Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 120/2013

Fimmtudaginn 7. nóvember 2013

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 31. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 19. júlí 2013, þar sem kröfu kæranda um að greiðslu að fjárhæð 804.815 krónur, sem B og C fengu í hendur á greiðsluaðlögunartímabili, yrði ráðstafað til kröfuhafa í heild var synjað. Hins vegar var fallist á að hluta fjárhæðarinnar, 260.000 krónum, yrði ráðstafað til kröfuhafa í eingreiðslu.  

Með bréfi 9. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 23. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. september 2013 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 18. september 2013. 

Greinargerð kæranda var send umboðsmanni skuldara til umsagnar með bréfi 23. september 2013. Athugasemdir umboðsmanns skuldara bárust með bréfi 30. september 2013.

 

I. Málsatvik

Með bréfi kæranda til umboðsmanns skuldara 6. júní 2013 var þess krafist með vísan til 1. mgr. 25. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), að samningi skuldara yrði breytt í samræmi við betri fjárhagsstöðu þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar. Í bréfi kæranda kemur fram að greiðsluaðlögunarsamningur sem komst á 27. mars 2012 hefði verið til tveggja ára og aðilar hans fengju 90% eftirgjöf skulda á samningskröfum í lok greiðsluaðlögunar.

Ein krafa sem greiðsluaðlögunarsamningurinn tók til var vegna bílasamnings. Þann 28. maí 2013 barst skuldurum tilkynning um að sú krafa hefði verið endurreiknuð þar sem um ólögmætt gengistryggt lán hefði verið að ræða og fengu skuldarar endurgreiðslu að fjárhæð 804.215 krónur. A krafðist þess að greiðsluaðlögunarsamningi skuldara yrði breytt þannig að endurgreiðslunni yrði skipt að fullu milli lánardrottna skuldara en samningur héldist óbreyttur að öðru leyti.

Umboðsmaður skuldara sendi skuldurum bréf 2. júlí 2013 þar sem þeim var gefið færi á að koma athugasemdum á framfæri. Í svari þeirra kom fram að þau hefðu þurft að leggja út 172.500 krónur vegna tannlæknakostnaðar. Einnig væri fyrirsjáanlegt að annað þeirra þyrfti að gangast undir töluverðar tannviðgerðir en kostnaður vegna þeirra myndi nema 545.000 krónum samkvæmt kostnaðaráætlun tannlæknis.

Með tölvupósti 5. júlí 2013 svaraði umboðsmaður skuldara beiðni kæranda. Í tölvupóstinum kemur fram að þar sem málið sé komið í formlegan farveg samkvæmt 1. mgr. 25. gr., sbr. 26. gr. lge. sé umboðsmanni skuldara skylt að gæta andmælaréttar aðila málsins samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (ssl.) áður en formleg ákvörðun sé tekin. Það sé hins vegar mat umboðsmanns skuldara að við ákvörðun um það hvort úthluta eigi eingreiðslu í heild, að hluta eða alls ekki, beri að hafa hliðsjón af því hvort skuldarar hafi þurft að stofna til verulegra og nauðsynlegra útgjalda á greiðsluaðlögunartímabilinu umfram það sem samningur geri ráð fyrir eða hvort slík útgjöld séu fyrirsjáanleg. Umboðsmaður skuldara bendir á að skuldarar hafi lagt fram kostnaðaráætlun tannlæknis þar sem fram komi að annar skuldara þurfi að standa straum af töluverðum kostnaði vegna tannviðgerða og sé hann áætlaður 545.000 krónur. Þrátt fyrir þessi útgjöld, þyki að mati umboðsmanns skuldara ekki ástæða til að synja beiðni kæranda, enda ljóst að eingreiðslan hafi töluverð áhrif á fjárhag skuldara með hliðsjón af fjölskyldustærð þeirra, framfærslukostnaði og tekjum. Þannig þyki sú niðurstaða réttust að skuldarar haldi eftir 545.000 krónum til að mæta útgjöldum vegna tannviðgerða en að 225.000 krónur sé miðlað til kröfuhafa. Frestur var veittur til að bregðast við efni málsins með vísan til 13. gr. ssl.

Með tölvupóstum 9. og 11. júlí 2013 mótmælti kærandi afstöðu umboðsmanns skuldara í málinu. Sérstaklega mótmælti kærandi því að umboðsmaður hefði þegar tekið afstöðu til málsins án þess að gæta andmælaréttar.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. júlí 2013 synjaði umboðsmaður skuldara kröfu kæranda um að 804.215 krónum væri ráðstafað til kröfuhafa í heild sinni. Hins vegar var fallist á að 260.000 krónum væri ráðstafað til kröfuhafa samkvæmt 1. mgr. 25. gr. lge., sbr. 1. mgr. 26. gr. og 21. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði breytt á þann veg að 804.215 krónum verði ráðstafað til kröfuhafa í samræmi við 21. gr. lge. Til vara sé þess krafist að skuldurum verði gert að greiða 480.000 krónur til kröfuhafa af framangreindri fjárhæð.

Í kæru kemur fram að með bréfi 6. júní 2013 hafi kærandi krafist breytinga á samningi skuldara til greiðsluaðlögunar í samræmi við 1. mgr. 25. gr. lge. Að mati kæranda voru skilyrði ákvæðisins uppfyllt þannig að breyta bæri samningi skuldara til greiðsluaðlögunar þannig að 804.215 krónum yrði skipt milli kröfuhafa samkvæmt 1. mgr. 21. gr. lge., en samningur haldist óbreyttur að öðru leyti. Benti kærandi á að um verulega fjárhæð væri að ræða og nærri helmingi þeirrar fjárhæðar sem skuldarar greiða til samningskröfuhafa samkvæmt samningi sínum til greiðsluaðlögunar.

Þann 5. júlí 2013 hafi kæranda borist tölvupóstur frá starfsmanni umboðsmanns skuldara vegna málsins. Þar hafi starfsmaður embættisins lýst stöðu málsins ásamt því að reifa þau sjónarmið sem embættið liti til þegar teknar væru ákvarðanir í málum sem þessum, þ. á m. að hafa bæri hliðsjón af því „hvort skuldarar hafi þurft að stofna til verulegra og nauðsynlegra útgjalda á greiðsluaðlögunartímabilinu umfram það sem samningur gerir ráð fyrir eða hvort slík útgjöld séu fyrirsjáanleg“. Fram hafi komið að skuldarar hefðu lagt fram kostnaðaráætlun vegna dýrra tannviðgerða fyrir annan skuldara málsins. Því hefði svo verið lýst yfir að þrátt fyrir þetta teldi embættið að ekki væri tilefni til að synja beiðni kæranda heldur þætti „sú niðurstaða réttust að skuldarar héldu eftir 545.000 kr. til að mæta útgjöldum vegna tannviðgerða“ og að mismuninum yrði ráðstafað til kröfuhafa. Í kjölfarið hafi kæranda verið boðið að tjá sig skriflega um málið með vísan til 13. gr. ssl. Kærandi hafi komið athugasemdum á framfæri með tölvupósti 9. júlí 2013 og borist svar frá umboðsmanni skuldara samdægurs. Í svari umboðsmanns komi eftirfarandi fram: „Það er mat umboðsmanns skuldara, þrátt fyrir framkomnar athugasemdir A, að réttast sé að skuldarar haldi eftir 545.000 kr.“ Kæranda hafi síðan verið boðið að tjá sig skriflega um málið með vísan til 13. gr. ssl. Athugasemdir hans bárust samdægurs og var því mótmælt sérstaklega að þegar hefði verið tekin ákvörðun í málinu áður en allra gagna og sjónarmiða hefði verið aflað. Að mati kæranda færi slíkt í bága við góða og vandaða stjórnsýsluhætti og ákvæði stjórnsýslulaga. Í ljósi þess væri andmælaréttur kæranda aðeins til málamynda og í reynd lítils virði. Kæranda hafi síðan borist símtal frá starfsmanni umboðsmanns skuldara sem hafi óskað eftir að kærandi myndi veita frekari og ítarlegri rökstuðning en þegar hafði komið fram. Þann 11. júlí 2013 hafi kærandi sent ítarlegan rökstuðning fyrir kröfum sínum. Í kjölfarið hafi hin kærða ákvörðun borist 19. júlí 2013.

Rökstuðningur vegna aðalkröfu kæranda

Fram kemur í kæru að kærandi telji að skilyrði 1. mgr. 25. gr. lge. séu uppfyllt þar sem skuldarar hafi fengið í hendur háa fjárhæð og því beri að skipta henni milli kröfuhafa í samræmi við ákvæði 1. mgr. 21. gr. lge. Fjárhæðin sé eingreiðsla, sem nemi helmingi af þeim kröfum sem greiðist til kröfuhafa, og hljóti að vera há með hliðsjón af öllum málavöxtum. Þessu til stuðnings bendir kærandi á að endurheimtur þeirra kröfuhafa sem eigi samningskröfu og veðkröfur utan matsverðs myndu aukast sem nemi um það bil þriðjungi. Þá verði að telja að fjárhagur skuldara hafi batnað umtalsvert vegna eingreiðslunnar. Kærandi bendir einnig á að ráðstöfunartekjur skuldara samkvæmt staðfestum samningi til greiðsluaðlögunar séu 327.597 krónur á mánuði og því nemi fjárhæðin nærri þreföldum mánaðartekjum skuldara, auk þess sem hún nemi næstum áttfaldri þeirri fjárhæð sem skuldarar geti greitt af kröfum sínum á mánuði. Þá sé ljóst að umboðsmaður skuldara hafi þegar metið það svo að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt í málinu enda beri samkvæmt ákvörðun embættisins að skipta hluta eingreiðslunnar milli kröfuhafa.

Kærandi telur að önnur sjónarmið en fram komi í 1. mgr. 25. gr. lge. eigi ekki að komast að þegar ákvörðun sé tekin. Að mati kæranda hafi löggjafinn takmarkað þau sjónarmið sem líta megi til við töku ákvörðunar en fram komi í ákvæðinu sjálfu og eftir atvikum lögskýringargögnum. Því sé aðeins um matskennda stjórnvaldsákvörðun að ræða að því er varði þau sjónarmið sem sérstaklega séu greind í lagaákvæðinu en ekki umfram það. Lögákveðið sé því til hvaða sjónarmiða beri að líta. Í ljósi þess skorti lagastoð að hluta fyrir þeim sjónarmiðum sem umboðsmaður skuldara byggi ákvörðun sína á.

Kærandi bendir á að umboðsmaður skuldara telji að bera verði saman fjárhag skuldara eins og hann var þegar greiðsluaðlögun komst á við núverandi fjárhag. Kærandi vekur athygli á því að hann sjái um miðlun vegna samnings skuldara og hafi þau alltaf greitt af honum í samræmi við ákvæði hans. Þannig verði að telja að greiðsluaðlögunarsamningur skuldara hafi verið raunhæfur og eðlilegur miðað við fjárhag skuldara. Einnig sé rétt að líta til þess að samkvæmt upplýsingum frá umboðsmanni skuldara hafi skuldarar þegar greitt 170.000 krónur í tannlæknakostnað án þess að lenda í vanskilum með greiðsluaðlögunarsamninginn. Það sé því ekki stoð fyrir því sjónarmiði er komi fram í ákvörðun umboðsmanns að ekki hafi verið gert ráð fyrir þessum útgjöldum í greiðsluaðlögunarsamningi skuldara eða útgjöldin hafi verið þeim mjög þungbær umfram það sem eðlilegt sé, enda hafi þau þegar getað staðið straum af sambærilegum útgjöldum án þess að lenda í vanskilum með greiðsluaðlögunarsamninginn eða þurfa að sækja um breytingu á honum. Mat umboðsmanns að þessu leyti sé því rangt. Fjárhagur skuldara hafi í reynd batnað umtalsvert við að fá eingreiðsluna og þau hafi ekki þörf fyrir að halda eftir hluta greiðslunnar.

Mat umboðsmanns á fjárhag skuldara sé auk þess rangt. Í matið séu ekki dregin mikilvæg atriði eins og að samningur sé nú í skilum og að skuldarar hafi þegar stofnað til útgjalda vegna tannlæknakostnaðar fyrir 170.000 krónur. Í matið séu hins vegar dregin sjónarmið sem kærandi telur að fái ekki staðist og sé í reynd ólögmætt að líta til þegar ákvörðun sé tekin. Kærandi vísi einkum til þess að í ákvörðuninni sé fjallað um það að í samningi sé kveðið á um 90% eftirgjöf samningskrafna og veðkrafna utan matsverðs og að skuldarar þurfi að semja um greiðslu af 10% þeirra krafna að greiðsluaðlögun lokinni. Það myndi auðvelda skuldurum að semja við kröfuhafa ef þau héldu eftir jafnstórum hluta eingreiðslunnar og ákvörðun umboðsmanns skuldara kveði á um.

Að mati kæranda sé þetta sjónarmið ótækt, enda hafi það verið metið svo í frumvarpi skuldara að þau gætu greitt af 10% óveðtryggðra krafna við lok greiðsluaðlögunar. Hafa beri í huga að samkvæmt 3. mgr. 16. gr. lge. skuli frumvarp vera þannig að „framfærsla skuldara og fjölskyldu hans sé tryggð og að raunhæft megi telja að öðru leyti að hann geti staðið við skuldbindingar sínar, endurskipulagt fjármál sín og komið á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu“. Sameiginlegt mat allra sem að málinu komu hafi verið að svo væri. Þá liggi fyrir að embætti umboðsmanns skuldara fari yfir öll frumvörp og staðfesti, enda beri embættinu að gæta þess að frumvarpið sé í samræmi við ákvæði lge. Að mati kæranda hafi verið gætt að öllu þessu en sjónarmið byggð á vangaveltum um framtíðarhag skuldara séu ótæk. Það leiði í reynd til þess að kröfuhafar geti aldrei fengið breytingu á grundvelli seinni málsl. 1. mgr. 25. gr. lge. í þeim tilvikum þar sem ekki hafi verið kveðið á um 100% niðurfellingu, enda liggi það í hlutarins eðli að það sé auðveldara fyrir skuldara sem þurfi að semja um eftirstöðvar skulda sinna en ella. Í reynd kæmi þetta sjónarmið því í veg fyrir að kröfuhafar geti fengið breytingu á samningi þegar fjárhagur skuldara hefur lítið sem ekkert breyst, fyrir utan háa endurgreiðslu, auk þess sem ekki sé að finna stoð fyrir því að heimilt sé að líta til framtíðarfjárhags skuldara þegar ákvörðun á grundvelli 1. mgr. 25. gr. lge. sé tekin. Ákvörðun umboðsmanns skuldara sé því byggð á ólögmætu sjónarmiði hvað þetta varði.

Rökstuðningur vegna varakröfu kæranda

Kærandi bendir á að við vinnslu málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi hann lagt áherslu á að skuldurum bæri að nýta viðeigandi kostnaðarliði í framfærslu sinni til að greiða þau útgjöld sem þau stæðu frammi fyrir. Skuldarar hafi þegar greitt sem nemi 170.000 krónum í tannlæknakostnað. Í framfærslu sé gert ráð fyrir liðum eins og „Lækniskostnaður“, „Ýmislegt“, „Lyfjakostnaður“ og svo „Annað“. Samtals séu þetta 27.200 krónur í samningi skuldara. Auk þess hafi greiðslugeta skuldara ekki verið fullnýtt en hún sé samkvæmt samningi 102.563 krónur en skuldarar greiði 97.805 krónur á mánuði í veðkröfur og ekki hafi verið um frekari mánaðarlegar greiðslur að ræða. Samtals nemi því svigrúm skuldara til greiðslu lækniskostnaðar og annars um 32.000 krónum á mánuði. Kærandi telur að almennt sé það skuldara að ákveða hvernig framfærslu þeirra sé ráðstafað en þó með þeim takmörkunum að ekki sé hægt að rökstyðja umframgjöld vegna t.a.m. lækniskostnaðar án þess að draga frá þá liði sem gert sé ráð fyrir að standi undir þeim útgjöldum. Þannig gæti skuldari ekki réttlætt að framfærsla hafi verið hærri einn mánuðinn vegna læknisheimsóknar án þess að sýna fram á að heildarlækniskostnaður hafi farið fram yfir framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara þann sama mánuð. Í ljósi þess að skuldarar telji sig eiga rétt á að halda hluta af eingreiðslunni eftir vegna tannlæknakostnaðar sé eðlilegt að þau fullnýti viðeigandi liði framfærslu sinnar til að standa undir þeim kostnaði, þó að teknu tilliti til hefðbundins læknis- og lyfjakostnaðar. Kærandi telur eðlilegt að miða við að svigrúm skuldara til að mæta óvæntum eða öðrum kostnaði auk lækniskostnaðar sé 22.000 krónur á mánuði og sé þá tekið tillit til hefðbundins læknis- og lyfjakostnaðar. Eðlilegt sé að miða við að tíu mánuðir séu eftir af greiðsluaðlöguninni, líkt og staðan hafi verið þegar endurgreiðslan barst til skuldara, samtals 220.000 krónur. Að mati kæranda ætti þessi fjárhæð að koma til frádráttar af þeim hluta sem skuldarar geri kröfu til en það þýði að ráðstafa beri til kröfuhafa samtals 480.000 krónum. Þá eigi eftir að taka tillit til þess hvort skuldarar hafi þegar greitt hluta þessa kostnaðar og á hve löngum tíma framkvæma eigi fyrirhugaðar tannviðgerðir.

Loks telur kærandi að ekki sé hægt að fallast á þau rök umboðsmanns skuldara þess efnis að tilgreint svigrúm sé ætlað til þess að mæta útgjöldum við reglulegt eftirlit tannlæknis eða slíkt. Svigrúmið sé iðulega kynnt fyrir kröfuhöfum þannig að tilgangur þess sé að skuldarar geti mætt óvæntum útgjöldum. Oftast sé þar vísað til svigrúms sem algengt sé að nemi 10.000 krónum á mánuði, oftast kallað „Svigrúm skv. tilmælum UMS“, „Svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum“, „Annað“ eða einfaldlega „Svigrúm“. Í samningi um greiðsluaðlögun skuldara sé þessi liður undir heitinu „Annað“. Sé þessi kostnaður raunverulega til þess fallinn að mæta óvæntum kostnaði geti kostnaður vegna reglulegs eftirlits tannlækna ekki fallið þar undir heldur sé eðlilegt að hann teljist til hefðbundins lækniskostnaðar sem sé í samræmi við skýringar við grunnviðmið velferðarráðuneytisins en þar sé t.a.m. lækniskostnaður hjá barnlausum hjónum 13.306 krónur á mánuði, þar með talinn tannlæknakostnaður. Röksemdarfærsla umboðsmanns skuldara standist því ekki hvað þetta varði og breyti 4. mgr. 16. gr. lge. engu í þessu samhengi, enda sé í öllum greiðsluaðlögunarsamningum tekið tillit til þátta sem ekki sé gert ráð fyrir í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara.

Málsmeðferð umboðsmanns skuldara

Kærandi telur að umboðsmaður skuldara hafi ekki fullrannsakað málið í samræmi 10. gr. ssl. þótt fullt tilefni hafi verið til. Hann hafi hvorki kallað eftir gögnum um það á hve löngum tíma fyrirhugaðar tannviðgerðir færu fram né um það hvort skuldarar hefðu þegar greitt eitthvað af þessum kostnaði samkvæmt kostnaðaráætlun tannlæknis frá 16. apríl 2013. Kærandi bendir einnig á að embætti umboðsmanns skuldara hafi aðeins gætt að andmælarétti samkvæmt 13. gr. ssl. til málamynda þar sem ákvörðun hafi í reynd verið tekin áður en kallað var eftir sjónarmiðum kæranda og áður en málið var fullrannsakað í samræmi við 10. gr. ssl. Kærandi vísi til tölvupóstsamskipta við starfsmann umboðsmanns skuldara þar sem fram komi að „sú niðurstaða þyki réttust að skuldarar haldi eftir 545.000 kr.“ og að embættið telji „réttast að skuldarar haldi eftir 545.000 kr.“ og síðar sé það rökstutt. Andmælaréttur kæranda hafi því einungis verið formsins vegna og þar með í raun lítils virði, enda hafi endanleg ákvörðun verið algerlega í samræmi við það sem þegar virtist hafa verið ákveðið hjá umboðsmanni skuldara.

Í greinargerð kæranda 18. september 2013 eru gerðar athugasemdir við greinargerð umboðsmanns skuldara frá 23. ágúst 2013. Kærandi bendir á að tilvísun umboðsmanns skuldara til norskra laga og dóma geti einungis verið til hliðsjónar en ekki orðið meginstoð ákvörðunar sem tekin sé á grundvelli lge. Þá sé tilvísun til dóms LB-1999-1659 í reynd marklaus þar sem ekkert sé rökstutt hvernig það mál eigi við mál skuldara. Þá bendir kærandi á að fleiri þættir komi til skoðunar, t.a.m. fjárhagsstaða skuldara og mat á henni.

Kærandi leggur áherslu á að málið hafi aldrei verið fullrannsakað af hálfu umboðsmanns skuldara þar sem embættið hafi ekki kannað á hve löngum tíma skuldarar hafi átt að greiða hinn áætlaða tannlæknakostnað. Það sé vel þekkt að tannlæknar dreifi greiðslum vegna tannviðgerða á lengri tíma, sérstaklega þegar umfangsmeiri viðgerðir eigi í hlut. Ótækt sé að umboðsmaður skuldara telji að málið sé fullrannsakað þegar þetta liggi ekki fyrir og þá eftir atvikum hvernig kostnaðurinn kunni að dreifast. Ljóst sé þó að það geti haft veruleg áhrif á það mat hver áhrif kostnaðarins sé á fjárhag skuldara. Leiði þetta til þess að mat umboðsmanns skuldara á fjárhag skuldara sé rangt auk þess sem ekki hafi verið tekið tillit til þess að skuldarar höfðu þá þegar greitt nærri 170.000 krónur í tannlæknakostnað og þrátt fyrir það náð að halda greiðsluaðlögunarsamningi í skilum.

Varðandi andmælarétt kæranda telur hann að misskilnings hafi gætt í greinargerð umboðsmanns skuldara um athugasemdir sínar. Þær hafi ekki snúið að því að kærandi hafi ekki fengið gögn málsins eða færi á að tjá sig um þau, heldur frekar að umboðsmaður skuldara hafði þegar tekið ákvörðun í málinu áður en öll sjónarmiða aðila og hugsanleg gögn lágu fyrir.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. júlí 2013 kemur fram að í kjölfar endurútreiknings á ólöglegu gengistryggðu láni til skuldara hafi kærandi óskað eftir breytingum á greiðsluaðlögunarsamningi skuldara. Leitað hafi verið eftir athugasemdum skuldara og hafi þau greint frá því að þau hafi þurft að greiða töluverð viðbótargjöld vegna tannlæknakostnaðar eða 172.500 krónur. Þá hafi skuldarar tekið fram að fyrirsjáanlegt væri að annað þeirra þyrfti að gangast undir töluverðar tannviðgerðir en kostnaður vegna þeirra myndi nema 545.000 krónum samkvæmt kostnaðaráætlun tannlæknis. Embættið hafi í kjölfarið kynnt kostnaðaráætlun fyrir kæranda. Þá hafi umboðsmaður skuldara lýst þeirri afstöðu að sú niðurstaða þætti réttust, þegar byggt væri á fyrirliggjandi gögnum, að skuldarar héldu eftir 545.000 krónum til að mæta tannlæknakostnaði en að 255.000 krónum yrði miðlað til kröfuhafa í eingreiðslu.

Í ákvörðuninni kemur fram að umboðsmaður skuldara hafi einnig lýst afstöðu sinni til athugasemda kæranda um kröfufjárhæðina í tölvupósti til hans 9. júlí 2013. Embættið tók fram að þrátt fyrir athugasemdir kæranda teldi embættið þá niðurstöðu réttasta að skuldari héldi eftir 545.000 krónum til að mæta kostnaði vegna tannviðgerða. Embættið lýsti þeim sjónarmiðum að tilgreind útgjöld vegna tannviðgerða gætu ekki talist til hefðbundinna útgjalda vegna tannlæknakostnaðar enda væri um mjög kostnaðarsamar aðgerðir að ræða. Þá væri þess að gæta að áætlun framfærslukostnaðar byggðist á eldri framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara, sem hafi verið lægri en nú sé miðað við. Einnig yrði að líta til félagslegrar stöðu skuldara sem væru erfiðar og gera yrði ráð fyrir að lækniskostnaður þeirra væri að jafnaði allhár.

Í ákvörðuninni kemur einnig fram að skilyrði þess að fallist sé á beiðni kröfuhafa um ráðstöfun hárrar fjárhæðar í heild eða hluta, sem skuldari fái í hendur á greiðsluaðlögunartímabilinu, sé að fjárhagur skuldara hafi á tímabili greiðsluaðlögunar batnað umtalsvert vegna fjármunanna, sbr. 1. mgr. 25. gr. Við mat á því hvort fjárhagur hafi batnað umtalsvert við eingreiðsluna verði að bera fjárhag skuldara við móttöku eingreiðslu saman við fjárhag hans þegar samningsskilmálar voru ákveðnir. Það sé mat umboðsmanns skuldara að við ákvörðun um hvort úthluta eigi eingreiðslu í heild, að hluta eða alls ekki, beri að hafa hliðsjón af því hvort skuldari hafi þurft að stofna til verulegra og nauðsynlegra útgjalda á greiðsluaðlögunartímanum umfram það sem samningur geri ráð fyrir eða hvort slík útgjöld séu fyrirsjáanleg.

Í málinu liggi fyrir kostnaðaráætlun staðfest af tannlækni annars skuldara þar sem fram komi að skuldari þurfi að gangast undir tannviðgerðir fyrir samtals 545.000 krónur. Umboðsmaður skuldara telur að þrátt fyrir þetta hafi fjárhæðin, sem skuldarar fengu í hendur vegna endurútreiknings á ólöglegu láni, að fjárhæð 804.215 krónur, umtalsverð áhrif á fjárhag þeirra til hins betra, sbr. 1. mgr. 25. gr. lge., enda standi eftir um 260.000 krónur. Hins vegar sé til þess að líta að skuldarar séu bæði öryrkjar og ljóst að útgjöldin yrðu þeim mjög þungbær. Umboðsmaður skuldara telji því rétt að þau haldi eftir 545.000 krónum, en 260.000 krónum sé miðlað til kröfuhafa. Þannig sé komið í veg fyrir að dragi úr greiðslugetu skuldara vegna útgjaldanna og tryggt að þau geti staðið við samning sinn að fullu. Kröfuhafar fái samkvæmt því umsamdar greiðslur samkvæmt greiðsluaðlögunarsamningi óskertar og 260.000 krónur til viðbótar. Þá sé til þess að líta að í samningi skuldara um greiðsluaðlögun sé kveðið á um 90% eftirgjöf samningskrafna. Skuldarar þurfi því að semja um 10% eftirstöðva af óveðtryggðum skuldum sínum. Með því að skuldarar haldi eftir nægilegum fjármunum til að mæta viðbótarútgjöldum vegna tannviðgerða séu auknar líkur á því að þau geti náð slíkum samningum við kröfuhafana og staðið skil á afborgunum.

Umboðsmaður skuldara bendir á að fjárhæðin sem skuldarar haldi eftir í hverjum mánuði meðan á greiðsluaðlögun stendur sé, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge., byggð á áætlun á hefðbundnum mánaðarlegum útgjöldum skuldara og ætlað að tryggja að þau geti framfleytt sér á eðlilegan hátt. Umboðsmaður skuldara telur að skuldarar verði þannig að nýta tilgreint svigrúm til að mæta útgjöldum vegna hefðbundins tannlæknakostnaðar, svo sem vegna reglulegs eftirlits tannlæknis. Hins vegar þyki ljóst að þegar framfærslukostnaður skuldara sé áætlaður, sé ekki gert ráð fyrir umfangsmiklum og kostnaðarsömum tannviðgerðum, svo sem þeim sem skuldari þurfi að gangast undir. Því þyki ekki unnt að fallast á röksemdir kæranda um þetta atriði.

Kröfu kæranda um að 804.215 krónum verði í heild sinni ráðstafað til kröfuhafa synjar umboðsmaður skuldara en samþykkir að 260.000 krónum sé ráðstafað til kröfuhafa í eingreiðslu með vísan til 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. mgr. 26. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara 23. ágúst 2013 kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. mgr. 26. gr. lge., sé embættinu falið ákvörðunarvald um hvort hárri fjárhæð sem skuldari fái á tímabili greiðsluaðlögunar og hafi þau áhrif að fjárhagur hans batni verulega, verði úthlutað til kröfuhafa í heild eða að hluta. Umboðsmaður skuldara þurfi samkvæmt því að taka afstöðu til tveggja atriða þegar slík ákvörðun sé tekin. Í fyrsta lagi hvort fjárhagur skuldara batni verulega við móttöku fjárhæðarinnar og í öðru lagi, ef svo sé, hvort úthluta beri henni í heild eða að hluta. Enginn ágreiningur sé uppi um fyrra atriðið. Varðandi síðara atriðið bendir umboðsmaður skuldara á að engar upplýsingar sé að finna í lögskýringargögnum um hvaða sjónarmið skuli leggja til grundvallar við mat á því. Umboðsmaður skuldara telur að þau sjónarmið sem fram hafi komið í ákvörðun embættisins til stuðnings niðurstöðu hans séu lögmæt, enda byggist þau á því meginmarkmiði laga um greiðsluaðlögun einstaklinga að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldarar geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. 1. mgr. 1. gr. lge. Með ákvörðuninni sé tryggt að skuldarar geti greitt óvænt en nauðsynleg viðbótarútgjöld, þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir þeim í samningi um greiðsluaðlögun, og á sama tíma staðið við skuldbindingar sínar í samræmi við skilmála samningsins og þannig tekist að endurskipuleggja fjármál sín. Með sömu rökum væri það í andstöðu við markmið laganna ef fjárhæðin rynni í heild sinni til kröfuhafa þrátt fyrir veruleg og óvænt viðbótarútgjöld skuldara.

Í þessu samhengi bendir umboðsmaður skuldara á úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 12/2011, þar sem fram komi að við beitingu á 6. gr. lge. beri að horfa til sjónarmiða sem norsk stjórnvöld og eftir atvikum dómstólar hafi litið til við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Röksemdir kærunefndarinnar fyrir þeirri afstöðu hafi verið þær að lög um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 hafi meðal annars verið sett að norskri fyrirmynd, en þar hafi verið frá árinu 1992 í gildi lög um frjálsa og þvingaða greiðsluaðlögun og þannig liggi fyrir áratugalöng framkvæmd við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Að mati umboðsmanns skuldara eigi þessar röksemdir kærunefndar við með sama hætti um ákvarðanir sem teknar séu samkvæmt 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. mgr. 26. gr. lge. Ákvæði sambærilegt við tilgreind ákvæði íslensku laganna sé að finna í 6.2 gr. norsku laganna, Lov on frivillig og tvunger gjeldsordning for privatpersoner nr. 1992-07-17-99. Umboðsmaður skuldara nefnir dóm nr. LB-1999-1659, þar sem skuldari hafi fengið að halda eftir 100.000 af 205.000 norskum krónum, sem hann hafi fengið í arf, vegna nauðsynlegra tannviðgerða. Þessi framkvæmd norskra yfirvalda sé í samræmi við markmið greiðsluaðlögunar eins og þeim sé lýst 1. mgr. 1. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að við meðferð málsins hafi langt verið gengið til að tryggja andmælarétt kæranda. Helstu gögn og upplýsingar sem máli skiptu hafi verið kynnt honum sem og afstaða embættisins til gagnanna og honum gefið færi á að gera athugasemdir. Þá hafi í hinni kærðu ákvörðun verið tekin sérstök afstaða til helstu röksemda kæranda.

Umboðsmaður skuldara hafnar röksemdum kæranda um að mat embættisins á fjárhag skuldara sé með einhverjum hætti rangt. Skuldarar séu enn öryrkjar og framfærslukostnaður þeirra sé áætlaður með hefðbundnum hætti í samningi þeirra um greiðsluaðlögun. Ljóst sé að viðbótarútgjöldin sem fram séu komin vegna tannlæknakostnaðar séu umfangsmikil og hafi veruleg áhrif á fjárhag skuldara til hins verra. Skuldarar séu ekki enn byrjaðir að greiða útgjöld samkvæmt kostnaðaráætlun tannlæknis. Þá sé það mat umboðsmanns skuldara á fjárhag skuldara að þau geti ekki greitt tilgreindan kostnað og staðið á sama tíma við aðrar fjárhagsskuldbindingar sínar. Umboðsmaður skuldara bendir einnig á að við áætlun framfærslukostnaðar skuldara í samningi um greiðsluaðlögun samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. séu lögð til grundvallar mánaðarleg útgjöld auk liðarins „annað“ sem taki til minniháttar óvæntra útgjalda sem falli til í hverjum mánuði. Útgjöld skuldara vegna tannlæknakostnaðar séu umfram það sem hefðbundið sé og ljóst að það hafi ekki verið með neinum hætti gert ráð fyrir þeim við gerð áætlunar um framfærslukostnað þeirra. Umboðsmaður skuldara hafni því að skuldurum sé í samningi um greiðsluaðlögun tryggt svigrúm til að mæta tilgreindum útgjöldum.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

Í síðari greinargerð umboðsmanns skuldara 30. september 2013 hafnar embættið því að ákvörðun byggi ekki á lögmætum sjónarmiðum. Einnig hafnar embættið því að málið hafi ekki verið fullrannsakað. Þá hafnar umboðsmaður skuldara því að nauðsynlegt hafi verið að kanna hvort tannlæknir skuldara hafi verið tilbúinn til að koma til móts við skuldara með greiðsludreifingu.


IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 1. mgr. 25. gr. lge. Samkvæmt orðalagi lagaákvæðisins getur kröfuhafi krafist þess að gerðar verði breytingar á greiðsluaðlögunar-samningi þegar fjárhagsstaða skuldara hefur batnað umtalsvert á greiðslu­aðlögunartímabilinu. Hafi skuldari fengið í hendur háa fjárhæð getur lánardrottinn krafist þess að fénu verði skipt að hluta eða að fullu milli lánardrottna án þess að samningur um greiðsluaðlögun sé breytt að öðru leyti. Það er svo umboðsmanns skuldara að meta hvort skilyrði séu til að verða við kröfu þess efnis. Í málinu liggur fyrir samningur um greiðsluaðlögun en um slíkan samning gilda almennar reglur um samningsfrelsi, sbr. IV. kafla lge. og sérstakar reglur sömu laga.

Við úrlausn málsins verður fyrst vikið að málsmeðferð umboðsmanns skuldara gagnvart kæranda. Loks verður gerð grein fyrir niðurstöðu kærunefndarinnar að því er varðar ákvörðun umboðsmanns skuldara í málinu.

Málsmeðferð umboðsmanns skuldara

Í málinu liggur fyrir tölvupóstur starfsmanns umboðsmanns skuldara frá 5. júlí 2013 til kæranda þar sem fram kemur að ekki þyki ástæða til að hafna beiðni kæranda, enda þyki ljóst að þrátt fyrir útgjöld skuldara hafi eingreiðslan umtalsverð áhrif á fjárhag þeirra, með hliðsjón af fjölskyldustærð, framfærslukostnaði og tekjum. Þyki þannig sú niðurstaða réttust að skuldarar haldi eftir 545.000 krónum, til að mæta útgjöldum vegna tannviðgerða, en að 255.000 krónum sé miðlað til kröfuhafa.

Í niðurlagi tölvupóstsins veitir umboðsmaður skuldara, með vísan til 13. gr. ssl., kæranda frest til að tjá sig skriflega um málið.

Ekki er fallist á að umboðsmaður skuldara hafi eingöngu veitt kæranda andmælarétt til málamynda, eins og kærandi heldur fram, enda er í ákvörðun umboðsmanns tekin afstaða til þeirra atriða er fram komu í andmælabréfi kæranda. Enn fremur hefur kærunefnd greiðsluaðlögunarmála veitt kæranda andmælarétt um alla þætti málsins og þar með bætt úr ætluðum annmörkum á málsmeðferð hins lægra setta stjórnvalds. Þá telur kærunefndin að málið hafi verið fullrannsakað af hálfu umboðsmanns skuldara hvað varðar hina fyrirhuguðu tannaðgerð, greiðslu vegna hennar og annað sem skiptir máli fyrir úrlausnina.

Niðurstaða kærunefndar vegna ákvörðunar umboðsmanns skuldara

Kærandi krefst þess aðallega að allri fjárhæðinni, 804.215 krónum, verði ráðstafað til kröfuhafa. Til vara krefst hann að hluta fjárhæðarinnar, 480.000 krónum, verði ráðstafað til kröfuhafa.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga kemur fram að skuldari og lánardrottnar geti náð fram breytingum á samningi til greiðsluaðlögunar. Margvíslegar breytingar geti orðið á högum skuldara sem kunni að réttlæta breytingar á slíkum samningi. Til dæmis geti svo viljað til að skuldari fái óvænta eingreiðslu, arf eða annað þess háttar, sem ástæða sé til að lánardrottnar fái hlutdeild í, án þess að samningur um greiðsluaðlögun sé tekinn upp að öðru leyti. Þá sé sama afborgunarfjárhæð greidd áfram, en lánardrottnar fá hlutdeild í ávinningnum samkvæmt samkomulagi. Takist ekki samkomulag geti lánardrottnar óskað eftir því við umboðsmann skuldara að hann ákveði hlutdeild þeirra í ávinningnum.

Samkvæmt því sem að framan greinir og fram kemur í greinargerð með lge. sem og athugasemdum við 25. gr. laganna, er ljóst að meginreglan er sú að meta þarf hverju sinni hvort lánardrottnar fái hlutdeild í óvæntum fjármunum sem skuldurum áskotnast á tímabili greiðsluaðlögunar og gera að verkum að fjárhagsstaða þeirra batnar umtalsvert. Að beiðni kröfuhafa skal umboðsmaður skuldara ákveða hlutdeild kröfuhafa í ávinningnum.

Samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun skuldara er greiðslugeta þeirra jákvæð og ber því að mati kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að veita kröfuhöfum hlutdeild í tilgreindum fjármunum að kröfu þeirra að því marki sem fjárhagsstaða skuldara hefur batnað vegna endurgreiðslunnar. Í málinu liggur fyrir kostnaðaráætlun tannlæknis en eins og hér stendur á er ekki tilefni til að vefengja nauðsyn aðgerðarinnar. Ljóst þykir að fjárhagur skuldara hefur ekki batnað sem nemur allri fjárhæðinni sem þau fengu endurgreidda, heldur aðeins að því marki sem endurgreiðslan er umfram þau óvæntu og óhjákvæmilegu útgjöld sem þau verða að standa straum af vegna tannaðgerðarinnar.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir er það mat kærunefndarinnar að ekki eigi að verða við þeirri kröfu kæranda að fjármunirnir gangi óskiptir til kröfuhafa.

Til vara krefst kærandi þess að hlutdeild hans verði ákvörðuð með tilliti til viðeigandi kostnaðarliða í greiðsluaðlögunarsamningi. Kærunefndin telur að nefnd útgjöld vegna tannlæknakostnaðar séu umfram það sem venjulega má gera má ráð fyrir. Tilgreindir liðir í framfærslu í greiðsluaðlögunarsamningi kæranda gera einungis ráð fyrir tilfallandi kostnaði en ekki dýrum aðgerðum sem þessum. Að mati kærunefndar gerir samningur um greiðsluaðlögun ekki ráð fyrir að skuldarar geti mætt slíkum kostnaði eins og að framan greinir.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að hafna kröfu A hf. um að 804.215 krónur, sem C og B fengu greiddar, verði ráðstafað í heild sinni til kröfuhafa, en að samþykkja að 260.000 krónum verði ráðstafað til kröfuhafa, er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

            Kristrún Heimisdóttir            

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta