Hoppa yfir valmynd

Nr. 430/2021 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 16. september 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 430/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21070022

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. júlí 2021 kærði […], kt. […], ríkisborgari Tælands (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. júní 2021, um að dvalarleyfi sem henni var veitt með gildistíma frá 29. júní 2021 til 28. júní 2022 teljist vera fyrsta leyfi samkvæmt 51. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 í stað endurnýjunar á dvalarleyfi, sbr. 57. gr.

Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði breytt á þann veg að dvalarleyfið teljist vera endurnýjun, sbr. 57. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, hinn 26. júní 2017 með gildistíma til 27. september 2017. Var dvalarleyfið endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 14. júlí 2020. Kærandi sótti um endurnýjun á leyfinu hinn 21. apríl 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. júní 2021, var kæranda veitt dvalarleyfi samkvæmt fyrri grundvelli með gildistíma frá 29. júní 2021 til 28. júní 2022 og tók stofnunin fram að umsóknin teldist vera fyrsta leyfi, sbr. 51. gr. laga um útlendinga. Kærandi kærði þann þátt ákvörðunarinnar til kærunefndar útlendingamála þann 11. júlí 2021 en meðfylgjandi kæru voru athugasemdir kæranda.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að það væri afstaða Útlendingastofnunar m.t.t. fyrirliggjandi gagna að ekki væru fyrir hendi ríkar sanngirnisástæður í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Af því leiddi að umsóknin teldist vera fyrsta leyfi samkvæmt 51. gr. laganna. Yrði framangreint til þess að rof hefði myndast á samfelldri dvöl kæranda í skilningi laga um útlendinga og af því leiddi að samfelld dvöl kæranda yrði talin frá útgáfudegi þessa leyfis, þ.e. 29. júní 2021. Vísaði Útlendingastofnun til þess að þetta yrði til þess að útlendingur missti uppsöfnuð réttindi til ótímabundins dvalarleyfis, sbr. 58. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess við endurnýjun dvalarleyfisumsóknar, dags. 5. apríl 2019, hafi verið óskað eftir tveggja ára dvalarleyfi eða til 14. júlí 2021. Við móttöku gagna hjá Útlendingastofnun hafi verið bent á að vegabréf kæranda gilti ekki nema til 13. október 2019 og því þyrfti nýtt vegabréf til þess að leyfið fengist. Hafi hún og maki fengið þær upplýsingar frá stofnuninni að það nægði að senda afrit af nýja vegabréfinu um leið og það væri tilbúið en kærandi hafi sent stofnuninni afrit af vegabréfi hinn 27. apríl 2021. Hafi kærandi gengið að því vísu að framlenging leyfisins væri til tveggja ára miðað við þau svör sem hún hafi fengið frá starfsmanni Útlendingastofnunar. Vísar kærandi til þess að hún viðurkenni að um mistök af hennar hálfu hafi verið að ræða en hún hafi þegar óskað eftir því að tekið yrði tillit til þess í greinargerð til Útlendingastofnunar. Beinir kærandi því til kærunefndar að ákvörðun Útlendingastofnunar verði endurskoðuð þannig að dvalarleyfisumsókn hennar verði endurnýjan fyrra leyfis en ekki fyrsta leyfi.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Eins og greinir í II. kafla úrskurðarins var kærandi með útgefið samfellt dvalarleyfi samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga á tímabilinu 26. janúar 2017 til 14. júlí 2020. Kærandi sótti um endurnýjun á því leyfi hinn 21. apríl 2021 og fékk það útgefið sem fyrsta dvalarleyfi samkvæmt 51. gr. laga um útlendinga með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. júní 2021. Ákvörðun Útlendingastofnunar hefur þær lögfylgjur í för með sér að rof er komið í samfellda dvöl kæranda sem m.a. hefur áhrif við mat á samfelldri dvöl skv. 58. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga skal útlendingur sem óskar eftir endurnýjun dvalarleyfis sækja um hana eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi. Í 3. mgr. ákvæðisins segir að sé ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis innan gildistíma fyrra dvalarleyfis skuli réttur til dvalar falla niður og fara skuli með umsókn skv. 51. gr. Þá segir í 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga að Útlendingastofnun geti heimilað útlendingi að dveljast hér á landi samkvæmt fyrra leyfi þar til ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli umsóknar um endurnýjun leyfis sem borist hefur eftir þann frest sem um getur í 2. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því.

Í athugasemdum við ákvæði 4. mgr. 57. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a.:

„Í 4. mgr. er veitt undantekning frá 3. mgr. samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar ef afsakanlegt er að umsókn hafi borist eftir tilskilinn frest eða vegna ríkra sanngirnisástæðna. Sem dæmi um afsakanleg tilvik má nefna ef útlendingur hefur verið alvarlega veikur eða hann hefur af óviðráðanlegum ástæðum þurft að fara fyrirvaralaust til heimalands án þess að hafa haft tök á að leggja inn umsókn um endurnýjun. Sem dæmi um tilvik, sem ekki falla undir greinina, er ef útlendingur ber því við að hann hafi ekki vitað að leyfi hans væri að renna út eða að umboðsmaður hans hafi gert mistök. Ef útlendingur sækir of seint um endurnýjun dvalarleyfis, þ.e. eftir að leyfi hans rennur út, er hann í þeirri stöðu að þurfa að sækja um nýtt leyfi en ekki endurnýjun. Þetta verður til þess að útlendingur missir uppsöfnuð réttindi til ótímabundins dvalarleyfis, eftir atvikum. Vegna þessa verður í anda markmiðs um mannúð að líta sérstaklega til þessa við ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein sem og hvort líklegt sé að dvalarleyfi fáist endurnýjað. Við mat á því hvort umsækjanda sé heimilt að dveljast hér á landi þar til ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli umsóknar hans skal hafa þýðingu hvort líklegt sé að dvalarleyfið verði veitt og hvort dvalarleyfi það er útlendingur óskar endurnýjunar á sé þess eðlis að það myndi grundvöll til ótímabundins dvalarleyfis. Hins vegar yrði að líta á það leyfi sem yrði eftir atvikum veitt sem nýtt leyfi.“

Eins og að framan greinir lagði kærandi fram umsókn um endurnýjun dvalarleyfis hinn 21. apríl 2021 eða um níu mánuðum eftir að gildistíma fyrra dvalarleyfis rann út. Er því ljóst að sú dvalarleyfisumsókn sem hin kærða ákvörðun snýr að var ekki lögð fram innan þeirra tímaskilyrða sem 2. mgr. 57. gr. áskilur.

Kemur þá næst til skoðunar hvort ríkar sanngirnisástæður séu fyrir hendi í máli kæranda, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga, svo líta beri á dvalarleyfisumsókn kæranda, dags. 21. apríl 2021, sem endurnýjun á fyrra dvalarleyfi.

Í greinargerð er byggt á því að kærandi hafi sótt um dvalarleyfi með gildistíma í tvö ár og vegna þess ekki sótt um endurnýjun leyfisins innan áskilins tímafrests. Síðast útgefna dvalarleyfi var útgefið hinn 15. júlí 2019 með gildistíma til 15. júlí 2020. Á útgefnu dvalarleyfiskorti kom fram að sækja skyldi um endurnýjun fyrir 16. júní 2020. Að mati kærunefndar gat kærandi ekki, með hliðsjón af leiðbeiningum á umræddu dvalarleyfiskorti, ályktað sem svo að hið útgefna dvalarleyfi væri með gildistíma til tveggja ára en ekki eins árs. Gat kærandi því ekki talist í góðri trú um að hið útgefna leyfi væri með lengri gildistíma en raunin var.

Að mati kærunefndar eru skýringar kæranda ekki þess eðlis að fyrir hendi séu ríkar sanngirnisástæður í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta