum. Ættbálkur kæranda hafi lent í útistöðum við Hawiye ættbálkinn sem hafi ofsótt ættbálk kæranda. Líkt og komið hefur fram hafi tveir frændur kæranda verið myrtir fyrir það eitt að vera í Dir/Qubeys ættbálkinum. Þá megi einnig nefna stöðu kæranda sem ungur karlmaður í Sómalíu, en sá hópur sé markhópur liðsöfnunar hryðjuverkasamtakanna Al-Shabaab. Kærandi óttist því hópa eða samtök sem stjórni ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, þ.e. meðlimi Al-Shabaab sem hafi tekið sér ákveðið ríkisvald sem og meðlimi Hawiye ættbálksins, sbr. b- og c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Verði kæranda gert að snúa aftur til heimaríkis telji hann að það brjóti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Auk þess sem slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár Íslands, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Til vara heldur kærandi því fram í greinargerð að hann uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Þá fjallar kærandi um samspil ákvæðisins við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Kærandi óttist að verða fyrir ofsóknum, hótunum og líkamlegu ofbeldi af hálfu meðlima Al-Shabaab sem og Hawiye ættbálksins, þar sem kærandi sé ungur karlmaður sem tilheyri minnihlutaættbálkinum Dir/Qubeys. Hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatt ríki til að snúa ekki Sómölum, sem komi frá Mið- og Suður-Sómalíu, aftur til heimaríkis gegn vilja sínum. Í heimildum sé ástandinu í landinu lýst sem óstöðugu og óvissu jafnframt sem það geti versnað snögglega. Þá ógni hryðjuverkasamtökin Al-Shabaab friði og öryggi í landinu og hafi almennir borgarar látið lífið og slasast í átakakenndu ofbeldi. Þá séu a.m.k. um 1.1 milljón einstaklinga á vergangi innan Sómalíu, og þar af u.þ.b. 180 þúsund í mið-Sómalíu. Af þessu telji kærandi ljóst að raunhæf hætta sé á að hann muni sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga við komu til heimaríkis.

Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða geti útlendingur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.a.m. vegna almennra aðstæðna í heimaríki. Með almennum aðstæðum sé m.a. vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti þegnum sínum ekki vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í fyrrgreindum athugasemdum komi fram að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé m.a. vísað til þess að einstaklingur hafi þörf á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna í heimaríki. Kærandi heldur því fram að hann hafi lengi verið á flótta og hafi hann mátt þola ofbeldi, mismunun og erfiðar aðstæður. Viðkvæmt ástand ríki í Sómalíu vegna átaka ættbálka og Al-Shabaab, jafnframt sem kærandi hafi ekkert fjölskyldunet í heimaríki, en frændi kæranda sem hafi alið hann upp sé látinn. Viðvarandi mannréttindabrot eigi sér stað í Sómalíu og veiti yfirvöld þegnum sínum ekki nægilega vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hefur verið rakið telji kærandi ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Til þrautaþrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi þann 5. júlí 2017. Frá þeim tíma séu liðnir um 23 mánuðir, en í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga komi fram að heimilt sé að veita þeim útlendingi sem sótt hafi um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, uppfylli hann ekki skilyrði 37. og 39. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði dvalarleyfi samkvæmt 2. mgr. ekki veitt nema að tilteknum skilyrðum uppfylltum, en kærandi heldur því fram að skilyrðin séu uppfyllt í hans tilviki. Kærandi heldur því jafnframt fram að útilokunarástæður í a- til d-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga eigi ekki við um mál hans. Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sé heimilt að víkja frá 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þegar sérstaklega standi á. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016 segi um 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga að ákvæðið mæli fyrir um að heimilt sé að víkja frá skilyrðum 3. mgr. og geti það t.d. átt við ef ekki er mögulegt fyrir útlending, sem að öðru leyti er samvinnuþýður, að afla gagna frá heimalandi sínu, t.d. um það hver hann er. Í 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er ekki fjallað um sönnun útlendings á því hver hann er eða um auðkenni hans, en um það er hins vegar fjallað í b-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi heldur því fram í greinargerð að í athugasemdum frumvarps til laga um útlendinga sé að finna misritun þannig að í stað tilvísunar til 3. mgr. 74. gr. eigi í raun að vera tilvísun til 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá heldur kærandi því fram að taka verði tillit til þess að honum hafi reynst ómögulegt að leggja fram gögn um auðkenni sitt og sé það eðlilegt í ljósi þess að nýlegar heimildir beri með sér að sómalísk vegabréf og persónuskilríki séu óaðgengileg flestum ríkisborgurum. Verði því talið að skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga komi ekki í veg fyrir að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sömu greinar. Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga á ákvæði 2. mgr. ekki við ákveðnar aðstæðum, m.a. þegar útlendingur hefur framvísað fölsuðum skjölum með það að markmiði að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd, sbr. a-lið 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Undir rekstri málsins hafi kærandi lagt fram skjöl í þeim tilgangi að styrkja umsókn sína um alþjóðlega vernd, annars vegar ökuskírteini sem lögreglan á Suðurnesjum hefur metið falsað og hins vegar fæðingar- og kennivottorð sem lögreglan hefur ekki metið sem falsað en bent á að fyrirvara skuli setja um gildi þeirra. Kærandi heldur því fram í viðbótargreinargerð að hann hafi ekki haft ásetning til að leggja fram fölsuð gögn og verði að meta útskýringar hans, m.a. á misritun á nafni hans og stimplum á framlögðum skjölum, trúverðugar, að því er varðar huglægt mat kæranda. Verði því talið að skilyrði a-d liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga komi ekki í veg fyrir að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sömu greinar.

Þann 8. júlí 2019 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir kæranda. Í viðtali hjá kærunefnd þann 4. júlí 2019 hafi kærandi m.a. verið spurður hvenær Al-Shabaab hafi komið í heimabæ hans og kærandi svarað árið 2015. Í kjölfarið hafi kærandi verið spurður af hverju hann hafi sagt í viðtali hjá Útlendingastofnun að framangreint hafi átt sér stað árið 2012. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, þann 14. nóvember 2018, hafi kærandi verið beðinn um að greina frá þeim atvikum sem hafi gert það að verkum að hann hafi flúið heimaríki. Kærandi hafi svarað þeirri spurningu með stuttlegri lýsingu á sögu sinni og meðal þess sem þar hafi komið fram var að frændi kæranda hafi verið myrtur og að Al-Shabaab hafi komið í heimabæ kæranda. Í kjölfarið hafi kærandi verið spurður hvenær þetta hafi gerst og hafi kærandi sagt að þetta hafi átt sér stað í september 2012. Kærandi gerir athugasemd við umrædda spurningu í viðtali hjá Útlendingastofnun vegna þess hve óljós hún hafi verið og væri til þess fallin að valda misskilningi. Kærandi hafi lýst röð atburða og þess vegna ótækt að vera viss um að hverju spurning Útlendingastofnun hafi lotið og því beri ekki að líta á framangreint sem ósamræmi í svörum kæranda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að til að sanna á sér deili hafi kærandi lagt fram ökuskírteini, fæðingarvottorð og kennivottorð. Umrædd gögn voru send til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum og var niðurstaða rannsóknarinnar sú að framlagt ökuskírteini sé falsað að öllu leyti. Þá kom einnig fram að misræmi í stimplum á framlögðum fæðingar- og kennivottorðum sé slíkt að fyrirvara þurfi að setja um gildi þeirra. Var það mat Útlendingastofnunar að ekki hefði verið unnt að leggja framlögð gögn til grundvallar í máli kæranda og því hefði kærandi ekki sannað með fullnægjandi hætti hver hann væri. Yrði leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats. Verður ekki annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Eþíópíu. Við komu kæranda til Danmerkur árið 2015 kvaðst hann vera frá Eþíópíu. Þá hefur kærandi í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd sagst vera frá Sómalíu. Eftir skoðun gagna málsins og með tilliti til mats á trúverðugleika kæranda telur kærunefnd ekkert hafa komið fram í málinu sem gefur tilefni til að draga í efa mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og verður því lagt til grundvallar að hann sé eþíópískur ríkisborgari. Að öðru leyti er auðkenni kæranda óljóst.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Eþíópía m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Country Report on Human Rights Practices 2018 – Ethiopia (US Department of State, 13. mars 2019);
  • Etiopia: politisk utvikling i 2018 (Landinfo, 30. janúar 2019);
  • Etiopia: Basisinfo (Landinfo, 14. desember 2018);
  • Lägesanalys: Etiopien: ett land i transition (v. 1.0) (Migrationsverket, 30. október 2018)
  • Ethiopia: Political situation and treatment of opposition (Udlændingestyrelsen, 1. september 2018) og
  • Mänskliga rättigheter, demokrati och rättsstatens principer i Etiopien 2015-2016 (Utrikesdepartimentet, 26. apríl 2017).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Eþíópía sambandslýðveldi með rúmlega 110 milljónir íbúa. Eþíópía er eina ríkið í Afríku sem hélt sjálfstæði sínu þar til Ítalir réðust inn í landið árið 1936, en árið 1941 sigruðu breskar og eþíópískar hersveitir Ítali og árið 1944 fékk ríkið aftur sjálfstæði. Þann 13. nóvember 1945 gerðist Eþíópía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1976. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1969 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987. Eþíópía fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Breytingar hafi orðið á pólitísku landslagi í Eþíópíu á síðustu árum en eftir um þrjú ár af mótmælum borgaranna hafi þáverandi forsætisráðherra landans, Hailemariam Desalegn, látið af störfum í febrúar 2018 og 2. apríl s.á. hafi Abiy Ahmed tekið við sem forsætisráðherra. Í ofangreindum skýrslum kemur fram að hin nýja stjórn Abiy Ahmed hafi strax komið á umbótum, m.a. með því að leyfa áður bönnuðum fjölmiðlum að starfa á ný sem og að frelsa pólitíska andstæðinga sem hafi dvalið í fangelsum ríkisins. Þá hafi eþíópísk stjórnvöld afnumið eldri hryðjuverkalöggjöf sem hafi kveðið á um að stjórnarandstæðingar falli undir löggjöfina. Einnig hafi stjórnvöld átt í friðarviðræðum við stjórnarandstöðuhópana Oromo Democratic Front (ODF), Oromo Liberation Front (OLF), Ginbot 7 og Ogaden National Liberation Front (ONLF) sem hafi bætt samskipti og haft í för með sér að meðlimir hópanna sem og liðsmenn vopnaðra sveita þeirra hafi getað snúið aftur til Eþíópíu. Með nýjum stjórnarháttum Abiy Ahmed ríki stöðugleiki í Eþíópíu og hafi miklar umbætur á sviði mannréttinda átt sér stað í ríkinu.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að starfandi réttarkerfi sé í Eþíópíu. Þá sé réttur manna til að leita úrlausnar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli stjórnarskrávarinn jafnframt sem allir eigi rétt á að fá aðstoð túlks við réttarhöld, en mörg tungumál séu töluð í Eþíópíu af hinum ýmsu þjóðernishópum. Samkvæmt skýrslu sænska utanríkisráðuneytisins sé ástandið í eþíópískum fangelsum slæmt og reglulega sé brotið á grundvallarréttindum fanga. Stjórnvöld hafi boðað umbætur í fangelsismálum landsins og séu slík verkefni sem og verkefni gegn spillingu í forgangi. Þá sé spilling innan lögreglunnar sem og innan hersins vandamál í Eþíópíu, en spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Miklar umbætur hafi þó orðið á síðustu árum og hafi eþíópísk stjórnvöld m.a. lagt áherslu á mannréttindi við þjálfun lögreglumanna sem og hermanna.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Eins og að framan greinir kveðst kærandi óttast að verða fyrir ofsóknum, hótunum og líkamlegu ofbeldi af hálfu meðlima Al-Shabaab sem og Hawiye ættbálksins verði hann endursendur til Sómalíu.

Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á viðtali við kæranda hjá kærunefnd, endurritum af viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda.

Við komuna hingað til lands kvaðst kærandi heita […] og vera fæddur þann […]. Þar sem Útlendingastofnun taldi vafa leika á aldri kæranda var ákveðið að hann skyldi gangast undir aldurgreiningu sem fram fór þann 22. september 2017. Í aldursgreiningarskýrslu kemur fram að það sé mat tannlækna sem hana rita að kærandi sé eldri en 18 ára og uppgefinn aldur kæranda við komu til Íslands, 15 ár og 11 mánuðir, geti ekki staðist. Niðurstaða aldursgreiningarinnar sé byggð á sameiginlegu mati á sjúkrasögu, klínískri skoðun, aldursútreikningum og mati á röntgenmyndum. Í trúverðugleikamati Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að framburður kæranda stangist á við upplýsingar sem stofnunin hafi undir höndum frá Danmörku. Í gögnum frá Danmörku komi fram að nafn hans sé […], hann sé fæddur þann […] og sé eþíópískur ríkisborgari. Aðspurður út í þetta misræmi heimaríki í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa kynnst fólki í Danmörku sem hafi ráðlagt honum að segjast vera frá Eþíópíu.

Í kjölfar viðtals kæranda hjá Útlendingastofnun þann 14. nóvember 2018 gekkst kærandi undir tungumála- og staðháttarpróf þar sem kannaðar voru líkur á að kærandi sé frá […] héraði í Sómalíu. Niðurstöður prófsins bentu til þess að litlar sem engar líkur séu á að kærandi sé þaðan. Að teknu tilliti til ofangreindra gagna frá dönskum stjórnvöldum sendi Útlendingastofnun hljóðupptöku úr fyrrgreindu tungumála- og staðháttarprófi aftur í greiningu þar sem kannaðar voru líku á því að kærandi væri frá Eþíópíu. Niðurstöður prófsins sýndu hæstu mögulega einkunn og voru niðurstöður allra þátta sem kannaðir voru í greinilegu samræmi við mállýskuna Northern Somali sem er töluð í […] héraði í Eþíópíu. Kærandi lagði fram sómalískt fæðingarvottorð, kennivottorð og ökuskírteini hjá Útlendingastofnun. Framlögð skilríki voru send til rannsóknar hjá Lögreglunni á Suðurnesjum og var niðurstaða rannsóknarinnar sú að framlagt ökuskírteini sé falsað að öllu leyti. Þá er misræmi í stimplum í framlögðu fæðingar- og kennivottorði miðað við þá stimpla sem lögregla hafði til viðmiðunar. Þá eru öll framangreind skilríki merkt með fæðingardeginum […] en það var mat tannlækna sem framkvæmdu fyrrgreinda aldursgreiningu að sá fæðingardagur geti ekki staðist. Þá er ósamræmi í nafni kæranda á skilríkjunum. Að þessu virtu var það mat Útlendingastofnunar að ekki væri unnt að leggja framlögð skilríki til grundvallar í málinu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 6. mars 2019 var kæranda gert grein fyrir ofangreindum niðurstöðum, þ.e. úr síðara tungumála- og staðháttarprófi, rannsókn lögreglu á framlögðum kennivottorðum sem og könnun Útlendingastofnunar á gögnum frá dönskum yfirvöldum. Kæranda var gefið færi á að breyta frásögn sinni og koma með athugasemdir varðandi afstöðu Útlendingastofnunar til málsins. Kærandi andmælti afstöðu Útlendingastofnunar um að stofnunin teldi hann vera eþíópískan ríkisborgara. Máli sínu til stuðnings hélt kærandi fram að opinberum stimplum í Sómalíu hafi verið breytt árið 2017, en gögnin sem hann hafi lagt fram séu frá árinu 2015 og því sé misræmi í stimplunum. Þá bendir kærandi á að íslensk stjórnvöld hafi fallist á að þjóðerni bróður hans sé sómalískt og ef Útlendingastofnun líti svo á að þeir séu bræður þá hljóti kærandi einnig að vera frá Sómalíu. Að lokum heldur kærandi því fram að einstaklingurinn sem hafi metið kæranda í tungumála- og staðháttarprófinu hafi ekki talað góða sómalísku og því sé ekki hægt að byggja á niðurstöðum prófsins.

Í viðtali hjá kærunefnd, þann 4. júlí 2019, var kæranda gefið færi á að breyta frásögn sinni varðandi þá staðhæfingu hans að hann sé frá Sómalíu í ljósi gagna frá dönskum yfirvöldum. Kærandi kvaðst halda sig við fyrri frásögn sína hjá íslenskum stjórnvöldum þ.e.a.s. að hann sé frá Sómalíu. Aðspurður hvenær kærandi hafi flúið heimaríki svaraði kærandi árið 2015. Kærandi var þá beðinn að útskýra af hverju hann hafi sagt í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 14. nóvember 2018 að hann hafi flúið heimaríki sitt árið 2012. Kærandi svaraði að hann hafi yfirgefið bæinn sem hann fæddist í árið 2012 en hann hafi flúið bæinn […], þar sem kærandi hafi alist upp, árið 2015. Kærandi gerði eins og og áður hefur komið fram athugasemd um að ótækt sé að vera viss um að hverju spurning Útlendingastofnunar hafi lotið og því beri ekki að líta á framangreint sem ósamræmi í svörum kæranda. Við lestur á endurriti Útlendingastofnunar á viðtali kæranda við stofnunina telur kærunefnd allt benda til þess að stofnunin hafi verið að spyrja kæranda hvenær hann hafi yfirgefið heimaríki sitt. Umrædd röð atburða sem kærandi nefnir í viðtalinu lýtur að atburðum sem kærandi hefur haldið fram að hafi átt sér stað í bænum […], þar sem kærandi hafi búið ásamt frænda sínum og fjölskyldu, en kærandi minnist ekki á að hann hafi yfirgefið bæinn þar sem hann hafi fæðst í fyrrgreindri frásögn.

Svör kæranda við spurningum um hvenær frændi kæranda hafi verið myrtur voru mjög á reiki. Fyrst sagði hann að hann hefði verið 10 ára þegar frændi hans dó en síðan 15 ára. Þegar honum hafi verið bent á að hann hafi, samkvæmt fæðingardegi sem hann gaf sjálfur um, verið 15 ára gamall árið 2016, en að hann hafi sagt fyrr í viðtalinu að hann hafi yfirgefið Sómalíu árið 2015, breytist framburður kæranda aftur. Framburður kæranda fyrir kærunefnd um röð atburða var mjög óstöðugur og nokkuð misræmi var á milli þess sem fram kom hjá Útlendingastofnun og kærunefnd. Að mati kærunefndar var frásögn kæranda af þeim atburðum sem tengjast andláti ætlaðs frænda hans ótrúverðug og verður því ekki byggt á henni í þessu máli.

Aðspurður hvort sonur frænda kæranda sé á lífi svaraði kærandi því neitandi, en hann hafi dáið 14 ára að aldri þegar hann hafi ætlað að hefna dauða föður síns. Aðspurður hvort kærandi hafi verið 15 ára þegar þetta hafi átt sér stað svaraði kærandi því játandi. Aðspurður hvort kærandi hafi þegar flúið Sómalíu þegar þetta hafi átt sér stað svaraði kærandi því einnig játandi. Framangreind frásögn fær ekki stuðning í greinargerð kæranda en þar heldur kærandi því fram að hann hafi þurft að flýja og fela sig í holu í tvo daga án matar eftir að sonur frænda kæranda hafi verið myrtur. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 14. nóvember 2018 kvað kærandi að bæði frændi hans og sonur hafi verið myrtir og hafi kærandi því dvalið einn í Sómalíu. Þegar kærunefnd útskýrði fyrir kæranda að innbyrðis ósamræmi væri í tímaröð atburða sagði kærandi að sonur frænda síns hefði verið myrtur eftir að kærandi yfirgaf Sómalíu, ekki þegar kærandi var þar sjálfur.

Þá var kærandi spurður hvort hann hafi þekkt bróður sinn sem býr á Íslandi þegar kærandi hafi verið í Sómalíu og því svarar kærandi játandi. Kæranda var þá bent á að í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 14. nóvember 2018 hafi kærandi ekki sagst hafa þekkt bróður sinn þegar kærandi hafi búið í Sómalíu. Þessu svaraði kærandi að hann hafi haft samband við bróður sinn nokkrum sinnum í Sómalíu en að þeir hafi ekki verið í stöðugu sambandi. Framangreind frásögn kæranda er í ósamræmi við frásögn hans í viðtali hans hjá Útlendingastofnun, dags. 14. nóvember 2018, þar sem kærandi var spurður hvenær og hvernig kærandi hafi vitað að af bróður sínum á Íslandi. Þessu hafi kærandi svarað að hann hafi hitt mann á meðan hann hafi verið í Danmörku og þeir hafi komist að því að maðurinn hafi þekkt bróður kæranda á Íslandi. Maðurinn hafi svo aðstoðað kæranda við að hafa samband við bróður sinn á Íslandi. Að mati kærunefndar dregur misræmi í frásögn kæranda varðandi andlát sonar frænda kæranda sem og tengsl kæranda við bróður sinn á Íslandi enn frekar úr trúverðugleika kæranda.

Af ofangreindu er ljóst að frásögn kæranda hefur tekið talsverðum breytingum eftir því sem liðið hefur á meðferð máls hans hjá íslenskum stjórnvöldum. Verulegt misræmi hafi verið í henni og hún stangast á við gögn sem Útlendingastofnun aflaði m.a. frá dönskum stjórnvöldum. Þá hefur kærandi engin gögn fært fram sem þykja til þess fallin að styðja við frásögn hans af því að hann sé frá Sómalíu og eigi á hættu ofsóknir þar í landi. Það er því mat kærunefndar að framangreint misræmi í frásögn kæranda, skortur á vilja til samstarfs í ljósi gagna frá dönskum yfirvöldum sem samræmast ekki frásögn hans, skortur á gögnum til stuðnings öðrum þáttum frásagnar hans og framlagning falsaðra skjala, leiði til þess, heildstætt metið, að framburður hans um ástæður flótta teljist með öllu ótrúverðugur og verði ekki lagður til grundvallar í máli hans.

Í ljósi ofangreindra gagna verður byggt á því að kærandi sé ríkisborgari Eþíópíu. Ofangreind gögn um Eþíópíu bera með sér að öryggisástandið í heimahéraði kæranda, […], sé almennt tryggt og verði kærandi fyrir ofbeldi við endurkomu til heimaríkis eigi hann þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda. Þó að fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla í heimaríki kæranda sé að nokkru leyti ábótavant og spilling sé talsverð í landinu er það mat kærunefndar, með vísan til þeirra gagna sem nefndin hefur kynnt sér, að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í Eþíópíu geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn ofbeldi m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild, þ.m.t. mat á trúverðugleika frásagnar kæranda, er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu. Frekari skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þeim tilvikum koma fram í a- til d-lið 2. mgr. 74. gr. laganna en þau eru að tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd, ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er, ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda og að útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér landi þann 5. júlí 2017. Kærandi hefur ekki enn fengið niðurstöðu í máli sínu hjá kærunefnd útlendingamála. Frá því að kærandi hafi sótt fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi þar til úrskurður þessi er kveðinn upp, dags. 18. júlí 2019, eru liðnir rúmir 24 mánuðir. Kærandi telst því ekki hafa fengið niðurstöðu í máli sínu innan þeirra tímamarka sem getið er í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd komist að þeirri niðurstöðu að auðkenni kæranda sé ekki upplýst. Þá hefur kærandi ekki veitt aðstoð við úrlausn málsins, m.a. þar sem hann hefur ekki veitt viðhlítandi upplýsingar og skýringar á auðkenni sínu og uppruna og gefið rangar upplýsingar um aldur sinn og heimaríki. Þetta hafi meðal annars leitt til þess að tafir urðu á meðferð máls hans á meðan fram fór sérstök rannsókn á aldri hans, sbr. 3. mgr. 26. gr. og 113. gr. laga um útlendinga, og framkvæmt var tungumála- og staðarháttarpróf. Að mati kærunefndar eru skilyrði b- og d-liðar 2. mgr. 74. gr. því ekki uppfyllt.

Samkvæmt 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að víkja frá ákvæðum 3. mgr. greinarinnar en þar eru raktar nokkrar ástæður sem gætu útilokað veitingu dvalarleyfis á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laganna. Engin heimild er til að víkja frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur því ljóst að þar sem kærandi uppfylli ekki öll skilyrði 2. mgr. 74. gr. laganna sé ekki heimilt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með vísan til þess tíma sem mál hans hefur tekið.

Í ljósi niðurstöðu málsins er ekki ástæða til að fjalla um hvort þær útlokunarástæður sem raktar eru í 3. mgr. 74. gr. séu fyrir hendi.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 5. júlí 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 15 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Ívar Örn Ívarsson                                   Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta