Mál nr. 36B/2021 Úrskurður 21. apríl 2021
Mál nr. 36B/2021 Endurupptökubeiðni
Eiginnafn: Tatíana (kvk.), Tatyana (kvk.), Tatiana (kvk.)
Mannanafnanefnd hefur borist beiðni frá XXX dags. 15. apríl sl., þar sem hún óskar eftir endurupptöku máls nr. 36/2021 Tatyana/Tatiana.
Með úrskurði mannanafnanefndar í málinu 25. mars sl. var umsókn um eiginnafnið Tatyana/Tatiana hafnað. Í umsókninni var óskað eftir að mannanafnanefnd tæki afstöðu til tveggja rithátta, Tatyana og Tatiana, en niðurstaða hennar var að hvorugur rithátturinn uppfyllti skilyrði laga, nr. 45/1996, um mannanöfn. Vegna þessa máls ákvað mannanafnanefnd að bæta við mannanafnaskrá eiginnafninu Tatjana með rithætti sem samræmist venjulegum framburði nafnsins sem um er að ræða.
Í endurupptökubeiðninni er óskað eftir að mannanafnanefnd taki afstöðu til ritháttarins Tatíana til viðbótar við rithættina Tatyana og Tatiana sem óskað var eftir í upphaflegri umsókn. Nefndin fellst á að taka málið upp aftur og fylgir nýr úrskurður í málinu hér á eftir:
Hinn 21. apríl 2021 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 36B/2021, en upphaflegt erindi barst nefndinni 12. mars sl. og endurupptökubeiðni 15. apríl sl.
Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:
- Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
- Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
- Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
- Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Niðurstaða mannanafnanefndar um rithættina Tatyana og Tatiana er óbreytt frá fyrri úrskurði frá 25. mars sl. Um rökstuðning fyrir niðurstöðunni er vísað til þess úrskurðar.
Eiginnafnið Tatíana tekur íslenskri beygingu í eignarfalli, Tatíönu, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnöfnin Tatyana (kvk.) og Tatiana (kvk.) er hafnað.
Beiðni um eiginnafnið Tatíana (kvk.)er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritháttur nafnsins Tatjana (kvk.).