Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 46/2003

Þriðjudaginn, 20. janúar 2004

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 11. júní 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra B f.h. A, dags. 10. júní 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 12. mars 2003 um að synja kæranda um framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Hérmeð er þess óskað að endurskoðuð verði ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dagsett 12. mars 2003, um að synja umsókn minni um framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

 

Málsatvik

Undirrituð hafði ráðgert að hætta störfum 6. desember 2002 vegna væntanlegrar barnsfæðingar og fá greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá þeim degi. Ég hafði skilað gögnum þar um til Tryggingastofnunar ríkisins í samræmi við reglur sem um það gilda, sbr. 15. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

Seint í nóvember brá svo við að einkenni þau frá stoðkerfi sem ég hafði haft versnuðu til muna. Hætti ég því störfum viku fyrr en ráðgert var eða þann 29. nóvember 2002 og féll af launaskrá sama dag. Sjá læknisvottorð D, prófessors, sem fylgdi umsókn minni um lengingu fæðingaorlofs. Vonir mínar stóðu til þess að með hvíld myndi draga úr einkennum þessum. Það fór hins vegar á annan veg og fram eftir desember héldu einkennin áfram að versna. Sjá vottorð E, sérfræðings í lyflækningum og gigtarsjúkdómum, sem fylgir með kæru þessari. Frá og með 17. desember var ég orðin rúmföst en gat komist hjálparlaust á salerni með því að styðjast við tvær hækjur. Tilgangur  minn með töku fæðingarorlofs fyrir fæðingu barnsins var að undirbúa heimilið fyrir komu þess í heiminn en af fyrrgreindum ástæðum var slíkt að sjálfsögðu útilokað. Þessa þróun mála var útilokað að sjá fyrir.

Umsókn mín um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði er til komin vegna þeirra óvæntu breytinga sem urðu á heilsufari mínu og áður er lýst. Það var ætlun mín að hefja fæðingarorlof mitt þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag, sem var 27. desember. Minni háttar einkenni frá stoðkerfi höfðu ekki nein áhrif á þá ákvörðum mína, enda leit ég svo á að eðlilegt gæti verið að einhver slík einkenni fylgdu jafn viðamiklum breytingum á líkamsástandi og þungun er. Eins og áður segir var það ætlun mín að undirbúa heimilið og sjálfa mig fyrir komu barnsins. Það er þó ljóst að einkenni mín breyttust til mikilla muna á verri veg þannig að ég varð að leggja niður vinnu fyrr en áætlað var, allt daglegt líf var úr skorðum og útilokað að nota þennan tíma eins og fyrirhugað var. Veikindi mín voru það mikil að það getur engan vegin talist sanngjarnt að synja mér með þessum hætti um réttindi sem byggja á veikindum.

Um synjum á lengingu greiðslna til mín úr Fæðingarorlofssjóði er í ákvörðuninni vísað til 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Í ákvörðuninni segir að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum upfylli ég ekki það skilyrði að leggja niður störf og falla af launaskrá meira en mánuði fyrir fæðingu barns. Barn mitt fæddist 9. janúar 2003, nákvæmlega 40 dögum eftir að ég lagði niður vinnu og féll af launaskrá. Það er því beinlínis rangt sem í ákvörðuninni segir að ég uppfylli ekki það skilyrði að leggja niður störf og falla af launaskrá meira en mánuði fyrir fæðingu barns. Í skýringum starfsmanns Tryggingastofnunar ríkisins sem ég fékk símleiðis var ástæða synjunar sögð sú að ég hætti ekki störfum og féll ekki af launaskrá meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag og að sögn starfsmanns hefði þetta átt að standa í bréfinu.

 

Rökstuðningur kæru þessarar

Í 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 er þungaðri konu samkvæmt orðanna hljóðan veittur réttur til greiðslna í fæðingarorlofi ef henni er nauðsynlegt að leggja niður launuð störf af heilsufarsástæðum meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Ákvæðið gerir það að skilyrði að veikindin vari í mánuð eða lengur. Í ákvæðinu sjálfu er þó að finna undantekningu frá þessu skilyrði en samkvæmt henni missir konan ekki þessi réttindi þó meðgangan sé styttri en þær 40 vikur sem hugtakið „áætlaður fæðingardagur“ segir til um.

Það er ótvíræð meginregla laganna um fæðingar- og foreldraorlof að orlofið hefst við fæðingu barnsins, sbr. 7. og 8. gr. laganna. Greiðslur á grundvelli 4. mgr. 17. gr., vegna veikinda móður, er lengst hægt að veita í tvo mánuði. Það er alveg ljóst af ákvæðinu að kona sem þarf að leggja niður launuð störf og fellur af launaskrá, svo dæmi sé tekið, 32 dögum fyrir áætlaðan fæðingardag en eignast síðan barn sitt eftir 38 vikna meðgöngu fær greiðslur á grundvelli 8. gr. laganna. Í ákvæðinu er ekki tekið fram berum orðum hvernig með skuli fara þegar börn fæðast eftir áætlaðan fæðingardag. Hins vegar er alveg ljóst af ákvæðinu að rétturinn til greiðslna fellur niður við fæðingu barnsins og er það í góðu samræmi við áðurgreinda meginreglu laganna um að fæðingarorlofið sjálft hefjist við fæðingu barnsins. Hægt er að fá  greitt í skemmri tíma en mánuð því rétturinn miðast við fæðingu barnsins en ekki áætlaðan fæðingardag eins og dæmið hér á undan sýnir. Önnur kona, sem hóf töku greiðslna á grundvelli 4. mgr. 17. gr. eins og konan í dæminu hér á undan en fæddi ekki barn sitt fyrr en eftir 41. viku og 1 dags meðgöngu myndi væntanlega njóta þeirra í 40 daga. Bæði tilvikin falla innan þeirra hámarkstímamarka sem ákvæðið setur.

Ef þunguð kona hættir störfum af heilsufarsástæðum og fellur af launaskrá meira en mánuði áður en hún elur barn sitt uppfyllir hún skilyrði laganna um rétt til lengri greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þó hins vegar sé, vegna viðmiðs ákvæðisins um áætlaðan fæðingardag, ekki  skilyrði til að hefja töku greiðslna í sumum tilvikum fyrr en eftir að barn er fætt. Synjun þessara réttinda sem slíkra er ekki unnt að miða við áætlaðan fæðingardag. Ef málavextir í máli mínu eru bornir saman við síðara dæmið sem ég tók hér á undan og túlkun Tryggingastofnunar á lagaákvæðinu er lögð til grundvallar má sjá að réttur þessi miðast nú við fæðingu sumra barna en áætlaðan fæðingardag annarra barna. Framkvæmd sem leiðir til slíkrar mismununar er óásættanleg og brýtur í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Túlka verður ákvæðið þannig að miðað sé við áætlaðan fæðingardag um hvenær hægt sé að hefja töku greiðslna þegar veikindi á meðgöngu liggja nægilega snemma fyrir en fæðingardagur barns ráði réttindunum sem slíkum og því verði að greiða konum eftirá þegar í ljós kemur að þær uppfylla skilyrði ákvæðisins um veikindi á meðgöngu.“

 

Með bréfi, dags. 30. júní 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 3. september 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

Með umsókn dags. 10. nóvember 2002 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 9. desember 2002 vegna áætlaðrar fæðingar barns 27. desember 2002.

Með umsókn dagsettri 19. desember 2002 sótti kærandi síðan um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði frá 30. nóvember 2002 vegna alvarlegra veikinda í tengslum við fæðingu (sækja á um lengingu á greiðslum vegna veikinda á meðgöngu með almennu umsóknareyðublaði en ekki umsókn um lengingu). Barn hennar fæddist 9. janúar 2003, þ.e. 13 dögum eftir áætlaðan fæðingardag.

Kæranda var synjað um lengingu vegna veikinda á meðgöngu með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 12. mars 2003 á grundvelli þess að hún uppfyllti ekki skilyrði 4. mgr. 17. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) um að leggja niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Í bréfinu kemur að vísu einnig fram í framhaldi af því að gerð er grein fyrir því hvað segi í lagaákvæðinu sú niðurstaða að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum uppfylli hún ekki það skilyrði að leggja niður störf og falla af launum meira en mánuði fyrir fæðingu barns.

Það misræmi sem er í bréfinu á milli þess sem segir í lagaákvæðinu og niðurstöðunni mun vera komin til vegna þess að þegar synjað er um lengingu á greiðslum vegna veikinda á meðgöngu á grundvelli þess að tímanum sé ekki náð er algengast að barn fæðist fyrir tímann (yfirleitt þá áður en launagreiðslur falli niður) og það hefur gleymst að leiðrétta bréfið.

Í lagaákvæðinu kemur skýrt fram að það er áætlaður fæðingardagur sem ræður því hvort réttur til lengingar myndist. Sömu upplýsingar koma einnig fram í leiðbeiningum sem fylgja með umsókn um greiðslur og synjunarbréfi sem kæranda var sent (þó einnig komi þar ranglega fram í niðurstöðu að miðað sé við fæðingu barns).

Kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hún lagði ekki niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Það veitir henni ekki rétt til lengingar að barnið fæddist 13 dögum eftir áætlaðan fæðingardag og þar með meira en mánuði eftir að hún lagði niður störf.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. september 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Jafnframt segir þar að þó skuli konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði.

Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag, skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma, en þó aldrei lengur en tvo mánuði, sbr. og 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 kemur fram að með heilsufarsástæðum í 4. mgr. sé átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valdi óvinnufærni og sjúkdóma, tímabundna og langvarandi, sem versni á meðgöngu og valdi óvinnufærni.

Kærandi ól barn 9. janúar 2003. Samkvæmt gögnum málsins féll kærandi af launaskrá þann 30. nóvember 2002. Áætlaður fæðingardagur barnsins var 27. desember 2002.

Hvorki er að finna í lögum um fæðingar- og foreldraorlof né reglugerð nr. 909/2000 heimild til undantekningar frá þeirri reglu að miða framlengingu á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu við það að kona þurfi að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Með hliðsjón af framangreindu og gögnum málsins er það því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi eigi ekki rétt á framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til A er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta