Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 66/2024 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 66/2024

Miðvikudaginn 5. júní 2024

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 6. febrúar 2024, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 27. nóvember 2023, um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi varð fyrir vinnuslysi X. Kærandi tilkynnti slysið til Sjúkratrygginga Íslands sem samþykktu bótaskyldu 9. september 2020. Með ákvörðun, dags. 15. mars 2022, mat stofnunin varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 5%. Lögmaður kæranda óskaði eftir endurupptöku ákvörðunarinnar með beiðni, dags. 11. apríl 2022. Með ákvörðun, dags. 27. nóvember 2023, var málið endurupptekið hjá Sjúkratryggingum Íslands og varanleg læknisfræðileg örorka kæranda ákveðin 8%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 7. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 16. febrúar 2024, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. febrúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi orðið fyrir slysi X á æfingasvæði C í D, þegar hún hafi starfað sem […] hjá C. Slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi verið á […]námskeiði fyrir […] sem hafi meðal annars falist í því að renna sér niður […]. Í slysinu hafi kærandi orðið fyrir meiðslum.

Slysið hafi verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda verið samþykkt. Með bréfi frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 15. mars 2022, hafi verið tilkynnt sú ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að ekki yrði um greiðslu örorkubóta að ræða í tilviki kæranda, þar sem örorka hennar vegna slyssins hafi verið metin minni en 10%, eða 5%. Meðfylgjandi hafi verið matsniðurstaða E, tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands. Þann 11. apríl 2022 hafi kærandi óskað eftir endurupptöku þeirrar ákvörðun Sjúkratrygginga með tilliti til matsgerðar F bæklunarlæknis, þar sem matsniðurstaða þeirrar matsgerðar hafi verið 10%. Með bréfi frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 27. nóvember 2023, hafi verið tilkynnt sú ákvörðun að örorka kæranda yrði hækkuð um 3 stig, það er 8%. Þá kæmi ekki til greiðslu örorkubóta þar sem örorka hennar væri áfram metin minni en 10%.

Kærandi geti á engan hátt sætt sig við framangreinda niðurstöðu Sjúkratrygginga og telji afleiðingar slyssins hafa verið of lágt metnar af tryggingalækni Sjúkratrygginga Íslands. Máli sínu til stuðnings leggi hún áherslu á eftirfarandi atriði.

Kærandi vísi til þess að fyrir liggi matsgerð F læknis, dags. 10. janúar 2022. Að mati kæranda sé matsgerð F ítarleg, vel rökstudd og faglega unnin. Í samantekt og niðurstöðu þeirrar matsgerðar segi að kærandi hafi hlotið liðhlaupsbrot bæði innan og utanvert sem fest hafi verið með skrúfum og plötum. Þá sé vísað til þess að líklegt sé að kærandi hafi hlotið áverka á brjósk og það að slíkur áverki geti leitt til slitgigtar í framtíðinni. Að öllu framangreindu virtu hafi F læknir vísað til kafla VII.B.c. í matsniðurstöðu sinni og hafi heildarmiski verið metinn 10%.

E matslæknir Sjúkratrygginga Íslands, hafi vísað til þess í niðurstöðu sinni að núverandi einkenni kæranda sem rekja mætti til slyssins væru verkir og stirðleiki í ökklanum. Þá hafi hann talið að ekki mætti vænta neinna breytinga á framangreindum einkennum kæranda í framtíðinni. Með vísan til þessa hafi hann metið varanlega læknisfræðilega örorku kæranda 5%. Með endurákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 27. nóvember 2023, hafi sú tala verið hækkuð um 3 stig, það er 8%. Engin frekari rökstuðningur hafi fylgt framangreindri endurákvörðun.

Kærandi byggi á því að niðurstaða F læknis endurspegli betur ástand hennar vegna afleiðinga slyssins þar sem E tryggingalæknir Sjúkratrygginga Íslands hafi ekki tekið tillit til þess að brjóskáverki kæranda gæti síðar leitt til slitgigtar í ökklanum. Hún telji því að taka eigi tillit til þess við matið líkt og F hafi gert í matsgerð sinni.

Með vísan til framangreinds telji kærandi óforsvaranlegt að leggja til grundvallar niðurstöðu örorkumats E tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands. Frekar skyldi taka mið af matsgerð F læknis, við mat á læknisfræðilegri örorku kæranda, það er 10%.

Með vísan til þessa sem og gagna málsins kæri kærandi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands á varanlegri læknisfræðilegri örorku hennar samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga og krefjist þess að tekið verði mið af matsgerð F læknis við mat á læknisfræðilegri örorku sinni.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að þann 7. september 2020 hafi stofnuninni borist tilkynning um vinnuslys sem kærandi hafi orðið fyrir þann X. Með bréfi, dags. 9. september 2020, hafi Sjúkratryggingar Íslands tilkynnt að um bótaskylt tjón hafi verið að ræða.

Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 15. mars 2022, hafi læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 5%. Stofnunin hafi sent kæranda bréf, dags. 16. mars 2022, þar sem henni hafi verið tilkynnt að ekki yrði um greiðslu örorkubóta að ræða, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Með tölvupósti, dags. 11. apríl 2022, hafi lögmaður kæranda óskað eftir því að matsgerð F bæklunarlæknis, dags. 10. janúar 2022, yrði notuð til hliðsjónar við ákvörðun um læknisfræðilega örorku. Málið hafi verið endurupptekið og með ákvörðun, dags. 15. nóvember 2023, hafi það verið niðurstaða stofnunarinnar að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins teldist hæfilega ákveðin 8%. Í ákvörðuninni hafi komið fram að athugun tryggingalækna Sjúkratrygginga Íslands á fyrirliggjandi matsgerðum sýndi að niðurstaða læknisskoðunar hjá þeim hefði verið eilítið mismunandi en þeir samt sem áður hafi miðað við sama lið í miskatöflum örorkunefndar en fengið mismörg stig, þ.e. 5 stig og 10 stig. Tryggingalæknar Sjúkratrygginga Íslands hafi því talið eðlilegt að fara bil beggja og fá 7,5 eða 8 stig með námundum. Mat Sjúkratrygginga Íslands hafi því verið að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins teldist hæfilega ákveðin 8%. Í kjölfarið hafi stofnunin sent kæranda bréf, dags. 27. nóvember 2023, þar sem henni hafi verið tilkynnt að ekki yrði því um greiðslu örorkubóta að ræða, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.

Sjúkratryggingar Íslands hafi engu að bæta við málið. Með kæru hafi engin ný gögn borist og telji stofnunin því ekki þörf á að svara kæru efnislega með frekari hætti. Sjúkratryggingar Íslands vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins. Sjúkratryggingar Íslands fari fram á að niðurstaða hinnar kærðu endurákvörðunar, dags. 15. nóvember 2023, verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X. Með ákvörðun, dags. 27. nóvember 2023, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 8%.

Í bráðamóttökuskrá G læknanema, dags. X, segir meðal annars:

„Saga: Nóta aðstoðarlæknis, G Áb. sérfr.: O Komuástæða: Verkur í hæ ökkla, beyglaðist undir henni X ára hraust kvk leitar á BMT eftir að hafa snúið á sér hæ. ökkla eftir að hafa farið niður […] á æfingu í tengslum við vinnu. Verkjar í ökklann og getur ekki stígið í fótinn.

Skoðun: Almennt: Ekki bráðveik að sjá. Hæ. fótur: Bólga, hiti og eymsli yfir lat. malleolus. Einnig eymsli yfir med. malleolus. Ekki eymsli yfir prox. hluta 5. metatarsal, navicular beini og hásin. Ekki eymsli yfir prox hluta tibia og fibula. Eðl. skyn og háræðafylling í tám, getur hreyft tærnar.

Rannsóknir: Rtg. hæ. ökkli: "Skábrot er í distal fibula við syndesmosuhæð og einnig brot í malleolus medialis með ca 0,5 cm diastasa og distal tilfærslu á malleolus. Klár incongruence talocruralt og einnig brot í posterior malleolus." Control hæ. ökkli: "Það er áfram trimalleolar brot með gleikkun á liðgafflinum. Það er meiri lateral tilfærsla á distal fibula en áður sem nemur um 1/4 af beinbreiddinni. Einnig er meiri tilfærsla af afrifu á medial malleolus. Posterior malleolus er nær ótilfærður."

Greiningar: Multiple fractures of lower leg, S82.7: Trimalleolar brot

Álit og áætlun: Trimalleolar brot með gleikkun á liðgafflinum. Fengin ráðgjöf frá bæklun. Ráðleggja L-U spelku og control.

Taka sjúkling til aðgerðar í byrjun næstu viku.

Brot liggur verr eftir gifsun. Gerð önnur tilraun til að fá betri legu.

//G lykur vakt, áb. sérfr.: O//

//P kandidat tekur við, Áb. sérfr: R

Bæklun:

í samráði við H bæklunarskurðlækni á vakt.

- Koma ökkla í góða stöðu og setja spelku á hana og fá ctrl rtg.

- U-r ræðir við hana mtt aðgerðar.

- Má þá fara heim eftir það.

- Útskrifast með Parkodin til verkjastillingar og Fragmin 5000ei 1x1 hvern dag fram að aðgerð.

- Hálega á fæti heima

- Set hana upp fyrir aðgerð, verður tekin til aðgerðar snemma í næstu viku þriðjud/miðvd. Skurðstofa heyrir í henni mtt föstu og tímasetningar.“

Í aðgerðarlýsingu I sérfræðings, dags. 20. mars 2020, segir meðal annars:

„Pre-op mat: Datt í hálkunni og kom inn með luxeraðan ökkla.

Dreginn rétt á slysadeildinni en myndir sýna að hún situr eiginlega ekki alveg nægilega vel. Hún er því kölluð inn í dag og við skoðun er húðin operable þannig að við ákveðum að taka hana í kvöld til að drífa þetta af.

Almenn lýsing: Operatorar I og Í.

Aðgerð er gerð í stasa.

Byrjað lateralt skarpt inn á brotið sem er reponerað og sett á sex gata plata.

Góður situs. Góð festa. Ein skálæg skrúfa og fjórar skrúfur halda brotinu og siðan er sett ein syndesmosuskrúfa.

Að því loknu er farið yfir medialt og settar tvær skrúfur í mediala malleolinn.

Góður situs á rtg.

Saumað fyrst í djúpið og síðan í húð. Gipsspelka. Fær sýklalyf í aðgerð.

Gipstími sex vikur. Gipsskipti og saumataka eftir hálfan mánuð.“

Í göngudeildarskrá J læknis, dags. 4. maí 2020, segir:

„A er X ára gömul kona sem hlaut ökklabrot á hæ. fæti fyrir X vikum síðan í aðgerð hjá I. Fest með plötu, skrúfu og syndesmosuskrúfu.

Kemur í dag í kontrol 6 vikum postop.

Lítur allt vel út á myndum. Óbreytt lega á skrúfum og festibúnaði. Aðeins byrjandi callus og er hún eymslalaus við þreifingu yfir brotstað. Sár vel gróin og höldum því óbreyttu plani.

Kemur aftur eftir 4-6 vikur í syndesmosuskrúfutöku. Reikna með fullu ástigi eftir það en má tylla í upp að hálfum líkamsþunga fram að því.

Endurkoma eftir þörfum.“

Í göngudeildarskrá K læknis, dags. 9. júní 2020, segir:

„Bimall frx+syndesmosis injury.Op 20.03.Comes today for syndesmosis screw removal.

-Completed today ca 11+ weeks since surgery.

A feels fine and no complians.

P:Given local xylocain with adre,screw located with Rtg kontrol,given small incision over old surgical scar and syndesmosis screw removed.Set 2 ethilon 4,0 stiches+dean dressing. Adv stiches removal at heilsugæslan after 2 weeks. Allowed full weight bearing and is discharged from ortho today however is welcome to contact if any concerns.“

Í bréfi L, dags. 21. mars 2021, segir meðal annars svo:

„Fyrsta færsla rafrænnar sjúkraskrár heilsugæslunnar er skráð 04.08.2000 og síðasta færsla er skráð 03.03.2021.

Læknabréf barst frá BMT Landspítala Fossvogi dagsett X.

Fram kemur í læknabréfinu að hafi leitað á BMT eftir að hafa snúið á sér hæ. ökkla eftir að hafa farið niður […] á æfingu í tengslum við vinnu. Verkjað í ökklann og gat ekki stígið í fótinn. Við skoðun læknis á hæ. fæti : Bólga, hiti og eymsli yfir lat. malleolus. Einnig eymsli yfir med. malleolus. Ekki eymsli yfir prox. hluta 5. metatarsal, navicular beini og hásin. Ekki eymsli yfir prox hluta tibia og fibula. Eðl. skyn og háræðafylling í tám og gat hreyft tærnar.

Tekin var röntgen myndd af hæ ökkla á Landspitala sem sýndi:

„Skábrot er í distal fibula við syndesmosuhæð og einnig brot í malleolus medialis með ca 0,5 cm diastasa og distal tilfærslu á malleolus. Klár incongruence talocruralt og einnig brot í posterior malleolus.“

A var því með trimalleolar brot. Sett var gips og konan innkölluð í aðgerð daginn eftir.

Í læknabréfi frá innlögn á LSH 20.03.2020 - 21.03.2020 dags. 22.5.2020 frá I bæklunarlækni kemur fram að hún hafi komið inn á slysadeild eftir slysið með luxeraðan ökkla. Dreginn rétt á slysadeildinni en röntgenmyndir sýndu að hún sat eiginlega ekki alveg nægilega vel. Hún vár því kölluð inn og við skoðun var húðin operable þannig að ákveðið var að taka hana til aðgerðar.

Gangur og meðferð í innlögn:

Fram kemur í læknabréfinu að góð lega hafi fengist á brotið. Hún útskrifaðist daginn eftir heim á hækjum. Sjúkl. var með syndesmosuskrúfu sem ráðlagt að þyrfti að fjarlægja eftir níu vikur.

Ráðlagt að mætti fara á tylliástig tiltölulega fljótt, en hún ættii að vera í gipsi í sex vikur.

Eftirlit þá ráðgert áfram á Landspítalanum.

A kom í skoðun til læknis hér á heilsugæslunni 28.5.2020 og var komunóta eftirfarandi:

„Kona sem braut á sér hæ. ökklann á æfingu á rýmingu á […] en hún er […].

Hún fékk fótinn undir sig, trimalleolar brot. Negld. Gips var fjarlægt 4. maí. Losnar við nagla 9. júni, má þá fara til sj.þjálfara til liðleika og styrktaræfinga.“

Skrifuð var þá beiðni á sjúkraþjálfun. Greining (ICD-10) Trimalleolar fracture S 82.8

Ég ræddi við A símleiðis 10.06.2020:

„A hringir. Biður um Parkodin til að eiga -pinnar teknir úr ökkla í gær. Notað Paratabs. Fær rp.“

Saumtaka hér á heilsugæslunni hjá hjúkrunarfræðing 22.6.2020:

„2 saumar teknir af utanverðum hæ. ökla. Vel gróið, set plástur yfir.“

A hafði sambandi við lækni hér á heilsugæslunni 8.10.2020 með ósk um beinþéttnimælingu og var slík beiðni send á röntgendeild Landspítala.. Ég skoðaði í dag hvort rannsókn hefði verið gerð og kemur þá fram að konan fór í beinþéttnimælingu á Landspítala 8.mars 2021. Beinþéttnimæling sýndi s.k. T skor í vi.lærleggsháls -1,9, Z-skor:-0,2 og í vi. mjöðm T skor -1,2, Z-skor 0,2.

Samkvæmt þessu er beinþéttni lækkuð, ekki þó um beinþynnningu heldur beingisnun en ræða þarf við A hvort hún þurfi á fyirbyggjandi lyfjameðferð að halda vegna hættu á beinbrotum siðar meir.

(Útskýring: T-gildi er fjöldi staðalfrávika frá meðalgildi beinþéttni ungra (20-30 ára) einstaklinga af sama kyni, Z-gildi er fjöldi staðalfrávika frá meðalgildi einstaklinga á sama aldri og kyni. Skv. þessu er Z-gildi A nokkuð nærri jafnaldra)

Einnig sást væg aflögun á Th-10 hryggjarlið (Moderate Wedge Deformity).

A ræddi við lækni heilsugæslunnar símleiðis þann 26.11.2020. Þá kom fram að væri ekki vinnufær, ætti erfitt með að labba niður tröppur nema með stuðningi. Ólíklegt að hún hefði þá líkamlegu getu sem krafist er af meðlim […]. Mælt var með læknisskoðun í des. upp á seinni tíma vottorð að gera.

Konan kom svo i framhaldi í skoðun til M sérfr. í heimilislækningum þann 15.12.2020. Komunóta var eftirfarandi:

„Skoðun vegna vottorðs. Hún er með op. ör eftir aðgerð med og lat á hæ. ökkla. Hvergi aum, ekki bólga, bjúgur eða mar á ökklasvæði. Hún er aum efst á sperrilegg við palp. Ekki aum vi. sperrilegg. Rétt að fá mynd af þessu, algengt að þarna verði fraktura í ökklafract.

Hún nær að dorsiflectera rétt yfir 90 gráðurnar, án sársauka, svipað vi. megin. Labbar óhölt ef hún gengur hægt en haltrar ef hún herðar á göngu eða stækkar skrefin. Meiðir sig í ökklanum við að ganga niður stiga, við dorsiflexionina sem þá á sér stað. Lúaverkir í ökklanum á kvöldin ef verið mikið á ferðinni. Dugleg að gera teygjuæfingar og að labba að ráði sjþj. Er ekki lengur í þjálfun, ákveðið að gera pásu og hún sinnti heimaæfingum.

Samkvæmt lýsingu á einkennum, sögu og skoðun tel ég einsýnt að hún réði ekki við starf sem […] næstu 2 mán amk..“

Tekin var röntgen mynd af hæ fótlegg 28.12.2020.

NIÐURSTAÐA:

„RTG HÆGRl FÓTLEGGUR:

Engin merki um ferskan eða eldri beináverka í proximala fibula. Status eftir aðgerð á ökklabroti með skrúfum og plötum.“ Þannig ekki brot ofarlega á hæ.fótlegg en status eftir aðgerð á ökklabroti.

Síðasta samskiptaskráning í sjúkraskrá Hg.N er svo frá 03.03.2021 en þá ræddum við símleiðis. Tekin hafði verið blóðrannsókn 02.03.2021 þ.s. A fundið fyrir þreytu og orkuleysi. Blóðrannsóknin var eðlileg, eðlilegur blóðhagur blóðrauði (Hb) eðlilegt gildi. Blóðsykurgildi eðlilegt, skjaldkirtilspróf (TSH) eðilegt, B12 og D vítamin eðilegur styrkur í blóði og nýrnastarfsemi (kreatinin gildi) eðlilegt.

Skrifuð hafa verið vottorð um fulla óvinnufærni af læknum heilsugæslu N sem votta fulla óvinnufærni tímabilið X -31.03.2021.

Heilsufar fyrir slysiði og þá sérstaklega m.t.t. áverka sem hlaut i slysinu.

Skoða rafrænar sjúkraskrárfærslur heilsugæslunnar sem ná aftur til 04.08.2000.

A hefur almennt verið hraust. Leitar til læknis mars 2014 og þá með nokkura mán. saga um verk við grunnlið stórutáar, er hún gengur á háum hælum.

Tekin rtg.mynd af hæ. fæti Röntgen Domus 04.03.2014:

„RTG HÆGRI FÓTUR:

Engin eldri rannsókn.

Það sjást nokkrar slitbreytingar í fyrsta MTP-lið með lækkun á liðbilinu og subchondral sclerosu og minni háttar osteofytamyndun. Engar aðrar sjúklegar beinbreytingar greinast. Ekki teikn um erosionir. Ekki kalkanir í aðlægum mjúkpörtum.“

Hún fékk beiðni á sjúkraþjálfun 14.02.2014 vegna vöðvabólgu og verkja í hnjám með beiðni um styrkjandi æfingar fyrir vöðva í kringum hné og einnig vegna vöðvabólgu í herðum og hnakka. Aftur beiðni á sjúrkaþjálfun 29.06.2016 og þá vegna verkja hæ. öxl

Ekki þurft beiðni á sjúkrajálfun síðan þar til 28.5.2020 vegna ökklabrotsins i hæ.ökkla.

Varðandi heilsufar þá saga um að hafa greinst með blöðru á eggjastokk fyrir um X árum og aðgerð á móðurlífi í kjölfarið. Saga um bólgu í ristilpokum (diveritculitis) X en jafnaði sig á sýklalyfjameðferð.

Samantekt:

A hefur almennt verið hraust. Hún er […] og lendir í því á æfingu í vinnu hjá C X að ökklabrotna og þurfti í aðgerð á brotinu daginn eftir á Landspítala þar gert var að broti með plötu, skrúfu og syndesmosuskrúfu. Syndesmosuskrúfan var svo fjarlægð frá ökklanum 09.06.2020.

Í framhaldi tök við sjúkraþjálfun.

Beinþéttnimæling verið gerð í mars 2021 sbr. hér að ofan sem sýndir beinþéttnigildi mjög nálægt meðalgildi kvenna á hennar aldri en lækkað m.v. meðalgildi yngri kvenna. Í Ijósi ökklabrots og áhættu því á síðari brotum gæti hún þurft að fara á fyrribyggjandi lyfjameðferð. Ég á eftir að ræða þetta við A. Lækkuð beinþéttni skýrist því af aldri en ekki af óeðlilegum undirliggjandi ástæðum eða sjúkleika.

A kom siðast í skoðun til læknis þann 15.12.2020 og var þá óvinnufær og skrifað óvinnufærnis vottorð t.o.m. 31.03.2021 vegna ökklaáverkans sem hún hlaut í vinnuslysi X. Konan hefur því verið óvinnfær til sinna starfa sem […] í kjölfar ökklabrotsins frá því hún hlaut brotið.“

Í ódagsettri tillögu E læknis að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku vegna slyss segir svo um skoðun á kæranda:

„Tjónþoli er meðalhá kona í rétt ríflegum meðalholdum. Hún gengur án helti. Ekki er að sjá neinar stöðuskekkjur í réttstöðu. Hún á bágt með að standa á tám og hælum. Tvö vel gróin ör eru miðlægt og hliðlægt á hægri ökkla. Mesta ummál hægri ökkla er 26 sm en vinstri ökkla 24 sm. Það finnst vel fyrir einni skrúfu hliðlægt. Hreyfingar í ökklaliðum eru jafnar og eðlilegar.“

Í niðurstöðu tillögunnar segir:

„Tjónþoli hefur ekki fyrri sögu um áverka á ökkla. í ofangreindu slysi hlaut hann áverka á hægri ökkla, svokallað þríbrot. Meðferð hefur verið fólgin í skurðaðgerð og sjúkraþjálfun.

Núverandi einkenni hans sem rekja má til slyssins eru verkir og stirðleiki í ökklanum. Ekki er talið að vænta megi neinna breytinga á ofangreindum einkennum í framtíðinni svo heitið geti. Þá er og litið svo á að einkennin megi rekja til slysatburðarins en ekki annars heilsubrests, þ.e. að skilyrði um orsakasamhengi séu uppfyllt:

1. Slysatburðurinn var nægilega öflugur til þess að valda líkamstjóni

2. Einkenni komu fljótlega eftir slysatburðinn

3. Einkenni hafa varað það lengi að þau teljast varanleg

4. Áverkarnir eru sértækir fyrir slysáverka og ólíklegir að hafa komið til án

sérstakrar staðfestrar ástæðu.

Miskatöflur Örorkunefndar eru hafðar til hliðsjónar við mat þetta sem byggist á eðli áverkans og afleiðingum hans fyrir tjónþolann. Einkenni tjónþola eru best talin samrýmast lið VII.B.c.3.1. í töflunum. Með tilvísan til þess telst varanleg læknisfræðileg örorka hæfilega metin 5% (fimm af hundraði).“

Í matsgerð F læknis, 10. janúar 2022, segir svo um skoðun kæranda 5. janúar 2022:

„Tjónþoli kemur vel fyrir og svarar spurningum matsmanns vel og greiðlega. Skoðun beinist að stoðkerfi og þá fyrst og fremst að ganglimum. Göngulag er eðlilegt getur stigið upp á tær og hæla.

Ökklar: Hægri. Það er 12 cm langt ör um ökklann utanverðan og 5 cm innanvert. Eymsli og þroti er um ökklann innanverða og framanvert. Hreyfing er er 10° minni en vinstra megin. Taugaskoðun er eðlileg hvað varðar húðskyn,krafta og sinaviðbragða..“

Í samantekt og niðurstöðu segir svo:

„Um er að ræða þá tæplega X ára gamlan konu sem fær áverka á hægri ökkla í æfingasetri C í D. Hlýtur liðhlaupsbrot bæði innan og utanvert. Brotið var fest með skrúfum og plötu. Telja verður líklegt að í slysinu hafi tjónþoli hlotið áverka á brjósk einnig þó það sjáist ekki á myndum og það komi til með að leiða til slitgiktar er fram líða stundir. Matsmaður telur tímabært að meta afleiðingar slyssins X og metur stöðugleikamark vera X hálfu ári eftir slysið.“

Í matsgerð F læknis er varanleg læknisfræðileg örorka kæranda metin 10% með vísan í lið VII.B.c. í miskatöflum örorkunefndar.

Ákvörðun slysaörorku samkvæmt þágildandi ákvæðum laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/ miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2020 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Fyrir liggur að kærandi varð fyrir meiðslum þann X þegar hún renndi sér niður […] í starfi sínu sem […]F. Í slysinu hlaut hún brot á hægri ökkla sem gert var við með aðgerð. Fyrir liggur að kærandi situr eftir með verki, væga bólgu og stirðleika með minnkaðri hreyfigetu sem nemur um 10 gráðum. Að mati úrskurðarnefndar fellur lýsing á afleiðingum slyss kæranda best að lið VII.B.c.3.1. í miskatöflum örorkunefndar en samkvæmt honum leiðir ökkli með mikil álagsóþægindi og skerta hreyfingu til allt að 10% örorku. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að meta varanlega læknisfræðilega örorku kæranda eftir slysið til 8% örorku.

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 8% varanlega læknisfræðilega örorku kæranda er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 8% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A, varð fyrir X, er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta