Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 24/2022. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 23. nóvember 2022
í máli nr. 24/2022:
Embætti landlæknis
gegn
Köru Connect ehf.,
Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins,
Origo hf. og
Sensa ehf.

Lykilorð
Endurupptökubeiðni. Afturköllun. Málskostnaður.

Útdráttur
L krafðist endurupptöku á úrskurði kærunefndar útboðsmála frá 22. febrúar 2022 í máli nr. 8/2021. K lagðist gegn endurupptöku úrskurðarins í greinargerð sinni og krafðist m.a. málskostnaðar sér til handa vegna þessarar beiðni L. Með tölvupósti 23. ágúst 2022 tilkynnti L að hann félli frá beiðni sinni og var öðrum aðilum tilkynnt um það og niðurfellingu málsins. K andmælti niðurfellingu málsins hvað málskostnaðarkröfu sína varðaði. Var því eina krafan til úrlausnar í málinu málskostnaðarkrafa K. Kærunefnd útboðsmála hafnaði kröfu K.

Með erindi mótteknu hjá kærunefnd útboðsmála 13. júlí 2022 krafðist embætti landlæknis þess að úrskurður kærunefndar útboðsmála frá 22. febrúar 2022 í máli nr. 8/2021 yrði endurupptekinn. Öðrum aðilum að framangreindu máli var kynnt endurupptökubeiðnin og gefinn kostur á að tjá sig. Í tölvupósti frá Sensa ehf. 27. júlí 2022 var tekið undir kröfu endurupptökubeiðanda um endurupptöku málsins. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins tók einnig undir kröfu um endurupptöku í greinargerð sinni 28. júlí 2022 og Origo hf. gerði slíkt hið sama í greinargerð sinni 28. júlí 2022.

Kara Connect ehf. lagðist aftur á móti gegn endurupptöku úrskurðarins í greinargerð sinni 5. ágúst 2022, og krafðist auk þess málskostnaðar úr hendi endurupptökubeiðanda vegna beiðni embættisins.

Með athugasemdum, dags. 19. ágúst 2022, ítrekaði endurupptökubeiðandi kröfu sína. Með tölvupósti 23. ágúst 2022 tilkynnti endurupptökubeiðandi að hann félli frá beiðni sinni og var öðrum aðilum málsins tilkynnt um afturköllun beiðninnar og niðurfellingu málsins. Með tölvupósti 25. ágúst 2022 andmælti Kara Connect ehf. niðurfellingu málsins hvað málskostnaðarkröfu félagsins varðar. Endurupptökubeiðandi andmælti málskostnaðarkröfunni með tölvupósti 2. september 2022.

I

Mál þetta á rætur að rekja til þess að Kara Connect ehf. átti um nokkurt skeið í samskiptum við embætti landlæknis vegna hugbúnaðarlausnar um veitingu fjarheilbrigðisþjónustu. Hinn 11. september 2020 sendi Kara Connect ehf. erindi til embættis landslæknis þar sem óskað var tilgreindra upplýsinga um aðkomu embættisins á kaupum á vöru og þjónustu um fjarheilbrigðislausnir. Erindinu var svarað af hálfu embættisins 5. febrúar 2021. Hinn 24. febrúar 2021 kærði Kara Connect ehf. kaup embættis landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á fjarheilbrigðisþjónustu og þjónustu í tengslum við Sögu sjúkraskrárkerfið, Heilsuveru og Heklu heilbrigðisnet af Origo hf. og Sensa ehf. Endanlegar kröfur Köru Connect ehf. voru þær aðallega að samningar embættis landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við Origo hf. og Sensa ehf. um kaup vara og þjónustu við gerð fjarheilbrigðislausna yrðu lýstir óvirkir, að þeim yrði gert að sæta viðurlögum skv. 118. gr. laga nr. 120/2016, og að þeim yrði gert að bjóða innkaupin út. Þá krafðist kærandi þess að að samningar embættis landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við Origo hf. um rafræn sjúkraskrárkerfi, kerfi Heilsuveru og Heklu heilbrigðisneti, yrðu lýstir óvirkir, að þeim yrði gert að sæta viðurlögum skv. 118. gr. laga nr. 120/2016, og að þeim yrði gert að bjóða innkaupin út. Til vara var þess krafist að embætti landlæknis yrði gert að segja upp samningum við Origo hf. og Sensa ehf. um kaup á vörum og þjónustu við gerð fjarheilbrigðislausna, bjóða innkaupin út, og yrði gert að sæta viðurlögum skv. 118. gr. laga nr. 120/2016. Þá var þess jafnframt krafist til vara að embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins yrði gert að segja upp samningnum við Origo hf. og Sensa ehf. um rafræn sjúkraskrárkerfi, kerfi Heilsuveru og Heklu heilbrigðisnet, bjóða innkaupin út, og yrði gert að sæta viðurlögum skv. 118. gr. laga nr. 120/2016.

Kærunefnd útboðsmála kvað upp úrskurð í málinu 22. febrúar 2022 þar sem kröfum Köru Connect ehf. um nytjaleyfissamninga vegna Sögu sjúkraskrárkerfið var vísað frá nefndinni. Á hinn bóginn var talið að embætti landlæknis hafi borið að bjóða út innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu á þróun hugbúnaðar frá Origo hf. um þróun Heklu heilbrigðisnets og Heilsuveru, og lagði því fyrir embættið að bjóða innkaupin út, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Þá lagði kærunefndin stjórnvaldssekt á embætti landlæknis, sbr. b. lið 1. mgr. 118. gr. laga nr. 120/2016, vegna greiðslna sem þegar höfðu verið inntar af hendi. Nam stjórnvaldssektin 9.000.000. krónum.

Með erindi 13. júlí 2022 krafðist endurupptökubeiðandi þess að úrskurður kærunefndar útboðsmála yrði endurupptekinn, en með tölvupósti 23. ágúst 2022 tilkynnti endurupptökubeiðandi að hann félli frá beiðni sinni. Kara Connect ehf. krefst þess aftur á móti að endurupptökubeiðanda verði gert að greiða sér málskostnað vegna framangreindrar beiðni.

II

Svo sem áður greinir þá hefur endurupptökubeiðandi dregið til baka beiðni sína um endurupptöku málsins með tölvupósti 23. ágúst 2022. Í athugasemdum Köru Connect ehf. 25. ágúst vegna endurupptökubeiðninnar var krafist málskostnaðar úr hendi endurupptökubeiðanda vegna þess kostnaðar sem beiðnin hafi leitt af sér fyrir félagið. Með tölvupósti 2. september 2022 andmælir endurupptökubeiðni málskostnaðarkröfu Köru Connect ehf. og bendir m.a. á að það sé meginregla að aðilar beri sinn kostnað af rekstri stjórnsýslumáls.

III

Samkvæmt 7. mgr. 108. gr. laga nr. 120/2016 gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993 um meðferð mála fyrir kærunefnd útboðsmála að öðru leyti en kveðið er á um í lögum nr. 120/2016. Um endurupptöku mála fyrir kærunefnd útboðsmála fer því eftir 24. gr. laga nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný, eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun, ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Þá kemur fram í 25. gr. sömu laga að stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða þegar ákvörðun er ógildanleg. Af þessu þykir leiða að aðili máls hefur almennt forræði á því hvort hann æskir endurupptöku á máli sínu fyrir stjórnvöldum og hefur hann þá jafnframt forræði á því að falla frá slíkri beiðni.

Líkt og að framan greinir barst kærunefnd útboðsmála beiðni um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 22. febrúar 2022. Endurupptökubeiðandi dró beiðni sína til baka með tölvupósti 23. ágúst 2022 og var aðilum máls tilkynnt um það með tölvupósti frá kærunefnd útboðsmála 24. ágúst 2022. Fyrir sitt leyti andmælir Kara Connect ehf. afturköllun endurupptökubeiðninnar að því leyti sem hún snýr að málskostnaðarkröfu félagsins, en félagið hafi orðið fyrir kostnaði vegna beiðninnar. Endurupptökubeiðandi hafnar málskostnaðarkröfu Köru Connect ehf.

Ágreiningur málsins snýr samkvæmt framansögðu þar af leiðandi aðeins um greiðslu málskostnaðar.

Með hliðsjón af kröfugerð aðila og því hvernig mál þetta er komið fyrir nefndina er kröfu um málskostnað hafnað.

Úrskurðarorð

Kröfu Köru Connect ehf. um greiðslu málskostnaðar úr hendi embættis landlæknis er hafnað.


Reykjavík, 23. nóvember 2022


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir

 



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta