Hoppa yfir valmynd

Nr. 506/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. september 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 506/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060027

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 13. júní 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. maí 2017, um að synja henni um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Af greinargerð kæranda má ráða að hún krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi þann 10. maí 2017 lagt fram umsókn um dvalar- og atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga. Með hinni kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. maí 2017, var umsókn kæranda synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 13. júní 2017. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 17. ágúst 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnun kom fram að kærandi hafi verið stödd hér á landi þegar hún hafi lagt fram umsókn sína um dvalarleyfi. Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga væri kveðið á um að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og sé honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsókn hefur verið samþykkt. Frá þessu séu undantekningar, t.d. ef umsækjandi er undanþeginn áritunarskyldu. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var byggt á því að kærandi, sem ríkisborgari [...], væri ekki undanþegin áritunarskyldu og að undanþágur í a-c lið 1. mgr. 51. gr. og 3. mgr. 51. gr. ættu ekki við í máli kæranda. Yrði því að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi í samræmi við ákvæði 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er byggt á því að kærandi uppfylli grunnskilyrði dvalarleyfis skv. 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga og skilyrði 62. gr. laganna fyrir veitingu dvalarleyfis vegna skorts á starfsfólki. Í forsendum ákvörðunar Útlendingastofnunar sé engan rökstuðning að finna um það að ákvæði 62. gr. laga um útlendinga sé ekki uppfyllt. Virðist stofnunin því ekki hafa virt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Krefst kærandi þess að kærunefnd leggi fyrir Útlendingastofnun að rökstyðja ákvörðun sína, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga.

Í 51. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um skyldu útlendinga til að sækja um dvalarleyfi áður en komið er til landsins. Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. skal útlendingur, sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti, sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá þessu er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður í a-, b- eða-c-lið 1 mgr. 51. eiga við. Þá er heimilt að víkja frá 1. mgr. í öðrum tilvikum en þar eru talin upp ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi hafi verið stödd hér á landi er hún hafi lagt fram umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki. Eins og fram hefur komið var niðurstaða Útlendingastofnunar byggð á því að kærandi, sem ríkisborgari [...], væri ekki undanþegin áritunarskyldu og að undanþágur frá skyldu til að sækja um dvalarleyfi áður en komið væri til landsins ættu ekki við í málinu. Í samræmi við fyrirmæli 4. mgr. 51. gr. laganna yrði þar af leiðandi að hafna umsókn hennar um dvalarleyfi.

Í umsókn kæranda um dvalarleyfi kemur fram að hún hafi dvalist [...] síðastliðin 19 ár og að hún hafi dvalarleyfi þar í landi. Þá fylgir gögnum málsins ljósrit af ótímabundnu dvalarleyfi kæranda [...], útgefið 28. október 2010, en ríkið er aðili að Schengen-samstarfinu. Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laga um útlendinga er útlendingur sem hefur dvalarleyfi gefið út af ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu undanþeginn áritunarskyldu. Af framangreindu er ljóst að kærandi er undanþegin áritunarskyldu og var því heimilt að víkja frá ákvæði 51. gr. laga um útlendinga er varðar skyldu til að sækja um dvalarleyfi áður en komið er til landsins. Samkvæmt framansögðu voru ekki skilyrði til að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi á þeim grundvelli sem gert var í hinni kærðu ákvörðun. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The directorate shall re-examine the appellant‘s application.

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                              Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta