Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 21/2013

Þriðjudaginn 26. nóvember 2013


A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Haukur Guðmundsson hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 11. apríl 2013 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 9. apríl 2013. Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi, dags. 25. mars 2013, þar sem umsókn hennar um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna var synjað.  

Með bréfi, dags. 15. apríl 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar sem barst með bréfi, dags. 16. maí 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 22. maí 2013, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Með umsókn kæranda, dags. 5. mars 2013, sótti kærandi um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Kærandi sótti um greiðslur vegna dóttur sinnar sem hafi verið með gulu frá fæðingu og hafi greinst með atresíu á gallgöngu utan lifrar og fór í aðgerð vegna þess í byrjun marsmánaðar 2013. Í læknisvottorði kemur fram að miklar líkur séu á því að dóttir kæranda þurfi að fara í lifrar ígræðslu á næstu sex til 24 mánuðum. Þá segir einnig í læknisvottorði að ljóst sé að umönnun barnsins verði mikil og miklu meiri en hjá heilbrigðu barni.

Með bréfi, dags. 25. mars 2013, sendi stofnunin kæranda tilkynningu um að umsókn hennar um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna hafi verið synjað þar sem stofnun hafi metið það sem svo að kærandi væri að fá greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar.

 

II. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hún fái örorkustyrk og barnalífeyri frá Tryggingastofnun. Örorkustyrkur sé ekki hugsaður til framfærslu heldur til að mæta kostnaði við lyf og lækniskostnað. Sú upphæð sem kærandi fái sé langt frá því að ver nægjanleg til framfærslu móður og barns. Kærandi hafi fengið fæðingarstyrk frá Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði og þar hafi örorkustyrkur ekki verið fyrirstaða.

Í 26. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna komi fram að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögunum fái það lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Lífeyrisgeriðslur einstaklings sem sé í sambúð séu í dag 177.156 kr. en örorkustyrkur sé að upphæð 25.175 kr. Á þeim grundvelli sé kæra lögð fram þar sem framangreindar tvær upphæðir séu á engan hátt sambærilegar og augljóst að enginn geti séð fyrir sér fyrir 25.000 kr. á mánuði.

Vegna mikilla og erfiðra veikinda dóttur kæranda geti hún ekki farið á vinnumarkað. Barnið þarfnist núna sólarhringsumönnunar og fyrirhuguð sé ferð til Svíþjóðar á næstunni þar sem hún fái nýja lifur, en þá aðgerð sé ekki hægt að framkvæma hér á landi. Mikilvægt sé að foreldrar þurfi ekki að upplifa skort og vandkvæði við framfærslu á sama tíma og þau glími við þessi veikindi.

 

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar.

Af hálfu Tryggingastofnunar kemur fram að í málinu hafi legið fyrir umsókn kæranda um almenna fjárhagsaðstoð (grunngreiðslur), dags. 5. mars 2013, vottorð V læknis, dags. 11. mars 2013, greinargerð félagsráðgjafa, dags. 6. mars 2013, og upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði, dags. 14. janúar 2013. Þá liggi fyrir að kærandi fái greiddan örorkustyrk frá Tryggingastofnun.

Í 29. gr. laga nr. 22/2006 um greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna komi fram að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögunum ef það fái lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Kærandi fái greiddan örorkustyrk frá Tryggingastofnun sem greiddur sé samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Það ákvæði sé í III. kafla laganna sem fjalli um lífeyristryggingar. Tryggingastofnun telji því að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögum nr. 22/2006, með vísan til 29. gr. laganna og því hafi umsókn hennar um greiðslur verið synjað.

 

IV. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um greiðslu til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna.

Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að örorkustyrkur sá sem kærandi þiggur frá Tryggingastofnun teljist til lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar og því eigi hún ekki rétt á greiðslum á grundvelli laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 29. gr. laga 22/2006.

Í 29. gr. laganna er fjallað um það sem nefnt er „ósamrýmanleg réttindi“. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins á foreldri sem fær atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögunum fyrir sama tímabil. Sama eigi við um foreldri sem fái lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í athugasemdum frumvarps er varð að lögunum segir að foreldri sem fær greiddar atvinnuleysisbætur eða lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar eigi ekki rétt á greiðslum samkvæmt lögum nr. 22/2006 fyrir sama tímabil enda sé atvinnuleysisbótum og lífeyrisgreiðslum ætlað að tryggja framfærslu hlutaðeigandi þann tíma.

A.m.k. síðan stofninn að núgildandi lögum um almannatryggingar var samþykktur á Alþingi 1993 hefur örorkustyrkur verið talinn til lífeyristrygginga í þeim lögum. Hugtakið „lífeyrisgreiðslur“ er hins vegar ekki að finna í lögum um almannatryggingar, nema í útrunnu bráðabirgðaákvæði.

Að teknu tilliti til þess tilgangs ákvæðis 29. gr. laga um 22/2006 að koma í veg fyrir að menn njóti í senn lífeyris sér til framfærslu og jafnframt greiðslna samkvæmt lögunum, verður ekki fallist á skilning Tryggingastofnunar á samspili örorkustyrks og greiðslna til foreldra langveikra barna.  Er að mati úrskurðarnefndar ekki unnt að líta svo á að örorkustyrkur sem er veittur einstaklingi, sem getur unnið fulla vinnu, til að mæta verulegum aukakostnaði sem fylgir sjúkdómi, teljist talist til lífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar sem tryggja eigi framfærslu foreldris. Fær það ekki raskað þessari niðurstöðu að mælt sé fyrir um örorkustyrk í III. kafla laga um almannatryggingar sem fjalli um lífeyristryggingar.

Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda, A um grunngreiðslur samkvæmt lögum nr. 22/2006 er felld úr gildi.

 

 

Haukur Guðmundsson

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta