Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 43/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 5. nóvember 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 43/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. apríl 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hafi á fundi sínum þann 7. apríl 2009 hafnað umsókn hennar um atvinnuleysisbætur, dags. 9. desember 2008, þar sem vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt framlögðum gögnum nái ekki því lágmarki sem kveðið er á um í 2. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. 3. gr. laganna. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 20. apríl 2009. Kærandi gerir þær kröfur að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi og að henni verði greiddar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í kæru kæranda kemur fram að hún hafi menntað sig sem X í Y-landi í fimm ár og hafi hún unnið þar í eitt og hálft ár þegar hún missti vinnuna í febrúar 2008. Henni hafi verið tjáð að atvinnuhorfur á Íslandi væru mjög góðar og hafi hún þá ákveðið að flytja til Íslands og gert það í ágúst 2008 og hafið atvinnuleit sem bar ekki árangur. Hún kveðst síðan hafa skráð sig hjá Vinnumálastofnun í desember 2008. Kærandi kveðst afar ósátt við að fá ekki greiddar atvinnuleysisbætur og hún kveðst heldur ekki geta snúið aftur til Y-lands þar sem atvinnuhorfur þar séu ekki góðar.

Vinnumálastofnun fjallaði um mál kæranda á fundi sínum þann 6. janúar 2009 samkvæmt bréfi stofnunarinnar, dags. 6. janúar 2009. Vinnumálastofnun frestaði afgreiðslu umsóknar kæranda um atvinnuleysisbætur og óskaði eftir því að hún legði fram vottorð vinnuveitanda, B, en skv. f-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að þeir leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, sbr. 16. gr. laganna.

Í rafpósti frá Vinnumálastofnun til kæranda, dags. 19. febrúar 2009, er kæranda bent á að þær upplýsingar sem hún hafi fengið hjá B séu ónothæfar, þar komi aðeins fram starfstími kæranda hjá henni en ekki starfshlutfall eða kennitala vinnuveitanda eða ástæða starfsloka. Kæranda er bent á að kynna sér skjal E-301 og hvernig skuli fylla það út, en það ætti að geta komið í staðinn fyrir hefðbundið vottorð vinnuveitanda.

Meðal gagna málsins er E-301 vottorð fyrir kæranda, dags. 3. mars 2009.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 13. október 2009, kemur fram að kærandi hafi þann 16. mars 2009 lagt fram E301 vottorð sem hafi verið ranglega fyllt út og hafi hvorki borið með sér hvort kærandi hafi verið tryggð í Y-landi né þá fyrir hvaða tímabil. Hafi kæranda þá verið tilkynnt með bréfi, dags. 8. apríl 2009, sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn hennar um atvinnuleysisbætur þar sem vinna hennar á ávinnslutímabili bótaréttar samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nái ekki því lágmarki sem 15. gr., sbr. og a-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, kveði á um. Vinnumálastofnun bendir á 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að það sé ljóst á útprentun frá Ríkisskattstjóra að kærandi hafi ekki starfað á Íslandi í það minnsta frá árinu 2000. Af þeim sökum geti hún ekki talist tryggð innan atvinnutryggingarkerfisins á grundvelli umræddrar greinar. Vinnumálastofnun bendir einnig á 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um ávinnslutímabil í öðru aðildarríki, en þar komi fram að eitt af skilyrðum 1. mgr. 47. gr. sé að umsækjandi hafi starfað hér á landi í a.m.k. þrjá mánuði á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. laganna. Þá sé skilyrði skv. 2. mgr. 47. gr. að umsækjandi, með vottorði þess efnis, sýni fram á áunnið starfstímabil og tryggingartímabil í öðru landi. Kærandi hafi hvorki skilað staðfestingu fyrir áunnum starfstíma né tryggingartímabili í Y-landi auk þess sem Vinnumálastofnun hafi ekki borist vottorð sem staðfesti að kærandi hafi verið tryggð innan atvinnuleysistryggingakerfisins þar samkvæmt lögum þess ríkis.

Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að í 3. mgr. 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé sérregla sem gildi um atvinnuleitendur sem flytji til landsins frá Danmörku, Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Noregi eða Svíþjóð. Sé mælt fyrir um að þeir sem komi frá fyrrgreindum löndum þurfi ekki að uppfylla skilyrði 1. mgr. 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um þriggja mánaða starfstíma á innlendum vinnumarkaði. Málsgreinin byggi á 2. og 3. mgr. 17. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. einnig lög nr. 46/1993, um heimild til þess að fullgilda Norðurlandasamning um almannatryggingar. Í ákvæðinu sé mælt fyrir um að nægilegt sé að atvinnuleitandi sem flytji frá fyrrgreindum ríkjum til Íslands hafi starfað hér á landi á síðastliðnum fimm árum frá því að hann lagði inn umsókn um atvinnuleysisbætur. Starfstími umsækjenda á því tímabili þurfi að hafa verið í þeim mæli að hann hefði talist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. október 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. október 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um þann tíma sem launamaður þarf að vera virkur á vinnumarkaði til að teljast vera að fullu tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. 1. og 2. mgr. greinarinnar hljóða þannig:

Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., telst að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr.

Launamaður, sem starfað hefur skemur en tólf mánuði en lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við lengd starfstíma að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. einnig 4. mgr.

Í 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um ávinnslutímabil í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.

Þrátt fyrir að kæranda hafi verið sérstaklega leiðbeint um hvaða gögn hún þyrfti að leggja fram frá vinnuveitanda sínum í Y-landi hafa þau ekki borist. Því er ekki unnt að meta hvaða áhrif vinna sem kærandi kveðst hafa stundað í Y-landi, kemur til með að hafa við ákvörðun um rétt kæranda til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Þá liggur ekki fyrir að kærandi hafi starfað hér á landi á ávinnslutímabili. Með vísan til ofangreinds verður ekki hjá því komist að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. apríl 2009.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. apríl 2009 í máli A um synjun atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta