Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 24/2010

Fimmtudaginn 26. ágúst 2010

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 24. júní 2010 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 22. júní 2010. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 26. mars 2010, um að synja kæranda um framlengingu fæðingarstyrks vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu.

Með bréfi, dags. 25. júní 2010, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 2. júlí 2010.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 5. júlí 2010, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 19. júlí 2010, með bréfi, dags. 12. júlí 2010.

 

I.

Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að með bréfi, dags. 26. mars 2010, hafi henni verið synjað um framlengingu fæðingarstyrks til móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Ástæða synjunarinnar hafi verið sú að veikindi hennar voru ekki rakin til fæðingarinnar sjálfrar. Kærandi kærir þessa ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs.

Kærandi greinir frá því að Fæðingarorlofssjóður telji lög nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), veita heimild til að áskilja að veikindi móður þurfi að vera rakin til fæðingarinnar sjálfrar meðan kærandi telji að ffl. og reglugerð, nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, geri einungis kröfu um tengsl þarna á milli. Ágreiningurinn sé hins vegar sá að þó að úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála telji að veikindin þurfi að vera rakin til fæðingarinnar sjálfrar hafi kærandi þegar sýnt fram á veikindin séu engu að síður rekjanleg til fæðingarinnar og sjóðurinn hafi því komist að efnislega rangri niðurstöðu með hinni kærðu ákvörðun.

Kærandi telur ákvörðunina ranga þar sem óumdeilt sé að kærandi eigi rétt til fæðingarstyrks, sbr. VI. kafla ffl. Jafnframt sé óumdeilt að kærandi hafi orðið alvarlega veik í tengslum við fæðinguna og að hún hafi ekki getað annast barn sitt á meðan. Óumdeilt sé að hún hafi orðið svo veik í kjölfar fæðingar að hún varð óvinnufær með öllu í lengri tíma en heimilt sé að framlengja fæðingarstyrk um. Þá hafi kærandi sótt um framlengingu í tvo mánuði og þeirri umsókn hafi fylgt mjög ítarlegur rökstuðningur og vottorð sérfræðilæknis. Skýra megi veikindin og aðstæður frekar en hvorki aðstandendur kæranda né ráðgjafar Landspítalans hafi talið þörf á því, enda hafi verið um „borðliggjandi“ tilfelli fyrir framlengingu að ræða að þeirra mati. Það eina sem deilt sé um í málinu sé það, að Fæðingarorlofssjóði sé heimilt að synja um lengingu á fæðingarorlofi á grundvelli þess að „veikindi móður verði ekki rakin til fæðingarinnar sjálfrar“.

Kærandi byggir umsókn sína á ákvæði 3. mgr. 22. gr. ffl. þar sem segi: „Heimilt er að framlengja rétt til fæðingarstyrks til móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu.“ Þá greinir kærandi frá því að í greinargerð með frumvarpi til laganna segi um þessa málsgrein: „Heimilt er að framlengja rétt móður til fæðingarstyrks um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar sjálfrar sem eru í tengslum við fæðinguna. Er við það miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt.“ Kærandi telur að ekki sé unnt að draga aðra ályktun af textanum sjálfum en að framlengja megi fæðingarstyrk til móður ef veikindi sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Ekki séu aðrar kröfur gerðar og alls ekki að veikindi móðurinnar verði að vera rakin til fæðingarinnar sjálfrar.

Þá liggi fyrir að veikindi kæranda hafi stafað af þunguninni. Hún hafi verið greind fimm vikum eftir þungun með fágætan sjúkdóm sem kallaður sé hnykkjadans á meðgöngu eða chorea nos. Læknar kæranda hafi ákveðið að gefa henni lyf á meðgöngunni, þar á meðal lyfin Haldol og Rivotril. Þegar komið var að fæðingu hafi hún hins vegar hætt á lyfjunum að læknisráði vegna fæðingarinnar og væntanlegrar brjóstagjafar. Veikindin hafi magnast upp við fæðinguna sjálfa og óumdeilt sé að veikindin séu alvarleg. Ekki verði heldur annað ályktað en að veikindin séu í tengslum við fæðinguna, sbr. framangreint. Meðganga sé nauðsynlegur undanfari fæðingar. Loks sé einnig ljóst og auðsannað að kærandi hafi í framhaldi af fæðingunni verið ófær um að annast barn sitt. Kærandi hafi þurft aðstoð við alla umönnun barnsins fyrstu vikurnar vegna hinna alvarlegu veikinda sem blossuðu upp við fæðinguna sjálfa. Það sé einnig álit kæranda að veikindin verði vissulega rakin til fæðingarinnar sjálfrar samkvæmt almennum málsskilningi. Ákvæði 22. gr. ffl. og 20. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 áskilji ekki að hin alvarlegu veikindi séu afleiðing fæðingarinnar sjálfrar heldur skulu veikindin vera í tengslum við fæðinguna. Er niðurstaða Fæðingarorlofssjóðs því ekki bara efnislega röng, þ.e. að veikindin séu vissulega í tengslum við fæðinguna, heldur túlkunin einnig, þ.e. að þau verði að vera rakin til fæðingarinnar sjálfrar. Aðalatriðið hljóti að vera að veikindin séu tengd fæðingunni og móðir hafi misst getu til að annast barn sitt. Annað samræmist vart markmiði laganna. Markmið laganna megi ekki gleymast en það sé að tryggja börnum samvistir við foreldri, sbr. 2. gr.

Kærandi greinir frá því að ljóst sé að hún varð alvarlega veik. Þá liggi fyrir læknisvottorð sem staðfesti það. Ljóst sé að veikindin voru í tengslum við fæðinguna. Læknar hafi greint veikindin sem sé fágætur meðgöngutengdur taugasjúkdómur fimm vikum eftir þungun. Kærandi kveðst jafnframt hafa þurft að kljást við veikindin í gegnum alla þungunina en með aðstoð lyfja. Rétt fyrir fæðinguna sé hún látin hætta á lyfjum. Við fæðinguna sjálfa ágerast veikindin þannig að kærandi verður ófær um að annast barn sitt í fleiri vikur. Síðar óskar kærandi eftir framlengingu á fæðingarstyrk, eftir að hún hefur náð heilsu til að annast barn sitt. Eftir að hún hafi verið komin í form til að eiga samvistir við barnið þá hafi Fæðingarorlofssjóður hafnað umsókn hennar á grundvelli þess að veikindin verði ekki rakin til fæðingarinnar sjálfrar.

Kærandi telur að Fæðingarorlofssjóður hafi ekki haft það eina úrræði að synja henni. Umsókn hennar hafi fylgt mjög ítarlegt vottorð og rökstuðningur sérfræðilæknis um nauðsyn og þörf framlengingarinnar. Ekkert komi fram í tilkynningu um ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um synjun að vottorð læknisins sé dregið í efa. Þá bendir kærandi á að Fæðingarorlofssjóði hafi verið heimilt að óska eftir umsögn annars sérfræðilæknis um hvort framlenging hafi verið nauðsynleg en stofnunin hafi ekki gert það.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ítrekar hún það sem fram kemur í kæru. Kærandi greinir einnig frá því að í greinargerð sé fjallað um hinn afar sjaldgæfa og áður ógreinda sjúkdóm sem kærandi greindist með eins og Fæðingarorlofssjóður þekki allt til sjúkdómsins og áhrifa hans sem og ályktað að hann hafi því ekkert haft með fæðinguna að gera. Slíkt sé rangt.

Sjúkdómur sá er kærandi hafi greinst með sé gríðarlega sjaldgæfur og samkvæmt bestu vitund kæranda hafi hann aldrei áður greinst á Íslandi. Aðeins séu örfá þekkt tilvik í heiminum. Af þessum sökum sé lítið vitað um einkenni hans og afleiðingar. Afleiðingar sem kærandi sé enn að kljást við. Fer kærandi fram á að þröngar skýringar og túlkanir verði ekki látnar ráða för. Kærandi hafi frá upphafi boðist til að afla frekari gagna og fer fram á að valdar setningar læknisvottorðs heimilislæknis verði ekki lagðar til grundvallar.

 

II.

Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 4. nóvember 2009, sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar í þrjá mánuði, vegna barns hennar sem fæddist Y. desember 2009. Með greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. Y. desember 2009, hafi henni verið tilkynnt að umsókn hennar um greiðslu fæðingarstyrks hefði verið samþykkt og mánaðarleg greiðsla yrði 49.702 kr. mánuðina janúar til mars 2010.

Þann 25. mars 2010 hafi Fæðingarorlofssjóði borist læknisvottorð, dags. 8. mars 2010, vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu og umsókn um framlengingu fæðingarstyrks vegna alvarlegra veikinda móður í tengslum við fæðingu barns, dags. 22. febrúar 2010. Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að kæranda hafi verið synjað um framlengingu fæðingarstyrks hinn 26. mars 2010 þar sem ekki hafi verið séð að veikindi hennar mætti rekja til fæðingarinnar. Sé sú ákvörðun nú kærð.

Fæðingarorlofssjóður vísar í 3. mgr. 22. gr. ffl., sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, þar sem fram komi að heimilt sé að framlengja rétt móður til fæðingarstyrks um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda sé hún að mati sérfræðilæknis ófær um að annast barn sitt. Í 4. mgr. 22. gr. ffl. segi að þörf fyrir framlengingu á fæðingarorlofi skv. 1. til 3. mgr. skuli rökstyðja með vottorði sérfræðilæknis. Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að í athugasemdum með 22. gr. frumvarps til framangreindra laga, sem sé efnislega samhljóða athugasemdum við 17. gr. frumvarpsins er snúi að lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sé tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Síðar í athugasemdunum segi að önnur veikindi foreldra lengi ekki fæðingarorlof. Hafi þetta meðal annars verið staðfest í úrskurðum úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í málum nr. 11/2008, 16/2008, 43/2009 og 10/2010.

Í samræmi við framangreint hafi það verið skilningur Fæðingarorlofssjóðs að einungis sé átt við þau veikindi móður sem unnt sé að rekja beint til fæðingarinnar sjálfrar. Önnur veikindi móður sem kunni að koma upp síðar og ekki sé hægt að rekja til fæðingarinnar sjálfrar svo og veikindi móður sem koma upp á meðgöngu en ekki í fæðingunni sjálfri, jafnvel þó þau haldi áfram eftir fæðingu, falli þá utan umrædds ákvæðis.

Í læknisvottorði C, dags. 8. mars 2010, komi fram að sjúkdómsgreining sé Chorea nos og Bipolar affective disorder. Í lýsingu á sjúkdómi móður á meðgöngu segir orðrétt: „Þegar hún var u.þ.b. gengin 5 vikur fór að bera á kippum og rykkjum í andliti sem síðan breiddust út til hálsins. Í byrjun einnig slæm meðgönguógleði og greindist einnig með lungnabólgu. Ósjálfráðar hreyfingar síðar vaxandi og komu í hendur beggja vegna meira hægra megin og hægri fótur byrjaði að inverterast við gang. Viðvarandi stöðugir kippir allan daginn. Lagðist inn á taugalækningadeild Lsp 24.6 – 1.7 vegna þessa og fór í ítarlegar skoðanir taugalækna. Var sett á rivotril og haldól til að slá á kippi. Talið að einkenni hennar stöfuðu líklega af Chorea gravidarum, sjaldgæfum taugasjúkdómi tengt meðgöngu og ættu einkenni hennar þá að ganga til baka nokkrum vikum eftir fæðingu.“

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er bent á að í lýsingu læknisvottorðs á sjúkdómi móður eftir fæðingu segi orðrétt: „A leitaði til mín þann 28.01 sl. og var þá enn slæm af ósjálfráðum kippum í andliti og hálsi. Hún lýsti því að hún hefði fyrstu vikurnar eftir fæðingu ekki getað sinnt barni sínu vegna kippa, ekki getað haldið á því og átt erfitt með brjóstagjöf. Þetta staðfestist í nótum hjúkrunarfræðings við vitjun 28.12; „Hún getur ekki haldið á barninu og brjóstagjöfin gengur illa.“ Verið í eftirliti hjá B taugasérfræðingi sem hefur seponerað haldól en tekið áfram rivotril. A kemur til undirritaðs á ný í eftirlit í dag þann 8. mars og er enn verulega slæm af ósjálfráðum hreyfingum og að mínu mati ófær um að sinna sínu barni bæði vegna ósjálfráða hreyfinga og vöðvaverkja sem því fylgja.“

Á læknisvottorðinu komi fram í reit fyrir niðurstöðu skoðunar: „Við skoðanir mjög áberandi ósjálfráðir kippir í andliti og hreyfingar háls og höfuðs. Aukin vöðvaspenna í hálsvöðvum, verkir og merki vöðvabólgu. Eymsli í hnakkafestum, aum og stíf í herðum, hálsvöðvar aumir. Verkir og vöðvaspenna kringum vinstri axlarlið. Skert hreyfigeta í vinstri öxl.“

Á læknisvottorðinu komi svo fram að kærandi hafi verið skoðuð og staðreynt að um greindan sjúkdóm væri að ræða þann 24. júní 2009 en fyrst hafi borið á sjúkdómseinkennum þann 24. apríl 2009 og barnið hafi fæðst Y. desember 2009.

Fæðingarorlofssjóður telur ekki unnt að draga þá ályktun af læknisvottorðinu veikindi móður megi rekja til fæðingarinnar sjálfrar. Ljóst sé að veikindi kæranda hafi komið upp á meðgöngu eða eftir u.þ.b. fimm vikna meðgöngu. Hún hafi meðal annars lagst inn á taugalækningadeild Landspítalans um vikutíma og hafi verið talið að einkenni stöfuðu líklega af Chorea gravidarum sem sé sjaldgæfur sjúkdómur tengdur meðgöngu en ekki fæðingu og ættu einkenni að ganga til baka nokkrum vikum eftir fæðingu. Veikindin virðast hins vegar hafa haldið áfram eftir fæðinguna þann Y. desember 2009 og enn verið til staðar þegar kærandi kom til læknis þann 8. mars 2010. Ekkert virðist þannig hafa komið upp á í fæðingunni sjálfri heldur hafa veikindi sem hófust á meðgöngu ekki gengið til baka við fæðinguna.

Með vísan til alls framangreinds telur Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarstyrks vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu, sbr. synjunarbréf, dags. 26. mars 2010, þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 22. gr. ffl. og 20. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um að veikindi móður megi rekja til fæðingarinnar sjálfrar.

 

III.

Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 26. mars 2010, um að synja kæranda um framlengingu réttar til fæðingarstyrks vegna alvarlegra veikinda í tengslum við fæðingu.

Í 3. mgr. 22. gr. ffl. er kveðið á um að heimilt sé að framlengja rétt til fæðingarstyrks móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Í athugasemdum með 22. gr. í greinargerð frumvarps sem varð að lögum nr. 95/2000 er tekið fram að við það sé miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt. Jafnframt segir í athugasemdunum að önnur veikindi foreldra eða barna auki ekki á réttinn til fæðingarstyrks. Þá segir í 1. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, að heimilt sé að framlengja rétt móður til fæðingarstyrks um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu, enda sé hún að mati sérfræðilæknis ófær um að annast barn sitt.

 

Kærandi ól barn Y. desember 2009. Í læknisvottorði C, dags. 8. mars 2010, kemur fram að líklegt sé að sjúkdómseinkenni kæranda stafi af sjúkdómnum Chorea gravidarum, sjaldgæfum taugasjúkdómi tengdum meðgöngu. Auk þess sé kærandi haldinn sjúkdómnum Bipolar affective disorder. Einkenni sjúkdómsins Chorea gravidarum gangi venjulega til baka nokkrum vikum eftir fæðingu en í tilviki kæranda er hún enn verulega slæm af ósjálfráðum hreyfingum og að mati læknisins ófær um að sinna barni sínu bæði vegna ósjálfráða hreyfinga og vöðvaverkja sem því fylgja, sbr. fyrrgreint læknisvottorð dags. 8. mars 2010.

Óumdeilt er að kærandi hefur verið alvarlega veik eftir fæðingu og að mati sérfræðilæknis ófær um að annast barn sitt. Hins vegar er ljóst að umræddur sjúkdómur er meðgöngutengdur taugasjúkdómur og sú staðreynd að einkenni sjúkdómsins ágerðust eftir fæðingu verður rakin til þess að draga þurfti úr lyfjagjöf vegna sjúkdómsins við fæðinguna. Þannig liggur ekkert fyrir um það í málinu að umræddur sjúkdómur hafi tekið slíkum breytingum vegna fæðingarinnar sjálfrar að hægt sé að segja að hann sé í tengslum við fæðinguna í skilningi 3. mgr. 22. gr. ffl. Í 3. mgr. 22. gr. ffl. er sem fyrr segir áskilið að veikindi þurfi að vera í tengslum við fæðingu svo að heimilt sé að framlengja rétt til fæðingarstyrks, auk þess sem athugasemdir með frumvarpi til ákvæðisins gera þá kröfu að veikindi móður megi rekja til fæðingar eins og fyrr segir. Samkvæmt framangreindu verður því sjúkdómur kæranda ekki talinn vera í tengslum við fæðingu í skilningi 3. mgr. 22. gr. ffl. og er því óhjákvæmilegt að staðfesta ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um synjun á framlengingu á rétti kæranda til fæðingarstyrks.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um framlengingu á rétti til fæðingarstyrks er staðfest.

 

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta