Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 333/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 333/2022

Miðvikudaginn 31. ágúst 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 28. júní 2022, kærði B persónulegur talsmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. apríl 2022 á umsókn kæranda um 60% styrk til kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiðar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn 2. febrúar 2022, sótti kærandi um 60% styrk til kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiðar. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. apríl 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að kærandi uppfylli hvorki skilyrði um uppbót né styrk til bifreiðakaupa þar sem ekki væri hægt að sjá af gögnum að kærandi væri með skerta göngugetu. Með bréfi, dags. 25. apríl 2022, var óskað eftir rökstuðningi fyrir kærðri ákvörðun. Því erindi var ekki svarað af hálfu stofnunarinnar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. júní 2022. Með bréfi, dags. 30. júní 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 7. júlí 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. júlí 2022. Athugsemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 20. júlí 2022 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. júlí 2022. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram sú krafa að synjun á umsókn vegna bifreiðamála, sem hafi borist kæranda í óundirrituðu bréfi Tryggingastofnunar, dags. 12. apríl 2022, verði dregin til baka og að umsóknin verði tekin til nýrrar afgreiðslu. Þessi krafa sé gerð með vísun til 10. greinar laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð þar sem kveðið sé á um heimild til „að greiða elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar.“

Auk einhverfu sé kærandi með greininguna apraxíu sem komi fram í því að hún „frýs“ við ákveðnar aðstæður og komist ekki úr sporunum. „Þessi viðbrögð eru mjög áberandi hjá A og veldur því að hún er í raun hreyfiskert.“ (Úr læknisvottorði C, dags. 4. apríl 2022). Kærandi sé mjög háð bifreið til að komast leiðar sinnar eins og fram komi í fylgigögnum.

Ekki verði annað séð en að Tryggingastofnun sé með ákvörðun sinni að mismuna þeim sem búi við hreyfihömlun út frá orsökum hömlunarinnar í stað þess að líta til birtingarmyndar og afleiðinga.

Leitað hafi verið eftir nánari rökstuðningi með bréfi, dags. 25. apríl 2022, en því erindi hafi ekki verið svarað.

Bent sé á mál nr. 9873/2018 hjá umboðsmanni Alþingis sem hafi varðað einstakling með sambærilega fötlun og hafi verið úrskurðað í vil og orsök hreyfihömlunar hvergi fyrirstaða. Þar telji kærandi einnig að um mismunun sé að ræða.

Með vísun til framangreinds og þeirrar staðreyndar að með fálæti Tryggingastofnunar varðandi eðli hreyfihömlunar kæranda, hafi stofnunin ekki uppfyllt almenn ákvæði stjórnsýsluréttar um rannsóknarreglu og að kærandi njóti réttinda samkvæmt því sem góð stjórnsýsla eigi að vera í málum sem þessum.

Áréttað sé að úrskurðarnefnd velferðarmála felli úr gildi ákvörðun sína og geri Tryggingastofnun að fjalla um málið aftur á réttum forsendum þannig kærandi fái notið þeirra bráðnauðsynlegu gæða sem bíll veiti henni.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 20. júlí 2022, kemur fram að lykilatriði sé hunsað í greinargerð stofnunarinnar. Í vottorði læknis segi: „...A er með greininguna apraxia sem hjá henni kemur fram í því að við ýmsar breytilegar aðstæður getur hún ekki framkvæmt lærðar hreyfingar. Þetta kemur endurtekið fram í því að hún „frýs“ við vissar aðstæður og kemst ekki úr sporunum.“ Vottorð sjúkraþjálfara sé á sömu nótum og líki apraxíu við Parkinson-sjúkdóminn.

Það veki sérstaka athygli að Tryggingastofnun nefni hvergi apraxíu kæranda í greinargerð sinni. Út frá því megi skilja greinargerðina sem svo að stofnunin álíti apraxíu ekki af líkamlegum toga eins og aðrar orsakir hreyfihömlunar. Hér kunni að vera um þekkingarskort að ræða, en eftir standi að rannsóknarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum hafi ekki verið sinnt því að hvergi verði séð að frekari upplýsinga hafi verið aflað um þennan mikilvæga þátt málsins sem rökstuðningur umsækjanda hvíli að miklu leyti á. Auk þess hafi Tryggingastofnun ekki heldur minnst á framangreint fordæmi sem nefnt hafi verið í rökstuðningi með kæru.

Í lok greinargerðar Tryggingastofnunar komi í ljós að kæranda hafa orðið á þau mistök að sækja um sérútbúna bifreið. Þar sem augljóst sé að slík bifreið komi ekkert frekar til móts við þarfir kæranda en venjulegur bíll (nema síður sé), hefði Tryggingastofnun átt að sinna leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum og benda kæranda á að sækja um samkvæmt 6. og 7. grein. Öllum ætti að vera ljóst að í slíkri leiðsögn felist ekki loforð um tiltekna niðurstöðu.

Til að lýsa þessu nánar sé boðið upp á í umsóknareyðublaðinu að haka við eftirfarandi setningu: „Sæki um 60% styrk til kaupa á bifreið“ sem hakað hafi verið við. Samkvæmt því sem komi nú fram hjá Tryggingastofnun í miðju kæruferlinu, hefði átt að haka við „Sæki um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa.“ Hvergi sé útskýrt hvaða greinar reglugerðarinnar standi á bak við hvorn valkost fyrir sig og því auðvelt að ruglast. 

Samkvæmt stjórnsýslulögum hvíli sú skylda á stjórnvöldum að tryggja að borgarar njóti ávallt þeirra réttinda sem þeir eigi hverju sinni og leiða í þá átt. Umboðsmaður Alþingis hafi meðal annars bent á þetta.

Í umsóknareyðublaði sé hakað við styrk vegna reksturs bifreiðar þannig að það sé í réttum farvegi hvað sem öðru líði.

Þetta veki spurningar um hver hin lögformlega staða málsins sé eftir að Tryggingastofnun hafi hafnað umsókn sem að hluta hafi ekki átt sér stað (réttur samkvæmt 6. og 7. grein). Umsókn um styrk vegna reksturs bifreiðar sé þó engum vandkvæðum bundin að þessu leyti.

Umboðsmaður kæranda spyr hvort úrskurðarnefnd geti úrskurðað um rétt samkvæmt 6. og 7. grein eða hvort þörf sé á að sækja um að nýju svo að úrskurðarnefnd geti úrskurðað, en samkvæmt greinargerð Tryggingastofnunar sé líklegt að slíkri umsókn yrði hafnað. Auk þess sé spurt hvort Tryggingastofnun beri að taka málið upp að nýju og óska eftir nýrri umsókn í samræmi við framansagt um leiðbeiningarskylduna. Að lokum sé spurt hvort úrskurðarnefnd geti úrskurðað að málið sé í þeim farvegi að úrskurða megi út frá 6. og 7. grein þar sem ljóst sé að um það hafi verið sótt.

Þetta séu meðal annars þær spurningar sem hafi komið upp og því sé treyst að úrskurðarnefnd velferðarmála finni málinu réttan farveg.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé afgreiðsla, dags. 12. apríl 2022, á umsókn um uppbót til reksturs bifreiðar samkvæmt 5. gr. reglugerðar og styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.

Í kæru komi fram sú athugasemd að beiðni kæranda um rökstuðning hafi ekki verið svarað. Við vinnslu greinargerðar hafi komið í ljós að fyrir mistök virðist þeirri beiðni ekki hafa verið svarað. Þar sem að sjónarmið Tryggingastofnunar komi fram í þessari greinargerð hafi ekki verið talin ástæða til þess að svara erindinu á þessum tímapunkti þar sem það gæti valdið töfum á málinu. Beðist sé velvirðingar á að erindi kæranda hafi ekki verið svarað á sínum tíma.

Kærandi hafi með umsókn, dags. 2. febrúar 2022, sótt um uppbót til reksturs bifreiðar samkvæmt 5. gr. reglugerðar og styrk til bifreiðakaupa samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Með bréfi, dags. 25. apríl 2022, hafi Tryggingastofnun synjað umsókninni.

Þó að hér reyni í raun eingöngu á 2. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 5. og 8. gr. reglugerðar nr. 905/2021, sé nauðsynlegt að rekja einnig á stuttan hátt hvaða kröfur séu gerðar vegna 1. mgr. 10. gr. laganna og 6. og 7. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að veita styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynlegar séu vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Í 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 905/2021 sé skilgreint hvað felist í hugtakinu hreyfihömlun samkvæmt reglugerðinni. Þar segi að líkamleg hreyfihömlun sé þegar sjúkdómur eða fötlun sem skerði verulega færni einstaklings til að komast ferða sinna þannig að göngugeta hans sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar sé fyrst og fremst um að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma eða annað sambærilegt.

Í 4. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um mat á þörf á uppbótum/styrkjum samkvæmt reglugerðinni og þar segi að við mat á þörf fyrir uppbætur og styrki samkvæmt reglugerð þessari skuli fyrst og fremst líta á bifreið sem hjálpartæki hreyfihamlaðra. Meta skuli hvort umsækjandi þurfi nauðsynlega á bifreið að halda vegna hreyfihömlunar til að komast ferða sinna, einkum til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Við matið skuli einkum litið til eftirfarandi atriða:

1. Hreyfihömlunar, þ.e. hvort mat sem staðfesti hreyfihömlun umsækjanda liggi fyrir.

2. Nauðsynjar bifreiðar, þ.e. hvort ótvírætt sé að hinum hreyfihamlaða sé nauðsynlegt að hafa bifreið.

3. Ökuréttinda, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður, sbr. þó 12. gr.

4. Ökuhæfni, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði eða skráður ökumaður sé fær um að aka viðkomandi bifreið.

Í 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar segi að heimilt sé að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem greiðsluþegi sé talinn þurfa nauðsynlega á að halda samkvæmt reglugerð þessari. Þá sé heimilt að veita uppbót til framfærenda hreyfihamlaðra barna sem njóti umönnunargreiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar sé sambærilegt ákvæði vegna uppbótar vegna reksturs bifreiðar.

Strangari kröfur séu gerðar til þeirra sem hljóti styrk samkvæmt 7. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í þeim tilvikum sé skilyrði að umsækjandi sé verulega hreyfihamlaður og noti til dæmis tvær hækjur og/eða sé bundinn hjólastól að staðaldri. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá þann styrk þurfi umsækjandi því meðal annars að sýna fram á að hreyfihömlun hans sé svo veruleg og að hjálpartækjaþörf hans sé slík að hann þurfi að miða bifreiðakaup sín við þessi hjálpartæki og þurfi því stærri bíl en einstaklingur sem uppfylli skilyrði 6. gr. reglugerðarinnar.

Í 8. gr. reglugerðarinnar sé veitt heimild til Tryggingastofnunar til að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemi allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar. Í þeim tilvikum þurfi að vera um að ræða einstakling sem ekki komist af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin eigi þó einungis við þegar umsækjandi uppfylli skilyrði 7. gr. Markmiðið sé að koma til móts við þá sem séu verr settir en þeir sem fái uppbót samkvæmt 6. gr. og styrk samkvæmt 7. gr og þurfi meira rými vegna fötlunar sinnar. Til þess að fá hann þurfi því að sýna fram á að vegna hreyfihömlunarinnar sé aukin þörf fyrir stóran eða sérútbúinn bíl sem sé dýrari en almennt gerist um bifreiðar sem heimilt sé að veita uppbót samkvæmt 6. gr. eða styrk samkvæmt 7. gr.

Rétt sé að vekja sérstaka athygli á því að í 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar komi einnig fram að skilyrði sé að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja.

Við mat á hreyfihömlun vegna ákvörðunar, dags. 25. apríl 2022, hafi legið fyrir læknisvottorð dags. 1. febrúar 2022, og erindi frá sjúkraþjálfara, dags. 5. apríl 2022. Lýst sé konu með einhverfu, þroskahömlun og flogaveiki. Hún búi í eigin íbúð og hafi mikla þjónustuþörf. Hún komist ekkert nema að hafa bíl og geti ekki nýtt sér ferðaþjónustu fatlaðra nema að litlu leyti. Einnig komi fram upplýsingar um flóknar áráttur og kvíða. Ekki hafi verið að sjá að um væri að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar eða mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma. Því hafi ekki verið ráðið af upplýsingum frá lækni og sjúkraþjálfara að um væri að ræða ástand sem gæti talist sambærilegt við það sem að framan sé talið og hafi því skilyrði um hreyfihömlun ekki verið talin uppfyllt.

Rétt sé að taka fram að engar upplýsingar komi fram í gögnum málsins um að göngugeta kæranda sé á nokkurn hátt skert í skilningi 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar en þó sé í læknisvottorði hakað við að göngugeta kæranda sé minni en 400 metrar að jafnaði. Fyrirliggjandi gögn hafi verið metin og ljóst að ekki sé um hreyfihömlun að ræða hvað varði göngugetu. Skilyrði uppbótar og styrkja vegna reksturs og kaupa á bifreið hafi því ekki verið uppfyllt og hafi umsókninni því verið synjað.

Tryggingastofnun hafi farið ítarlega yfir mál kæranda. Tryggingastofnun meti stöðu kæranda þannig að hún teljist ekki hreyfihömluð í skilningi 10. gr laga um félagslega aðstoð og reglugerðar nr. 170/2009.

Sú hreyfihömlun, sem reglugerð nr. 905/2021 sé ætlað að mæta, sé skilgreind í 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar eins og fram hafi komið. Ljóst sé að með hreyfihömlun sé átt við sjúkdóm eða fötlun sem skerði verulega færni til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Einnig sé ljóst að með því sé fyrst og fremst átt við lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma eða annað sambærilegt. Þessari skilgreiningu hafi verið bætt við eldri reglugerð árið 2009 en hún hafði áður meðal annars mótast í framkvæmd hjá úrskurðarnefnd.

Rétt sé að taka fram að þegar rætt sé um annað sambærilegt í 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar sé átt við líkamlega hreyfihömlun sem hafi áhrif á göngugetu. Það sé sá hópur sem lög- og reglugerðargjafinn hafi ætlað að veita uppbætur og styrki til kaupa á bifreiðum, en ekki öðrum einstaklingum sem segja megi að séu umferðarhamlaðir á annan hátt. Sú túlkun og framkvæmd sé í samræmi við það sem tíðkist í nágrannalöndum okkar. Megi meðal annars sjá þetta í skýrslu starfshóps velferðarráðuneytisins um stuðningskerfi til að auðvelda för hreyfihamlaðs fólks, en þar sé sérstaklega farið í þetta atriði á bls. 21 og 22. Skýrslan hafi verið birt á vef velferðarráðuneytisins þann 19. desember 2014 og megi finna hana á heimasíðu ráðuneytisins í dag.

Í gögnum málsins komi fram ákveðnar félagslega forsendur fyrir því að kærandi þurfi á bifreið að halda. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að taka tillit til þeirra, heldur sé stofnunin bundin af þeim skilyrðum sem sett séu í lögum um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 905/2021.

Að lokum sé rétt að taka fram að kærandi hafi ekki sótt um uppbót/styrk vegna kaupa á bifreið samkvæmt 6. og 7. gr. reglugerðar nr. 905/2021, en þar sem hún uppfylli ekki skilyrði reglugerðarinnar um hreyfihömlun eigi hún ekki rétt á neinum uppbótum eða styrkjum vegna kaupa eða reksturs bifreiðar. Í tilfelli styrks samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar sé fyrst og fremst verið að horfa til einstaklinga sem séu það hreyfihamlaðir að þeir séu í rafmagnshjólastólum sem þeir þurfi að sitja í á meðan bifreiðin sé á ferð og þær miklu breytingar og þann búnað sem slíkt fyrirkomulag feli í sér. Ljóst sé að ekkert í gögnum málsins gefi til kynna að kærandi sé í sambærilegri stöðu og slíkur einstaklingur.

Stofnunin telji að miðað við fyrirliggjandi gögn sé ljóst að afgreiðsla málsins hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 905/2021. Ákvörðun Tryggingastofnun sé einnig í fullu samræmi við fyrri fordæmi úrskurðarnefndar og megi þar nefna úrskurði nefndarinnar í málum nr. 125/2017, 208/2018 og 164/2019. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um 60% styrk til kaupa á bifreið og uppbót vegna reksturs bifreiðar.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrks til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkulífeyrisþegi og örorkustyrkþegar.

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. hefur ráðherra sett reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er líkamleg hreyfihömlun skilgreind á eftirfarandi máta:

„Sjúkdómur eða fötlun sem skerðir verulega færni einstaklings til að komast ferða sinna þannig að göngugeta hans er að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þar er fyrst og fremst um að ræða lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar, mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma eða annað sambærilegt.“

Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er það skilyrði fyrir veitingu uppbótar/styrks til bifreiðakaupa að fyrir liggi mat sem staðfesti hreyfihömlun. 

Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða uppbót vegna reksturs bifreiðar. Í 3. málsl. er greint frá því að uppfylla þurfi meðal annars skilyrði um hreyfihömlun. Þá er í 7. gr. reglugerðarinnar að finna skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða styrk til kaupa á bifreið. Svohljóðandi er 1. mgr. þeirrar greinar:

„Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta, t.d. að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður. Skilyrði er að hinn hreyfihamlaði sé sjúkratryggður hér á landi.“

Í 8. gr. reglugerðarinnar er að finna skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið. Svohljóðandi er 1. málsl. 1. mgr. þeirrar greinar:

„Heimilt er að veita styrk til að kaupa bifreið, ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar bifreiðar vegna mikillar fötlunar.“ 

Með umsókn kæranda fylgdi læknisvottorð C, dags. 1. febrúar 2022, og þar er greint frá sjúkdómsgreiningunum epilepsy, einhverfu og apraxia. Í lýsingu á sjúkdómsástandi segir:

„A er X ára með einhverfu, þroskahömlun og flogaveiki.

Hún býr D í sinni eigin íbúð. A er með mikla þjónustuþörf og fær sólarhringsþjónustu í D. Þarf alltaf að hafa manninn með sér (jafnvel 2 einst.) Þarf að komast í búðir, sund, námskeið og sækja stuðing vegna fötlunar. Hefur verið með ferðaþjónustu en getur ekki nýtt sér nema að litlu leiti. Kemst ekkert nema hafa eigin bíl því þyrmir yfir hana og þarf að komast úr aðstæðum strax (getur ekki beðið eftir ferðaþjónustu). A er með mjög flóknar áráttur. Síðustu 2 árin hafa verið henni erfið og árátturnar hafa yfirtekið mikinn part lífs hennar. Þessar áráttur eru misjafnar en hafa á tíðum verið henni lífshættulegar og hún hefur lent inni á spítala vegna þeirra. T.d. hafa árátturnar snúist um [..]. Síðastliðið ár er greinilegt að kvíðinn hennar sé búinn að aukast mikið, sem ýtir undir þessa áráttukenndu hegðun. […] Þessu fylgir ótrúlega mikil vanlíðan og við, aðstandendur og starfsfólk erum orðin uppiskroppa með hugmyndir til þess að aðstoða hana við að líða betur. Við erum búin að prófa allt sem í okkar valdi stendur.

Vegna aðstæðna þarf hún nauðsynlega eigin bíl og aðstoðarfólk keyrir en hún hefur ekki bílpróf. Þá yrði lífið mun auðveldara og meiri fjölbreytni (félagslega m.a.). Vegna sinnar fötlunar getur hún ekki farið nema mjög stuttar vegalengdir nema með miklum stuðningi. Mjög ósjálfbjarga.“

Þá kemur fram í vottorðinu að göngugeta kæranda sé að jafnaði minni en 400 metrar og að hún verði að öllum líkindum óbreytt næstu tvö árin.

Auk þess liggur fyrir læknisvottorð C, dags. 5. apríl 2022, sem er samhljóða vottorði hans, dags. 1. febrúar 2022, ef frá er talinn eftirfarandi texti:

„Vegna fyrri höfnunar TR skal tekið fram að A er með greininguna apraxia sem hjá henni kemur fram í því að getur við ýmsar breytilegar aðstæður ekki framkvæmt lærðar hreyfingar. Þetta kemur endurtekið fram í því að hún “frýs“ við vissar aðstæður og kemst ekki úr sporunum. Þessi viðbrögð eru mjög áberandi hjá A og veldur því að hún er í raun mjög hreyfiskert.“

Einnig liggur fyrir bréf E sjúkraþjálfara, dags. 5. apríl 2022, og þar segir:

„Ég undirrituð vil ítreka það sem líst var í fyrra bréfi dagsettu, 03.03.2022 að A býr við skerta göngugetu sem kemur fyrirvararlaust. Stífnar upp og kemst ekki lengra, 2 manneskur koma henni ekki heim nema í bíl. Engin hjálpartæki hafa verið þróuð sem hjálpa við þær aðstæður. (Má lýsa þessu svipað eins og þegar Parkinson sjúklingur frýs og verður alveg stífur, enda er Einhverfa taugaþroskaröskun).

Hvaða fötlunarflokk sem við skilgreinum A í einhverfu, taugaþroskaröskun apraxia/skynhreyfihömlun þá er bíll það eina sem hjálpað getur við þessar aðstæður.“

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi sé hreyfihömluð í skilningi reglugerðar nr. 905/2021 og 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Hugtakið hreyfihömlun er ekki skilgreint í lögum um félagslega aðstoð, en löggjafinn hefur veitt ráðherra heimild til að útfæra umrætt lagaákvæði í reglugerð. Í 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra er hreyfihömlun skilgreind þannig að um hreyfihömlun sé að ræða þegar hömlun skerðir verulega færni viðkomandi til að komast ferða sinna þannig að göngugeta sé að jafnaði minni en 400 metrar á jafnsléttu. Þá eru nefnd dæmi um hvað geti valdið slíkri færniskerðingu, til að mynda lömun eða skertur hreyfanleiki í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar og mæði vegna hjarta- eða lungasjúkdóma. Af ákvæði 10. gr. laga um félagslega aðstoð verður ráðið að tilgangur ákvæðisins sé að koma til móts við þá einstaklinga sem eiga erfitt með að hreyfa sig á milli staða vegna skertrar göngugetu. Úrskurðarnefnd velferðarmála gerir ekki athugasemd við að skilgreining á hreyfihömlun í 4. mgr. 2. gr. reglugerðar um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða taki mið af því hvernig göngugeta umsækjanda sé að jafnaði.

Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorðum er göngugeta kæranda minni en 400 metrar á jafnsléttu að jafnaði. Að mati úrskurðarnefndar, sem meðal annars er skipuð lækni, styðja framangreindar sjúkdómsgreiningar og lýsingar á sjúkdómsástandi kæranda í fyrrgreindum læknisvottorðum og bréfi sjúkraþjálfara ekki það mat. Þó svo að kærandi eigi til að „frjósa“ í tilteknum aðstæðum verður ekki séð göngugetan sé skert að jafnaði. Að mati úrskurðarnefndar er kærandi því ekki hreyfihömluð í skilningi 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 905/2021.

Ljóst er samkvæmt framangreindu að til þess að eiga rétt á uppbót/styrk eða 60% styrk til bifreiðakaupa þarf umsækjandi að uppfylla skilyrði 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar um hreyfihömlun. Það sama á við um umsækjanda um styrk til reksturs bifreiðar. Úrskurðarnefndin telur því ekki tilefni til að gera athugasemdir við að Tryggingastofnun hafi ekki leiðbeint kæranda um að sækja um uppbót/styrk til bifreiðakaupa í stað 60% styrks.

Að því virtu, sem að framan hefur verið rakið, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um 60% styrk til bifreiðakaupa og uppbót til reksturs bifreiðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A, um 60% styrk til bifreiðakaupa og uppbót til reksturs bifreiðar, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta