Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/2012

Fimmtudaginn 21. nóvember 2013


A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir.

Þann 11. janúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. janúar 2012 þar sem umsókn hans um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 13. janúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. mars 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 23. mars 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekunarbréf var sent 3. október 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 45 ára og býr í 71,4 fermetra íbúð að B götu nr. 4 í sveitarfélaginu C. Í greinargerð kæranda með umsókn um greiðsluaðlögun kemur fram að kærandi sé einstæður fimm barna faðir. Hann greiði enn meðlag með tveimur börnum sínum sem dvelji hjá honum aðra hverja helgi. Þá segir að kærandi hafi slasast í bílslysi árið 1993 og hafi síðan verið metinn til 75% örorku. Hann fái greiddan lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins í samræmi við það. Síðustu ár hafi kærandi einnig haft tekjur af því að gera upp íbúðir og bíla til endursölu.

Að sögn kæranda má rekja upphaf greiðsluerfiðleika hans til þeirra efnahagsþrenginga sem hófust síðari hluta árs 2007. Í september það ár hafi kærandi keypt íbúð sem hann hafi gert upp og selt með hagnaði. Hann hafi notað söluhagnaðinn til að fjármagna kaup á núverandi íbúð að B götu en hann hafi keypt íbúðina í desember 2007. Hann hafi ætlað að gera íbúðina upp og selja síðan með hagnaði en hafi ekki tekist að selja hana að loknum endurbótum. Kærandi hafi einnig keypt bifreiðar, lagfært þær og selt aftur. Hann hafi haft af þessu einhverjar tekjur sem ekki komi fram á skattframtölum. Þær tekjur hafi hann ekki lengur þar sem bílasala hafi stöðvast í kjölfar bankahrunsins.

Að sögn kæranda hefur hann verið haldinn þunglyndi og kvíða um árabil. Þegar hallað hafi undan fæti í fjármálum kæranda hafi sjúkdómurinn orðið þess valdandi að hann hafi lokað augunum fyrir þeim fjárhagsvanda sem upp var kominn sem hafi aftur leitt til þess að hann hafi misst tökin á fjármálum sínum.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kæranda 51.504.579 krónur og falla þær í heild sinni innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.). Skuldirnar sundurliðist þannig:

Kröfuhafi Tegund Ár Staða 2012 kr.
Íbúðalánasjóður Veðkrafa 2007 3.650.299
Íbúðalánasjóður Veðkrafa 2007 3.699.518
Íbúðalánasjóður Veðkrafa 2007 3.900.727
Íbúðalánasjóður Veðkrafa 2007 7.982.253
Avant Bílasamningur 2008 3.606.928
Lýsing Bílasamningur 2008 3.584.336
S24 Lán 2008 1.016.561
Íslandsbanki Tékkareikn./Yfirdráttur 9.007.911
Íslandsbanki Kreditkort 2.535.699
Byr Tékkareikn./Yfirdráttur 1.260.643
Byr Kreditkort 699.291
Sparisjóður Tékkareikn./Yfirdráttur 2.299.680
Sparisjóður Kreditkort 529.370
Arion banki Tékkareikn./Yfirdráttur 1.233.565
Arion banki Kreditkort 223.048
Aðrir Annað 6.274.750
Samtals: 51.504.579

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara nema vanskil 36.189.291 krónu.

Heildarfjárhæð ábyrgðarskuldbindinga sem kærandi hefur tekist á hendur er 6.287.869 krónur. Þar á meðal gekkst hann í ábyrgðir fyrir E ehf., en það félag var í eigu kæranda. Skuldir þessar sundurliðast með eftirfarandi hætti samkvæmt yfirliti umboðsmanns skuldara:

Kröfuhafi Lántaki Ár Fjárhæð kr.
LÍN D 2007 677.782
Avant E ehf. 2007 2.544.076
Avant E ehf. 2008 1.229.543
Íslandsbanki E ehf. 2008 1.836.468

Samtals 6.287.869

Samkvæmt framangreindu yfirliti umboðsmanns skuldara nema vanskil 6.287.869 krónum.

Kærandi hefur áður sótt um greiðsluaðlögun en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. desember 2010 var beiðni hans synjað. Byggði sú ákvörðun á því að óhæfilegt þætti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Kærandi lagði á ný inn umsókn um greiðsluaðlögun 5. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. janúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi telur óásættanlegt að honum hafi verið synjað um greiðsluaðlögun. Mótmælir kærandi því að hann hafi tekið fjárhagslega áhættu sem hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til skuldbindinga var stofnað.

Kærandi telur greiðslugetu sína 90.000 krónur á mánuði en ekki 52.000 krónur á mánuði eins og umboðsmaður skuldara miðar við. Kærandi vísar einnig til þess að skuld við Íbúðalánasjóð hafi verið lækkuð um 2.500.000 krónur vegna 110% leiðréttingar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara segir að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni einkum að kanna hvort fyrir liggi þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Þar segi jafnframt að við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort þær aðstæður sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi. Umboðsmaður skuldara rökstyður synjun á umsókn kæranda með vísan til þeirra aðstæðna sem tilgreindar eru í b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef stofnað hefur verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Bendir umboðsmaður skuldara á að samkvæmt skattframtölum hafi mánaðarlegar nettótekjur kæranda numið 103.732 krónum árið 2006, 151.272 krónum árið 2007 og 170.060 krónum árið 2008. Mánaðarlegar greiðslur vegna íbúðalána kæranda hafi árið 2007 verið 107.413 krónur. Sé miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara hafi framfærslukostnaður kæranda í ársbyrjun 2008 verið að minnsta kosti 183.912 krónur að meðtöldum greiðslum vegna íbúðalána og rekstrarkostnaði af einni bifreið en án meðlagsgreiðslna. Miðað við mánaðarlegar nettótekjur kæranda árin 2007 og 2008 þyki því ljóst að þegar á þessum tíma hafi fjárhagsstaða kæranda verið orðin mjög þröng. Þrátt fyrir það hafi kærandi stofnað til umtalsverðra skuldbindinga árið 2008. Þar á meðal hafi verið bílasamningur við Avant hf. en 22. október 2008 hafi kærandi tekið yfir skuldbindingu fjármögnunarleigusamnings að fjárhæð 4.147.254 krónur. Mánaðarlegar afborganir hafi verið áætlaðar 80.325 krónur. Samningurinn hafi verið í vanskilum frá 1. nóvember 2008. Sama dag hafi kærandi tekið yfir bílasamning vegna rekstrarleigu við Lýsingu hf. Mánaðarleg greiðslubyrði hafi verið áætluð 92.065 krónur. Samningurinn hafi verið í vanskilum frá upphafi en nú nemi skuldin 3.584.336 krónum. Á þessum tíma hafi verið farið að bera á verulegum vanskilum á skuldbindingum kæranda. Þannig hafi kreditkortareikningur að fjárhæð 505.717 krónur með gjalddaga 2. júlí 2008 verið í vanskilum þegar kærandi tók yfir bílasamningana. Aðrar vangreiddar kortaskuldir í vanskilum hafi þá numið 816.550 krónum. Sömuleiðis hafi afborganir af íbúðalánum verið í vanskilum frá 15. júlí 2008. Þá séu ótaldar yfirdráttarskuldir kæranda sem hann hafi stofnað til á árunum 2007 og 2008 en þær skuldir hafi verið gjaldfelldar skömmu eftir að kærandi tókst á hendur skuldbindingar vegna bílasamninganna. Við gjaldfellingu hafi yfirdráttarskuldirnar numið samtals 6.636.447 krónum. Þá hafi kærandi stofnað til viðskiptaskulda á þessum tíma og gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir láni E ehf. að fjárhæð 2.600.000 krónur.

Kærandi hafi gert grein fyrir því að hann hafi stofnað til umræddra skuldbindinga árið 2008 til þess að kaupa bíla sem hann hafi ætlað að selja með hagnaði eftir að hafa lagfært þá. Umboðsmaður skuldara telur að ekki verði horft fram hjá því að kærandi hafi skuldbundið sig persónulega vegna þessara viðskipta og þannig tekið á sig alla áhættuna af því að þurfa að greiða skuldirnar að fullu, jafnvel þótt bifreiðarnar seldust ekki. Þegar tekjur kæranda og þáverandi skuldbindingar séu skoðaðar sé ljóst að hann hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem hann hafi stofnað til fjárhagsskuldbindinga vegna bílasamninganna seinni hluta ársins 2008. Telja verði verulega ámælisvert af kæranda að hafa gengist undir miklar skuldbindingar af þessu tagi þegar hann var þegar í verulegum vanskilum með aðrar skuldbindingar sínar.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að mánaðarlegar heildartekjur kæranda nemi 235.560 krónum að meðtöldum barnalífeyri, vaxtabótum og sérstakri vaxtaniðurgreiðslu. Að því er varðar fjárhæð þeirra ráðstöfunartekna sem útreikningar embættisins séu miðaðir við bendir umboðsmaður skuldara á að samkvæmt B-lið 68. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, teljist greiddir vextir og verðbætur til vaxtagjalda sem myndi rétt til vaxtabóta. Við móttöku umsóknar kæranda hafi hafist tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., sbr. lög nr. 128/2010. Því hafi hvorki þótt fært að gera ráð fyrir greiðslum vaxtabóta né sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu þegar mánaðarlegar tekjur kæranda hafi verið áætlaðar.

Loks vísar umboðsmaður skuldara til úrskurða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 11/2011, 17/2011 og 23/2011 en í þeim var niðurstaðan sú að þegar skuldari tekst á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að hann geti staðið undir miðað við tekjur, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárhagsskuldbindinga á þeim tíma þegar lán eru tekin, leiði það til þess að umboðsmanni sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Að mati umboðsmanns þykja aðstæður í máli kæranda með þessum hætti.

Fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að synjun um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé byggð á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt ofangreindum stafliðum skal tekið tillit til þess hvort skuldari hafi stofnað til skulda á þeim tíma sem hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar eða hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist fyrst og fremst á því að þrátt fyrir þröngan fjárhag og litla greiðslugetu hafi kærandi stofnað til umtalsverðra skuldbindinga árið 2008. Að teknu tilliti til tekna og þáverandi skuldbindinga kæranda var það mat umboðsmanns að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans. Jafnframt taldi umboðsmaður skuldara það verulega ámælisvert af kæranda að takast á hendur miklar skuldbindingar af þessu tagi þegar kærandi var þegar í verulegum vanskilum.

Samkvæmt gögnum málsins voru tekjur, eignir og skuldir kæranda eftirfarandi árin 2007–2009:

  2007 2008 2009
Ráðstöfunartekjur kr.* 146.923 169.433 266.500
Skuldir alls kr. 13.848.249 17.515.624 28.504.785
Inneignir og verðbréf kr. 1.090.000 164.039 38.447
Hlutir í félögum 513.820 1.000.000 1.000.000
Ökutæki kr. 135.000 4.340.000 225.000
Fasteign kr. 14.585.000 14.585.000 14.100.000
Eignir alls kr. 16.323.820 20.089.039 15.363.447
Nettóeignastaða kr. 2.475.571 2.573.415 -13.141.338

*Fjármagnstekjur og launatekjur að frádreginni staðgreiðslu að teknu tilliti til vaxtabóta.

Við mat á því hvort beita skuli b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna, skuldasöfnunar og fjárhagslegrar áhættu sem tekin er. Að því er varðar kæranda er það einkum árið 2008 sem er til skoðunar, en þá stofnaði kærandi til nokkurra skuldbindinga, þar á meðal bílasamninga að fjárhæð 7.731.590 krónur. Á þessum tíma gat kærandi ekki staðið í skilum með eldri skuldir sínar. Vanskil á veðlánum eru frá því í júlí 2008, vanskil á kreditkortum frá því í ágúst 2008 og vanskil á yfirdráttarskuld frá því í október 2008.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattskýrslum voru laun kæranda lág á þessum tíma. Samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara var greiðslugeta hans 52.986 krónur þegar tekið hafði verið tillit til framfærslukostnaðar. Þrátt fyrir mótmæli kæranda hefur hann ekki sýnt fram á að greiðslugeta hafi verið meiri og verður því miðað við útreikninga umboðsmanns skuldara. Í málinu liggur fyrir að mánaðarleg greiðslubyrði þeirra bílasamninga sem kærandi tókst á hendur í október 2008 var áætluð 172.390 krónur. Launatekjur kæranda hefðu ekki hrokkið til greiðslu þessara afborgana og eru þá ótaldar þær greiðslur sem kærandi þurfti að inna af hendi vegna annarra skulda sinna. Þegar litið er til þess sem gerð er grein fyrir hér að framan telur kærunefndin að skuldari hafi verið ófær um að standa við þær fjárhagsskuldbindingar sem hann stofnaði til árið 2008 í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Þá er það mat kærunefndarinnar að með framgöngu sinni hafi kærandi tekið umtalsverða fjárhagslega áhættu í skilning c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Er þá meðal annars horft til þess að kærandi var í vanskilum með aðrar skuldbindingar sínar þegar í júlí 2008. Einnig telur kærunefndin að umtalsverð áhætta hafi verið samfara þeim ábyrgðarskuldbindingum sem kærandi tókst á hendur vegna E ehf., en það félag var í eigu kæranda. Skuldir þær sem kærandi ábyrgðist fyrir félagið hafa verið í vanskilum annars vegar frá 2007 og hins vegar frá 2008 og var hluti þessara skuldbindinga þegar í vanskilum á þeim tíma sem kærandi tókst á hendur skuldbindingar samkvæmt nefndum bílasamningum.

Að öllu ofangreindu virtu er fallist á það með umboðsmanni skuldara að háttsemi kæranda hafi verið með þeim hætti að ákvæði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. girði fyrir að honum verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta