Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2012

Mánudaginn 11. nóvember 2013

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Þórhildur Líndal og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir.

Þann 23. desember 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. desember 2011, þar sem heimild þeirra til greiðsluaðlögunar er felld niður.

Með bréfi 25. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. febrúar 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 29. febrúar 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá þeim.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru 30 og 31 árs gömul. Þau eru gift og búa ásamt tveimur börnum sínum í eigin húsnæði að B götu nr. 7 í sveitarfélaginu E.

Heildarskuldir kærenda eru 35.615.069 krónur samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara. Þær falla allar innan samnings, sbr. 3. gr. lge.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ársins 2007 þegar þau ákváðu að flytja búferlum frá D sveitarfélagi til E sveitarfélagsins. Þau keyptu núverandi húsnæði í E sveitarfélaginu á 25.600.000 krónur áður en þau náðu að selja fasteign sína á D sveitarfélaginu. Þau tóku svokallað brúarlán í formi yfirdráttar til að fjármagna kaupin þar til fasteignin í D sveitarfélaginu seldist og til að greiða kostnað við flutninga fjölskyldunnar frá D sveitarfélagi til E sveitarfélagsins. Þeim tókst ekki að fá nægilega gott verð fyrir fasteign sína á D sveitarfélagi, sem síðar seldist á 20.000.000 krónur. Erfitt efnahagsástand leiddi til þess að laun B lækkuðu, auk þess sem almennt verðlag og skattahækkanir leiddu til þess að kærendur gátu ekki lengur staðið í skilum með skuldbindingar sínar.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 5. maí 2011 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) og var þeim skipaður umsjónarmaður í kjölfarið.

Í bréfi umsjónarmanns með greiðsluaðlögun kærenda 28. september 2011 til umboðsmanns skuldara var lagt til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr., sbr. 12. gr. lge.

Heimild kærenda til greiðsluaðlögunar var síðan felld niður með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. desember 2011.

 

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru kemur fram að kærendur mótmæli þeirri fullyrðingu umboðsmanns skuldara að þau hafi ekki sýnt samstarfsvilja. Jafnframt mótmæla kærendur því að þau hafi ekki lagt fyrir þá peninga sem þau höfðu aflögu til að greiða af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Varðandi skort á gögnum benda kærendur á að umsjónarmaður hafi óskað eftir skýringum á útborgunum af bankareikningum að fjárhæð 3.582.100 krónur yfir tiltekið tímabil. Telja kærendur að af þessu sé algerlega augljóst að umsjónarmann skorti ekki gögn um úttektir af bankareikningum. Þessum rökum umboðsmanns skuldara sé því alfarið hafnað. Kærendur vísa til þess að þau hafi hvorki gefið út verktakareikninga né unnið neina verktakavinnu á því tímabili sem um ræði.

Varðandi fyrrnefndar úttektir benda kærendur á að annars vegar hafi verið um að ræða launagreiðslur og hins vegar úttektir á séreignarsparnaði. Það hafi orðið verulegar breytingar á högum kærenda á tímabilinu en umsjónarmaður hafi ekki sýnt þeim áhuga. Kærandi B hafi misst vinnu sína á tímabilinu sem hafi leitt til þess að hann fékk greidd hærri laun en ella vegna uppgjörs sem því fylgdi. Hann hafi einnig fengið greiddar rúmar 1.500.000 krónur brúttó af séreignarsparnaði sínum á þessu tímabili. Kærendur telji að séreignarsparnaður sé ekki aðfararhæfur. Auk þessa hafi þau neyðst til að lagfæra bifreið sína sem hafi bilað á tímabilinu. Sú viðgerð hafi kostað um 200.000 krónur. Veikindi hafi verið í fjölskyldunni, bæði hjá kæranda A og hjá öðru barni þeirra sem hafi útheimt veruleg útgjöld. Jafnframt hafi kærendum orðið það ljóst að eftir að kærandi B missti vinnu sína myndi nokkuð vanta upp á til þess að þau gætu framfleytt sér á atvinnuleysisbótum hans og launatekjum kæranda A einum og sér.

Um þá fullyrðingu umsjónarmanns að kærendur hafi verið boðaðir á fund fulltrúa umsjónarmanns að morgni 27. september 2011 þá viðurkenna kærendur að þau hafi fengið tölvupóst en þau kannist ekki við að hafa verið boðuð á fund fulltrúa umsjónarmanns. Kærendur kannist heldur ekki við að hafa ekki upplýst umsjónarmann og fulltrúa hans um nokkuð sem óskað hafi verið eftir. Kærendur telji að alger trúnaðarbrestur hafi orðið milli umsjónarmanns og þeirra. Annars vegar hafi fulltrúi umsjónarmanns lagt á það ríka áherslu að kærendur þyrftu ekki á utanaðkomandi aðstoð að halda í málinu. Hins vegar hafi kærendum ekki fundist sem umsjónarmaður væri að hjálpa þeim á nokkurn hátt. Umsjónarmaður hafi sjálfur haft mikla hagsmuni af því að viðhalda góðu sambandi við kröfuhafa. Þar sem umsjónarmaður starfi að stórum hluta við það að innheimta kröfur fyrir kröfuhafa og hafi af því verulega fjárhagslega hagsmuni, hafi framkoma hans og afstaða, sem og starfsmanna hans, mótast af því.

Kærendur gera athugasemd við það að á meðan þau hafi gengið í gegnum þetta erfiða ferli, þ.e. að sækja um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara og bíða milli vonar og ótta, hafi aðstæður þeirra breyst verulega, eins og fyrr hafi verið minnst á. Umsjónarmaður hafi aftur á móti aldrei reynt að ræða við kærendur um aðstæður þeirra eða breytingar á fyrri högum. Hann hafi einungis gert athugasemdir við úttektir þeirra af sínum eigin bankareikningi. Þrátt fyrir þetta telji umboðsmaður skuldara að kærendur hafi ekki verið samvinnufús og haldið upplýsingum um bankareikninga leyndum fyrir umsjónarmanni.

Kærendur telja að þau hafi lagt fram allar þær upplýsingar sem óskað hafi verið eftir. Sú óvissa um væntanlega þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar sem umboðsmaður skuldara vísi í geti einfaldlega ekki verið meiri en gengur og gerist hjá fólki almennt. Kærandi B hafi að vísu misst vinnu sína á tímabilinu en hann sé varla sá eini sem sé atvinnulaus. Það eitt og sér ætti því ekki að girða fyrir að kærendur fái að gera samning við kröfuhafa sína.

Kærendur gera þá kröfu að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði teknar upp að nýju og að þeim verði skipaður nýr umsjónarmaður. Jafnframt fara kærendur fram á að mál þeirra fái efnislega meðferð hjá hinum nýja skipaða umsjónarmanni. Það sé þá umsjónarmaður sem hafi það ekki að aðalstarfi að innheimta kröfur fyrir kröfuhafa. Auk þess fara kærendur fram á að fá greiddan málskostnað samkvæmt mati nefndarinnar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar 12. desember 2011 kemur fram að í bréfi til umboðsmanns skuldara 28. september 2011 leggi umsjónarmaður með greiðsluaðlögun til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði felldar niður á grundvelli 15. gr., sbr. 12. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns komi fram að 19. september 2011 hafi hann óskað eftir að kærendur gerðu grein fyrir því hvað þau hefðu lagt til hliðar af launum sínum á því tímabili sem frestun greiðslna hafði staðið yfir og hvort skyldum samkvæmt 12. gr. lge. hefði verið fullnægt. Tölvupóstinum til kærenda hafi fylgt yfirlit yfir færslur á reikningi þeirra og hafi þar sérstaklega verið merktar færslur samtals að fjárhæð 3.582.100 krónur sem voru greiddar af reikningnum frá 2. maí 2011 til 5. september 2011, á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Kærendur hafi verið beðin um skýringar á þessum færslum og að svara fljótt og greiðlega, en það hafi þau ekki gert. Samkvæmt tölvupóstinum hafi kærendum verið boðið að hitta fulltrúa umsjónarmanns á fundi að morgni 27. septembers 2011. Kærendur hafi hvorki mætt á boðaðan fund né hafi þau svarað beiðni umsjónarmanns um upplýsingar en þau hafi staðfest að hafa móttekið beiðnina.

Þann 27. október 2011 hafi umboðsmaður skuldara sent bréf til kærenda þar sem þeim hafi verið veittur vikufrestur til að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður. Kærendur hafi móttekið þetta bréf 31. október 2011.

Umboðsmaður kærenda hafi sent umboðsmanni skuldara tölvupóst 2. nóvember 2011 án þess að fullnægjandi svör kæmu fram við þeim spurningum sem kærendur voru innt eftir. Gögn hafi ekki verið lögð fram máli þeirra til stuðnings. Fram komi að kærendur kannist ekki við að hafa verið boðuð á fund fulltrúa umsjónarmanns, en umboðsmaður skuldara telji það ekki hafa þýðingu á málinu þar sem kærendum hafi verið sent bréf 27. október 2011, þar sem þeim hafi verið veittur vikufrestur til að andmæla.

Umboðsmaður skuldara hafi sent umboðsmanni kærenda tölvupóst 6. desember 2011 þar sem kærendum hafi enn á ný verið gefinn kostur á því að svara því hversu háa fjárhæð þau hafi lagt fyrir á meðan frestun greiðslna stóð og leggja fram gögn máli sínu til stuðnings, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Hafi þau verið upplýst um að samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK hafi þau átt að geta lagt fyrir a.m.k. tvær milljónir króna frá því að tímabundin frestun greiðslna þeirra hófst í nóvember 2010. Að mati umboðsmanns skuldara hafi verið gætt að leiðbeiningarskyldu stjórnvalds, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem tekið hafi verið fram í tölvupóstinum að ef ekki yrði aðhafst frekar af hálfu kærenda og engin gögn lögð fram yrði mál þeirra fellt niður á grundvelli 15. gr. lge. Umboðsmanni skuldara hafi ekki borist svar við tölvupóstinum.

Umboðsmaður skuldara bendir á að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann ýmist geti ekki staðið við eða eigi í erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laga skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í máli þessu hafi umsjónarmaður með greiðsluaðlögun kærenda tilkynnt umboðsmanni skuldara að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu greiðsluaðlögun þar sem kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. lge. Umboðsmaður skuldara bendir á að kærendum hefði verið send ákvörðun ásamt fylgiskjali 5. maí 2011 þar sem tilgreindar væru skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. lge. Í sama fylgiskjali komi fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 12. gr. lge. skuli umsjónarmaður óska eftir því við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Kærendum hafi því mátt vera ljóst að þau ættu að halda til haga þeim fjármunum sem þau hefðu aflögu til að greiða af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Þær skyldur verði að leggja á kærendur að þau sýni samstarfsvilja og leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli við samningu frumvarps til greiðsluaðlögunar. Þar megi nefna gögn sem umsjónarmaður hafi ekki heimild til að afla sjálfur, svo sem yfirlit yfir bankareikninga og tekjur vegna verktakavinnu. Verði að telja að ákveðnir óvissuþættir séu fyrir hendi í máli kærenda þess eðlis að ekki sé mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu þeirra. Þá gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun á fjárhag þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður telji því að kærendur uppfylli ekki skilyrði laga um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Umboðsmanni skuldara hafi ekki borist gögn sem varpað geti ljósi á þau óvissuatriði sem hafi verið rakin, umfram nefndan tölvupóst frá umboðsmanni kærenda 2. nóvember 2011.

Í greinargerð 17. febrúar 2012 bendir umboðsmaður skuldara á að með lögum nr. 128/2010 hafi verið lögfest bráðabirgðaákvæði við lög nr. 101/2010 þar sem kveðið er á um að frestun greiðslna samkvæmt 12. gr. lge. hefjist þegar umboðsmaður skuldara tekur við umsókn um greiðsluaðlögun. Það ákvæði hafi tekið gildi þegar kærendur sóttu um greiðsluaðlögun og hafi því hvílt skyldur á þeim samkvæmt 12. gr. lge. frá þeim tíma sem þau lögðu inn umsókn sína.

Í sömu greinargerð tekur umboðsmaður skuldara afstöðu til rökstuðnings með kæru kærenda.

Í fyrsta lagi komi fram í rökstuðningi með kæru að umboðsmaður kærenda telji augljóst að umsjónarmann hafi ekki skort gögn um úttektir af bankareikningum. Umboðsmaður skuldara bendir á að niðurfelling heimildar til greiðsluaðlögunar byggi ekki á því að skort hafi gögn um að fjárhæðin hafi verið tekin út af bankareikningnum, heldur um ástæður þess að það var gert. Þetta komi skýrt fram í öllum samskiptum umboðsmanns skuldara við kærendur og umboðsmann þeirra.

Í rökstuðningi með kæru endurtaki umboðsmaður kærenda að mestu leyti sömu skýringar á úttektum og hafi legið fyrir þegar ákvörðun um niðurfellingu var tekin. Þegar litið sé til fjárhæðarinnar sem tekin var út af reikningi kærenda verði ekki séð að skýringar séu fullnægjandi. Úttektirnar hafi verið gerðar á fimm mánaða tímabili og af gögnum máls sé ljóst að tekjur kærenda höfðu ekki lækkað fyrir þann tíma. Ekki verði heldur séð af skýringum þeirra að útgjöld fjölskyldunnar hafi hækkað svo verulega að peningaúttektirnar hafi getað talist nauðsynlegar vegna heimilishalds og framfærslu. Engin gögn hafi verið lögð fram um eðli veikinda kærandans A og annars barns þeirra eða hvaða útgjöld fylgdu þeim veikindum, þrátt fyrir að ávallt hafi verið beðið um gögn til stuðnings þeim upplýsingum sem kærendur byggðu á.

Aftur á móti komi fram í staðgreiðsluskrá RSK að tekjur A virðast ekki hafa lækkað þrátt fyrir umrædd veikindi hennar. Því liggi engin gögn fyrir um að útgjöld kærenda hafi aukist það mikið að nauðsynlegt væri að fjárhæð sem nemi tólfföldum ætluðum mánaðarútgjöldum, sbr. greiðsluáætlun í máli kærenda, væri tekin út á rúmlega fjögurra mánaða tímabili. Á þeim tíma hafi tekjur kærenda þar að auki ekki lækkað svo neinu nemi og því svigrúm þeirra til að mæta óvæntum útgjöldum talsvert, enda hafi í ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki á umsókn þeirra um greiðsluaðlögun verið byggt á að greiðslugeta þeirra, eftir útgjöld til framfærslu, væri rúmar 200.000 krónur á mánuði. Hefðu aðstæður kærenda breyst hafi kærendum borið að tilkynna umsjónarmanni strax um það og leggja fram gögn því til staðfestingar án tafar. Það hafi ekki verið gert, þrátt fyrir ítrekaða beiðni þar um.

Umboðsmaður skuldara bætir við að þegar séreignarsparnaður hafi verið tekinn út njóti hann ekki lengur verndar frá aðför. Þannig njóti slík fjárhæð engrar sérstöðu þegar komi að greiðsluaðlögunarumleitunum og kjósi umsækjandi um greiðsluaðlögun að taka út slíkan sparnað eigi skyldur 12. gr. lge. jafnt við um þá fjármuni og alla aðra aðfarahæfa fjármuni.

Samkvæmt kæru kannist kærendur ekki við að hafa verið boðuð á fund fulltrúa umsjónarmanns að morgni 27. september 2011. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu sé á því byggt að kærendur hafi hvorki mætt á fundinn né svarað beiðni um upplýsingar sem hafi verið tilefni þess að þeim var boðið að koma á fund fulltrúans. Umboðsmaður skuldara bendir á að það sem skipti máli hér sé að kærendur hafi ekki svarað upplýsingabeiðninni, en ekki það að þau hafi ekki mætt til fundarins. Hafi þeim verið boðið að koma á fund fulltrúa umsjónarmanns virðist það fyrst og fremst hafa verið gert til hagsbóta fyrir kærendur, til að auðvelda þeim að koma skýringum sínum á framfæri.

Umboðsmaður skuldara bendir á að þegar upp komi erfiðleikar í samskiptum milli umsjónarmanns og umsækjanda um greiðsluaðlögun skuli beina honum í réttan farveg, þ.e. með því að hafa samband við embætti umboðsmanns skuldara sem reyni að leysa úr hugsanlegum ágreiningi. Einnig sé um að ræða að umsækjendum sé boðið að skipaður verði nýr umsjónarmaður. Ágreiningur eða hugsanlegur trúnaðarbrestur milli umsjónarmanns og umsækjanda um greiðsluaðlögun geti aftur á móti aldrei leitt til þess að umsækjandi losni undan upplýsingaskyldu við umsjónarmann eða til þess að undanþiggja hann skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. án þess að afleiðingar þær sem kveðið er á um í 15. gr. lge. komi til álita.

Í 9. gr. lge. sé kveðið á um almennt hæfi þeirra sem skipaðir séu umsjónarmenn með greiðsluaðlögunarumleitunum. Samkvæmt ákvæðinu sé umboðsmanni skuldara heimilt að skipa lögmann sem umsjónarmann. Um sérstakt hæfi slíks umsjónarmanns gildi II. kafli stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi honum verið falinn hluti af meðferð máls sem geti lokið með stjórnvaldsákvörðun. Ekki verði séð að það að starfa meðal annars við innheimtu krafna valdi því að umsjónarmaður verði sjálfkrafa vanhæfur til að fara með mál sem umboðsmaður skuldara hefur falið honum. Umboðsmaður kærenda hafi ekki fært rök fyrir meintu vanhæfi umsjónarmannsins  í máli þessu og því verði ekki séð að hægt sé að taka tillit til þessa rökstuðnings.

Umboðsmaður kærenda haldi fram að umsjónarmaður hafi ekki rætt við kærendur um aðstæður þeirra. Að mati umboðsmanns skuldara verði ekki annað séð af gögnum málsins en að umsjónarmaður hafi lagt sig fram um að afla gagna hjá kærendum en þegar ekki var brugðist við af hálfu kærenda hafi málinu verið vísað til umboðsmanns skuldara. Ekki verði séð að málsmeðferð umsjónarmanns hafi verið ábótavant í þessu tilliti.

Umboðsmaður kærenda telji að óvissa um væntanlega þróun fjárhags kærenda á tímabili greiðsluaðlögunar ætti ein og sér ekki að girða fyrir að þau fái að gera samning við kröfuhafa. Umboðsmaður skuldara bendir á að ljóst sé af ákvörðun umboðsmanns skuldara í málinu að hún byggist fyrst og fremst á því að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. Því hafi ekki verið byggt á ofangreindum sjónarmiðum einum og sér þegar ákvörðun var tekin.  

Um kröfu kærenda um greiðslu málskostnaðar í málinu vísar umboðsmaður skuldara í álit umboðsmanns Alþingis frá 13. nóvember 2007 í máli nr. 5073/2007. Umboðsmaður skuldara bendir á að engin lagastoð sé fyrir kröfu kærenda til greiðslu málskostnaðar og því beri að vísa slíkri kröfu frá. Rétt sé að benda á að í lögum um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 sé gert ráð fyrir að skuldarar geti sótt um mjög víðtæka ráðgjöf og aðstoð til embættisins endurgjaldslaust. Þetta eigi einnig við um umsækjendur um greiðsluaðlögun. Þá hafi greiðsluaðlögunarúrræðinu verið komið á með það í huga að umsækjendur þyrftu enga utanaðkomandi aðstoð með tilheyrandi kostnaði. Því verði ekki séð að meðferð málsins hjá embættinu ætti almennt að hafa nokkur útgjöld í för með sér fyrir aðila.

Umboðsmaður skuldara krefst þess að ákvörðun um að fella niður heimild til þess að leita eftir greiðsluaðlögun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge., sbr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. laganna ber skuldara að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður með greiðsluaðlögun að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skal hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist fyrst og fremst á því að ekki hafi fengist fullnægjandi skýringar á ákveðnum fjárútlátum kærenda. Að mati umboðsmanns skuldara hafi ekki verið mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kærenda. Heimild til greiðsluaðlögunar hafi því verið felld niður.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum í heild og takmarkast heimild til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana ekki við þau tilvik þegar skuldari bregst skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna. Í skýringum við frumvarp til laga nr. 101/2010 segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar og er þar sérstaklega vísað til I. og II. kafla laganna.

Í 1. mgr. 6. gr. lge. eru tilgreindar ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 101/2010 er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærendum ítrekað verið gefinn kostur á því að svara því hversu háa fjárhæð þau hafi lagt fyrir á meðan frestun greiðslna stóð og leggja fram útskýringar á greiðslum út af bankareikningi. Jafnframt var þeim gefinn kostur á að leggja fram gögn máli sínu til stuðnings. Er ljóst að kærendur hafa ekki orðið við óskum, hvorki umsjónarmanns né umboðsmanns skuldara, um að upplýsa um þá fjármuni sem lagðir hafi verið til hliðar á því tímabili sem frestun greiðslna hafði staðið yfir, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Verður að fallast á það með umboðsmanni skuldara að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af væntanlegri þróun fjárhags kærenda á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Þær útskýringar sem kærendur hafa lagt fram á fjárútlátum af bankareikningi þeirra teljast jafnframt ekki fullnægjandi að mati nefndarinnar enda eru þær ekki studdar neinum gögnum. Ekki er ljóst af gögnum máls hvort kærendur voru boðaðir til fundar 27. september 2011. Það hefur aftur á móti ekki áhrif á niðurstöðu málsins enda ljóst af gögnum í málinu að gætt var að andmælarétti kærenda.

Kröfu kærenda um málskostnað er vísað frá nefndinni enda engin lagaheimild fyrir kærunefndina til að úrskurða um málskostnað.

Í ljósi framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A og B til greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta