Mál 5/2018. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 11. október 2018
í máli nr. 5/2018:
Dk hugbúnaður ehf.
gegn
Reykjavíkurborg og
Öryggismiðstöð Íslands hf.
Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 9. apríl 2018 kærði Dk hugbúnaður ehf. samkeppnisviðræður Reykjavíkurborgar nr. 14040 (hér eftir vísað til sem varnaraðila) auðkennt „Verslunarkerfi fyrir starfsstaði Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar“. Kærandi krefst þess að frávísun hans frá samkeppnisviðræðunum „verði úrskurðuð ólögmæt, samkeppnisviðræðurnar stöðvaðar og þær fari fram að nýju.“ Jafnframt krefst kærandi þess að hafi „Reykjavíkurborg gert samning á grundvelli þessara ólögmætu viðræðna [...] að sá samningur verði lýstur óvirkur og Reykjavíkurborg gert að fara í nýjar samkeppnisviðræður.“ Þá er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila. Auk þess er krafist málskostnaðar.
Kærandi gerði frekari grein fyrir sjónarmiðum að baki kæru með greinargerð 18. apríl 2018. Varnaraðila og Öryggismiðstöð Íslands hf. var kynnt kæran og greinargerð kæranda og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð 25. apríl 2018 krafðist Öryggismiðstöð Íslands hf. þess aðallega að kærunni yrði vísað frá kærunefnd en til vara að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Með greinargerð 9. maí 2018 krafðist varnaraðili þess „að kröfum kæranda um að samningur yrði lýstur óvirkur og varnaraðila gert að fara í nýjar samkeppnisviðræður“ yrði vísað frá, en öðrum kröfum kæranda yrði hafnað. Þá var krafist málskostnaðar úr hendi kæranda. Varnaraðili skilaði viðbótarathugasemdum 15. júní 2018. Kærandi skilaði andsvörum 11. september 2018.
Með ákvörðun 5. júní 2018 hafnaði kærunefnd útboðsmála kröfu varnaraðila og Öryggismiðstöðvar Íslands hf. um að aflétta stöðvun samningsgerðar hins kærða innkaupaferlis sem hafði komist á með kæru í málinu.
I
Í ágúst 2017 stóð varnaraðili fyrir forvali þar sem óskað var eftir áhugasömum aðilum til að taka þátt í samkeppnisviðræðum um kaup eða leigu á verslunarkerfi fyrir starfsstaði Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar. Í forvalsgögnum voru gerðar ýmsar kröfur til bjóðenda um fjárhagslega og tæknilega getu. Í grein 4.3 kom meðal annars fram að umsækjandi þyrfti að hafa a.m.k. þriggja ára reynslu af rekstri verslunarkerfis hjá minnst þremur viðskiptavinum sem hefðu fleiri en eina starfsstöð og tengingu verslunarkerfis við viðskipta- og greiðslukortalesara.
Fjórum fyrirtækjum sem stóðust forvalskröfur var boðið að taka þátt í viðræðunum, þ.á m. kæranda og Öryggismiðstöð Íslands hf. Í forvalsgögnum, svo og viðbótargögnum sem afhent voru þátttakendum, kom fram lýsing á áætluðu ferli viðræðnanna. Þannig kom fram í grein 1.1.3 viðbótargagna að þær skyldu fara fram í þremur þrepum. Í þrepi I færi fram forval þar sem valdir væru hæfir þátttakendur til viðræðna um þróun lausnar. Í þrepi II skyldi völdum þátttakendum afhent viðbótar- og skýringargögn sem innihéldu meðal annars nánari útfærslu á þörfum og kröfum kaupanda. Að loknum tilgreindum fresti skyldu þátttakendur skila inn tillögu eða tillögum að lausnum á kröfum og þörfum kaupanda ásamt verðhugmynd. Einnig kom fram að starfshópur á vegum varnaraðila myndi funda með hverjum þátttakanda fyrir sig þar sem farið yrði ítarlega yfir tillögu hans og verðhugmyndir. Kom fram að varnaraðili áskildi sér rétt til að óska eftir skýringarfundum með þátttakendum þar sem þeir skyldu geta sýnt fram á virkni kerfis með tilliti til lágmarkskrafna. Þátttakendum í öðru þrepi skyldi gefast kostur á að breyta tillögu sinni og leggja fram tillögu á ný með það fyrir augum að þörfum og markmiðum kaupanda yrði fullnægt. Þá kom fram að teldi varnaraðili tillögu þátttakanda ófullnægjandi á þessu stigi skyldi hann tilkynna þátttakanda um þá niðurstöðu og rökstyðja, en þá skyldi þátttakandi hafa sjö daga frest til að bregðast við rökstuðningi varnaraðila og leggja fram nýja tillögu. Hafnaði varnaraðili nýrri tillögu að lausn skyldi slík höfnun grundvallast á fyrri rökstuðningi og skyldi lausn þá vísað frá.
Í þrepi III skyldi þeim þátttakendum sem töldust hafa skilað fullnægjandi tillögu að lausn skila inn endanlegri lausn og verðtilboði. Þessi tilboð skyldu hafa að geyma öll þau atriði sem nauðsynleg væru til að hrinda samningi í framkvæmd. Þá áskildi varnaraðili sér rétt til að óska eftir því að sá bjóðandi sem ætti hagkvæmasta tilboðið skýrði atriði í tilboði sínu eða staðfesti tilteknar skuldbindingar sem fram kæmu í tilboði enda leiddi það ekki til þess að grundvallarþáttum í tilboðinu eða útboðsgögnum yrði breytt þannig að samkeppni yrði raskað eða um mismunun yrði að ræða. Kom fram að samið yrði við einn aðila. Í grein 1.1.4 viðbótargagna kom meðal annars fram að þátttakendur skyldu skila inn útfylltum kröfulista þar sem fram kæmi hvort lágmarkskröfur (svonefndar A-kröfur) væru uppfylltar, uppfylltar að hluta eða ekki uppfylltar. Einnig var óskað eftir því að þátttakendur tilgreindu hvaða matskröfur (svonefndar M-kröfur) lausnin uppfyllti eða myndi uppfylla.
Í grein 1.2.2 viðbótargagna kom fram að varnaraðili myndi meta tilboð með tilliti til verðs annars vegar og tækni og virkni hins vegar, en hvor þáttur um sig skyldi vega 50% af heildareinkunn tilboða. Í grein 1.2.2.2 komu fram nánari viðmið um hvernig tækni og virkni boðinna lausna yrði metin. Kom þar fram að kröfur til boðinna lausna væru flokkaðar í A og M kröfur. A væru lágmarkskröfur sem boðin lausn skyldi uppfylla við skil á endanlegri tillögu og kæmu þær ekki til mats við stigagjöf. M væru matskröfur sem skiptust í flokka 1 og 2. Matskröfur í flokki 1 skyldu vera uppfylltar þegar kerfið væri gangsett en aðilar skyldu komast að samkomulagi á lokastigi viðræðna hvenær matskröfur í flokki 2 skyldu uppfylltar. Þá kom fram að við mat á gæðum lausnar skyldi varnaraðili meta og gefa stig fyrir lausn M kröfu. Við stigagjöf skyldi meta hversu vel lausn uppfyllti kröfurnar. Þá myndi kaupandi eftir atvikum bera saman lausnir við mat. Jafnframt kom fram að „lausn sem ekki uppfyllir 70% af matskröfum í síðasta þrepi viðræðna telst ekki fullnægjandi og mun verða vísað frá.“ Í grein 1.2.3 kom fram að kaupandi myndi taka hagkvæmasta tilboði.
Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili hafi skipað sérstakan starfshóp til að leggja mat á boðnar lausnir og hvernig þær uppfylltu matskröfur útboðsins. Í skýrslu starfshópsins kom að hópurinn hafi gefið hverri kröfu stig á skalanum 1-5. Þar sem beðið hefði verið um staðfestingu á kröfu með notkunardæmi hafi verið gefin fimm stig í upphafi fyrri hvert sýnt notkunardæmi. Varnaraðili hafi metið allar kröfurnar með tilliti til viðbótargagna og dregið af eitt stig frá ef boðin lausn myndaði ekki eina samstæða heild, eitt stig ef boðin lausn væri ekki notendavæn/aðgengileg og eitt stig ef gögn flæddu ekki hnökralaust milli kerfiseininga ef boðin lausn væri samsett úr fleiri en einni kerfiseiningu. Að auki áskildi varnaraðili sér rétt að bera saman lausnir á kröfum ef augljóslega skildi mikið á milli útfærslu lausna á kröfum varnaraðila. Þá var hægt að fá eitt aukastig fyrir útfærslu á hverri kröfu ef boðin lausn uppfyllti markmið og þarfi kaupanda eins og hann hefði lýst í útboðsgögnum sannarlega betur en aðrar boðnar lausnir. Þá kom fram að ef krafa fengi fimm stig gæti önnur lausn sem einnig væri með fimm stig hentað markmiðum og þörfum kaupanda betur þannig að mikið skildi að og því fengið eitt aukalegt stig.
Hinn 10. janúar 2018 áttu varnaraðili og kærandi fund um boðna lausn kæranda. Með sérstökum viðauka varnaraðila 17. janúar 2018 var gert ráð fyrir að þátttakendur sýndu varnaraðila virkni boðinnar lausnar með tilliti til 27 notkunardæma. Hinn 5. febrúar 2018 fór fram skýringarfundur þar sem kærandi lýsti virkni boðins kerfis á glærum og með myndbandi. Með tölvupósti 20. febrúar 2018 tilkynnti varnaraðili kæranda að hann hefði farið yfir lausn kæranda með tilliti til lágmarkskrafna og matskrafna. Kom fram að til að lausn teldist fullnægjandi þyrfti hún að uppfylla allar lágmarkskröfur og að minnsta kosti 70% af matskröfum samkvæmt grein 1.2.2.2 í útboðsgögnum. Teldi varnaraðili lausn kæranda ófullnægjandi þar sem hvorki hefði verið sýnt fram á virkni tiltekinna lágmarkskrafna né matskrafna. Var tilkynnt að kærandi hefði sjö daga frest til að bregðast við og leggja fram nýja tillögu að lausn. Jafnframt var óskað eftir skýringarfundi þar sem sýnt yrði fram á virkni með tilliti til lágmarkskrafna. Sá skýringarfundur fór fram 27. febrúar 2018 þar sem kærandi gafst kostur á að sýna fram á virkni lausnar sinnar. Fyrir liggur að kærandi sendi varnaraðila nánari gögn um lausn sína 28. febrúar 2018.
Með bréfi 21. mars 2018, degi áður en skil á endanlegri lausn bjóðenda skyldi eiga sér stað, tilkynnti varnaraðili kæranda að hann hefði metið það svo að lausn kæranda uppfyllti ekki 70% af matskröfum og því hefði lausnin enn verið ófullnægjandi eftir að framangreindur sjö daga frestur hefði verið veittur, auk þess sem kærandi hefði ekki skilað nýrri og endurbættri tillögu að lausn. Var tillögu kæranda því vísað frá á þessum grundvelli. Kærandi mótmælti þessari ákvörðun með tölvupósti næsta dag. Varnaraðili svaraði tölvupóstinum 23. mars 2018 þar sem hann ítrekaði fyrri afstöðu sína og sendi jafnframt með fylgiskjal með yfirliti yfir matskröfur í útboðinu og þá einkunn sem lausn kæranda fékk fyrir hverja matskröfu. Kom fram að samanlögð einkunn lausnar kæranda hefði numið 62,7%. Hinn 6. apríl 2018 var kæranda tilkynnt að varnaraðili hefði samþykkt að ganga að tilboði Öryggismiðstöðvar Íslands hf. í útboðinu og upplýst að tilboðið yrði endanlega samþykkt að liðnum 10 daga biðtíma samkvæmt 86. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.
II
Kærandi byggir á því að sú aðferðarfræði sem varnaraðili beitti við að meta hvort lausn kæranda uppfyllti 70% af matskröfum hafi ekki verið í samræmi við grein 1.2.2.2 í viðbótargögnum. Greinin geri einungis kröfu um að sýnt sé fram á ákveðna virkni fyrir hverja matskröfu óháð gæðum, en ekki að lágmarkseinkunn fyrir matskröfur næmi 70%. Samkvæmt því hafi lausn kæranda uppfyllt 32 af 36 matskröfum, eða 88,9%. Lausn kæranda hafi uppfyllt allar lágmarkskröfur og meira en 70% af matskröfum og því hafi frávísun kæranda verið ólögmæt.
Kærandi byggir einnig á því að samkvæmt grein 1.2.2 í viðbótargögnum hafi einkunnagjöf á matskröfum átt að fara fram þegar kærandi væri búinn að skila lokalausn, en ekki þegar eftir þrep II í samkeppnisviðræðunum. Því hafi það ekki verið í samræmi við skilmála útboðsins að vísa kæranda frá samkeppnisviðræðum á grundvelli einkunnagjafar sem átti ekki að fara fram fyrr en við skil á lokalausn og verðtilboði.
Þá mótmælir kærandi einkunnagjöf varnaraðila á matskröfum. Þannig hafi boðin lausn hans fengið 0 í einkum í tilteknum matskröfum, en þó séu allar umræddar kröfur uppfylltar í boðinni lausn. Þá séu forsendur einkunnagjafar varnaraðila varðandi matskröfur óskýrar auk þess sem ekki hafi verið getið um þær forsendur sem réðu einkunnagjöf í útboðsgögnum.
Einnig er byggt á því að Öryggismiðstöð Íslands hf. hafi ekki uppfyllt kröfur greinar 4.3 í forvalsgögnum um tæknilegt hæfi, þar sem fyrirtækið hafi ekki a.m.k. þriggja ára reynslu af rekstri verslunarkerfa hjá minnst þremur viðskiptavinum sem uppfylli kröfur ákvæðisins.
Kærandi mótmælir því að hann hafi ekki verið með fullkomin skil og skýringar á lausn sinni innan þess frests sem varnaraðili gaf og rann út 27. febrúar 2018. Skýringarfundur hafi verið haldinn þann dag þar sem ítarlega hafi verið farið yfir allar lágmarkskröfur og matskröfur í boðinni lausn kæranda og sýnt fram á með ótvíræðum hætti að lágmarkskröfur væru uppfylltar og yfir 90% af matskröfum að mati kæranda. Kærandi hafi veitt nánari skýringar á tilteknum þáttum og hafi varnaraðili óskað eftir skriflegum skýringum á tilteknum þætti boðinnar lausnar. Hafi kærandi fengið leyfi varnaraðila til að skila hinum skriflegu skýringum daginn eftir, 28. febrúar 2018.
III
Varnaraðili Reykjavíkurborg byggir á því að Öryggismiðstöð Íslands hf. hafi tekið þátt í forvali samkeppnisviðræðnanna í samstarfi með fyrirtækinu BRP Systems AB og þar með byggt á tæknilegu hæfi þess fyrirtækis. Með umsókn Öryggismiðstöðvar Íslands hf. hafi fylgt með yfirlýsingar frá fjórum fyrirtækjum um að BRP Systems AB hafi þjónustað þau í a.m.k. þrjú ár. Öll þessi fyrirtæki hafi fleiri en þrjár starfsstöðvar og tengingu við viðskipta- og greiðslukortalesara. Því hafi Öryggismiðstöð Íslands hf. uppfyllt kröfur forvalsgagna um tæknilegt hæfi.
Varnaraðili byggir jafnframt á því að framkvæmd samkeppnisviðræðnanna hafi verið lögmæt. Hvergi í gögnum viðræðnanna hafi verið að finna tæmandi talningu atriða sem gætu valdið því að varnaraðili teldi lausn ófullnægjandi. Af orðalagi viðbótargagna megi ráða að varnaraðila hefði verið heimilt að leggja sjálfstætt mat á það hvort lausn væri ófullnægjandi eða ekki á viðræðustigi samkeppnisviðræðnanna með þeim skilyrðum að lögð væru til grundvallar málefnaleg sjónarmið og jafnræðis væri gætt. Frá upphafi hafi það verið nálgun varnaraðila að á viðræðuþrepi þyrftu þátttakendur að sýna fram á að lausnir þeirra uppfylltu 70% af þeim matskröfum sem settar yrðu, þ.e. að lausnirnar þyrftu að fá 70% af mögulegum 100% úr mati varnaraðila á því hvernig þær uppfylltu þarfir sínar en að öðrum kosti fengi þátttakandi ekki að skila inn endanlegri lausn. Hafi verið gerð grein fyrir þessu í síðasta hluta í grein 1.2.2.2 þar sem fram hafi komið að lausn sem ekki uppfyllti ekki 70% af matskröfum í síðasta þrepi viðræðna teldist ekki fullnægjandi og yrði vísað frá. Ástæða þess að gerðar væru lágmarkskröfur og matskröfur væri að ótækt væri að varnaraðili stæði að lokum uppi með tölvukerfi sem leysi hluta krafnanna vel en aðra illa eða jafnvel ekki. Það sé mat varnaraðila að verulegur vafi sé á því að lausn sem ekki nái 70% af mögulegum 100% matskrafna við lok viðræðna hafi náð fullnægjandi virkni þegar hana eigi að taka í notkun.
Varnaraðili byggir einnig á því að allt frá því að viðbótargögn samkeppnisviðræðnanna hafi verið afhent þátttakendum hafi verið ljóst að túlkun varnaraðila hafi verið á þann veg að þegar gerð væri krafa um að matskrafa væri uppfyllt skyldi hún uppfylla kröfur varnaraðila að fullu. Af grein 1.2.2.2 fælist að við lok viðræðna yrðu lausnir að uppfylla 70% af matskröfum og að varnaraðili myndi leggja mat á lausnir þátttakenda á II. þrepi viðræðna. Sá skilningur kæranda að það hafi einungis þurft að uppfylla 26 af 36 matskröfum að einhverju leyti sé ekki í samræmi við grein 1.2.2.2 í viðbótargögnum auk þess sem sá skilningur gæti leitt til þess að lausn uppfyllti einungis lítinn hluta af hverri kröfu, en slík lausn væri afar ófullkominn og langt frá því að vera fullnægjandi. Þessi túlkun sé órökrétt og ekki í neinu samræmi við tilgang samkeppnisviðræðnanna. Þá sé varnaraðila ekki einungis heimilt að vísa lausn frá á grundvelli greinar 1.2.2.2 heldur einnig grein 1.1.3. Varnaraðila hafi einnig verið heimilt að vísa frá lausnum án þess að slík ákvörðun þyrfti að byggjast á tilteknum ákvæðum í skilmálum samkeppnisviðræðnanna. Slík ákvörðun þyrfti einungis að uppfylla meginreglur um jafnræði, meðalhóf og gagnsæi. Frávísun varnaraðila hafi uppfyllt þessar kröfur. Þá sé heimilt á grundvelli 5. mgr. 37. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup að ákveða að samkeppnisviðræður fari fram í fleiri áföngum til þess að fækka lausnum á meðan viðræðum standi.
Varnaraðili byggir á því að mat á því hvernig lausn kæranda uppfyllt matskröfur hafi verið í höndum matshóps og að baki niðurstöðum hópsins hafi legið ítarlegt, málaefnalegt og rökstutt mat á kröfum sem hafi komið fram í forvalsgögnum og viðbótargögnum. Matið hafi farið þannig fram að fyrir gæði úrlausnar hafi verið unnt að fá 0 – 5 stig eftir því hversu vel viðkomandi krafa hafi verið uppfyllt. Til frádráttar frá þeim stigum hafi eitt stig verið dregið ef krafan var leyst með fleiri en einu kerfi, eitt stig ef gögn gátu ekki flætt á milli viðkomandi kerfa og eitt stig ef lausnin hafi ekki verið notendavæn. Ef einhver lausnanna skaraði áberandi fram úr öðrum í gæðum hafi þeirri lausn verið gefið eitt stig til viðbótar. Niðurstaðan kom fram í skýrslu matshóps sem mat lausnir bjóðenda. Hafi allir bjóðendur notið jafnræðis við yfirferð á lausnum og hafi matið farið fram á málefnalegum grundvelli.
Varnaraðili mótmælir sérstaklega kröfu kæranda um að samkeppnisviðræðurnar verði endurteknar. Engar forsendur séu til þess. Þá hafi tilboðsfjárhæð Öryggismiðstöðvar Íslands hf. verið gerð opinber. Ef það þyrfti að endurtaka samkeppnisviðræðurnar yrði forskot kæranda verulegt og það myndi brjóta gegn 15. gr. laga um opinber innkaup. Þá er því mótmælt að kærunefnd útboðsmála geti lagt fyrir varnaraðila að endurtaka tiltekna tegund innkaupaferlis skv. 111. gr. sömu laga. Þá sé ekki heldur tilefni til að verða við kröfu kæranda um ógildingu samnings við Öryggismiðstöð Íslands hf. þar sem engin samningur sé í gildi. Að lokum sé gerð krafa um að kærandi greiði varnaraðila málskostnað þar sem kæra í málinu sé bersýnileg tilgangslaus.
Varnaraðili byggir einnig á því í lokagreinargerð sinni til kærunefndar að lausn kæranda hafi hafi ekki uppfyllt fjórar nánar tilgreindar lágmarkskröfur og ekki skilað inn nýrri lausn áður en frestur til þess rann út 27. febrúar 2018. Því hafi varnaraðila verið rétt að vísa kæranda frá innkaupaferlinu á öðru þrepi viðræðna.
IV
Öryggismiðstöð Íslands hf. heldur því fram að málatilbúnaður kæranda byggi á því að brotið hafi verið gegn réttindum kæranda með þeirri ákvörðun varnaraðila 20. febrúar 2018 að krefjast þess að kærandi sýndi virkni í kerfi í boðinni lausn eða skila ella nýrri lausn innan sjö daga. Kæranda hafi verið kunnugt um þá ákvörðun varnaraðila eigi síðar en 27. febrúar 2018 þegar kærandi hafi mótmælt henni sem ólögmætri. Kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup hafi byrjað að líða frá því tímamarki. Kærandi hafi ekki brugðist við þessari ákvörðun innan lögboðins kærufrests. Hann hafi í staðinn beðið þeirrar fyrirsjáanlegu og yfirlýstu ákvörðunar varnaraðila, að lausn hans yrði vísað frá, þar til eftir að kærufrestur hafi verið liðinn, en um þá ákvörðun hafi verið tilkynnt 21. mars 2018.
Þá er byggt á því að Öryggismiðstöð Íslands hf. hafi uppfyllt allar hæfiskröfur forvalsgagna, svo sem greinar 4.3 um tæknilegt hæfi. Fyrirtækið hafi verið í samstarfi við BRP Systems AB í útboðinu. Með umsókn fyrirtækisins hafi verið lagðar fram staðfestingar frá fjórum viðskiptavinum þess fyrirtækis um fullnægjandi efndir samninga BRP Systems AB, auk ítarefnis um fyrirtækið, lausnir þess og ársskýrslu. Sjálf uppfylli Öryggismiðstöð Íslands hf. önnur skilyrði útboðsgagna að öðru leyti, s.s. getu til þess að veita þjónustu á starfsstöðvum kaupanda, fjölda starfsmanna, tæknimenntun starfsmanna og starfsstöð á Íslandi. Þá hafi Öryggismiðstöð Íslands hf. sýnt fram á virkni allra notkunardæma í kerfinu með fullnægjandi hætti.
V
Kröfur kæranda í máli þessu beinast einkum að fyrrgreindri ákvörðun varnaraðila 21. mars 2018 að vísa kæranda frá hinum kærðu samkeppnisviðræðum. Svo sem áður greinir barst kæran nefndinni 9. apríl sl. Kæra í máli þessu barst því innan kærufrests samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup og eru því ekki efni til að vísa máli þessu frá kærunefnd, svo sem Öryggismiðstöð Íslands hf. krefst.
Svo sem áður hefur komið fram gerðu útboðsgögn ráð fyrir því að hinar kærðu samkeppnisviðræður færu fram í þremur þrepum eins og meðal annars er lýst í grein 1.1.3. í viðbótargögnum. Í greininni kom meðal annars fram að í kjölfar forvals skyldu þátttakendur skila inn tillögu að lausnum ásamt verðhugmynd og áskildi varnaraðili sér rétt til að óska eftir skýringarfundum með þátttakendum þar sem þeir sýndu fram á virkni kerfisins með tilliti til lágmarkskrafna. Teldi varnaraðili tillögu þátttakanda ófullnægjandi á þessu stigi skyldi þátttakandi hafa sjö daga frest til að bregðast við rökstuðningi varnaraðila með nýrri tillögu. Væri boðin lausn enn ófullnægjandi skyldi henni vísað frá. Í þrepi III skyldu þeir þátttakendur sem skiluðu fullnægjandi tillögu leggja fram endanlega lausn og verðtilboð. Þá kom fram í grein 1.2.2.2 að matskröfur í flokki 1 skyldu vera uppfylltar við gangsetningu kerfis en aðilar skyldu komast að samkomulagi á lokastigi viðræðna hvenær matskröfur í flokki 2 skyldu uppfylltar. Jafnframt kom fram að „lausn sem ekki uppfyllir 70% af matskröfum í síðasta þrepi viðræðna telst ekki fullnægjandi og mun verða vísað frá.“
Af framangreindum ákvæðum útboðsgagna er ljóst að gert hafi verið ráð fyrir því að innan þreps II skyldi fara yfir virkni boðinna lausna með tilliti til þess hvernig þær uppfylltu lágmarkskröfur eða svonefndar A-kröfur. Gerðu skilmálar samkeppnisviðræðnanna þannig ekki ráð fyrir því að lagt væri mat á endanleg tilboð fyrr en í síðasta þrepi og þá með þeim fyrirvara að lausnir sem ekki uppfylltu 70% af matskröfum, svonefndum M-kröfum, teldust ófullnægjandi og þar með óaðgengilegar fyrir varnaraðila. Samkvæmt skilmálum samkeppnisviðræðnanna var varnaraðila á þessu stigi því óheimilt að vísa kæranda frá með vísan til atriða sem taka bar afstöðu til þegar endanlegar lausnir og verðtilboð þátttakenda lægju fyrir. Af framlögðum gögnum í málinu, sbr. meðal annars bréf varnaraðila til kæranda 21. mars 2018 sem og tölvubréf og fylgiskjal sem varnaraðili sendi kæranda 23. sama mánaðar, er ljóst að frávísun varnaraðila á lausn kæranda byggði eingöngu á því að lausnin uppfyllti ekki 70% af matskröfum, en hvergi var vísað til þess að lausn kæranda uppfyllti ekki gerðar lágmarkskröfur. Þá byggir kærandi á því fyrir kærunefnd að lausn hans hafi fullnægt lágmarkskröfum í hvívetna.
Eins og mál þetta liggur fyrir kærunefnd verður samkvæmt framangreindu að leggja til grundvallar að boðin lausn kæranda hafi uppfyllt lágmarkskröfur útboðsins og varnaraðili hafi ranglega vísað lausn kæranda frá að loknu þrepi II á þeim grundvelli að lausnin uppfyllti ekki 70% af matskröfum. Með hliðsjón af framangreindu verður því að telja að sú ákvörðun varnaraðila 21. mars 2018 að vísa boðinni lausn kæranda frá í hinu kærða innkaupaferli hafi verið ólögmæt og verður hún því felld úr gildi. Að virtri þessari niðurstöðu eru ekki efni til þess að taka aðrar kröfur kæranda til efnislegrar úrlausnar.
Samkvæmt úrslitum málsins verður varnaraðila gert að greiða kæranda 800.000 krónur í málskostnað.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun varnaraðila, Reykjavíkurborgar, 21. mars 2018 þess efnis að vísa boðinni lausn kæranda, Dk hugbúnaðar ehf., frá í samkeppnisviðræðum nr. 14040 auðkennd „Verslunarkerfi fyrir starfsstaði Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar“, er felld úr gildi.
Varnaraðili greiði kæranda 800.000 krónur í málskostnað.
Reykjavík, 11. október 2018.
Skúli Magnússon
Auður Finnbogadóttir
Ásgerður Ragnarsdóttir