Mál nr. 19/2013
Þriðjudaginn 26. nóvember 2013
A
gegn
Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 20. mars 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 19. mars 2013. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 14. mars 2013, þar sem umsókn hans um fæðingarstyrk námsmanna hafi verið synjað.
Með bréfi, dags. 21. mars 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 28. mars 2013.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. apríl 2013, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 22. apríl 2013.
I. Málsatvik
Með umsókn kæranda, dags. 6. febrúar 2013, sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna í sex mánuði vegna barns hans sem áætlað væri að fæddist 23. apríl 2013. Kærandi var skráður í háskólabrú, eða undirbúningsnám fyrir háskólanám, sem ekki eru veittar einingar fyrir. Kærandi lauk tveimur af þremur áföngum sem hann var skráður í á haustönn 2012. Með bréfi, dags. 14. mars 2013, sendi sjóðurinn kæranda tilkynningu um að umsókn hans um fæðingarstyrk námsmanna hefði verið synjað þar sem sjóðurinn hafi metið það sem svo að hann uppfyllti ekki skilyrði laganna um að hafa verið í fullu námi.
II. Sjónarmið kæranda.
Kærandi greinir frá því að honum hafi verið synjað um fæðingarstyrk námsmanna á þeim grundvelli að hann hafi ekki náð 75% námsárangri. Hann hafi fengið námslán hjá LÍN fyrir 75% námsárangur en Fæðingarorlofssjóður hafi hafnað öllum gögnum sem hafi verið skilað inn. Ekki séu gefnar einingar fyrir það nám sem kærandi stundi heldur sé um að ræða undirbúningsnám fyrir háskólanám, háskólabrú. Kærandi hafi skilað inn staðfestingu á námsárangri sem Fæðingarorlofssjóður hafi ekki tekið til greina því það hafi ekki verið stimplað af skólanum.
III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.
Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að með umsókn kæranda, dags. 6. febrúar 2013, hafi fylgt vottorð um áætlaðan fæðingardag, bréf frá S háskóla, dags. 10. maí 2012, útprentun af svæði LÍN, dags. 6. febrúar 2013, staðfesting á fögum sem kærandi hafi lokið, dags. 17. janúar 2013, yfirlit yfir lokin fög hjá kæranda og yfirlit yfir fög sem hann sé skráður í á sumarprófum 2013 og tölvupóstar frá 16. janúar til 12. mars 2013. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá Íslands.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), eigi foreldrar sem hafi verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.
Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75-100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.
Væntanlegur fæðingardagur barns kæranda sé þann 23. apríl 2013 og verði því, við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, að horfa til tímabilsins frá 23. apríl 2012 fram að fæðingardegi barnsins.
Samkvæmt bréfi frá S háskóla, dags. 10. maí 2012, sé kærandi í nokkurs konar háskólabrú og að námið vari í 11 mánuði frá 6. ágúst 2012 til júní 2013. Á staðfestingu frá sama skóla, dags. 17. janúar 2013, komi fram að kærandi hafi lokið tveimur fögum, ensku og efnafræði. Á yfirliti yfir lokin fög og þau fög sem kærandi sé skráður í á sumarprófum 2013 komi fram að kærandi hafi lokið þessum tveimur fögum en fallið í stærðfræði sem hann sé síðan skráður í á sumarprófi 2013. Í tölvupósti frá B, dags. 17. janúar 2013, komi fram að fögin tvö reiknist ekki til ECTS eininga.
Af framangreindu sé því ljóst og skv. uppsetningu náms að kærandi hefur lokið tveimur af þremur fögum á haustönn 2012 og því sé námsframvinda hans 67%. Með hliðsjón af þeim gögnum sem fyrir liggi um námsframvindu kæranda lítur Fæðingarorlofssjóður svo á að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í a.m.k. sex mánuði síðustu 12 mánuðina fyrir fæðingardag barns þar sem námsframvina á haustönn sé einungis 67%.
Ekki verður séð að nein undanþága ffl. eða reglugerðar nr. 1218/2008 geti átt við í tilviki kæranda en ljúki kærandi upptökuprófi í stærðfræði á sumarprófi 2013 með fullnægjandi hætti muni hann öðlast rétt til greiðslu fæðingarstyrks námsmanna enda tilheyri fagið haustönn 2012.
Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að umsókn kæranda um greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í fullu námi hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 14. mars 2013.
IV. Athugasemdir kæranda
Kærandi ítrekar að hann hafi staðist tvö fög af þeim þremur sem hafi verið til prófs á haustönn 2012. Þar sem hvorki einkunna né einingakerfi skólans sé sambærilegt því íslenska þyki honum rangt að synja honum um greiðslu fæðingarstyrks á þeim forsendum að 2/3 samsvari 67%.
Kærandi gefi sér af þeim útreikningi Fæðingarorlofssjóðs að umrædd þrjú fög teljist til 100% náms á haustönn og ef það sé heimfært yfir á íslenskt einingakerfi þá teljist það til 20 staðinna ECTS eininga 30. Þar af leiðandi uppfylli kærandi fullnægjandi námsárangur þar sem lágmarkið séu 18 ECST einingar, sbr. 6. gr. laga um háskóla nr. 63/2006. Í ffl. sé talað um 75-100% samfleytt nám en ekki komi fram einingarfjöldi sem nemandi þurfi að uppfylla til að fá styrk. Sem námsmaður hafi kærandi verið skráður í 100% nám.
V. Niðurstaða.
Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrk námsmanna.
Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að kærandi uppfylli ekki almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuðu af síðust 12 mánuðina fyrir fæðingardag barnsins þar sem námsframvinda á haustönn hafi einungis verið 67%.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar sem hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðust tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt til fæðingarstyrks. Í 4. mgr. 7. gr. ffl. er hugtakið fullt nám skilgreint á þann veg að það sé 75-100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75-100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.
Í máli þessu er einungis til skoðunar hvort námsframvinda kæranda á haustönn 2012 hafi náð 75% af fullu námi í skilningi ffl. Í þeim lögum er ekki miðað við námsárangur samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Útreikningar kæranda, þar sem hann telur námið jafngilda 20 ECTS einingum eiga ekki við, auk þess sem fullyrðingar hans um að 18 einingar séu lágmarksárangur samkvæmt lögum um háskóla eiga sér ekki stoð.
Óumdeilt er að kærandi lauk tveimur af þremur fögum á haustönn 2012. Að mati úrskurðarnefndar verður að leggja til grundvallar að vægi hvers fags sé það sama, enda hefur kærandi hvorki byggt á öðru né lagt fram gögn sem sýni fram á annað. Það er því ljóst, að mati úrskurðarnefndar, að kærandi hafi einungis lokið 67% (2/3) námi á þeirri önn, en ekki 75% (4/5).
Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda, A um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna er staðfest.
Haukur Guðmundsson
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson