Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2012

Mánudaginn 14. nóvember 2013

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 12. janúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. janúar 2012, þar sem umsókn hans um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 16. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 26. janúar 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 2. febrúar 2012 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 51 árs. Hann er einstæður og býr í eigin íbúð að B götu nr. 23 í sveitarfélaginu C. Níu ára dóttir hans dvelur hjá honum aðra hverja helgi.

Kærandi er menntaður rafeindavirki og starfar í 100% starfi hjá X ehf. Útborgaðar mánaðartekjur hans eru að meðaltali 170.227 krónur.

Að sögn kæranda má rekja upphaf greiðsluerfiðleika hans til þess að fyrirtæki í eigu hans hafi ekki greitt honum laun frá miðju ári 2008 þar sem verkefnum hafði fækkað. Auk þess hafi kærandi þjáðst af brjósklosi í baki frá ágúst 2007 í um tvö ár sem hafi dregið enn frekar úr tekjum hans. Kærandi hafi sótt um frystingu hjá Íbúðalánasjóði árið 2008, sem hann hafi fengið, en eftir eitt ár hafi hann ekki fengið framlengingu á frystingunni. Þetta sé ein ástæða þess að kærandi hafi þurft að leita til umboðsmanns skuldara. Kærandi nefni aðrar ástæður, svo sem hækkun á greiðslubyrði lána Íbúðalánasjóðs, hækkun fasteignagjalda og hækkun á rafmagni, vatni og bensíni. Þá hafi tekjur kæranda lækkað og dregið úr afkomu fyrirtækis hans.

Kærandi lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. janúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.), sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi telji að umboðsmaður skuldara byggi á röngum upplýsingum. Kærandi bendir á að umdeildur bíll í málinu sé búinn að vera í eigu og ábyrgð hans frá 21. ágúst 2007. Samningur hafi verið gerður um nafnabreytingu á bílnum 23. júní 2011. Fyrri eigandi bifreiðarinnar hafi verið X ehf. Samningurinn sé undirritaður af kæranda og starfsmanni Avant hf. og vottaður af tveimur aðilum.

Kærandi eigi fyrirtækið X ehf. og starfi hann þar einn. Hann hafi haft áhyggjur af því að hlunnindaálag yrði meira en greiðslubyrði af lánum og því ákveðið að gera nafnabreytingu á bílnum.

Kærandi telur að það muni ekki vera vandamál fyrir hann að greiða af lánum þegar að uppgjöri kemur, kærandi hafi meiri áhyggjur af aukainnheimtugjöldum.

Kærandi vísar til þess að laun hans séu mikið tengd afkomu fyrirtækisins og því hafi skipt máli að halda öllum aukakostnaði niðri. Fyrirtækið sé nú að koma til og aukning sé á afkomu milli ára. Það muni því auka tekjur kæranda.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. janúar 2012 kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar ef hann sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Fram komi í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til þess að leita greiðsluaðlögunar. Í almennum athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 101/2010 komi fram að ekki megi samþykkja umsókn ef hún teljist á einhvern hátt óeðlileg. Í því tilliti sé í frumvarpinu bent á að ef skuldasöfnun eigi rætur sínar að rekja til ólögmætra eða ósiðlegra athafna skuldara þá sé ekki heimilt að samþykkja umsókn um greiðsluaðlögun.

Þá komi fram í c-lið 1. mgr. 6. gr. lge. að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef aðstæður við stofnun skulda eða síðari ráðstafanir skuldara bendi ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 101/2010 komi fram að umboðsmaður skuli eins og kostur er og með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um tekjur og skuldbindingar skuldara leggja mat á hvort ákvæðið eigi við. Með þessu sé komið í veg fyrir að áður en umsókn um greiðsluaðlögun sé lögð inn til umboðsmanns skuldara geti einstaklingur ráðstafað tekjum sínum umfram efni til ónauðsynlegra hluta og látið ógert að greiða af þeim skuldbindingum sem hann hafði áður gengist undir í því skyni að fá þær skuldbindingar lækkaðar eða felldar niður með greiðsluaðlögun.

Kærandi hafi lagt inn umsókn um greiðsluaðlögun til embættis umboðsmanns skuldara 30. júní 2011. Tilkynning þess efnis hafi verið send sýslumanninum í Kópavogi sama dag og í Lögbirtingablaðið 1. júlí sama ár. Við móttöku umsóknar hjá umboðsmanni skuldara hafi kæranda verið gerð grein fyrir skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara bendir á að 4. júlí 2011 [sic] hafi kærandi fest kaup á bifreiðinni Honda Accord með skráningarnúmerinu D af eigin einkahlutafélagi með því að gera kaupleigusamning við Avant hf. að fjárhæð 2.368.151 króna, sbr. lánasamning nr. 118578. Kaupverð fólst í yfirtöku áhvílandi láns frá Avant hf.

Ljóst sé því að kærandi hafi stofnað til nýrrar skuldbindingar eftir að umsókn um greiðsluaðlögun var lögð inn til umboðsmanns skuldara. Kærandi hafi ekki látið þess getið í viðskiptum sínum við Avant hf. að hann hefði nýlega lagt inn umsókn um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara og væri því í greiðsluskjóli. Telja verði að með síðari ráðstöfunum sínum hafi kærandi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar, sbr. c-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara metur það einnig svo að með háttsemi sinni hafi kærandi brotið í bága við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og uppfylli þar með ekki skilyrði til þess að leita greiðsluaðlögunar, sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Þrátt fyrir að umboðsmaður skuldara hafi ekki beina heimild til synjunar á grundvelli 12. gr. lge. metur umboðsmaður það svo að komin sé nokkur reynsla á framkvæmd mála þar sem farið er fram á að mál verði felld niður á grundvelli 15. gr. lge. í þeim tilvikum þar sem skuldari hefur brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. Í tilviki kæranda sé ljóst að það falli undir slíkar ráðstafanir sem að framan greini. Þá hafi kærandi með háttsemi sinni gert það líklegt að hagsmunir annarra lánardrottna myndu skerðast við slíka ráðstöfun.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara 26. janúar 2012 er bent á að í greinargerð kæranda, sem borist hafi umboðsmanni skuldara 14. júlí 2011, lýsi kærandi fjárhagsstöðu sinni. Taki hann þar fram að hann hafi ekki getað haldið húsnæðisláni sínu í skilum og vanskil nemi um 1.100.000 krónum. Þá lýsi kærandi því að verðmæti íbúðar hans sé um 27.000.000 króna samkvæmt fasteignamati og að skuld vegna húsnæðisláns hans standi í um 32.000.000 króna. Enn fremur komi þar fram að kærandi skuldi 600.000 krónur í yfirdráttarlán. Af upplýsingum úr staðgreiðsluskrá verði ráðið að launatekjur kæranda á mánuði frá byrjun ársins 2011 og þar til í október s.á. hafi verið á bilinu 165.503 krónur til 170.227 krónur. Ekki verði séð hvernig kærandi hafi ætlað að standa skil á afborgunum samkvæmt bílasamningnum og öðrum skuldum sínum að auki, án þess að nýta sér lækkanir eða niðurfellingu skulda sem falist geti í greiðsluaðlögunarsamningi. Þá sé til þess að líta að samkvæmt dagsetningu samnings og ummælum kæranda í kæru hafi kaupin átt sér stað aðeins um viku áður en kærandi hafi sótt um greiðsluaðlögun og þyki þessi stutti tími frekar benda til þess að ákvæðið eigi við. Enn fremur verði að telja þá háttsemi kæranda óheiðarlega að taka yfir umrædda skuld svo stuttu áður en hann fór í greiðsluskjól, án þess að gera samningsaðila sínum grein fyrir því, bæði af ofangreindum ástæðum og vegna þess að hann hafi mátt vita að hann hvorki gæti né mætti greiða af skuldinni þegar hann yrði kominn í greiðsluskjól.

Umboðsmaður skuldara ítrekar í greinargerð sinni að umfangsmikil skuldsetning vegna kaupa á bifreið myndi almennt fela í sér brot á skyldum aðila í greiðsluskjóli, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr., og gæti samkvæmt því leitt til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara krefst þess að ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 1. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri vísun til a- og c-liða, sbr. 15. gr. lge., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærandi vísar til þess að hann hafi átt bifreiðina D frá árinu 2007 og að aðeins hafi verið breytt um nafn á skráðum eiganda bifreiðarinnar árið 2011. Í gögnum málsins liggur fyrir kaupleigusamningur um bifreiðina dagsettur 23. júní 2011. Kærandi er þar kaupandi og kaupverðið greiddi hann samkvæmt samningnum með yfirtöku skuldar við Avant hf. að fjárhæð 2.368.151 króna. Með þessu liggur fyrir að kærandi stofnaði til skuld­bindingarinnar gagnvart lánafyrirtækinu Avant hf. þennan dag með því að yfirtaka lánið. Kærandi sótti síðan um greiðsluaðlögun 30. júní 2011.

Í 1. mgr. 15. gr. lge. er fjallað um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana. Ákvæðið er að finna í III. kafla lge. sem fjallar um upphaf greiðsluaðlögunarumleitana í kjölfar þess að umboðsmaður hefur samþykkt umsókn skuldara til greiðsluaðlögunar. Í ákvæðinu er fjallað um heimild til umboðsmanns skuldara til að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar komi fram upplýsingar frá skipuðum umsjónarmanni þess efnis að ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er vísað til þess að mál verði felld niður á grundvelli 15. gr. lge. í þeim tilvikum þar sem skuldari hefur brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. Með háttsemi sinni hafi kærandi brotið í bága við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og uppfylli þar með ekki skilyrði til þess að leita greiðsluaðlögunar, sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Af gögnum málsins er ljóst að viðskiptin með bifreiðina D fóru fram 23. júní 2011 en eftir það, 30. júní 2011, sótti kærandi um greiðsluaðlögun, eins og áður er komið fram. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er hins vegar byggt á því að kærandi hafi yfirtekið lánið hjá Avant hf. með kaupleigusamningnum eftir að hann sótti um greiðsluaðlögun. Kæru­nefndin telur þessar ályktanir umboðsmanns skuldara ekki standast með vísan til þess sem að framan greinir um aðgerðir á greiðsluaðlögunartímabili samkvæmt 12. og 15. gr. laganna og tímasetningu bifreiðakaupa kæranda áður en hann sótti um greiðsluaðlögun. Þannig ber að hafna því að kærandi uppfylli ekki skilyrði til að leita greiðslu­aðlögunar á grundvelli þessara lagaákvæða.  

Í 6. gr. lge. eru tilgreindar sérstaklega þær aðstæður sem embættið skal líta til við ákvörðun um hvort umsókn skal samþykkt.

Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi til lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni fram á að skuldari uppfylli ekki skilyrði laganna, sbr. ákvæði I. kafla. Í I. kafla laganna eru þrjú ákvæði, 1. gr. sem tilgreinir markmið laganna, 2. gr. sem tiltekur hverjir leitað geti greiðsluaðlögunar og 3. gr. sem tiltekur hvaða kröfur falli undir greiðsluaðlögun.

Óljóst er á grundvelli hvaða ákvæðis I. kafla laganna umboðsmaður skuldara byggir synjunina en samkvæmt framangreindum skýringum við ákvæðið er ljóst að uppfylli umsækjendur greiðsluaðlögunar ekki þau skilyrði sem tilgreind eru í 2. gr. lge., er heimilt að synja um greiðsluaðlögun á grundvelli a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Kærunefndin telur að kærandi uppfylli þau skilyrði og getur því ekki fallist á að umboðsmanni skuldara hafi verið heimilt að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Í c-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef aðstæður við stofnun skuldar eða síðari ráðstafanir skuldara benda ótvírætt til þess að hann hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar. Í skýringum við ákvæðið í frumvarpi til lge. kemur fram að umboðsmaður skuldara skuli, með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um tekjur og skuldbindingar skuldara, leggja mat á hvort ákvæðið eigi við. Fram kemur einnig að með þessu sé komið í veg fyrir að fyrir umsókn um greiðsluaðlögun geti einstaklingur ráðstafað tekjum sínum umfram efni til ónauðsynlegra hluta og látið ógert að greiða af þeim skuldbindingum sem hann hafði áður gengist undir, í því skyni að fá þær skuldbindingar lækkaðar eða niðurfelldar með greiðsluaðlögun.

Samkvæmt framangreindum skýringum við ákvæðið er ljóst að sú háttsemi að auka við skuldir sínar með þeim hætti sem kærandi gerði í máli þessu svo skömmu áður en hann sótti um greiðsluaðlögun fellur ekki undir c-lið 1. mgr. 6. gr. lge. en þar er vísað til þess að skuldari hafi hegðað sér á óheiðarlegan hátt til þess að geta leitað greiðsluaðlögunar. Kærunefndin telur að hin umdeilda skuld hafi ekki getað skipt máli við mat á því hvort kærandi uppfyllti skilyrði laganna til að geta leitað greiðsluaðlögunar.

Hins vegar fellst kærunefndin á það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar við þessar aðstæðum sem að framan er lýst. Telur kærunefndin með vísan til þess að kærandi jók umtalsvert á persónulegar skuldbindingar sínar einungis viku áður en hann sótti um greiðsluaðlögun að hann hafi hagað sér með verulega ámælisverðum hætti í skilningi 1. málsl. c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í ákvæðinu er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt sé að veita hana á grundvelli þess að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt. Með vísan til þess telst umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar réttilega synjað á grundvelli 1. málsl. c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Þrátt fyrir að umboðsmaður skuldara hafi í ákvörðun sinni ekki vísað til 2. mgr. 6. gr. lge. verður að telja að embættið hafi engu að síður lagt mat á það hvort háttsemi kæranda leiddi til þess að óhæfilegt þætti að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögun staðfest á grundvelli 1. málsl. c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta