Mál nr. 59/2003
Þriðjudaginn, 2. september 2003
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Úrskurður
Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri.
Þann 2. júlí 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 25. júní sama ár. Jafnframt var afturkölluð fyrri kæra (mál nr. 19/2002) þar sem Tryggingastofnun ríkisins hafði fallist á kröfur hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.
Kærð er synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu vaxta vegna dráttar á afgreiðslu máls hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála, Ríkisskattstjóra og Tryggingastofnun ríkisins. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með tölvupósti dags. 18. júlí 2003.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:
Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu vaxta úr Fæðingarorlofssjóði vegna dráttar sem varða á afgreiðslu máls hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála, Ríkisskattstjóra og Tryggingastofnun ríkisins.
Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er hlutverk úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunn að rísa á grundvelli laganna. Með hliðsjón af því fellur það utan valdsviðs nefndarinnar að úrskurða um hugsanlegan rétt kæranda til greiðslu vaxta úr Fæðingarorlofssjóði vegna dráttar á afgreiðslu máls.
Bent skal á að sá dráttur sem varð á máli nr. 19/2002 hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála var tilkominn vegna beiðni kæranda um frestun þess, en kærandi uppfyllti þá ekki skilyrði þess að eiga kröfu um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kæru A er vísað frá þar sem kæruefnið fellur utan valdsviðs nefndarinnar.
Guðný Björnsdóttir
Gylfi Kristinsson
Jóhanna Jónasdóttir