Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 27/2013. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 10. desember 2013

í máli nr. 27/2013:

Fastus ehf.

gegn

Ríkiskaupum

Landspítala

Heilbrigðisstofnun Austurlands

Sjúkrahúsinu á Akureyri

Sjúkrahúsinu á Akranesi og

Á.Hr. ehf.  

Með kæru 18. nóvember 2013 kærir Fastus ehf. rammasamningsútboð Ríkiskaupa nr. 15408 um kaup á svæfingarvélum vegna Landspítala, Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Sjúkrahúss Akureyrar og Sjúkrahúss Akraness. Gerir kærandi þær kröfur aðallega að felld verði úr gildi sú ákvörðun Ríkiskaupa að taka tilboði General Electric Healthcare í svæfingartæki í útboðinu og lagt verði fyrir varnaraðila að velja úr framkomnum tilboðum að nýju. Þá er þess krafist að innkaupaferlið verði stöðvað um stundarsakir teljist kæra ekki hafa haft í för með sér sjálfkrafa stöðvun. Til vara er þess krafist að útboðsferlið verði fellt úr gildi og útboð auglýst á nýjan leik og til þrautavara að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila. Þá er krafist málskostnaðar.

Varnaraðilum var gefin kostur á að tjá sig um kæruna. Með tveimur greinargerðum 3. desember 2013 kröfðust varnaraðilar þess að öllum kröfum kæranda yrði vísað frá eða þeim yrði hafnað, en jafnframt að kærunefnd aflétti banni við samningsgerð þegar í stað. Þá var krafist málskostnaðar.

Í þessum þætti málsins er einungis tekin afstaða til þeirrar kröfu varnaraðila að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar verði aflétt. 

            Mál þetta lýtur að fyrrgreindu rammasamningsútboði um kaup á svæfingartækjum sem auglýst var á Evrópska Efnahagssvæðinu 10. maí 2013. Fyrirspurnarfrestur var til 17. júní 2013 og fór opnun tilboða fram 26. júní sama ár en tilboð bárust frá fjórum fyrirtækjum. Með bréfi 8. nóvember 2013 var tilkynnt að ákveðið hefði verið að velja tilboð Á.Hr. ehf. sem bauð tækjabúnað frá General Electric Healthcare í útboðinu.

Kröfur kæranda byggja í meginatriðum á því að það tilboð sem varð fyrir valinu uppfylli ekki þær lágmarkskröfur sem útboðsgögn geri og því hafi ekki verið heimilt að taka tilboðinu. Þannig hafi framboðnar svæfingarvélar ekki uppfyllt grein 6.1 í útboðsgögnum um „hæstu klínísku kröfur um gæði og virkni, öryggi, sveigjanleika, áreiðanleika og viðmót.“ Þá hafi kaupandi ekki verið upplýstur um varúðartilkynningar sem sendar hafi verið út vegna framboðinna véla í samræmi við grein 2.7 í útboðsgögnum. Jafnframt að framboðnar vélar uppfylli ekki þá ófrávíkjanlegu kröfu greinar 7.6 í útboðsgögnum um að það verði að vera mögulegt að tengja kerfi vélanna í gegnum VPN tengingu við miðlæga þjónustu framleiðanda. Enn fremur byggir kærandi á því að „útboðslýsing hafi ekki lagt rétt mat á hagkvæmni tilboða og því sé um að ræða brot á þeirri meginreglu að velja skuli hagkvæmasta tilboðið...“.  

Niðurstaða

Af kæru verður nægjanlega ráðið að hverjum kæran beinist og eru því ekki efni til að vísa kröfum kæranda frá og aflétta stöðvun samningsgerðar af því tilefni, svo sem krafist er í sameiginlegri greinargerð varnaraðila Ríkiskaupa og Landsspítala.

Eins og málið liggur fyrir verður ekki af gögnum þess ráðið að það tilboð sem varð fyrir valinu í útboðinu hafi ekki uppfyllt þær kröfur um gæði, virkni og aðra eiginleika sem tilgreindir eru í grein 6.1 í útboðsgögnum. Þá gefa fyrirliggjandi gögn ekki tilefni til að efast um réttmæti þeirrar fullyrðingar varnaraðila að framboðnar svæfingarvélar uppfylli skilyrði greinar 7.6 í útboðsgögnum um að geta tengst miðlægri þjónustu framleiðanda í gegnum viðeigandi tengingar.

Varnaraðili Á.hr. ehf. hefur upplýst undir rekstri málsins að varúðartilkynning, líkt og sú sem grein 2.7 í útboðsgögnum tekur til, vegna hluta þeirra vara sem boðin voru í umræddu útboði hafi verið send viðskiptavinum General Electric Healthcare í Norður-Evrópu, meðal annars á Íslandi, hinn 21. nóvember sl. Verður því ekki séð varnaraðili Á.hr. ehf. hafi ekki fylgt ákvæðum greinar 2.7 í útboðsgögnum, auk þess sem af greininni verður ekki ráðið að það sé skilyrði fyrir gildi tilboðs að slíkar tilkynningar hafi verið sendar. Verður því að svo komnu máli ekki fallist á að það tilboð sem varð fyrir valinu í útboðinu hafi ekki uppfyllt lágmarkskröfur útboðsgagna.

Skilja verður kröfu kæranda um að útboðslýsing „hafi ekki lagt rétt mat á hagkvæmni tilboða“ þannig að gerðar séu athugasemdir við efni útboðsgagna. Af gögnum málsins verður ráðið að framangreint útboð var auglýst 10. maí 2013 og að fyrirspurnarfresti lauk 17. júní 2013. Frestur skv. 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 11. gr. laga nr. 58/2013, til þess að bera upp kæru beinlínis viðvíkjandi efni útboðsgagna var því löngu liðinn þegar kæra barst kærunefnd hinn 18. nóvember sl.

Eins og málið liggur fyrir nú telur kærunefnd því að ekki hafi verið leiddar slíkar líkur að broti gegn reglum um opinber innkaup að efni séu til þess að viðhalda stöðvun umrædds útboðs. Verður því fallist á kröfu varnaraðila um að stöðvun samningargerðar verði aflétt, sbr. 2. mgr. 94. gr. a. laga um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013. Að öðru leyti bíður efnisleg úrlausn kærunnar úrskurðar kærunefndar. 

Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar varnaraðila, Ríkiskaupa, Landspítala, Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Sjúkrahússins á Akureyri og Sjúkrahússins á Akranesi, vegna útboðs nr. 15408 um kaup á svæfingarvélum, í framhaldi af kæru kæranda, Fastus ehf. 

Reykjavík, 10. desember 2013.

Skúli Magnússon

Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta