Hoppa yfir valmynd

Nr. 130/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 130/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19020024

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 8. febrúar 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. janúar 2019, um að synja honum um endurnýjun á dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru kæranda má ráða að hann krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi fyrir maka íslensks ríkisborgara þann 22. júní 2016 með gildistíma til 30. maí 2017. Var leyfið endurnýjað 19. apríl 2017 með gildistíma til 30. maí 2018. Kærandi sótti um endurnýjun leyfisins þann 20. mars 2018. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 24. október 2018, var kæranda tilkynnt að grunur hefði vaknað hjá stofnuninni um að hjúskapur kæranda og maka hans væri hugsanlega til málamynda. Var kæranda veittur frestur til að leggja fram gögn eða andmæli. Þann 5. nóvember 2018 barst Útlendingastofnun greinargerð frá kæranda. Lagði kærandi jafnframt fram greinargerð til stofnunarinnar þann 3. desember 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. janúar 2019, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmaður kæranda móttók ákvörðunina þann 23. janúar 2019. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 8. febrúar 2019 en kæru fylgdi greinargerð ásamt fylgiskjölum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að við vinnslu umsóknarinnar hefði vaknað upp grunur um að hjúskapur kæranda og maka hans væri til málamynda og að þau byggju ekki saman. Hafi stofnunin sent lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bréf, dags. 31. maí 2018, þar sem óskað hafi verið eftir því að lögreglan rannsakaði hvort kærandi væri í raun búsettur hjá maka sínum. Hefði stofnuninni borist lögregluskýrsla í málinu, dags. 13. júní 2018. Samkvæmt skýrslunni hefði fátt bent til þess að kærandi væri búsettur á heimilinu. Þá hefði maki kæranda ekki munað símanúmer kæranda. Vísaði Útlendingastofnun til ákvæðis 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga en þar segi að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo óyggjandi sé veiti það ekki rétt til dvalarleyfis. Vísaði stofnunin því næst til lögskýringargagna með ákvæðinu. Sé það skilyrði fyrir synjun dvalarleyfis að rökstuddur grunur sé fyrir hendi að um gerning til málamynda sé að ræða. Samkvæmt upplýsingum á Facebook reikningi maka hafi hún verið skráð einhleyp þann [...] en kærandi og maki hans hafi gengið í hjónaband [...]. Þá væri maki kæranda ekki skráð í hjúskap með kæranda á Facebook. Þá væri enga myndbirtingu að finna af kæranda á Facebook-reikningi maka kæranda, hvorki frá tímabilinu í aðdraganda brúðkaupsins, frá brúðkaupsdeginum eða eftir hann. Hins vegar væri að finna myndbirtingu frá [...] af maka kæranda ásamt öðrum karlmanni. Jafnframt hafi verið hundruð mynda á fyrrgreindum samfélagsmiðli af kæranda við hin ýmsu tilefni en engin mynd af eiginkonu hans, hvorki henni einni né þeim hjónum saman. Þá tók stofnunin fram að [...] ára aldursmunur væri á kæranda og maka hans og um væri að ræða [...] hjónaband maka hans. Einnig yrði að líta til þess að maki hafi ekki vitað símanúmerið hjá kæranda. Að mati stofnunarinnar væri þetta til marks um að maki kæranda þekkti ekki til einstakra atriða úr lífi hans.

Að öllu framangreindu virtu var það mat Útlendingastofnunar að rökstuddur grunur væri til staðar að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfi hér á landi og ekki hefði verið sýnt fram á annað svo óyggjandi væri. Var umsókn kæranda því synjað, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

IV.  Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð tekur kærandi fram að afstaða Útlendingastofnunar í málinu virðist fyrst og fremst byggjast á athugun stofnunarinnar á Facebook reikningum kæranda og eiginkonu hans, ásamt óboðaðri heimsókn lögreglu á heimili þeirra hjóna. Telur kærandi að athugun stofnunarinnar á fyrrgreindum samfélagsmiðlum fullnægi ekki þeirri ströngu rannsóknarskyldu sem lögð sé á stjórnvöld samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Séu það varhugaverð vinnubrögð hjá stofnunni að draga svo víðtækar ályktanir, svo sem um hjúskaparstöðu kæranda, af skoðun samfélagsmiðla. Þurfi að hafa í huga að um mikilsverða hagsmuni sé að ræða sem valdi því að strangari kröfur séu gerðar en ella til rannsóknar máls. Þannig geti skoðun ljósmynda og skráningu notenda á Facebook ekki verið grundvöllur svo afdrifaríkra ákvarðana. Í fyrsta lagi sé skráning á samskiptamiðlum ekki gilt vottorð um hjúskaparstöðu. Margar ástæður geti verið að baki hvernig slíkum skráningum sé háttað, t.d. geti vel verið að fólk gleymi hreinlega að skrá hjúskaparstöðu sína. Í öðru lagi telur kærandi fráleitt að stofnunin dragi þá ályktun af mynd maka kæranda með öðrum karlmanni að kærandi sé ekki í sambúð með konu sinni. Í þriðja lagi hafnar kærandi því að myndir á samfélagsmiðlum gefi rétta mynd af ráðahag þeirra hjóna. Hafi hann því lagt fram myndir til kærunefndar sem sýni þau hjón saman. Tekur kærandi fram að Útlendingastofnun hafi engar myndir lagt fram í málinu heldur aðeins fullyrðingar um skoðun á ótilgreindum fjölda ljósmynda. Sé rannsókn Útlendingastofnunar því ábótavant.

Þá telur kærandi að heimsókn lögreglu á heimili þeirra hjóna hafi ekki verið til þess fallin að varpa ljósi á hjónaband þeirra. Tilvísun til tveggja tannbursta á baðherbergi sæti furðu enda sé óljóst hver hafi átt þá. Þá telur kærandi að athugun lögreglu á fatnaði og öðrum ummerkjum í íbúðinni með öllu ófullnægjandi enda hafi hann sannarlega geymt föt á heimilinu. Þá hafi engar lögregluskýrslur verið lagðar fram í málinu. Telur kærandi að nær hefði verið að leita eftir framburði maka kæranda um ráðahaginn á staðnum í stað þess að draga ályktanir af fjölda tannbursta og annarri lauslegri sjónskoðun á heimilinu. Til þess að skilyrðum 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sé fullnægt þurfi að vera hafið yfir allan vafa að um málamyndahjúskap sé að ræða. Telur kærandi svo ekki vera í málinu en eina rannsóknin sem fram hafi farið sé skoðun á samfélagsmiðlum og heimsókn lögreglu. Þá telur kærandi að athugun Útlendingastofnunar á Facebook-reikningum þeirra hjóna hafi ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 110. gr. laga um útlendinga um rökstuddan grun og hafi fyrrnefnd aðgerð lögreglu verið ólögmæt og í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 70. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 1. málsl. 8. mgr. 70. gr. segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi til að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum sem fylgdu 70. gr. frumvarps þess er varð að lögum um útlendinga er fjallað um ýmis sjónarmið sem geta komið til skoðunar við mat á því hvort stofnað er til hjúskapar í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Þar kemur m.a. fram að líta beri til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þeir tali tungumál hvor annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvor annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar.

Af ákvörðun Útlendingastofnunar verður ráðið að niðurstaða Útlendingastofnunar um rökstuddan grun um að til hjúskapar kæranda hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis sé byggð á nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi sé [...] ára aldursmunur á milli kæranda og eiginkonu hans og að hjónabandið er [...] hjónaband eiginkonu hans. Í öðru lagi sé eiginkona kæranda ekki skráð í hjúskap með honum á samfélagsmiðlinum Facebook og engar myndir að finna á samfélagsmiðlum af kæranda og eiginkonu hans. Í þriðja lagi er í ákvörðun Útlendingastofnunar vísað til fjölskyldutengsla kæranda við vinnuveitanda sinn en kærunefnd fær ekki séð hvernig þau sjónarmið sem þar er vísað til geta komið til skoðunar við mat um hvort 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga á við. Í fjórða lagi er í ákvörðuninni vísað til lögregluskýrslu frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, dags. 13. júní 2018, þar sem kemur fram að lögregla hafi farið að heimili kæranda og eiginkonu hans þann [...]. Hafi kærandi ekki verið heima en eiginkona hans tjáð lögreglu að hann væri í [...] hjá systur sinni. Aðspurð hafi hún ekki getað tjáð lögreglu hvar í [...] kærandi væri en talað um [...]. Þá væri hann þar oft vegna vinnu, en hann starfaði hjá systur sinni. Aðspurð hafi eiginkona kæranda leyft lögreglu að svipast um í húsakynnum þeirra. Kom fram í skýrslunni að sonur eiginkonu kæranda byggi á heimilinu og hefði hann verið heima. Í baðherbergi íbúðarinnar hafi verið tveir tannburstar í tannburstaglasi. Þá hafi eiginkona kæranda vísað þeim á herbergi hennar en þar hafi verið sófi með einni sæng og einum kodda. Hafi engin föt verið sýnileg af kæranda og íbúðin ekki borið þess merki að tveir karlmenn byggju á heimilinu. Aðspurð hafi eiginkona kæranda ekki munað símanúmer kæranda.

Að mati kærunefndar verður fallist á með Útlendingastofnun að þegar kærandi sótti um endurnýjun á dvalarleyfi sínu hafi framangreindar upplýsingar af samfélagsmiðlinum Facebook gefið tilefni fyrir Útlendingastofnun til að hefja sérstaka rannsókn með það að markmiði að upplýsa hvort kærandi uppfyllti skilyrði laga um útlendinga til að fá leyfið endurnýjað.

Aftur á móti er það mat nefndarinnar að upplýsingarnar sem lágu fyrir hjá Útlendingastofnun ekki hafa verið nægjanlegar til að unnt væri að draga þá ályktun að til hjúskapar kæranda hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis. Í því sambandi hefur kærunefnd litið til þess að framangreindri lögregluskýrslu fylgja engin frekari gögn, t.a.m. myndir eða aðrar upplýsingar, sem rennt gætu stoðum undir þá ályktun Útlendingastofnunar að kærandi búi ekki á lögheimili sínu. Þá liggja ekki fyrir aðrar upplýsingar um þekkingu maka kæranda á högum kæranda en stutt lýsing í lögregluskýrslu. Þegar litið er til þeirra sjónarmiða sem er tilgreint lögskýringargögnum að geti komið til skoðunar við mat á því hvort stofnað er til hjúskapar í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis er það niðurstaða kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi ekki samrýmst 10. gr. stjórnsýslulaga. Að mati kærunefndar er til hagsbóta fyrir kæranda að Útlendingastofnun taki að nýju afstöðu til umsóknar hans. Verður því ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s application.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                  Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta