Hoppa yfir valmynd

Nr. 352/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 12. ágúst 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 352/2021

í stjórnsýslumálum nr. KNU21040056 og KNU21040055

 

Kæra […]

[…]

og barns þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 26. apríl 2021 kærðu einstaklingar er kveðast heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir K) og […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir M) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 6. apríl 2021, um að synja kærendum og barni þeirra, […], fd. […], ríkisborgari Íraks (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt staða flóttamanna hér á landi til samræmis við 47. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka mál þeirra til efnismeðferðar að nýju.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 27. október 2020. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. dagana 20. janúar 2021 og 11. febrúar 2021 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 6. apríl 2021, synjaði Útlendingastofnun kærendum og barni þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála hinn 26. apríl 2021. Kærunefnd barst greinargerð kærenda ásamt fylgigögnum hinn 11. maí 2021. Viðbótargögn bárust kærunefnd hinn 24. júní 2021. Í greinargerð óskuðu kærendur eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærendur komu til viðtals hjá kærunefnd þann 15. júlí 2021 ásamt talsmanni sínum og naut K aðstoðar túlks.

III.       Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau eigi á hættu að verða þolendur heiðursglæps.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur væru ekki flóttamenn og þeim skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barns kærenda, kom fram að það væri svo ungt að árum að ekki væri talið tilefni til að taka viðtal við það. Fram kom að umsókn barns kærenda væri grundvölluð á framburði foreldra þess og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnsins og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þess, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að barni kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis.

Kærendum og barni þeirra var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda til kærunefndar er ekki fjallað um málsatvik eða málsástæður heldur vísað til greinargerðar þeirra til Útlendingastofnunar. Þar er vísað til viðtala við kærendur hjá Útlendingastofnun þar sem þau hafi greint frá því að hafa búið í Erbil í Kúrdistan. M hafi starfað á skrifstofu fyrir leyniþjónustuna (Asayish), auk þess sem hann hafi stundað ljósmyndun. Kærendur tilheyri þjóðarbroti Kúrda í heimaríki sínu. Þau hafi greint frá því að ástæða flótta þeirra frá heimaríki hafi verið sú að fjölskylda K hafi ekki samþykkt samband þeirra en M hafi í tvígang beðið um hönd hennar og að reynt hafi verið til þrautar að fá samþykki fjölskyldunnar fyrir ráðahagnum. K hafi m.a. greint frá því að bróðir hennar hafi reiðst þegar hann hafi fundið myndir af henni og M í síma hennar. Í kjölfarið hafi bróðir hennar og faðir beitt hana barsmíðum og læst hana inni í herbergi í viku. K hafi kveðið fjölskyldu sína hafa opnað herbergið þegar Ramadan hátíðin hafi nálgast þar sem það hafi annars geta litið illa út fyrir fjölskyldu hennar að hafa hana læsta inni í herbergi þegar gesti bæri að garði. Fjölskylda K hafi stuttu síðar tilkynnt henni að hún ætti að giftast öðrum manni sem væri í ætt hennar en hann hafi verið henni ókunnugur og jafnframt þegar verið giftur. Kærendur hafi greint frá því að K hafi notað símtæki bróður síns til að skrá sig inn á Facebook og senda M skilaboð þess efnis að til stæði að gifta hana öðrum manni og að ef M elskaði hana þá yrðu þau að hlaupast á brott saman. Stuttu síðar, þegar tækifæri hafi gefist til að flýja, hafi K sent M skilaboð. M hafi komið að sækja hana á bíl sínum og þau stungið af.

Kærendur hafi farið til Tyrklands og dvalið þar í mánuð en ákveðið að snúa aftur heim til að reyna að leita sátta við fjölskyldu K. Yfirmaður M hjá leyniþjónustunni hafi hvatt þau til að koma til baka og finna lausn á málinu. Kærendur hafi snúið til baka til Kúrdistan og leitað aðstoðar fyrrnefnds yfirmanns M. Þegar yfirmaður M hafi fengið vitneskju um að tengdafaðir bróður K væri maður að nafni […], sem sé valdamikill og hafi tengsl við kúrdísk stjórnvöld, hafi hann ekki talið sig geta aðstoðað þau. Kærendur hafi greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að […] gegni stöðu innan Zeravani sem sé hluti af Peshmerga sveitunum. Jafnframt hafi kærendur greint frá því að það sé á allra vitorði að umræddur […] hafi myrt ungan mann sem hafi tekið upp myndband af sér með dóttur […]. Hann hafi ekki verið saksóttur eða þurft að gjalda fyrir glæp sinn. Sáttaumleitanir hafi átt sér stað á milli kærenda og fjölskyldu K þar sem ræddar hafi verið fjárhæðir og þess krafist af fjölskyldu K að henni yrði afhent kona úr fjölskyldu M en M hafi neitað að samþykkja slíkt. Þrátt fyrir að fjölskylda K hafi sýnt vilja til að ná sáttum hafi bróðir hennar, […], lýst því yfir stuttu síðar að hann myndi ekki ganga að sáttum af neinum toga. Bróðir K hafi ætlað sér að myrða kærendur og í kjölfar yfirlýsingar hans hafi kærendur flúið aftur til Tyrklands og þaðan til Grikklands, undir lok árs 2017, þar sem þau hafi sótt um alþjóðlega vernd. M hafi fengið skilaboð frá systur sinni þess efnis að bróðir þeirra væri farinn til Tyrklands í leit að kærendum. Kærendur hafi farið með gát í Grikklandi þar sem fjölskyldur þeirra beggja hafi leitað að þeim og þau reynt að forðast samneyti við Kúrda. Þeim hafi þó verið komið fyrir í búsetuúrræði þar sem mikið hafi verið um Kúrda. Þegar upplýsingar um ástæðu fyrir flótta kærenda hafi breiðst út hafi hópurinn ráðist að þeim með ofbeldi. Kærendum var veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi í nóvember 2017 og hafi þau reynt að koma undir sig fótunum þar í landi og liðið þokkalega. Bróðir K hafi komist á snoðir um það að þau hafi haldið til í Grikklandi eftir að stutt myndbrot af þeim hafi birst í myndbandi frá Sameinuðu þjóðunum um stöðu flóttamanna í Grikklandi. Kærendur hafi í kjölfarið fengið fleiri hótanir frá bróður K sem hafi sagst vita að þau væru í Grikklandi. Síðar hafi kærendur fengið aðvörun frá yngri systur K þess efnis að bróðir K hafi selt eignir sínar og væri á leið til Grikklands til að svipta kærendur lífi. Kærendur hafi að endingu flúið til Íslands undir lok árs 2020 og hafi barn þeirra fæst hér á landi þann 6. janúar 2021.

Kærendur kveða að upphaflega hafi fjölskylda K staðið að baki ofsóknunum en eftir að þau hafi stungið af saman hafi fjölskylda M bæst á vagninn. M hafi jafnframt greint frá því að bróðir sinn væri „mullah“ eða trúarklerkur í mosku og harðlínumúslimi. Hann hafi rætt um syndir kærenda í mosku og birt færslu á Facebook þar sem hann hafi lýst því yfir að M væri ekki lengur hluti af fjölskyldunni. Bróðir M hafi jafnframt farið til Tyrklands að leita að kærendum og hafi hann haft þau orð við móður þeirra að hann myndi taka kærendur af lífi og færa henni höfuð þeirra í poka ef hann myndi finna þau. Kærendur telji víst að fjölskyldumeðlimir þeirra muni láta verða af hótunum sínum snúi þau aftur til heimaríkis. Þau geti ekki búið við öryggi annars staðar enda geti fjölskyldurnar haft uppi á þeim hvar sem dvelji. Þau hafi reynt að leita aðstoðar lögreglunnar í heimaríki með því að ræða við yfirmann M hjá Asayish en hann hafi ekki talið sig geta aðstoðað þau vegna valdastöðu […]. Þá hafi bróðir K hótað kærendum að hann myndi drepa öll börn sem þau eignuðust og því gætu þau aldrei farið með dóttur sína til heimaríkis síns.

Kærendur krefjast þess aðallega að þeim verði veitt staða flóttamanna hér á landi til samræmis við 47. gr. laga um útlendinga. Kærendum hafi verið veitt staða flóttamanna á Grikklandi en horft hafi verið framhjá því við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka mál þeirra til efnismeðferðar að nýju.

Í greinargerð kærenda eru gerðar ýmsar athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum þeirra, m.a. að horft hafi verið framhjá því að staða kærenda sem flóttamenn hafi þegar verið viðurkennd í Grikklandi. Samkvæmt 47. gr. laga um útlendinga skuli útlendingur, sem veitt hafi verið staða flóttamanns í öðru ríki en Íslandi, talinn flóttamaður búsettur í því ríki. Fyrri ákvörðun um stöðu hans sem flóttamanns eða ríkisfangslauss einstaklings skuli ekki vefengd nema sú ákvörðun sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess. Þá segi í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um útlendinga að ákvörðun í einu ríki um stöðu flóttamanns bindi ekki stjórnvöld í öðru ríki en eðlilegt sé og í samræmi við 20.-21. gr. ályktunar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 24. ágúst 1977 að slík ákvörðun um viðurkenningu á stöðu í öðru ríki sé ekki vefengd nema ákvörðunin sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess. Kærendur telja að Útlendingastofnun hafi m.a. brotið gegn rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga þar sem ekki hafi legið fyrir nauðsynleg gögn og upplýsingar til að vefengja ákvörðun grískra yfirvalda. Þá hafi stofnunin jafnframt brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga þar sem kærendum hafi ekki verið gefinn kostur á að andmæla ákvörðun um vefenginu á stöðu þeirra, enda hafi stofnunin hvergi vikið að ákvæði 47. gr. laga um útlendinga í ákvörðunum sínum. Þá hafi ákvörðunin um vefengingu ekki verið rökstudd með vísan til gagna málsins, forsendna eða með tilvísun til lagaákvæða, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur gera jafnframt athugasemdir við trúverðugleikamat Útlendingastofnunar, m.a. það mat stofnunarinnar að frásögn kærenda væri nánast með öllu ótrúverðug vegna meints misræmis í frásögn þeirra sem rekja megi að mati kærenda m.a. til óvandaðra og ófaglegra vinnubragða af hálfu stofnunarinnar og þess sem virðist vera einbeittur vilji til þess að misskilja og afbaka frásagnir þeirra.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað grískum ferðaskilríkjum og auðkenniskortum. Að mati Útlendingastofnunar þótti ekki sannað hver þau væru með fullnægjandi hætti. Var því leyst úr auðkenni þeirra á grundvelli trúverðugleikamats og lagt til grundvallar að kærendur væru frá Írak. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að draga í efa það mat Útlendingastofnunar og er því lagt til grundvallar að kærendur og barn þeirra séu ríkisborgarar Íraks. Að öðru leyti eru auðkenni þeirra óljós.

Réttarstaða barns kærenda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Írak m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2020 Country Reports on Human Rights Practices: Iraq (U.S. Department of State, 30. mars 2021);
  • 2020 Report on International Religious Freedom - Iraq (U.S. Department of State, 12. maí 2021);
  • Anställning och avslutande av tjänst i peshmergan [Irak - KRI] (Migrationsverket, 30. júní 2017);
  • Annual Report of the U.S. Commission on International Religious Freedom. 2021 (U.S. Commission on International Religious Freedom, USCIRF, apríl 2021);
  • Country Fact Sheet. Iraq. (IOM, UN Migration, 2019);
  • Country Guidance: Iraq; Common analysis and guidance note (European Asylum Support Office, janúar 2021);
  • Country of Origin Information Report - Iraq - Actors of Protection (European Asylum Support Office, nóvember 2018);
  • Country of Origin Information Report - Iraq: Internal Mobility (European Asylum Support Office, febrúar 2019);
  • Country of Origin Information Report – Iraq: Key socio-economic indicators for Baghdad, Basra and Erbil (European Asylum Support Office, september 2020);
  • Country of Origin Information Report – Iraq - Security situation (EASO, 1. mars 2019);
  • Country of Origin Information Report – Iraq - Security Situation (EASO, október 2020);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Actors of protection (UK Home Office, desember 2020);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: ‘Honour’ crimes (UK Home Office, mars 2021);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Kurdish “honour” crimes (UK Home Office, ágúst 2017);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Internal relocation, civil documentation and returns (UK Home Office, 19. febrúar 2019);
  • Country Policy and Information Note – Iraq: Security and humanitarian situation (UK Home Office, maí 2020);
  • DFAT Country Information Report Iraq (Australian Government, Department of Foreign Affairs and Trade, 17. ágúst 2020);
  • Freedom in the World 2021 - Iraq (Freedom House, 3. mars 2021);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing the Republic of Iraq (UNCHR, maí 2019);
  • Irak: Basisinfo (Landinfo, 28. september 2018);
  • Iraq: Honour-based violence in the Kurdistan region; state protection and support services available to victims (Immigration and Refugee Board of Canada, 15. febrúar 2016);
  • Iraq: Relevant COI for Assessments on the Availability of an Internal Flight or Relocation Alternative (IFA/IRA) (UNHCR, 12. apríl 2017);
  • Iraq - Targeting of Individuals (EASO, 7. mars 2019);
  • Kurdistan Region of Iraq (KRI): Women and Men in Honour-Related Conflicts (Danish Immigration Service, 9. nóvember 2018);
  • Rättsligt ställningstagande angående situationen i Irak (Migrationsverket, 19. janúar 2018);
  • UNHCR position on returns to Iraq (UNHCR, 14. nóvember 2016);
  • The World Factbook – Iraq (Central Intelligence Agency, síðast uppfært 20. júlí 2021);
  • World Report 2021 – Iraq (Human Rights Watch, 13. janúar 2021);
  • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhu.edu/map.html, sótt 12. ágúst 2021).

Írak er lýðræðisríki með tæplega 40 milljónir íbúa. Árið 1945 gerðist Írak aðili að Sameinuðu þjóðunum og fullgilti ríkið bæði alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1971. Ríkið fullgilti samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1986, alþjóðasamning um vernd allra gegn mannshvörfum árið 2010 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2011.

Í skýrslu norsku landaupplýsingastofnunarinnar Landinfo frá janúar 2018 kemur fram að frá árinu 1968 til 2003 hafi Írak verið alræðisríki sem hafi lotið stjórn Ba‘ath-flokksins. Stjórn flokksins hafi verið steypt af stóli í kjölfar innrásar bandaríska hersins og bandamanna þeirra í Írak árið 2003. Frá innrásinni hafi ástandið á mörgum svæðum í Írak verið óstöðugt. Í skýrslu EASO frá nóvember 2018 kemur fram að samtök sem kenna sig við íslamskt ríki (Daesh) hafi hafið uppreisn árið 2014 og náð undir sig stórum landsvæðum. Frá þeim tíma hafi íröksk stjórnvöld, með aðstoð alþjóðasamfélagsins, náð miklum árangri í að ná aftur fullri stjórn yfir ríkinu þótt enn séu lítil svæði í vesturhluta landsins sem uppreisnarmenn hafi á valdi sínu. Þá kemur fram í skýrslu UNHCR frá 2019 að dæmi séu um að hersveitir á vegum yfirvalda hafi framið mannréttindabrot gegn almennum borgurum, þ. á m. ólögmætar aftökur og pyndingar í varðhaldi. Alvarleg mannréttindabrot hafi haft mikil áhrif á almenna borgara á þeim svæðum í Írak sem átökin hafi náð til. Af þeim sökum hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum Íraka frá þeim svæðum þar sem átök geisi og þar sem ástandið sé óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn Daesh. Þá sé það mat stofnunarinnar að vegna almenns ástands í Írak, þ.m.t. vegna fjölda þeirra sem hafi þurft að flýja innanlands, sé í miklum meirihluta mála ekki grundvöllur til að líta svo á að Írakar frá þessum svæðum geti notið verndar í öðrum hlutum landsins.

Af skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytis frá árinu 2021 má ráða að spilling sé mikið vandamál í Írak, þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Í upplýsingaskýrslu EEAS frá árinu 2014 kemur fram að á tímabilinu 2005 til 2013 hafi íröksk stjórnvöld unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins, svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist The European Union Integrated Rule of Law Mission for Iraq (EUJUST-LEX-Iraq) og hafi m.a. 7000 opinberir starfsmenn undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.

Í skýrslu bandarísku utanríkisráðuneytisins frá 2021 um trúfrelsi kemur fram að íslam sé hin opinbera trú í Írak. Um 97% íbúa Íraks séu múslímar og flestir þeirra séu sjía-múslímar eða um 55-60% íbúa landsins. Þá séu um 40% íbúa landsins súnní-múslímar en um 15% íbúa séu súnní-múslímskir Kúrdar og 24% súnní-múslimískir arabar. Sjía-múslimar séu ráðandi í suður- og austurhlutum landsins auk þess sem flestir íbúar höfuðborgarinnar Bagdad séu sjía-múslimar. Íbúar norður- og vesturhluta landsins séu flestir súnní-múslimar sem og íbúar miðsvæðisins, þó að undanskilinni Bagdad. Íslam, kristni, sabaean-mandean, jasídi og íslam séu einu trúarbrögðin sem geti verið tilgreind á írökskum skilríkjum, en skilríki útgefin árið 2016 og síðar beri ekki með sér hverrar trúar handhafi sé. Í skýrslu Landinfo frá 2018 kemur fram að í íröksku samfélagi séu einstaklingar skilgreindir út frá þeim trúarhópum sem þeir fæðist inn í og að litið sé með vanþóknun á trúleysi. Þá kemur fram í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2019 að það hafi verið einstök tilvik í Írak þar sem meðlimir trúarlegra minnihlutahópa hafi verið beittir ofbeldi eða drepnir, þ. á m. í Bagdad, en þau tilvik megi ekki alltaf rekja til trúarbragða viðkomandi. Þá hafi meðlimir trúarlegra minnihlutahópa einnig sætt mismunun, m.a. vegna þess að þeir hafi ekki fylgt samfélagslega viðurkenndum hefðum um hegðun á almannafæri eða klæðaburð.

Í framangreindri skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2021 kemur fram að stjórnarskrá Íraks tryggi ríkisborgurum aðgang að heilbrigðiskerfi landsins. Heilbrigðiskerfið í Írak hafi hafi sætt gagnrýni, m.a. fyrir skort á starfsfólki, lyfjum og almennu aðgengi. Þá sé aðgangur að heilbrigðisþjónustu takmarkaður og mismunandi eftir landsvæðum. Meiri hluti heilsugæslustöðva og almennra sjúkrahúsa séu staðsett í þéttbýli og geti ríkisborgarar þar sótt sér heilbrigðisþjónustu, m.a. geðheilbrigðisþjónustu, gegn vægu gjaldi. Þá sé einkarekin heilbrigðisþjónusta í miklum vexti í landinu auk þess sem ýmis frjáls félagasamtök vinni með stjórnvöldum, einkum í Bagdad og Erbil, að því að tryggja aðgengi fyrir fólk á innri flótta sem og fólk sem snýr til baka til Íraks eftir að hafa flúið heimaríki sitt.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2021 og skýrslu Mannréttindavaktarinnar (e. Human Rights Watch) frá sama ári kemur fram að þrátt fyrir að stjórnarskrá Íraks banni allt ofbeldi og misnotkun innan fjölskyldunnar þá tilgreini refsilög landsins heimilisofbeldi ekki sérstaklega og lögin heimili eiginmönnum að aga eiginkonur sínar og börn innan ákveðinna marka sem séu nánar tilgreind í lögum og venjum. Innanríkisráðuneyti Íraks haldi úti 16 fjölskylduverndareiningum innan lögreglunnar, sem að staðsettar séu í sérhúsnæði við lögreglustöðvar víðsvegar um landið. Þessum einingum sé ætlað að leysa úr deilum innan heimilisins og vera öruggur staður fyrir þolendur kynferðis- og kynbundins ofbeldis. Einingarnar hafi þó verið gagnrýndar fyrir að leggja áherslu á að slík mál séu leyst með sátt innan fjölskyldunnar. Þá hafi frjáls félagasamtök fullyrt að þolendur veigri sér við að leita aðstoðar innan þessara eininga af ótta við að lögreglan greini fjölskyldum þeirra frá. Enn fremur hafi sumir ættbálkar bannað sínum meðlimum að leita til þessara eininga eftir aðstoð þar sem að heimilisofbeldi sé einkamál fjölskyldunnar. Í skýrslu EASO um Írak frá árinu 2021 kemur fram að fá neyðarskýli séu í landinu sem konur geti leitað til neyðist þær til að yfirgefa heimili sitt vegna ofbeldis. Stjórnvöld hafi m.a. gripið til þess úrræðis að hýsa konur í fangelsum vegna skorts á skýlum. Flest neyðarskýli sé að finna í stærri borgum og séu rekin af sjálfboðaliðum. Konur sem dvelji þar geti verið í viðkvæmri stöðu þar sem að þær hafi ekki stuðning karlkyns ættingja. Þá lendi konur í erfiðleikum við að leita réttar síns vegna neikvæðra viðhorfa lögreglu- og opinberra starfsmanna gagnvart konum og skorti á þekkingu um réttindi kvenna.

Í skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá árinu 2017 og 2021 kemur fram að þrátt fyrir að heiðurstengt ofbeldi sé refsivert samkvæmt landslögum þá sé það nokkuð útbreitt í menningu Kúrdistan. Heiðursmorð sé yfirleitt morð á kvenkyns ættingja sem framið sé í því skyni að endurheimta heiður fjölskyldunnar þar sem þolandinn hafi á einhvern hátt vanvirt fjölskylduna. Einnig séu heimildir um að karlmenn eigi á hættu að verða þolendur heiðursglæpa en ástæður fyrir því séu einkum þegar karlmenn neiti að ganga í skipulagðan hjúskap, séu opinberlega samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir eða neiti að taka þátt í heiðurstengdu ofbeldi gegn öðrum. Írakar tilheyri mismunandi ættbálkum og lifi eftir fornum ættbálkasiðum, venjum og lögum, en hefðbundin fjölskyldugildi séu rótgróin í menningunni. Séu konur í miklum meirihluta þeirra sem verði þolendur heiðursglæpa og þá yfirleitt fyrir að hafa, að mati fjölskyldna þeirra, fært skömm yfir fjölskylduna með einhverjum hætti. Árið 2002 hafi kúrdísk yfirvöld breytt írökskum hegningarlögum á þann veg að heiðursmorð séu skilgreind sem morð og gerendur saksóttir á þeim grundvelli. Þá hafi verið samþykkt lög árið 2004 sem banni mildun refsinga fyrir heiðursglæpi. Hins vegar séu heimildir um að kúrdísk stjórnvöld hafi látið hjá líða að saksækja gerendur ofbeldisglæpa gegn konum, þar á meðal heiðursglæpa. Þá kemur fram í skýrslu dönsku útlendingastofnunarinnar frá nóvember 2018 að þekkt sé í Kúrdistan að konur séu neyddar í hjónabönd af ýmsum ástæðum. Sambönd utan hjónabands séu ekki leyfð í Kúrdistan og áhættusamt sé fyrir fólk að hittast utan hjónabands. Jafnframt kemur fram að heiðursglæpir séu algengari í dreifbýli og á meðal ómenntaðra fjölskyldna. Karlmenn sem eigi í samböndum utan hjúskapar séu ekki taldir smána heiður fjölskyldunnar og að karlmenn í slíkum aðstæðum eigi að venju til auðvelt með að komast hjá deilum. Hins vegar séu karlmenn undir þrýstingi um að giftast og dæmi séu um að menn hafi verið drepnir neiti þeir því. Þá segir að þegar karlmaður sé myrtur í heiðursdeilu eigi það frekar rætur að rekja til hefndar eða blóðhefndar en heiðurs fjölskyldunnar. Í slíkum málum séu báðar fjölskyldurnar vanalega samþykkar morðinu. 

Í skýrslu Alþjóða fólksflutningsstofnunarinnar (IOM) frá árinu 2019 kemur fram að yfirvöld tryggi að öll börn eigi rétt á endurgjaldslausri menntun frá sex ára aldri. Börn sem hafi stundað nám erlendis þurfi að framvísa skólaskírteinum frá þarlendum skólum og fá þau vottuð af menntamálaráðuneyti Íraks til að fá námið metið. Fjölskyldur sem snúi aftur til Íraks eftir að hafa sótt um alþjóðlega vernd í öðrum löndum geti sótt um aðstoð hjá stofnuninni við enduraðlögun. Í skýrslu EASO frá árinu 2020 kemur fram að það séu ýmsar hindranir að aðgengi að menntun fyrir börn á innri flótta og börn sem séu búsett á svæðum sem hafi verið undir stjórn Daesh. Þá hafi lokun skóla vegna Covid-19 faraldursins haft áhrif á aðgengi barna að menntun í Írak.

Ákvæði 47. gr. laga um útlendinga

Kærendur byggja á því að Útlendingastofnun hafi borið að horfa til þess að þeim hafi áður verið veitt staða flóttamanna í Grikklandi. Kærendur krefjast því þess að þeim verði veitt staða flóttamanna hér á landi til samræmis við 47. gr. laga um útlendinga.

Í 47. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga segir:

Útlendingur, sem veitt hefur verið alþjóðleg vernd eða ferðaskírteini fyrir flóttamenn í öðru ríki en Íslandi, skal talinn flóttamaður með fasta búsetu í því ríki. Sama á við um einstakling sem staðfest hefur verið að sé ríkisfangslaus. Fyrri ákvörðun um stöðu hans sem flóttamanns eða ríkisfangslauss einstaklings skal ekki vefengd nema sú ákvörðun sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess.

Í athugasemdum við 47. gr. í frumvarpi laga um útlendinga kemur fram að greinin sé sambærileg 49. gr. eldri laga um útlendinga nr. 96/2002 og fjalli um áhrif þess að útlendingi hafi verið ákvörðuð staða flóttamanns eða sem staðfest hafi verið að sé ríkisfangslaus í öðru ríki.

Í 49. gr. eldri laga nr. 96/2002 um útlendinga segir:

Útlendingur, sem veitt hefur verið hæli eða ferðaskírteini fyrir flóttamenn í öðru ríki, skal talinn flóttamaður með fasta búsetu í því ríki. Sæki slíkur flóttamaður um hæli eða ferðaskírteini fyrir flóttamenn hér á landi skal fyrri ákvörðun um stöðu hans sem flóttamanns ekki vefengd nema sú ákvörðun sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess.

Í athugasemdum við 47. gr. núgildandi laga segir enn fremur að á því sé byggt að ákvörðun í einu ríki um stöðu flóttamanns bindi ekki stjórnvöld í öðru ríki. Hins vegar sé eðlilegt og í samræmi við 20.-21. gr. ályktunar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna EC/SCP/5 frá 24. ágúst 1977 að slík ákvörðun um viðurkenningu á stöðu í öðru ríki sé ekki vefengd nema ákvörðunin sé röng eða aðrar ástæður liggi til þess.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er vísað til þeirrar meginreglu að með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar hafi ríki rétt til að stjórna hverjir ferðist yfir landamæri þeirra, hverjir dvelji á landsvæði þeirra og hvort útlendingi skuli vísað úr landi, sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli F.G. gegn Svíþjóð (nr. 43611/11) frá 23. mars 2016, 111. mgr., ákvörðun Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, 65. mgr., og dóm Üner gegn Hollandi (nr. 46410/99) frá 18. október 2006, 54. mgr.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ákvörðun grískra yfirvalda um að veita kærendum stöðu flóttamanna þar í landi bindi ekki íslensk stjórnvöld. Að mati kærunefndar felur síðasti málsliður 47. gr. laga um útlendinga í sér heimild íslenskra stjórnvalda til að endurskoða mat annarra ríkja og ákvarða hvort grundvöllur sé til að veita alþjóðlega vernd samkvæmt lögum um útlendinga. Ekki er skýrt nánar í athugasemdum við 47. gr. hvað teljist til annarra ástæðna í skilningi ákvæðisins en ráða má að mati kærunefndar að í því geti m.a. falist að kærendur teljist ótrúverðugir að mati stjórnvalda og/eða að fram komi nýjar upplýsingar. Með hliðsjón af framangreindri meginreglu sem birtist í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu um rétt ríkja til að stjórna því m.a. hverjir dvelji á landsvæði þeirra telur kærunefnd að þegar einstaklingur leggur fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þá skuli mál hans skoðað með sjálfstæðum hætti af stjórnvöldum á grundvelli íslensks réttar.

Með vísan til framangreinds fellst kærunefnd ekki á það með kærendum að íslenskum stjórnvöldum hafi borið skylda að leggja ákvörðun grískra stjórnvalda fyrirvaralaust til grundvallar í málinu og veita kærendum réttarstöðu flóttamanna hér á landi.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærendur byggja umsókn sína á því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu fjölskyldumeðlima beggja kærenda þar sem þau hafi átt í sambandi utan hjúskapar og séu því talin hafa kastað rýrð á heiður fjölskyldnanna. Fjölskylda K hafi ekki samþykkt ráðahaginn og fjölskylda M snúið baki við kærendum síðar. K hafi jafnframt verið frelsissvipt og beitt ofbeldi af hálfu fjölskyldu sinnar og henni gert að giftast öðrum manni. Kærendur hafi sætt ítrekuðum hótunum, m.a. líflátshótunum, einkum af hálfu bróður K. Kærendur geti ekki leitað til yfirvalda vegna tengsla ofsóknaraðila við stjórnvöld, auk þess sem yfirvöld hafi hvorki getu né vilja til að veita þeim vernd, sbr. a- og c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærendur hafa ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að þau óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í Kúrdistan sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærendur eigi þær á hættu.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindu kærendur bæði frá því að þau hafi hafið ástarsamband árið 2015. Þar sem ástarsambönd utan hjónabands séu almennt ekki liðin í Kúrdistan hafi þau haldið sambandi sínu leyndu til ársins 2017 eða þegar bróðir K hafi séð mynd af kærendum í síma K. M hafi í tvígang beðið um hönd K en fjölskylda hennar hafi ekki verið samþykk ráðahagnum og greint K frá því að hún skyldi giftast öðrum manni. Kærendur greindu frá því að þau hafi neyðst til að flýja og í kjölfarið hafi bróðir K, […], byrjað að hóta þeim ítrekað lífláti. Máli sínu til stuðnings lögðu kærendur m.a. fram skjáskot af skilaboðum sem þau kveða vera frá K til M þar sem hún leggur til að þau leggi á flótta saman. Jafnframt lögðu kærendur fram skjáskot af samskiptamiðlinum Messenger þar sem fram koma hótanir af hálfu […] en ekki kemur fram á skjáskotunum hver viðtakandi skilaboðanna er. Sökum þess óskaði kærunefnd eftir því þann 16. júní 2021 að kærendur myndu koma með farsíma sína svo hægt væri að skoða betur framangreind samskipti. Jafnframt óskaði nefndin eftir ljósmyndum eða öðrum gögnum sem sýnt gætu fram á fjölskyldutengsl K og […]. Þann 22. júní lagði M fram farsíma sinn hjá kærunefnd. Skoðun kærunefndar á samfélagsmiðlinum Messenger í farsíma M staðfesti að umrædd skilaboð frá […] hafi borist M. Þá sýndi M nefndinni jafnframt ljósmyndir af kærendum saman sem hann hafði að geyma í farsímanum sem teknar voru að sögn M í ferðalagi hans og K í apríl 2017, auk ljósmynda af fjölskyldum kærenda þar sem sjá mátti m.a. K og […] saman. Í ljósi þessara upplýsinga voru kærendur boðuð til viðtals hjá kærunefnd svo hægt væri að meta trúverðugleika frásagnar þeirra enn betur.

Í viðtali hjá kærunefnd voru kærendur m.a. beðin um að greina frá ástæðu flótta síns frá heimaríki. Að mati kærunefndar var frásögn kærenda í grunninn sú sama. Kærendum bar saman um aðdraganda flóttans og það sem hafi átt sér stað í kjölfar hans, m.a. um tímasetningu ýmissa atburða er komu fram í frásögnum kærenda. Að mati kærunefndar var framburður kærenda trúverðugur og í samræmi við fyrri framburði þeirra í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Þá fær frásögn þeirra stuðning í skýrslum um heimaríki kærenda. Framangreind gögn um aðstæður í heimaríki kærenda bera með sér að heiðursglæpir séu alvarlegt vandamál í Kúrdistan og að stjórnvöld skorti bæði vilja og getu til þess að taka á vandanum og vernda þolendur. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé ástæða til annars en að leggja frásögn kærenda til grundvallar um að þau hafi átt í sambandi í óþökk fjölskyldna þeirra, einkum fjölskyldu K, og hafi neyðst til að flýja heimaríki sitt sökum þess. Kærunefnd telur á grundvelli frásagnar þeirrar og framlagðra gagna að kærendur hafi með nægilega rökstuddum hætti lagt grunn að þeirri málsástæðu að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í formi heiðursglæpa af hálfu fjölskyldu K. Við það mat er litið til þeirra sönnunarkrafna sem gerðar eru við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og sem vísað er til að framan.

Kærendur greindu frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun og kærunefnd að yfirvöld hafi hvorki getu né vilja til að aðstoða þá sem eigi á hættu á að verða þolendur heiðursglæpa. Sú frásögn er í samræmi við þau gögn sem kærunefnd hefur farið yfir um aðstæður í heimaríki kærenda. Að mati kærunefndar verður frásögn kærenda, af þeirri hættu sem þau kveða sig vera í af hálfu fjölskyldu K og að þeim sé ekki kleift að leita til yfirvalda í heimaríki eftir vernd, lögð til grundvallar.

Með hliðsjón af framburði kærenda telur kærunefnd að kærendur hafi á rökstuddan hátt leitt líkur að því að þau hafi ástæðuríkan ótta við að vera ofsótt vegna aðildar þeirra að tilteknum þjóðfélagshópi, þ.e. sem einstaklingar sem eigi á hættu að vera þolendur heiðursglæpa, skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. d-lið 3. mgr. og c-lið 4. mgr. 38. gr. sömu laga.

Með vísan til upplýsinga um heimaríki kærenda og þegar litið er til þeirra málsástæðna sem kærendur bera fyrir sig telur kærunefnd ekki ástæðu til að kanna möguleika þeirra á innri flutningi, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærendur og barn þeirra uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga til að teljast flóttamenn hér á landi og eiga rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi skv. 40. gr. laganna.

Samantekt

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barns þeirra og veita þeim alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðsamnings um stöðu flóttamanna.

Í ljósi niðurstöðu kærunefndar eru ekki forsendur til að taka varakröfu kærenda til umfjöllunar í máli þessu.

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Kærendum og barni þeirra er veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Lagt er fyrir stofnunina að veita kærendum og barni þeirra dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

 

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The appellants and their child are granted international protection in accordance with Article 37, paragraph 1, and Article 40, paragraph 1, of the Act on Foreigners. The Directorate is instructed to issue them residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                               Sindri M. Stephensen

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta