Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 2. apríl 2001

Mánudaginn 2. apríl 2001 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 1/2001

Kópavogsbær

gegn

Eigendum Smiðjuvegs 4b, 4c, 4d og 4e, Kópavogi

I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Magnús Leópoldsson, lögg. fasteignasali, en formaður nefndarinnar kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:

Með matsbeiðni dags. 12. janúar 2001 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 2. febrúar 2001 fór bæjarstjórn Kópavogs (eignarnemi) þess á leit við nefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á 569 m² af sameiginlegum lóðaréttindum lóðanna nr. 4b, 4c, 4d og 4e við Smiðjuveg í Kópavogi. Eignarnámsþolar eru eigendur framangreindra fasteigna við Smiðjuveg. Hin eignarnumdu lóðaréttindi eru nánar tiltekið lóðarræma á lóð eignarnámsþola, milli húss þeirra og hússins nr. 2 við Smiðjuveg.

Eignarnámsheimildina er að finna í 32. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

III. Málsmeðferð:

Málið var fyrst tekið fyrir föstudaginn 2. febrúar 2001. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Eignarnemi taldi ekki þörf á að hann legði fram greinargerð í málinu og var lögmanni eignarnámsþola því gefinn frestur til 16. febrúar 2001 til framlagningar greinargerðar.

Föstudaginn 16. febrúar var málið tekið fyrir. Greinargerð eignarnámsþola var lögð fram og var málið að því búnu tekið til úrskurðar þar sem matsnefndin taldi ekki þörf á munnlegum flutningi málsins.

IV. Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþolar halda því fram að fasteign þeirra rýrni verulega í verði vegna eignarnámsins vegna mikilvægis þess að hafa rúma aðkomu að húsum þeirra. Í þessu sambandi benda eignarnámsþolar á að fermetraverðið að Smiðjuvegi 2, í þeim hluta hússins sem sneri að hinni eignarnumdu lóðaspildu, hafi verið u.þ.b. helmingur af því sem gæti talist eðlilegt markaðsverð vegna þess hversu þröng lóðin þeim megin við húsið er. Þetta sýni hversu afdrifarik lóðaskerðingin geti verið fyrir verðmæti fasteigna eignarnámsþola auk þess sem hún minnki sölumöguleika eigna þeirra þar sem sérstaða þeirra sé ekki lengur til staðar.

Eignarnámsþolar benda á að við matið verði að taka tillit til þeirra gatnagerðargjalda sem þeir þurftu að greiða fyrir lóðina og einnig þeirra framkvæmda sem þeir hafa kostað þar, en hin eignarnumda spilda hafi verið malbikuð auk þess sem jarðvegsskipti voru nauðsynleg vegna þeirrar framkvæmdar.

V. Álit matsnefndar:

Stærð og lega hinnar eignarnumdu spildu er ágreiningslaus. Þá hefur matsnefndin farið á vettvang og kynnt sér aðstæður.

Hin eignarnumda spilda er hluti úr nokkuð stórri sameiginlegri lóð eignarnámsþola. Spildan liggur nærri húsinu nr. 2 við Smiðjuveg, fjær húsum eignarnámsþola. Lóð sú eftir verður í eigu eignarnámsþola er þrátt fyrir eignarnámið rúm og veitir gott aðgengi að húsum eignarnámsþola. Þegar á þetta er litið og að hin eignarnumda spilda kemur til með að nýtast eignarnámsþolum áfram fyrir umferð að húsum þeirra, telur matsnefndin eignarnámið ekki fela í sér rýrnun á fasteignum eignarnámsþola umfram það verð sem ákvarðað verður fyrir spilduna sjálfa.

Lóðarspildan er á vinsælu svæði fyrir hvers konar atvinnustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Með hliðsjón af lóðaverði í nágrenninu þykja hæfilegar bætur fyrir hina eignarnumdu spildu vera kr. 2.200.000-. Þá er fallist á það með eignarnámsþolum að bæta beri þeim þær malbikunarframkvæmdir og jarðvegsskipti sem þeir hafa látið fram fara á lóðinni, en talið er að þær muni nýtast eignarnema. Hæfilegar bætur vegna þessa þykja vera kr. 2.000.000-.

Þá greiði eignarnemi eignarnámsþolum sameiginlega kr. 200.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og kr. 320.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnendar eignarnámsbóta í máli þessu.

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Kópavogsbær, greiði eignarnámsþolum, eigendum Smiðjuvegs 4b, 4c, 4d og 4e, Kópavogi, sameiginlega kr. 4.200.000- í eignarnámsbætur og kr. 200.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs máls þessa.

Þá greiði eignarnemi kr. 320.000- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

Helgi Jóhannesson

 

Magnús Leópoldsson Vífill Oddsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta