Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 8/2023 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Landspítala

 

Ráðning í starf. Stjórnvald. Mismunun á grundvelli kyns. Mismunun á grundvelli aldurs. Fjölþætt mismunun. Fallist á brot.

A kærði ákvörðun L um að ráða konu í starf lyfjafræðings í lyfjaþjónustu á klínísku þjónustusviði á þeim grundvelli að honum hefði verið mismunað á grundvelli kyns og/eða aldurs. Talið var að leiddar hefðu verið líkur að því að kyn og aldur hefðu haft áhrif á ákvörðun L um ráðningu konunnar, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og 15. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Þá varð ekki séð miðað við þau gögn sem lágu fyrir í málinu að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hefðu legið til grundvallar ákvörðun L. Varð það niðurstaða kærunefndar að kærði hefði mismunað umsækjendum um starf á grundvelli kyns og aldurs, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 en kærði hefði ekki fært nein rök fyrir því að mismunun á grundvelli aldurs hefði verið réttlætanleg, sbr. 12. gr. laga nr. 86/2018. Þá var fallist á að kærði hefði gerst sekur um fjölþætta mismunun, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018. Var því talið að L hefði brotið gegn lögum nr. 150/2020 og lögum nr. 86/2018.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 5. júlí 2024 er tekið fyrir mál nr. 8/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 11. maí 2023, kærði A ákvörðun Landspítala um að ráða konu í starf lyfjafræðings í lyfjaþjónustu á klínísku þjónustusviði. Kærandi telur að kærði hafi með ráðningunni brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 12. júní 2023. Greinar­gerð kærða barst með bréfi, dags. 3. júlí s.á., ásamt fylgigögnum og var kynnt kæranda hinn 10. s.m. Athugasemdir kæranda eru dags. 24. júlí og 5. september og athugasemdir kærða 8. ágúst og 19. september 2023. Með tölvupósti 3. júní 2024 óskaði kærunefndin eftir staðfestingu kærða á því að nefndinni hefðu borist öll gögn sem vörðuðu ráðninguna. Með tölvupósti kærða sama dag tiltók kærði hvaða gögn hann hefði sent nefndinni auk þess að taka fram að hann teldi sig hafa sent þau gögn sem máli skiptu. Með tölvupósti daginn eftir óskaði kærunefnd eftir upplýsingum um það hvort fyrir lægju minnispunktar úr viðtölum. Svar kærða barst með tölvupósti 11. júní s.á. þar sem hann staðfesti að engir minnispunktar úr viðtölunum væru til. Var afrit af þessum samskiptum sent kæranda til upplýsingar 19. s.m.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kærði auglýsti starf lyfjafræðings í lyfjaþjónustu á klínísku þjónustusviði laust til umsóknar með auglýsingu sem birtist 6. júlí 2022 á Starfatorgi, Alfreð, Facebook og heimasíðu kærða. Í auglýsingunni kom m.a. fram að lyfjaþjónusta væri að leita að öflugum lyfjafræðingum með sterka þjónustulund og færni til að móta nýtt verklag í samstarfi við aðra lyfjafræðinga sem og aðrar fagstéttir, væru sveigjanlegir, framsæknir og tilbúnir að takast á við verkefni í mótun. Tekið var fram að helstu verkefni myndu taka mið af reynslu og menntun þess sem yrði ráðinn. Jafnframt var tekið fram að lyfjaþjónusta væri stöðugt að þróa starfsemi sína til að bæta lyfjaöryggi og lyfjaumsýslu hjá kærða en þar starfi um 40 lyfjafræðingar í fjölbreyttum verkefnum. Mikil framþróun væri að eiga sér stað og undirbúningur hafinn við að móta verkferla og efla þjónustustig. Helstu verkefni og ábyrgð voru tiltekin sem viðtöl við sjúklinga og skráning lyfjanotkunar, samskipti við lyfjaskömmtunarfyrirtæki og aðrar deildir sjúkrahússins, vinnsla og skráning fyrirspurna, símsvörun og ráðgjöf í eitrunarmiðstöð, verkefni innan klínískrar lyfjaþjónustu, þátttaka í uppbyggingu gæðakerfis og önnur tilfallandi verkefni. Hæfniskröfur voru tilgreindar sem íslenskt starfsleyfi sem lyfjafræðingur, skipulögð, nákvæm og öguð vinnubrögð, afbragðssamskiptahæfni og sveigjanleiki, góð íslensku- og tölvukunnátta og að vera öflugur liðsmaður með jákvætt viðmót. Fram kom að tekið væri mið af jafnréttisstefnu kærða við ráðningar hjá kærða.
  5. Tvær umsóknir bárust um starfið, annars vegar frá kæranda sem er karl og hins vegar frá konu. Voru þau bæði boðuð til viðtals við tvo stjórnendur hjá kærða en að viðtölunum loknum var konunni boðið starfið sem hún þáði.
  6. Kæranda var tilkynnt að búið væri að ráða í starfið með tölvupósti kærða 29. september 2022. Að beiðni kæranda var hann upplýstur með tölvupósti 13. október s.á. um hver hefði verið ráðinn og á hverju sú niðurstaða hefði verið byggð. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi 9. nóvember 2022 og aðgangi að gögnum málsins 27. janúar 2023. Umrædd gögn og rökstuðningur bárust kæranda með bréfi, dags. 16. mars 2023.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  7. Kærandi telur að kærði hafi mismunað honum bæði á grundvelli kyns og aldurs við ráðningu í starf lyfjafræðings og þar með hafi hann sætt fjölþættri mismunun. Hafi kærði með því brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  8. Kærandi bendir á að í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verði ráðning í opinbert starf að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum á borð við starfsreynslu, menntun og hæfni sem sé talin skipta máli við rækslu starfans. Þá sé málefnalegt að líta til persónulegra eiginleika umsækjenda, t.d. hæfni í mannlegum samskiptum eða frammistöðu í viðtali.
  9. Kærandi telur að ómálefnalegar ástæður hafa leitt til þess að hann hafi ekki verið ráðinn í starfið. Hann hafi verið hæfasti umsækjandinn en sé af öðru kyni og töluvert eldri en konan sem var ráðin. Hann sé með áratugs reynslu sem lyfjafræðingur og sem lyfsöluleyfishafi um tíma, hafi reynslu af því að geta flakkað á milli ólíkra apóteka án aðlögunar, auk þess sem hann hafi lokið diplómagráðu í viðskiptafræði. Hafi kærði gert lítið úr reynslu hans og getu með því að ráða nýútskrifaða konu úr lyfjafræði í starfið. Sé augljóst að menntun hans og reynsla hafi ekki verið metin að verðleikum en hlutlægt séð hafi hann verið hæfasti umsækjandinn. Ekki hafi verið færð fullnægjandi rök fyrir því með hvaða hætti konan stóð honum framar, sérstaklega með tilliti til þess að verulegur kynjahalli sé hjá kærða.
  10. Kærandi telur starfsreynslu almennt eiga að vega þungt við ákvörðun um ráðningu í sérfræðistarf líkt og starf lyfjafræðings. Mat stjórnvalds á upplýsingum og gögnum máls verði samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar að vera forsvaranlegt en kærandi hafi hlutlægt verið vanmetinn í samanburði við konuna sem var ráðin. Kærandi bendir á að starfsreynsla konunnar sem lyfjafræðinemi í sumarstarfi hjá kærða og stutt reynsla hennar sem lyfjafræðingur í apóteki geti ekki vegið þungt í samanburði við reynslu kæranda enda hafi starfið átt að varða lyfjafræðilega þjónustu frekar en vinnu í apóteki. Þá liggi fyrir að konan hafi fengið útgefið starfsleyfi í upphafi árs 2022 og verið ráðin í starfið sjö mánuðum síðar. Standi kærandi því framar konunni varðandi hina faglegu þætti þjónustunnar.
  11. Kærandi tekur fram að hann uppfylli allar þær kröfur sem gerðar séu í auglýsingu sem taldar eru upp í rökstuðningi kærða fyrir ráðningunni, auk þeirra sem þar eru ekki taldar og sem komu m.a. fram í texta auglýsingarinnar. Kærandi telur að takmarkaður og ófullnægjandi rökstuðningur kærða, sem hafi komið allt of seint án nokkur skýringa, hafi ekki verið í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá endurspegli rökstuðningurinn hin huglægu og kynbundnu sjónarmið sem kærandi telur ákvörðunina hafa byggst á. Hafi komið fram að kærði hafi byggt ákvörðunina á frammistöðu umsækjenda í viðtali og fyrri reynslu. Hafi konan verið talin hafa staðið sig betur í viðtali, auk þess að hafa sýnt af sér gott viðmót, áhuga og metnað sem þótti til marks um að hún kæmi til með að falla betur að þeim markmiðum sem fram kæmu í auglýsingu. Hvergi fáist þó séð hvernig þessi atriði hafi verið metin út frá sjónarhóli kæranda og því vart hægt að leggja slíka þætti til grundvallar mati á umsækjendum. Bendir kærandi á að hann hafi ekki fengið upplýsingar um það hvort haft hafi verið samband við umsagnaraðila hans.
  12. Kærandi bendir á að góð frammistaða í viðtali eins umsækjanda eigi ekki að geta leitt til þess að litið verði framhjá starfsreynslu og menntun annars umsækjanda. Þrátt fyrir að heimilt sé að líta til persónulegra eiginleika umsækjenda og frammistöðu í viðtali getur verið óforsvaranlegt að byggja mat á umsækjendum nær eingöngu á huglægum atriðum og líta framhjá hlutlægum atriðum, svo sem starfsreynslu. Bendir kærandi í þessu sambandi á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6614/2011.
  13. Kærandi bendir á að hinn fyrirfram skilgreindi viðtalsrammi hafi ekki byggst á hæfniskröfum sem fram komu í auglýsingu. Þá bendir hann á að sá munur sem hafi verið á honum og konunni við stigagjöf í viðtalinu hafi verið innan við 1,5 stig en sá munur geti ekki bætt úr þeim mikla mun sem sé á reynslu þeirra. Kærandi bendir á að jafnvel þótt viðtölin hafi verið stöðluð, tekið jafn langan tíma og með sömu spurningum, hafi matið ekki verið fordómalaust. Þannig geti huglægt mat tveggja kvenna sem tóku viðtöl við kæranda og ungu konuna sem hafði unnið hjá kærða í tvö sumur ekki haft úrslitavægi við ákvörðunina. Vekur hann athygli á því að spurningar í matsrammanum hafi verið í kvenkyni, þvert á íslenska málhefð og málfræðilegt kyn, en ekki í öllum kynjum til að gæta jafnræðis.
  14. Kærandi telur að menntun hans í viðskiptafræði hafi getað verið til gagns í umræddu starfi en sem dæmi bendir hann á áfanga sem hann hafi lokið í náminu eins og stjórnun og skipulagsheildir, tölvunotkun og töflureiknir, rekstrarstjórnun og markaðsfærsla þjónustu. Eins hafi fagleg sviðslistaþjálfun með fágun í framkomu og háttum, góðum framburði og tjáningu komið sér vel í samskiptum við mismunandi sjúklinga og viðskiptavini í gegnum tíðina.
  15. Kærandi telur ekki standast að ætla nýútskrifuðum lyfjafræðingi með enga reynslu að vera jafn hæfur eða hæfari öðrum með reynslu sem lyfsöluleyfishafa og kynni af mörgum útfærslum í tengslum við gæðamál. Bendir kærandi á að starf lyfjafræðings við lyfjaafgreiðslu og lyfjaþjónustu sé í ýmsu líkt milli staða hvar sem hún fer fram. Furðar kærandi sig á því að það hafi verið talið konunni til tekna að hún stefni á frekara nám og ætli sér aðeins að sinna starfinu til skamms tíma.
  16. Kærandi bendir á að kærði sé að mestu kvennavinnustaður. Ljóst sé að það halli á karla þegar komi að ráðningu í störf lyfjafræðinga þar sem stéttin sé í seinni tíð talin kvennastétt enda útskrifist fleiri konur en karlar úr lyfjafræði, fleiri konur séu félagsmenn í Lyfjafræðingafélagi Íslands samkvæmt upplýsingum frá árinu 2018, auk þess sem fram komi í rannsókn frá sama ári að hlutfall karlkyns lyfjafræðinga sem starfi á sjúkrahúsi sé lágt. Telur kærandi að þetta hafi haft áhrif á ráðningarferlið. Bendir kærandi á að dæmi kærða um að þrír karlkyns lyfjafræðingar hafi verið ráðnir á sviðið síðastliðin tvö ár sé handvalið enda liggi ekki fyrir hversu margar konur hafi verið ráðnar á sama tímabili. Þá séu engin gögn lögð fram sem staðfesti þessar staðhæfingar.
  17. Kærandi bendir á að þar sem hann sé töluvert eldri en konan sem var ráðin séu líkur á því að honum hafi verið mismunað á grundvelli aldurs. Þekkt sé að eldri umsækjendum sé mismunað á vinnumarkaði og eigi erfiðara með að útvega sér vinnu en yngri umsækjendum.
  18. Kærandi telur að hann hafi leitt líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns og aldurs við ráðninguna enda hafi kærði veigrað sér við að greina frá raunverulegum ástæðum ráðningarinnar og vanmetið hann í samanburði við konuna, a.m.k. varðandi menntun og starfsreynslu sem teljast til hlutlægra hæfniskrafna. Bendir kærandi í þessu sambandi á úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 17/2020. Hafi kærði því ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kyn og aldur hafi legið til grundvallar ákvörðun hans og því brotið ákvæðum laga nr. 150/2020 og nr. 86/2018.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  19. Kærði telur að ekki hafi verið leiddar líkur að því að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns eða aldurs við ráðningu í starf lyfjafræðings. Þannig hafi ekki verið brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, eða lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  20. Kærði tekur fram að tveir stjórnendur kærða, annars vegar yfirlyfjafræðingur og hins vegar rekstrarstjóri sjúkrahúsapóteks spítalans, hafi annast viðtöl við þá tvo umsækjendur sem sóttu um starfið. Báðir umsækjendur hafi verið taldir uppfylla hlutlægar kröfur auglýsingarinnar og því boðaðir til viðtals. Viðtölin voru stöðluð, tóku jafn langan tíma og sömu spurningar voru lagðar fyrir báða umsækjendurna. Á grundvelli mats á frammistöðu í viðtölunum var umsækjendunum veitt stig í mats­ramma sem var fyrirfram skilgreindur og byggður á hæfniskröfum sem fram komu í auglýsingu. Að loknum viðtölum hafi það legið fyrir að báðir matsaðilar höfðu veitt konunni fleiri stig en kæranda. Deildarstjóri lyfjaþjónustu og framkvæmdastjóri þjónustusviðs kærða hafi eftir að hafa kynnt sér málið, þ.m.t. umsóknir og niðurstöður matsaðila, ákveðið að bjóða konunni starfið enda hafi hún verið talin hæfasti umsækjandinn.
  21. Kærði telur að hann hafi uppfyllt kröfur 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rökstuðning í bréfi til kæranda frá 16. mars 2023 þar sem hann hafi fært rök fyrir ráðningu konunnar sem varð fyrir valinu í starfið. Eins og þar komi fram hafi ákvörðun hans um ráðningu í starfið verið byggð á þeirri reglu stjórnsýsluréttar að ráða beri hæfasta umsækjandann. Mat á hæfni umsækjenda hafi verið byggt á innsendum gögnum, umsögnum og viðtölum við umsækjendur. Þar sem báðir umsækjendur hafi verið taldir uppfylla hlutlæg skilyrði auglýsingar út frá innsendum gögnum hafi því verið ljóst að starfsviðtöl kæmu til með að hafa verulegt vægi við mat á öðrum hæfniskröfum auglýsingar. Í starfsviðtali hafi bæði verið spurð um hefðbundin almenn atriði en einnig fjölmörg fagleg atriði varðandi þekkingu og reynslu sem gerð var krafa um í auglýsingu. Hafi það verið afstaða matsaðila að konan hafi staðið sig betur í viðtalinu, auk þess að sýna af sér gott viðmót, áhuga og metnað sem þótti til marks um að hún kæmi til með að falla vel að þeim markmiðum sem fram komu í auglýsingu. Hafi þessi sjónarmið verið lögð til grundvallar ráðningu hennar í starfið.
  22. Kærði tekur fram að jafnvel þótt kærandi hafi starfsreynslu sem lyfjafræðingur í apótekum og í fleiri störfum, þ.m.t. „að geta flakkað á milli ólíkra apóteka án aðlögunar“, hafi ekki verið gerð krafa um slíka hæfni og/eða starfsreynslu í auglýsingu um starfið. Bendir kærði á að starfsumhverfið hjá kærða sem jafnframt sé háskólasjúkrahús sé í ýmsu frábrugðið þeim vinnustöðum sem tilgreindir eru í starfsferilsskrá kæranda. Hjá kærða starfi um 50 lyfjafræðingar, þar af um 30 í um 23 stöðugildum á þeirri rekstrareiningu sem málið varðar. Stjórnendur á slíkum vinnu­stöðum hljóti að horfa til heildarinnar við ákvörðun um starfslýsingar einstakra starfa. Starfsumhverfið sé fjarri því að vera einsleitt enda gegnir kærði lykilhlutverki í heilbrigðiskerfinu sem langstærsta sjúkrahús landsins, háskólasjúkrahús og lifandi og fjölbreyttur vinnustaður.
  23. Kærði bendir á að í 5. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 komi fram að við mat á því hvort um mismunun sé að ræða skuli tiltekin menntun og starfsreynsla því aðeins hafa vægi að gerð sé krafa um slíkt í viðkomandi starfi. Í auglýsingu um starfið hafi hvorki verið gerð krafa um né talið sem sérstakur kostur að umsækjendur hefðu menntun umfram lyfjafræðimenntun né starfsleyfi á sviði lyfjafræði. Önnur menntun kæranda í viðskiptafræði og sviðslistum sé auk þess á öðrum og óskyldum sviðum og geri hann ekki hlutlægt hæfari til að sinna hinu auglýsta starfi lyfjafræðings. Bendir kærði á að aðstæður í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6614/2011 og úrskurði kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 17/2020 sem kærandi vísar til hafi verið gjörólíkar þessu máli. Í fyrrnefnda málinu hafi verið tiltekið í auglýsingu að framhaldsmenntun væri æskileg, auk þess sem gerð hafi verið krafa um tiltekna starfsreynslu. Í síðara málinu hafi tilteknir hlutlægir þættir varðandi menntun og þekkingu og/eða reynsla verið sérstaklega tilgreindir í auglýsingu sem kostur eða æskilegir.
  24. Kærði tekur fram að ábendingar kæranda um kynjahlutföll hjá kærða eigi við rök að styðjast, enda séu konur nálægt 83% af heildarfjölda lyfjafræðinga, sem sé ekki fjarri kynjahalla á spítalanum í heild. Hins vegar mótmælir kærði því að karlar hafi ekki sömu tækifæri og konur þegar komi að mati á hæfni og vali á milli umsækjenda um störf hjá kærða. Þótt fleiri konur sæki jafnan um laus störf á spítalanum fari því fjarri að karlar séu sniðgengnir á nokkurn hátt, sbr. að þrír karlkyns lyfjafræðingar hafi verið ráðnir til starfa á klínísku þjónustusviði á síðastliðnum rúmum tveimur árum. Eftir sem áður beri kærða að velja hæfasta umsækjandann og sé honum því óheimilt, þrátt fyrir nefndan kynjahalla, að ráða karl í starf sem hæfari kona sækir um. Reynir því ekki á jafnréttissjónarmið með þeim hætti sem kærandi virðist ganga út frá þegar einn umsækjenda reynist hæfari en aðrir líkt og í máli þessu.
  25. Kærði bendir á að ekkert annað en aldur kæranda og konunnar liggi því til grundvallar hjá kæranda að hann telji að sér hafi verið mismunað á grundvelli aldurs við ráðninguna. Tekur kærði fram að kærandi sé nálægt meðalaldri lyfjafræðinga sem starfa hjá kærða sem er um 42 ár. Sjónarmið og rök sem fram koma í kæru um aldursmismunun séu því langsótt og sé þeim alfarið hafnað af þeirri ástæðu að kærandinn sé sjálfur mun nær meðalaldri hópsins sem um ræðir og stjórnendum sem málið varðar.
  26. Kærði telur að ákvörðun um að ráða konuna hafi verið lögmæt enda hafi hún verið hæfust umsækjenda. Ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli heildstæðs mats á gögnum og upplýsingum sem lágu fyrir. Kærði telur sig hafa sýnt fram á að sá málflutningur kæranda að hann hafi verið hæfari vegna aldurs, lengri starfsreynslu og menntunar eigi ekki við rök að styðjast þar sem ekki hafi verið gerðar kröfur um slíkt í auglýsingu um starfið. Bendir kærði á að báðir umsækjendur hafi uppfyllt hlutlæg skilyrði en konan hafi uppfyllt aðrar kröfur betur en kærandi og staðið sig betur í starfsviðtali. Samtöl við umsagnaraðila hafi ekki haft áhrif á heildstætt mat kærða á hæfni umsækjendanna.
  27. Kærði telur að þegar litið sé til málsins í heild hafi kærandi ekki leitt líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns eða aldurs við ákvörðun um ráðningu í starfið. Hafi þannig ekki verið brotið á réttindum hans samkvæmt lögum nr. 86/2018.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  28. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og/eða 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með ráðningu konu í starf lyfjafræðings í lyfjaþjónustu á klínísku þjónustusviði.
  29. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Í 2. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að markmið laganna er að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr., þ.e. kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar aðgengi að störfum, þ.m.t. við ráðningar.
  30. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og laga um jafna meðferð á vinnumarkaði, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  31. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í það starf sem um ræðir í málinu hjá kærða.
  32. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  33. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli þeirra þátta sem taldir eru upp í 1. mgr. 1. gr. Samkvæmt sönnunarreglu í 15. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda um starf sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli aldurs. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en aldur hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Er því um sams konar sönnunarreglu að ræða og í 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Kemur það því í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að aldur hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í máli þessu. Þá takmarkast endurskoðun kærunefndar af sambærilegum þáttum og þegar um kyn er að ræða, sbr. það sem áður er nefnt. Hér ber einnig að hafa í huga að samkvæmt 12. gr. laga nr. 86/2018 telst mismunandi meðferð vegna aldurs ekki brjóta gegn lögunum séu færð fyrir henni málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði, þ.m.t. stefnu í atvinnumálum eða öðrum markmiðum er varða vinnumarkað, enda gangi slíkar aðgerðir ekki lengra en nauðsynlegt er talið til að ná því markmiði sem stefnt er að. Er frávik frá banni við mismunandi meðferð á grundvelli aldurs því heimilað að uppfylltum framangreindum skilyrðum.
  34. Í auglýsingu um starf lyfjafræðings í lyfjaþjónustu á klínísku þjónustusviði kærða kom fram að helstu verkefni og ábyrgð væru viðtöl við sjúklinga og skráning lyfjanotkunar, samskipti við lyfjaskömmtunarfyrirtæki og aðrar deildir sjúkrahússins, vinnsla og skráning fyrirspurna, símsvörun og ráðgjöf í eitrunarmiðstöð, verkefni innan klínískrar lyfjaþjónustu, þátttaka í uppbyggingu gæðakerfis og önnur tilfallandi verkefni. Sérstaklega var tekið fram að helstu verkefni myndu taka mið af reynslu og menntun þess sem yrði ráðinn. Þá voru hæfniskröfur tilgreindar sem íslenskt starfsleyfi sem lyfjafræðingur, skipulögð, nákvæm og öguð vinnubrögð, afbragðssamskiptahæfni og sveigjanleiki, góð íslensku- og tölvukunnátta og að vera öflugur liðsmaður með jákvætt viðmót.
  35. Í málinu liggur fyrir að báðir umsækjendur voru taldir uppfylla hlutlæg skilyrði auglýsingar um menntun og starfsreynslu og því boðaðir til viðtals við tvo yfirmenn hjá kærða, yfirlyfjafræðing og rekstrarstjóra sjúkrahúsapóteks. Í kjölfarið var það niðurstaða deildarstjóra lyfjaþjónustu og framkvæmdastjóra þjónustusviðs kærða, að loknu heildarmati á gögnum og upplýsingum sem lágu fyrir í málinu, að konan hafi verið hæfust umsækjenda. Hefur kærði gert grein fyrir því að ljóst hafi verið að viðtölin kæmu til með að hafa verulegt vægi við mat á öðrum hæfniskröfum auglýsingar. Þar hafi bæði verið spurt um hefðbundin almenn atriði en einnig fjölmörg fagleg atriði varðandi þekkingu og reynslu sem gerð var krafa um í auglýsingu. Hafi það verið afstaða þeirra sem tóku viðtölin að konan hafi staðið sig betur, auk þess að hafa sýnt af sér gott viðmót, áhuga og metnað sem þótti til marks um að hún kæmi til með að falla vel að þeim markmiðum sem fram komu í auglýsingu. Hafi þessi sjónarmið verið lögð til grundvallar ráðningu hennar í starfið en ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli heildstæðs mats á fyrirliggjandi gögnum.
  36. Meðal gagna málsins er matsrammi sem notaður var í viðtölunum. Hefur kærði lýst því að matsramminn hafi verið fyrirfram skilgreindur og byggður á hæfniskröfum sem komu fram í auglýsingu. Þá hafi verið um að ræða stöðluð viðtöl þar sem sömu spurningarnar hafi verið lagðar fyrir báða umsækjendurna. Samkvæmt mats­rammanum voru umsækjendum gefin stig á bilinu 0–5 fyrir hvern þátt sem spurt var um. Konan fékk samtals fleiri stig að meðaltali en kærandi frá báðum starfsmönnum kærða, samtals 7, 96 stig en kærandi 6,50 stig. Engin frekari gögn liggja fyrir úr viðtalinu eins og minnispunktar um viðmót umsækjenda eða skráning á svörum þeirra við einstökum spurningum sem ákvörðunin var byggð á. Fyrir liggur að ákvörðun um ráðningu tóku aðrir starfsmenn en þeir sem tóku viðtöl við umsækjendur. Höfðu þeir sem tóku ákvörðun um ráðningu því engar skriflegar upplýsingar um frammistöðu umsækjenda í viðtali, fyrir utan stigagjöf í matsramma, eða svör þeirra við einstaka spurningum. Það sama á við um upplýsingar úr umsögnum umsagnaraðila en kærði hefur tekið fram að samtöl við umsagnaraðila hafi ekki haft áhrif á heildstætt mat hans á hæfni umsækjenda. Bendir kærunefndin í þessu sambandi á að að kærða ber samkvæmt 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 að skrá upplýsingar um málsatvik sem veittar eru munnlega eða viðkomandi fær vitneskju um með öðrum hætti ef þær hafa þýðingu fyrir úrlausn máls og er ekki að finna í öðrum gögnum þess. Sama á við um helstu forsendur ákvarðana, enda komi þær ekki fram í öðrum gögnum málsins.
  37. Af framangreindu verður ekki dregin önnur ályktun en að niðurstaða í matsramma um frammistöðu í viðtölum hafi ráðið niðurstöðu um val á hæfasta umsækjandanum og hafi sá þáttur því verið ráðandi við hæfnismatið sem slíkt. Þannig hefur kærði byggt á á því í svörum sínum til kærunefndar að menntun og starfsreynsla hafi ekki verið þáttur í heildarmatinu enda hefur kærði vísað til þess að um hafi verið að ræða hlutlæg skilyrði til þess að geta talist hæfur í starfið.
  38. Af þessu tilefni er rétt að benda á að í gögnum málsins liggja fyrir tölvupóstsamskipti starfsmanns kærða og kæranda vegna ákvörðunar um ráðningu í starfið í september og október 2022. Í svari starfsmanns kærða, dags. 13. október 2022, við fyrirspurn kæranda um það hversu margir umsækjendur hefðu sótt um starfið, hver hafi verið ráðinn og um rökstuðning fyrir ráðningunni segir: „Fyrir þessa ráðningu voru tveir lyfjafræðingar teknir í viðtal. Viðtalið hjá hvorum einstaklingi er byggt upp á sama hátt þannig að tíminn er sá sami og spurningar til viðmælanda eru þær sömu. Lagt er mat á svör einstaklinga. Byggt á frammistöðu í viðtali og fyrri reynslu þá var ákveðið að ráða [konuna] en hún hefur áður unnið í sjúkrahúsapóteki.“ Samkvæmt þessu gætir misræmis í svörum kærða hvað varðar mat á starfsreynslu. Með vísan til framan­greinds svars verður ekki hjá því komist að líta svo á að að kærði hafi litið til fyrri reynslu við ákvörðun um ráðninguna. Óháð því bendir kærunefndin á að þar sem ekki er í lögum mælt fyrir um þá þætti sem ráðning í starf skuli byggja á sé það kærða að ákveða þær kröfur sem hann gerir til starfans í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegar til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni stofnunar­innar að leiðarljósi. Þetta svigrúm kærða takmarkast við að þær séu málefnalegar.
  39. Eins og áður segir hefur kærði byggt á því að heildarmat hafi farið fram á gögnum málsins og frammistöðu í viðtali. Á hinn bóginn liggja engin gögn fyrir um hvernig slíkt mat hafi farið fram, þ.m.t. val á hæfasta umsækjandanum. Nægir ekki eitt og sér að vísa til niðurstöðu stigagjafar í matsramma þar sem konan fékk hærri stig en kærandi þegar engra gagna nýtur við um svör eða frammistöðu umsækjenda í viðtali. Í samræmi við það verður ekki hjá því komist að fallast á að leiddar hafi verið líkur að því að mismunun á grundvelli kyns og aldurs hafi haft áhrif á ákvörðun kærða um að ráða konuna, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. laga nr. 86/2018. Samkvæmt því kemur það í hlut kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn og aldur hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
  40. Kærði hefur gert grein fyrir því að ekkert mat fór fram á menntun kæranda og starfsreynslu þar sem litið var svo á að um hafi verið að ræða hlutlæg skilyrði sem báðir umsækjendur hafi uppfyllt. Hefur kærði vísað til þess að í auglýsingu um starfið hafi hvorki verið gerð krafa né talinn sérstakur kostur að umsækjendur hefðu menntun umfram lyfjafræðimenntun eða lengri starfsreynslu. Hér ber að hafa í huga að kærandi hafði starfað mun lengur sem lyfjafræðingur en konan sem hafði nokkurra mánaða starfsreynslu sem lyfjafræðingur.
  41. Eins og áður greinir liggja engar skráningar fyrir um svör eða frammistöðu umsækjenda í viðtölum fyrir utan stigagjöf í matsramma. Liggja því hvorki fyrir gögn um svör umsækjenda við einstökum spurningum né um að konan hafi sýnt af sér gott viðmót, áhuga og metnað sem hafi þótt til marks um að hún kæmi til með að falla vel að þeim markmiðum sem fram komu í auglýsingu sem kærði tiltók sérstaklega að byggt hafi verið á við val á hæfasta umsækjandanum. Þá verður í ljósi þeirrar áherslu sem kærði lagði á frammistöðu og svör í viðtali við ákvörðun um ráðningu í starfið ekki annað séð en að kærða hafi borið að skrá svör og frammistöðu umsækjenda í viðtölum sem hann grundvallaði endanlega ákvörðun sína á, sbr. fyrrnefnt ákvæði 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga. Í ljósi alls framangreinds og þess að ekki verður séð að heildarmat hafi farið fram á þeim þáttum sem lágu til grundvallar ákvörðun kærða verður ekki hjá því komist að telja að ákvörðun kærða hafi hvorki verið málefnaleg né forsvaranleg.
  42. Að öllu þessu virtu verður ekki séð að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða um ráðningu í umrætt starf lyfjafræðings. Samkvæmt því verður að telja að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn og aldur hafi legið til grundvallar fyrrnefndri ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 15. gr. laga nr. 86/2018.
  43. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi mismunað umsækjendum um starf lyfjafræðings lyfjaþjónustu á klínísku þjónustusviði á grundvelli kyns og aldurs, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018. Hefur kærði ekki fært nein rök fyrir því að mismunun á grundvelli aldurs hafi verið réttlætanleg, sbr. 12. gr. laga nr. 86/2018. Þá verður fallist á að kærði hafi gerst sekur um fjölþætta mismunun, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 150/2020 og 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Landspítali, braut gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ráðningu í starf lyfjafræðings í lyfjaþjónustu á klínísku þjónustusviði.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta