Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 167/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 29. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli, nr. 167/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 26. júlí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 25. júlí 2012 fjallað um rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga og samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar hafi hún verið stödd erlendis frá 17. til 28. apríl 2012 og hafi því ekki uppfyllt skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili. Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að þar sem hún hafi látið hjá líða að veita upplýsingar um dvöl sína erlendis skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, hafi stofnunin tekið ákvörðun um að fella niður bótarétt hennar í tvo mánuði sem ella hefði verið greiddar bætur fyrir frá 7. júní 2012. Jafnframt var kærandi krafin um ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 17. til 19. apríl 2012 á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, mótt. 26 október 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 18. maí 2011. Umsókn kæranda var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar 16. júní 2011 og kærandi metin með 83% bótarétt. Kærandi mætti á ÞOR fund hjá Vinnumálastofnun og var leiðbeint á þeim fundi um „Þróun eigin viðskiptahugmyndar“ og fékk hún upplýsingar um Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Kærandi skrifaði 31. október 2011 undir samning við Nýsköpunarmiðstöð Íslands um verkefni.

 

Vinnumálastofnun barst 22. apríl 2012 rafræn staðfesting kæranda á atvinnuleit frá IP-tölu sem skráð er í Bandaríkjunum. Í kjölfarið sendi Vinnumálastofnun kæranda bréf, dags. 7. maí 2012, þar sem óskað var eftir skýringum á dvöl hennar erlendis.

 

Kærandi sendi tölvupósta til Vinnumálastofnunar, dags. 8. og 9. maí 2012, ásamt flugfarseðlum. Í fyrri tölvupóstinum spurði kærandi hvaðan Vinnumálastofnun hefði upplýsingar um ferðir hennar erlendis og tók fram að hún telji að hún hafi verið undanþegin skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar þess efnis að hún þurfi að vera í virkri atvinnuleit vegna samnings hennar um að vera þátttakandi í verkefninu „eigið frumkvöðlastarf“. Í seinni tölvupóstinum tók kærandi meðal annars fram að samkvæmt skilmálum um verkefnið hefði hún verið undanþegin skilyrðinu um virka atvinnuleit. Þá benti kærandi á niðurstöðu Persónuverndar í máli nr. 2009/635.

 

Kærandi sendi tölvupóst 4. júní 2012 þar sem hún ítrekaði meðal annars að hún hafi starfað eftir samningi um eigið frumkvöðlastarf á tímabilinu frá 1. nóvember 2011 til 1. maí 2012 og á meðan samningnum standi hafi hún ekki verið í virkri atvinnuleit.

 

Kærandi hafði sent annan tölvupóst 3. júní 2012 þar sem hún krafðist tafarlausrar greiðslu á atvinnuleysisbótum sínum. Taldi kærandi að Vinnumálastofnun hefði brotið gegn 2. mgr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem tilkynning hefði ekki farið fram með fimm daga fyrirvara og henni hefði ekki verið veittur andmælaréttur. Erindi kæranda var tekið fyrir 19. júní 2012 og var það túlkaði af Vinnumálastofnun sem síðar komnar röksemdir. Var það mat stofnunarinnar að tölvupósturinn hafi engu breytt og staðfesti ákvörðun sína frá 7. júní 2012 en mál kæranda hafði verið tekið fyrir á fundi stofnunarinnar þann dag. Þá var sú ákvörðun tekin að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði frá ákvörðunardegi á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var tilkynnt þessi ákvörðun með bréfi, dags. 8. júní 2012. Í bréfinu var kæranda einnig tilkynnt að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 17.–19. apríl 2012 er hún var stödd erlendis og uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kærandi mætti á fund Vinnumálastofnunar 5. júlí 2012 og var mál hennar tekið til endurumfjöllunar 25. júlí 2012. Vinnumálastofnun taldi að ranglega hafi verið staðið að því hvernig greiðslur til kæranda voru stöðvaðar en greiðslur til hennar hefðu átt að berast 1. júní 2012. Þá taldi stofnunin einnig að ekki hafi verið rétt að láta ákvörðun frá nóvember 2005 hafa ítrekunaráhrif á ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 8. júní 2012. Ítrekunaráhrif 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um þriggja mánaða biðtíma voru því felld niður og kæranda gert í staðinn að sæta tveggja mánaða biðtíma skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 26. júlí 2012.

 

Í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. október 2012, greinir kærandi meðal annars frá því að í febrúar 2012 hafi henni gefist kostur á að fara til Bandaríkjanna í níu daga, þ.e. 19.–28. apríl 2012. Kærandi hafi séð tækifæri í þessu enda hafi verið lögð áhersla á það í verkefni hennar að reynt yrði að markaðssetja vöru hennar erlendis þar sem ekki væri heppilegt að Nýsköpunarmiðstöð Íslands veitti stuðning við þróun vöru sem einvörðungu væri til samkeppni á innlendum vinnumarkaði. Hafi kærandi því farið í umrædda ferð en hún hafi hvorki tilkynnt ferðina til Nýsköpunarmiðstöðvarinnar né Vinnumálastofnunar, enda hafi hún ekki haft neina ástæðu til að ætla að sér væri það skylt.

 

Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun sé haldin svo alvarlegum ágöllum varðandi form og efni að það eigi að leiða til ógildingar. Kærandi telur að 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um andmælarétt hafi verið brotin þar sem ekkert í bréfi Vinnumálastofnunar frá 7. maí 2012 hafi gefið til kynna að stofnunin hygðist svipta kæranda bótarétti í þrjá mánuði og það vegna ítrekunaráhrifa sem kæranda hefði ekki getað verið kunnugt um að kæmi til álita. Kærandi vísar í dóm Hæstaréttar í máli nr. 331/1993 máli sínu til stuðnings þess að brot á andmælarétti leiði til ógildingar.

 

Kærandi telur að það hafi verið gróflega brotið á rétti sínum með því að stöðva til hennar greiðslur án lögboðinnar tilkynningar og áður en formleg ákvörðun var tekin í málinu. Þrátt fyrir að Vinnumálastofnun hefði fallist á að bæta eftir á úr sumum þeim ágöllum sem hafi verið á hinni upphaflegu ákvörðun þá geti það ekki breytt þeirri staðreynd að ágallar voru á málinu frá upphafi, enda hvíli endanleg ákvörðun í raun á sama grunni og hin fyrri. Þá sé viðurlögum beitt með afturvirkum hætti með hinni kærðu ákvörðun frá 25. júlí 2012 þar sem svipting bótaréttar sé ákveðin frá og með 7. júní 2012, þrátt fyrir að fyrri ákvörðun sé samtímis felld úr gildi. Þetta eitt og sér telur kærandi að sé ólögmætt og nægi til ógildingar og breyti þar engu um þótt Vinnumálastofnun hafi fallist á að seinka viðurlagatímabilinu til samræmis við það hvenær hin nýja ákvörðun var kynnt, enda hafi engin formleg stjórnvaldsákvörðun verið tekin um þá breytingu.

 

Kærandi greinir frá því að hin kærða ákvörðun feli í sér beitingu refsikenndra viðurlaga og til grundvallar henni liggi upplýsingar sem aflað hafi verið með ólögmætum hætti. Með þessu eigi kærandi við að Vinnumálastofnun hafi ekki virt það skilyrði sem Persónuvernd setji fram í niðurstöðu sinni í máli nr. 2009/635 fyrir vinnslu persónuupplýsinga með því að skoða IP-tölur. Kærandi telur ekki nægjanlegt að Vinnumálastofnun hafi birt upplýsingar um að stofnunin myndi afla upplýsingar um rafrænar staðfestingar á atvinnuleit meðal annars með tilliti til upprunalands í frétt 20. maí 2010. Nú sé eingöngu hægt að finna fréttina í gömlu fréttasafni og fréttin sé að auki efnislega ófullnægjandi. Telur kærandi þetta ekki samræmast grundvallar reglum íslensks réttar um sönnunarfærslu í refsimálum eða málum um refsikennd viðurlög að afla sönnunargagna með þessum hætti.

 

Kærandi greinir frá því að henni hafi aldrei verið gerð grein fyrir því að henni bæri að tilkynna Vinnumálastofnun um utanlandsferðir fyrirfram. Vinnumálastofnun hafi ekki bent á nein gögn sem staðfesta að kæranda hafi verið kynntar þessar skyldur. Bendir kærandi á úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 19/2011 sem fjalli um sambærilega málsástæðu í þeirri von að úrskurðarnefndin endurtaki ekki þá niðurstöðu. Kærandi telur að þar hafi einhliða frásögn Vinnumálastofnunar um að veittar séu upplýsingar um þessi atriði á kynningarfundum stofnunarinnar verið lögð til grundvallar án þess að vera studd nokkrum gögnum, en slík sönnunarfærsla verði ekki lögð til grundvallar ákvörðun um refsingu eða refsikennd viðurlög. Þá hafnar kærandi þeirri staðhæfingu að réttarsamband atvinnuleitanda og Vinnumálastofnunar sé um sumt eðlislíkt því sem er á milli launþega og vinnuveitanda eins og segi í þessum úrskurði og telur ekki vera líkindi þarna á milli þegar haft sé í huga að réttarsamband milli launþega og atvinnurekenda sé samningssamband sem sé gersamlega eðlisólíkt þeirri einhliða ákvörðun um bótarétt sem réttur atvinnuleitandans sé reistur á. Atvinnuleitandi hafi ekki vinnuskyldu gagnvart Vinnumálastofnun, eigi ekki orlofsrétt eða rétt á ráðningarsamningi sem dæmi. Telur kærandi að ekkert sé eðlislíkt þarna á milli.

 

Þá greinir kærandi frá því að það sé ekkert um þessa tilkynningarskyldu í þeim tilkynningum sem kæranda höfðu borist frá stofnuninni. Upplýsingar um skyldu til að tilkynna ferðir til útlanda séu ekki mjög aðgengilegar á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þá sé eingöngu fjallað um að slíkt geti leitt til biðtíma eða annarra viðurlaga samkvæmt lögum en ekki sé getið um í hverju viðurlögin séu fólgin. Kynningin gefi heldur ekki tilefni til að ætla megi að viðurlögunum yrði beitt án nokkurs aðdraganda og draga megi í efa að fullnægjandi lagastoð sé fyrir kröfu stofnunarinnar um tilkynningu um suma liði sem taldir séu þarna upp.

 

Þá ítrekar kærandi að hún hafi verið undanþegin skyldu til að vera í virkri atvinnuleit og hafi unnið eftir samningi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands þar sem skyldur hennar séu afmarkaðar. Henni hafi ekki borið skylda til að tilkynna um ferðir sínar eða a.m.k. hafi hún haft réttmæta ástæðu til að ætla að hún bæri ekki slíka skyldu.

 

Ef krafa kæranda um að fella ákvörðun Vinnumálastofnunar úr gildi yrði tekin til greina er það einnig krafa kæranda að úrskurðarnefndin taki ekki ákvörðun um afstöðu til mögulegrar nýrrar ákvörðunar í málinu eins og gert hafi verið í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 79/2010. Þar hafi úrskurðarnefndin tekið fram að sú niðurstaða að fella bæri ákvörðun úr gildi kæmi ekki í veg fyrir að Vinnumálastofnun tæki nýja ákvörðun í máli kærandans. Þar hafi úrskurðarnefndin tekið fram að sú niðurstaða að fella bæri ákvörðun úr gildi kæmi ekki í veg fyrir að Vinnumálastofnun tæki nýja ákvörðun í máli kærandans, þ.m.t. að krefja hann um greiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Hafi úrskurðarnefndin með þessu verið að taka fyrirfram afstöðu til réttmætis nýrrar ákvörðunar, sem geti átt eftir að koma til meðferðar hjá nefndinni en kærandi telur augljóst að slíkt samræmist ekki kröfum sem gera verði til úrskurðarnefndarinnar um óhlutdrægni og vandaða stjórnsýsluhætti. Kærandi telur vandséð að úrskurðarnefndinni sé ætlað það hlutverk að lögum að leiðbeina Vinnumálastofnun með þeim hætti sem hún í raun gerði með tilvitnaðri áréttingu í téðum úrskurði.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. desember 2012, bendir stofnunin á að í 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um almenn skilyrði sem atvinnuleitandi þurfi að uppfylla til að teljast tryggður samkvæmt lögunum nema annað leiði af einstökum ákvæðum þeirra. Meðal skilyrða sé að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Þeir sem taki þátt í vinnumarkaðsúrræðinu „Þróun eigin viðskiptahugmyndar“ séu undanþegnir því skilyrði laganna að vera í virkri atvinnuleit. Þeir séu þó ekki undanþegnir öðrum skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar. Sé því ljóst að kæranda sem þátttakanda í „Þróun eigin viðskiptahugmyndar“ hafi borið að uppfylla önnur skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar en a-lið 1. mgr. 13. gr. á þeim tíma sem hún þáði greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

Af skýru orðalagi c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé ljóst að eina undanþága frá skilyrðinu um að atvinnuleitandi skuli vera búsettur og staddur hér á landi fari eftir VIII. kafla sömu laga. Kærandi hafi ekki sótt um hjá Vinnumálastofnun að fara í atvinnuleit erlendis og því hafi undanþágureglur VIII. kafla laganna ekki átt við hana þegar hún staðfesti atvinnuleit sína frá Bandaríkjunum.

 

Vinnumálastofnun fellst ekki á það sem komi fram í kæru um að stofnunin hafi ekki gert viðhlítandi grein fyrir þeim skyldum sem hvíli á atvinnuleitendum á kynningarfundum stofnunarinnar. Skýrt sé tekið fram á kynningarfundum og á öðru efni sem Vinnumálastofnun gefi út að atvinnuleitendum sé óheimilt að þiggja atvinnuleysisbætur meðan þeir dveljast erlendis. Telji stofnunin ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um athugasemdir í kæru enda hafi kærandi ekki sýnt fram á að henni hafi verið afhent annað kynningarefni en venjan sé eða að fyrirkomulag á kynningarfundum stofnunarinnar hafi farið fram með öðru sniði þann dag er hún sótti fund. Þar að auki hafi heimasíða stofnunarinnar að geyma ítarlegar upplýsingar um upplýsingaskyldu atvinnuleitanda.

 

Vinnumálstofnun bendir á að í úrskurði Persónuverndar er kærandi vísar til hafi ekki verið gerð athugasemd við skoðun Vinnumálastofnunar á IP-tölum sem höfðu að geyma auðkenni erlends ríkis. Persónuvernd beindi þó þeim tilmælum til Vinnumálastofnunar að gera grein fyrir því að stofnunin kannaði IP-tölur til að athuga ferðir atvinnuleitenda erlendis. Í úrskurðarorðum Persónuverndar segi að það megi gera með auglýsingu á heimasíðu Vinnumálstofnunar. Vinnumálastofnun hafi gert grein fyrir auglýsingu þessa efnis á heimasíðu stofnunarinnar. Í tilkynningu sem þar hafi birst 20. maí 2010 sé skýrlega tekið fram að stofnunin afli upplýsinga um rafrænar staðfestingar á atvinnuleit, meðal annars með tilliti til upprunalands staðfestingar. Telur Vinnumálastofnun að með tilkynningunni og þeim upplýsingum sem veittar séu í kynningarefni stofnunarinnar hafi hún uppfyllt tilmæli Persónuverndar um að upplýsa atvinnuleitendur um að fylgst sé með hvaðan staðfesting á atvinnuleit berist og ef hún berist frá öðru landi en Íslandi sé það kannað nánar. Ekki verði séð hvaða aðferð hefði að mati kæranda verið best til þess fólgin að birta niðurstöðu Persónuverndar þar sem allar þær upplýsingar sem um ræðir í málinu virðast að mati kæranda vera annaðhvort ófullnægjandi eða ekki mjög aðgengilegar þrátt fyrir fjölmargar samskiptaleiðir Vinnumálastofnunar. Því fellst Vinnumálastofnun ekki á að auglýsing á eftirlitsaðgerðum stofnunarinnar og úrskurði Persónuverndar á grundvelli laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, skuli leiða til ógildingar á ákvörðunum Vinnumálastofnunar.

 

Vinnumálastofnun bendir á að í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um upplýsingaskyldu atvinnuleitanda til Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna“.

 

Í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé enn frekar mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

 

Í 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á þessari upplýsingaskyldu hins tryggða.

 

Vinnumálastofnun bendir á að óumdeilt sé að kærandi hafi verið stödd í Bandaríkjunum á tímabilinu 17.‒28. apríl 2012. Á því tímabili hafi hún ekki uppfyllt skilyrði c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hafi það engin áhrif á ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik sem hafi bein áhrif á rétt hennar til greiðslu atvinnuleysistrygginga og hún skuli því sæta viðurlögum skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi verið tilkynnt ofangreind niðurstaða stofnunarinnar með bréfi, dags. 8. júní 2012.

 

Þá bendir Vinnumálastofnun á þann þátt kæru er lýtur að meintu broti á andmælarétti kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, að kæranda hafi verið sent bréf, dags. 7. maí 2012, þar sem óskað hafi verið eftir skýringum á því hvers vegna hún hefði verið stödd erlendis í apríl. Í bréfinu hafi verið vakin athygli hennar á því að séu nauðsynlegar upplýsingar um atriði sem kunna að hafa áhrif á rétt hennar til atvinnuleysistrygginga ekki veittar geti það meðal annars leitt til viðurlaga á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Sé það mat Vinnumálastofnunar að með umræddu bréfi hafi kæranda verið veittur réttur til andmæla og koma fram með skýringar sínar á því hvers vegna hún hafi verið stödd erlendis í apríl án þess að hafa látið stofnunina vita af ferð sinni fyrirfram. Með bréfi þessu hafi kæranda verið gerð grein fyrir því hvaða afleiðingar brot á nefndum ákvæðum kynni að hafa í för með sér og henni veittur frestur til að koma að andmælum. Því fallist Vinnumálstofnun ekki á að meintur skortur á andmælarétti eigi að leiða til ógildingar á ákvörðun stofnunarinnar.

 

Vinnumálastofnun greinir frá því að í kæru komi fram að kærandi telji að henni hafi verið heimilt að fara erlendis þar sem hún væri undanþegin því að vera í virkri atvinnuleit og tekur stofnunin fram að hún hafi einungis verið undanþegin skilyrði a-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit. Hún hafi því þurft að uppfylla önnur skilyrði laganna. Vanþekking kæranda á skyldum sínum sé að mati Vinnumálastofnunar ekki réttlætanlegar ástæður fyrir því að hún hafi látið hjá líða að veita stofnuninni upplýsingar um ferðir sínar erlendis.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. desember 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 9. janúar 2012. Athugasemdir kæranda við greinargerð Vinnumálstofnunar bárust með bréfi, dags. 2. febrúar 2012.

 

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hún telji frásögn Vinnumálstofnunar af ÞOR fundi hjá stofnuninni 5. október [2012] um að veittar hafi verið þar upplýsingar um lög og reglur er gildi varðandi atvinnuleitendur og samskipti þeirra við Vinnumálastofnun vera ranga og ekkert í gögnum málsins sem styðji þessa fullyrðingu. Þvert á móti megi ætla að tímanum á ÞOR fundum sé eytt í þau úrræði sem í boði séu fyrir þátttakendur. Úrræðin hafi verið fyrir fólk á aldrinum 29‒70 ára sem hafi verið atvinnulaust um nokkurt skeið og því mætti ætla að búið væri að kynna því lög og reglur er gildi um atvinnuleitendur. Þetta hafi hins vegar ekki átt við um kæranda því hún hafi farið beint inn í ÞOR ferlið. Vinnumálastofnun beri hallann af sönnunarskorti vegna þessa. Þá bendir kærandi á að hún hafi lent í bílslysi á leið á fund hjá Vinnumálastofnun nokkru fyrr en umræddur ÞOR fundur hafi verið haldinn og vera megi að það hafi leitt til þess að henni hafi ekki verið kynnt lög og reglur um atvinnuleitendur.

 

Varðandi fund kæranda hjá Vinnumálastofnun, dags. 5. júlí 2012, sem stofnunin segi frá í greinargerð hafi stofnunin látið undir höfuð leggjast að greina frá tilefni fundarins. Kærandi hafi verið boðuð til ráðgjafa með fundarboði sem hafði verið sent með rúmlega sólarhringsfyrirvara. Í samskiptasögu komi fram að mál kæranda hafi verið sent til ráðgjafa 22. júní 2012 í kjölfar úrræðis um þróun eigin viðskiptahugmyndar. Kærandi gagnrýnir það með hversu skömmum fyrirfara hún hafi verið boðuð þegar litið sé til þeirrar stöðu sem hún hafi verið í en þá hafi hún verið beitt viðurlögum og frystingu á greiðslum bóta sem fljótlega hafi komið í ljós að hafi verið byggt á brotum Vinnumálastofnunar á lögum um misbeitingu valds. Kærandi kveðst vera meðvituð um heimildir í lögum um atvinnuleysistryggingar til boðunar með örstuttum fyrirvara en gagnrýnir beitingu Vinnumálastofnunar á lögunum. Er kærandi hafi verið boðuð á fundinn hafi hún verið að bíða eftir svari við umsókn um framlengingu stuðningsverkefnisins, því hafi ekki verið nein efni til að boða hana til fundarins.

 

Kærandi mótmælir túlkun Vinnumálastofnunar á að þátttakendur í „Þróun eigin viðskiptahugmyndar“ séu ekki undanþegnir öðrum skilmálum laga um atvinnuleysistryggingar en að vera í virkri atvinnuleit og beri meðal annars að staðfesta atvinnuleit í hverjum mánuði. Kærandi telur að þessi túlkun eigi enga stoð í skilmálum þess samnings sem gerður hafi verið við þátttakendur í þessu verkefni. Þvert á móti megi segja að mánaðarleg staðfesting á atvinnuleit sé eina skyldan sem eftir standi samkvæmt téðum lögum. Sé það væntanlega til að þátttakendurnir haldi rétti sínum í greiðslukerfinu. Að öðru leyti taki við þær skyldur sem orðaðar séu í samningnum sjálfum og Nýsköpunarmiðstöð Íslands hafi eftirlit með. Leiði það af eðli máls að skyldan til að vera á Íslandi falli ekki þar undir meðal annars vegna þess að ferðir til útlanda geti verið nauðsynlegur og eðlilegur liður í framkvæmd verkefnis af þessu tagi. Þá telur kærandi að upplýsingarnar á heimasíðu Vinnumálastofnunar séu hvort tveggja óaðgengilegar og villandi.

 

Kærandi bendir á að mál hennar, um að Vinnumálastofnun hafi verið óheimilt að afla persónuverndaðra upplýsinga um ferðir kæranda, sé til meðferðar hjá Persónuvernd og Vinnumálastofnun hafi fengið kost á að tjá sig um málið þar, sbr. bréf, dags. 19. desember 2012.

 

Kærandi sendi inn bréf, dags. 2. júní 2013, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og úrskurð Persónuverndar nr. 2012/1390 í máli kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, var henni tilkynnt að töf yrði á meðferð máls hennar fyrir nefndinni vegna gríðarlegs málafjölda.

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að stjórnvaldsákvörðun Vinnumálastofnunar sem tekin var 25. júlí 2012 og kynnt kæranda með bréfi, dags. 26. júlí 2012. Kærandi telur að ógilda beri ákvörðunina, meðal annars með vísan til þess að Vinnumálastofnun hafi brotið á grundvallarreglum stjórnsýsluréttar við meðferð málsins.

 

Aðdragandi málsins er bréf er Vinnumálastofnun sendi kæranda þann 7. maí 2012 þar sem óskað var skýringa á dvöl hennar erlendis. Í kjölfarið hætti Vinnumálastofnun greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda. Þann 7. júní var tekin formleg ákvörðun um að fella niður bótarétt kæranda í þrjá mánuði frá ákvörðunardegi á grundvelli 59. gr., sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í kjölfar endurupptökubeiðni kæranda var ýmsum þáttum ákvörðunarinnar frá því í júní 2012 breytt kæranda í hag, sbr. bréf Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 17. júlí 2012. Ráða má af niðurlagi þess bréfs að um endanlega stjórnvaldsákvörðun væri að ræða. Þrátt fyrir það var málinu framhaldið innan Vinnumálastofnunar og kæranda kynnt efni hinnar kærðu ákvörðunar með fyrrnefndu bréfi, dags. 26. júlí 2012.

 

Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. júlí 2012, var viðurkennt að ákvörðunin sem kynnt var kæranda með bréfi 8. júní 2012 var haldin efnislegum annmörkum. Af inngangi bréfsins verður hins vegar ráðið að efni þess sé fyrst og fremst ætlað að taka afstöðu til beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Við slíka könnun ber stjórnvaldi að hlíta ákveðnum reglum. Þannig má ráða af 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga að stjórnvaldi beri að taka mál til meðferðar á ný ef fallist er á endurupptökubeiðni. Stjórnvaldi er því ekki heimilt að afgreiða endurupptökubeiðni með því að taka nýja efnislega stjórnvaldsákvörðun í málinu eins og Vinnumálastofnun gerði með bréfi sínu, dags. 17. júlí 2012. Ákvörðunin sem þar var tekin var því ekki gild að lögum.

 

Eftir stendur að Vinnumálastofnun tók ákvörðun 25. júlí 2012 sem samkvæmt efni sínu átti að hafa í för með sér að kærandi fengi ekki greiddar atvinnuleysisbætur í tvo mánuði frá og með 7. júní 2012. Engar viðunandi skýringar hafa verið lagðar fram af hálfu Vinnumálastofnunar um ástæður þess að viðurlagaákvörðunin skyldi gilda afturvirkt. Enn fremur hefur ekki verið skýrt með fullnægjandi hætti á hvaða lagagrundvelli ákvörðunin frá 7. júní 2012 hafi verið afturkölluð og hvers vegna kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra sjónarmiða sem komu fram í fyrrnefndu bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. júlí 2012, áður en ný og endanleg ákvörðun væri tekin í máli hennar. Þótt kærandi hafi þá þegar látið í ljós afstöðu sína með ítarlegum hætti í málinu var hugsanlegt að hún hefði haft eitthvað nýtt fram að færa við þessar aðstæður. Andmælaréttur hennar var því brotinn.

 

Þegar litið er til framangreindra atvika er ljóst að slíkir annmarkar voru á meðferð málsins hjá Vinnumálastofnun að fella verður úr gildi hina kærðu ákvörðun.

 

Með þessari ákvörðun er ekki girt fyrir að Vinnumálastofnun taki nýja ákvörðun í málinu, enda gæti hún að réttum reglum við meðferð slíks máls.

 

 

 


 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. júlí 2012 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hennar í tvo mánuði og endurgreiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 17.‒19. apríl 2012 er felld úr gildi.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

            Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta