Nr. 352/2019 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 18. júlí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 352/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19050067
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 31. maí 2019 kærði […], fd. […] ríkisborgari Íraks (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. maí 2019, um að synja honum um dvalarleyfi hér á landi.
Af greinargerð kæranda má ráða að hann krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi þann 6. mars 2018. Við meðferð málsins kom fram hjá umboðsmanni kæranda að óskað væri eftir því að kæranda yrði veitt dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 14. maí 2019, var umsókn kæranda synjað. Ákvörðunin var móttekin af umboðsmanni kæranda 17. maí 2019. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 31. maí 2019. Þann 12. júní sl. barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigagni.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kærandi væri ekki staddur á landinu. Rakti Útlendingastofnun ákvæði laga um útlendinga um flóttamenn og vísaði m.a. til þess að samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga teldist flóttamaður vera útlendingur sem væri utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur af nánar tilgreindum ástæðum. Þá væri kveðið á um í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem væri hér á landi eða kæmi hér að landi, hefði samkvæmt umsókn rétt til að fá hér alþjóðlega vernd. Yrðu framangreind ákvæði ekki skilin öðruvísi en svo að umsækjandi um alþjóðlega vernd yrði að vera staddur hér á landi til að geta sótt um vernd. Var umsókn kæranda um dvalarleyfi því synjað.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er vísað til bréfs frá umboðsmanni hans til Útlendingastofnunar, en umboðsmaður kæranda er föðurbróðir hans. Í bréfunum kemur fram að föðurbróðir kæranda hafi sinnt túlkaþjónustu fyrir Útlendingastofnun í málum sem varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Þegar ákveðnir einstaklingar hafi fengið neikvæða niðurstöðu vegna umsóknar um vernd hafi þeir litið svo á að föðurbróðir kæranda hafi, sem túlkur, haft neikvæð áhrif á mál þeirra. Hafi hann t.a.m. verið sakaður um að vinna fyrir Útlendingastofnun. Segir í bréfunum að málið hafi farið á alvarlegra stig þar sem leitað hafi verið að fjölskyldu föðurbróður kæranda í Kúrdistan, m.a. kæranda, og þeim hótað. Byggir kærandi á því að hann sé í lífshættu í heimaríki vegna hótana og óskar eftir leyfi til að flytja hingað til lands af þessum sökum. Í greinargerð kæranda segir að bifreið föðurbróður kæranda hafi orðið fyrir skemmdum í ágúst 2018. Með umsókn um alþjóðlega vernd hafi föðurbróðir hans vonast til þess að kærandi fengi alþjóðlega vernd hér á landi, en föðurbróðir kæranda sé alfarið á móti því að kærandi komi hingað til lands með ólögmætum hætti. Telur kærandi að Útlendingastofnun beri að leyfa honum að koma til landsins með vegabréfsáritun svo hann geti lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Þá gerir kærandi athugasemd við málsmeðferðartíma Útlendingastofnunar.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi þann 6. mars 2018. Við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun óskaði stofnunin eftir upplýsingum um á hvaða grundvelli umsóknin hvíldi. Í bréfi frá umboðsmanni kæranda kom fram að óskað væri eftir því að kæranda yrði veitt dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar, sbr. 73. gr. laga um útlendinga, vegna fyrrgreindra hótana sem hann hefði sætt í heimaríki. Eins og áður er rakið var synjun Útlendingastofnunar á umsókn kæranda byggð á því að kærandi væri ekki staddur á landinu.
Þegar umsækjanda er veitt alþjóðleg vernd skv. 37. eða 39. gr. laga um útlendinga gefur Útlendingastofnun út dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins verður aðeins veitt að undangenginni efnismeðferð vegna umsóknar um alþjóðlega vernd. Verða ákvæði 37. og 40. gr. laga um útlendinga ekki skilin öðruvísi en svo að efnisleg umfjöllun um umsókn um alþjóðlega vernd sé háð því skilyrði að umsækjandi sé utan heimaríkis og staddur hér á landi eða komi hér að landi. Þar sem kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar án þess að vera staddur hér á landi verður ekki tekin efnisleg afstaða til þess hvort hann uppfylli skilyrði þess að teljast flóttamaður. Getur kærandi því ekki átt rétt á dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi áskilnaðar 74. gr. laga um útlendinga um dvöl umsækjenda hér á landi og undanfarandi efnislegri afgreiðslu umsóknar um alþjóðlega vernd til að dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða komi til greina er heldur ekki ástæða til að fjalla efnislega um skilyrði dvalarleyfis samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laganna.
Að framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.
Vegna athugasemdar við málsmeðferð Útlendingastofnunar tekur kærunefnd undir með kæranda að meðferð umsóknar hans um dvalarleyfi hafi dregist úr hófi og ekki verið í samræmi við málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Ívar Örn Ívarsson Þorbjörg Inga Jónsdóttir