Hoppa yfir valmynd

Nr. 563/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. desember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 563/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18100053

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. október 2018, kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. september 2018, um að synja honum um dvalarleyfi.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnuninni verði gert að veita honum dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á Íslandi vegna fjölskyldusameiningar þann 27. desember 2012 með gildistíma til 10. desember 2013. Kærandi fékk leyfi endurnýjað fjórum sinnum, það síðasta með gildistíma til 10. desember 2017. Kærandi sótti um ótímabundið dvalarleyfi þann 8. nóvember 2017 sem Útlendingastofnun synjaði með ákvörðun, dags. 20. febrúar 2018. Kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar með úrskurði, dags. 24. maí 2018 og með úrskurðinum var honum gert að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku úrskurðarins. Þann 2. júlí 2018 sótti kærandi um dvalarleyfi að nýju. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. september 2018, var umsókn kæranda synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 19. október sl. Sama dag tilkynnti Útlendingastofnun kæranda einnig um hugsanlega brottvísun og endurkomubann. Kærandi kærði ákvörðunina þann 26. október 2018 en kæru fylgdu athugasemdir kæranda. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar frá 18. september 2018 á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 5. nóvember sl. féllst kærunefndin á þá beiðni. Þann 14. nóvember sl. bárust kærunefnd viðbótargögn.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt dvalarleyfisumsókn kæranda kæmi fram að um væri að ræða endurnýjun á dvalarleyfi. Reifaði stofnunin því næst að þar sem kærandi hefði ekki sótt um endurnýjun á fyrra dvalarleyfi, með gildistíma til desember 2017, innan gildistíma leyfisins skyldi fara með umsóknina skv. 51. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 57. gr. laganna, eins og umsókn um fyrsta dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. laganna bæri útlendingi sem sæki um dvalarleyfi í fyrsta skipti að sækja um leyfið áður en hann kæmi til landsins og væri honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsókn hefur verið samþykkt. Frá þessu væru undantekningar í a-c liðum 1. mgr. 51. gr. og í 3. mgr. 51. gr. laganna en þar væri mælt fyrir um að heimilt sé að víkja frá skilyrðum 1. mgr. 51. gr. laganna ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Væri síðastnefnt ákvæði undantekning frá meginreglu laganna og bæri að túlka allar slíkar undanþáguheimildir þröngt. Vísaði stofnunin til þess að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. skuli hafna umsókn um dvalarleyfi ef umsækjandi dvelur hér á landi þegar hann leggur fram umsókn án þess að vera undanþeginn því að sækja um leyfi áður en hann kemur til landsins skv. 1. og 2. mgr. sama ákvæðis. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. febrúar 2018, hafi umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi verið synjað, sem staðfest hefði verið með úrskurði kærunefndar þann 24. maí 2018. Í úrskurði kærunefndar hafi jafnframt komið fram að kæranda væri ekki lengur heimilt að dvelja á Íslandi og hafi honum verið gefnir 30 dagar til að yfirgefa landið frá móttöku úrskurðarins. Hafi kærandi veitt fyrrnefndum úrskurði viðtöku þann 29. maí sl. og þar af leiðandi haft frest til 28. júní 2018 til að yfirgefa landið. Af gögnum málsins væri hins vegar ljóst að kærandi hefði ekki yfirgefið landið. Hefði kærandi ekki haft heimild til að vera á landinu þegar umsókn um dvalarleyfi var lögð fram þann 2. júlí sl. og að mati stofnunarinnar væru aðstæður í máli kæranda ekki þess eðlis að undanþágur 51. gr. laga um útlendinga ættu við. Að framangreindu virtu synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda með vísan til 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að þann 20. febrúar 2018 hafi Útlendingastofnun synjað honum um ótímabundið dvalarleyfi þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga, sem staðfest hefði verið með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 24. maí 2018. Í greinargerð vísar kærandi til þess að [...] hafi verið handtekinn í lok [...] vegna gruns um [...]. Þar sem kærandi hafi verið skráður á sama lögheimili og [...] hafi kærandi, sem hafi ekki átt sök að máli, einnig fengið réttarstöðu sakbornings við meðferð málsins hjá lögreglu. Af þeim sökum hefði hann ákveðið að bíða með umsókn um dvalarleyfi þangað til sakamálinu lyki og sótt um dvalarleyfi þann 2. júlí sl. Hins vegar hafi honum láðst að óska eftir heimild til að dvelja á landinu á meðan umsóknin væri í vinnslu hjá Útlendingastofnun. Hafnar kærandi því að litið verði á umsókn hans frá 2. júlí sl. sem fyrstu umsókn og telur að stofnunin hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni. Tekur kærandi fram að það sé óréttlátt að hann þurfi að líða fyrir gjörðir [...] og snúa aftur til heimalands síns sem hann hafi engin tengsl við.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Með úrskurði kærunefndar útlendinga frá 25. maí 2018 var ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um ótímabundið dvalarleyfi staðfest og kæranda gert að yfirgefa landið innan 30 daga. Óumdeilt er í málinu að kærandi yfirgaf ekki landið innan tímafrestsins.

Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga um útlendinga skal útlendingur sem óskar eftir endurnýjun dvalarleyfis sækja um endurnýjun eigi síðar en fjórum vikum áður en dvalarleyfi fellur úr gildi.Í 3. mgr. ákvæðisins segir að sé ekki sótt um endurnýjun dvalarleyfis innan gildistíma fyrra dvalarleyfis skuli réttur til dvalar falla niður og fara skuli með umsókn skv. 51. gr. laganna. Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að dvalarleyfi kæranda var útrunnið þegar hann lagði inn umsókn um endurnýjun dvalarleyfis þann 2. júlí sl.

Í 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga kemur fram sú meginregla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi í fyrsta skipti skuli sækja um leyfið áður en hann kemur til landsins og er honum óheimilt að koma til landsins fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Frá því skilyrði er heimilt að víkja ef umsækjandi um dvalarleyfi er undanþeginn áritunarskyldu eða hann er staddur hér á landi og aðstæður hans falla undir a-c lið 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Varða stafliðirnir m.a. þær aðstæður þar sem umsækjandi er maki eða sambúðarmarki íslensks ríkisborgara, sbr. a-lið, barn íslensks ríkisborgara yngra en 18 ára, sbr. b-lið, eða er umsækjandi um dvalarleyfi á grundvelli 61., 63. eða 64. gr. laga um útlendinga. Í 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að undantekningar c-liðar 1. mgr. gildi meðan umsækjandi hefur heimild til dvalar á grundvelli gildrar vegabréfsáritunar eða á meðan umsækjandi hefur heimild til dvalar án áritunar. Kærandi er ekki undanþeginn áritunarskyldu til Íslands og þá er ljóst af gögnum málsins að aðstæður hans falla ekki undir a-c-lið 1. mgr. 51. gr. eða 2. mgr. 51. gr. laga um útlendinga.

Í 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga er þó kveðið á um að heimilt sé að víkja frá 1. mgr. 51. gr. í öðrum tilvikum en þar eru upp talin ef ríkar sanngirnisástæður mæla með því. Í athugasemdum við 51. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að í 3. mgr. sé heimild til að undanskilja umsækjendur frá skilyrðum 1. mgr. ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því og sé ætlunin að þessu sé beitt þegar tryggja þurfi samvistir fjölskyldna eða þegar miklir hagsmunir séu í húfi. Í ljósi þess að um undantekningarákvæði er að ræða telur kærunefnd að skýra beri ákvæðið þröngt. Í 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga segir að ef umsækjandi um dvalarleyfi sem dvelur hér á landi sækir um dvalarleyfi án þess að vera undanþeginn því að sækja um leyfi áður en hann kemur til landsins skv. 1. og 2. mgr. ákvæðisins skuli hafna umsókninni á þeim grundvelli. Það sama eigi við ef umsækjandi kemur til landsins áður en umsókn er samþykkt.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram bréf frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, dags. 14. nóvember 2018, um að rannsókn sakamáls gagnvart kæranda hafi verið fellt niður með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Líkt og fyrr greinir fékk kærandi fyrst útgefið dvalarleyfi á Íslandi vegna fjölskyldusameiningar þann 27. desember 2012 með gildistíma til 10. desember 2013 og fékk hann það endurnýjað fjórum sinnum, það síðasta með gildistíma til 10. desember 2017. Með fyrrgreindum úrskurði kærunefndar útlendingamála var ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um ótímabundið dvalarleyfi staðfest þar sem kærandi ætti ólokið mál í refsivörslukerfinu, sbr. e-lið 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur rannsókn sakamáls gagnvart kæranda verið hætt, en sú rannsókn var grundvöllur þess að kæranda var synjað um ótímabundið dvalarleyfi hér á landi. Með hliðsjón af því og langri samfelldri dvöl kæranda hér á landi telur kærunefnd að ríkar sanngirnisástæður mæli með því að umsókn kæranda um dvalarleyfi frá 2. júlí sl. verði tekin til efnismeðferðar, sbr. 3. mgr. 51. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

Þá leiðbeinir kærunefnd kæranda um að á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, kann hann að eiga rétt á endurupptöku úrskurðar kærunefndar útlendingamála frá 24. maí 2018 þar sem atvik sem niðurstaða kærunefndar var byggð á hafa breyst verulega frá uppkvaðningu úrskurðarins.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                       Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta